Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 154/2012.

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 27. ágúst 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 154/2012.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með greiðsluseðli, dags. 3. september 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, um skertar atvinnuleysisbætur og að hann væri í skuld við stofnunina að fjárhæð 102.850 kr. Kærandi vildi ekki una þeirri skerðingu Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með ódagsettu erindi, mótt. 12. september 2012. Kærandi krefst þess að skerðingu verði hagað með öðrum hætti. Vinnumálastofnun telur að skerðingin sé rétt reiknuð af hálfu stofnunarinnar.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 4. júní 2012. Fékk kærandi greiddar atvinnuleysisbætur frá þeim degi til 17. september 2012.

Samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta var kærandi í hlutastarfi hjá B í 40% starfshlutfalli. Samkvæmt uppgefinni tekjuáætlun var kærandi með áætlaðar 122.080 kr. á mánuði og í samræmi við 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komu tekjur kæranda til frádráttar atvinnuleysisbótum. Þá gaf kærandi upp að hann hefði mánaðarlega 7.000 kr. í fjármagnstekjur á tímabilinu.

Með erindi, mótt. 12. september 2012, var skerðing Vinnumálastofnunar á tekjum vegna atvinnuleysisbóta kærð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

Í erindi kæranda bendir hann á að Vinnumálastofnun hafi skert atvinnuleysisbætur tvöfalt vegna sömu tekna, annars vegar vegna hlutfalls hlutastarfs og hins vegar hafi það sem eftir stóð verið skert vegna tekna í sama hlutastarfi.

Frá byrjun júní 2012 og þar til kæran var lögð fram hafi kærandi verið í 40% hlutastarfi og sótt um atvinnuleysisbætur á móti því. Atvinnuleysisbætur hafi þá verið reiknaðar með þeim hætti að grunnfjárhæð atvinnuleysisbóta sé fyrst skert um 40% og standi þá eftir 100.360 kr. Sú fjárhæð, þ.e. 60% óskertra bóta, hafi svo verið skert um 50% af því sem kærandi hafi í tekjur umfram frítekjumarkið eitt og sér, í þessu sama 40% starfi. Reikningsdæmi Vinnumálastofnunar sé því svona: Bótaþegi er í 40% starfi og fær greiddar 122.080 kr. í mánuði fyrir það. Frítekjumarkið er 59.047 kr., það er dregið frá tekjum fyrir hlutastarfið, það sem eftir stendur er deilt í tvennt. Það eru 31.517 kr. sem er dregið frá skertri bótafjárhæð. Bætur í mánuði eru því 100.306-31.517 kr. = 68.789 kr. Sömu laun séu því notuð til að skerða atvinnuleysisbætur tvisvar. Þessi skerðing sé ekki í samræmi við það sem fram komi á vef Vinnumálastofnunar um skerðingu atvinnuleysisbóta og ekki í samræmi við það sem kæranda hafi verið kynnt á bótaþegafundi hjá Vinnumálastofnun um sumarið. Þar segi: „Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi og atvinnuleysisbætur eru hærri en sem nemur óskertum rétti til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skal skerða atvinnuleysisbætur um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur fyrir tilfallandi vinnu.“

Kærandi gerir kröfu um það að Vinnumálastofnun fylgi reglum og samkvæmni sé gætt við útreikning skerðingar á bótum, þ.e. að skerðing vegna tekna komi fyrst til þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi og atvinnuleysisbætur séu hærri en sem nemur óskertum rétti til atvinnuleysisbóta.

Kröfur kæranda eru tvíþættar. Fyrri krafan er sú að þar sem kærandi sé ekki fastráðinn í hlutastarfi (með samning um tímabundna ráðningu til fjögurra mánaða) óski hann þess að skráning hans í hlutastarf verði endurskoðuð og litið á tekjur af því starfi sem tilfallandi tekjur. Þá eigi kærandi rétt á alveg óskertum atvinnuleysisbótum þar sem eingöngu sé dregið af launum vegna tekna umfram frítekjumark. Þá ætti kærandi rétt á 167.176-31.517 kr. [(122.080-59.047)/2] = 135.659 kr. sem kærandi óski eftir að fá greiddar frá upphafi þess tímabils sem hann hafi þegið bætur (byrjun júní 2012) og þar til hann verði kominn í fullt starf.

Fáist fyrri krafan ekki samþykkt og litið sé svo á að tímabundið starf sé ekki tilfallandi geri kærandi kröfu um eftirfarandi: Að öll skerðing umfram 40% skerðingu á grunnatvinnuleysisbótum vegna hlutastarfs verði dregin til baka og honum greidd sú fjárhæð sem dregin hafi verið frá bótunum vegna tekna, eftir að hlutastarfshlutfallið hafi verið dregið frá, þ.e. 20.010 + 13.340 + 4.775 + 17.508 + 12.733 + 19.792 kr. Samtals 88.158 kr. frá byrjun júní og til 19. ágúst 2012. Þá óski kærandi eftir að skerðing þessi komi ekki aftur og ef hún hafi gert það áður en úrskurðað sé um þessa kæru, þá fái kærandi þá skerðingu greidda líka.

Kærandi rökstyður mál sitt með vísan til reglna um skerðingu á atvinnuleysisbótum eins og þær hafi verið kynntar á vef Vinnumálastofnunar. Að auki vísar kærandi í almenn sanngirnissjónarmið og að jafnræði sé gætt meðal bótaþega sem hafa áunnið sér sama rétt og hafa sömu tekjur umfram atvinnuleysisbætur. Sé þessu fylgt skal ekki skerða atvinnuleysisbætur fyrr en samanlögð fjárhæð atvinnuleysisbóta og tekna er komin umfram óskertar atvinnuleysisbætur (167.176 kr.) að viðbættu frítekjumarki (59.047 kr.), þ.e. 226.223 kr.

Séu laun kæranda skráð sem tilfallandi tekjur, sem færa megi rök fyrir að þau séu, kærandi sé ekki fastráðinn í hlutastarfinu, þá ætti hann rétt á algjörlega óskertum bótum (167.176 kr.) að frádregnum helmingi af launum vegna tilfallandi tekna, sem séu umfram frítekjumarkið. Um þetta leiki enginn vafi. Þá sé frádráttur af óskertum bótum 31.517 kr. og kærandi eigi rétt á 135.659 kr. í atvinnuleysisbætur á mánuði. Þá sé vafinn hér hvenær laun séu tilfallandi og hvenær sé um hlutastarf að ræða. Kærandi lítur svo á að laun séu tilfallandi ef starfið er tímabundið og hlutastarf ef um ótímabundna ráðningu sé að ræða. Þótt kærandi hafi skráð á vef Vinnumálastofnunar að hann sé í hlutastarfi óski hann þess að það verði endurskoðað. Annars vegar í ljósi þess að kærandi líti nú svo á að starfið sé tilfallandi og hins vegar vegna þess ójafnræðis sem gætir meðal bótaþega eftir því hvernig tekjur koma til.

Sé ekki fallist á það óski kærandi eftir því að önnur krafa hans verði samþykkt með vísan í þær reglur sem Vinnumálastofnun kynni sjálf. Sé kærandi í 40% starfi og fái 60% bætur ættu bæturnar samkvæmt þeim ekkert að skerðast fyrr en tekjur af starfinu séu komnar umfram 124.987 kr. (226.223 kr. [óskertar bætur að viðbættu frítekjumarki] - 100.306 kr. [60% bætur]). Tekjur kæranda (122.080 kr.) séu undir því og þar með ættu atvinnuleysisbætur ekki að skerðast vegna tekna. Þess vegna óski kærandi eftir því að öll slík skerðing verði dregin til baka.

Nú fái kærandi greiddar 68.789 kr. í bætur á mánuði samkvæmt útreikningi Vinnumálastofnunar með tvöföldum frádrætti. Ef bæturnar væru í samræmi við það sem Vinnumálastofnun segi að þær ættu að vera á vef sínum, væru þær 100.306 kr. Ef kærandi skilgreindi laun sín sem tilfallandi hjá vinnuveitanda sínum væri skerðing bótanna hins vegar enn minni og kærandi fengi 135.659 kr. í bætur á mánuði.

Kærandi telur þetta vera hróplegt ósamræmi. Annars vegar milli þess hvernig skerðing er kynnt og hvernig hún sé framkvæmd. Hins vegar sé ósamræmi í því hvernig bætur séu greiddar. Það sé reyndar háð því að Vinnumálastofnun hafi einhvern tímann greitt óskertar bætur til einhvers sem sé í tilfallandi starfi og einnig til einhvers sem sé í hlutastarfi (hún hafi gert það, þ.e. kæranda). Þetta ósamræmi leiði af sér ójafnræði meðal bótaþega sem tæplega standist lög.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 10. júní 2013, er bent á að mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að skerða atvinnuleysisbætur kæranda á grundvelli 17. og 36. gr. laga nr. 54/2006. Kærandi hafi talið að útreikningur á skerðingu sé ekki í samræmi við lög og reglur og vísað til 36. gr. laganna í því sambandi.

Fyrir úrskurðarnefnd hafi kærandi í fyrsta lagi gert þá kröfu, með vísan til þess að ráðning hans hafi verið tímabundin til fjögurra mánaða, að endurskoða skuli skráningu hans í hlutastarf. Kærandi hafi hlotið 122.080 kr. í laun á mánuði vegna hlutastarfs síns hjá B á tímabilinu júní til september 2012. Í júní 2012 hafi kærandi fengið greiddar 244.160 kr. frá B. Það sé mat Vinnumálastofnunar að tekjur frá sama launagreiðanda í tvo mánuði eða fleiri geti ekki talist tilfallandi vinna í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Með orðinu tilfallandi sé samkvæmt almennri skýringu á því hugtaki átt við atvik sem eiga sér stað af tilviljun eða koma upp annað slagið. Sé með engu móti unnt að fallast á að fast hlutastarf í að minnsta kosti fjóra mánuði hjá sama atvinnurekanda teljist til tilfallandi vinnu í skilningi laganna. Breyti þar engu um þótt ráðning kæranda hafi verið tímabundin.

Í öðru lagi hafi kærandi gert þá kröfu fyrir úrskurðarnefndinni að öll skerðing umfram 40% skerðingu á grunnatvinnuleysisbótum vegna hlutastarfs verði dregin til baka og honum verði endurgreidd sú fjárhæð sem dregin var af atvinnuleysisbótum hans. Heldur kærandi því fram að Vinnumálastofnun skerði bætur til hans „tvöfalt vegna sömu tekna“.

Af kæru til úrskurðarnefndar að dæma virðist sem kærandi hafi talið að einungis skuli skerða bætur til hans á grundvelli þess hlutastarfs sem hann sinnti, þ.e. að starfshlutfall skuli dragast frá greiðslum atvinnuleysisbóta en tekjur af hlutastarfi eigi ekki að koma til skerðingar. Slík aðferð myndi í raun leiða til þess að engar tekjur, sama hversu háar þær reyndust, myndu koma til skerðingar á atvinnuleysisbótum einstaklinga, svo lengi sem þeir væru skráðir í hlutastarf hjá Vinnumálastofnun.

Ekki verði séð hvernig framangreind túlkun geti átt sér stoð í lögum um atvinnuleysistryggingar enda komi það skýrt fram í 36. gr. laganna að skerða skuli atvinnuleysisbætur í samræmi við samanlagðar tekjur af hlutastarfi. Þá segi í 17. gr. laganna að þegar launamaður missir starf sitt en ræður sig til starfa í minna starfshlutfall hjá öðrum vinnuveitanda telst hann hlutfallslega tryggður. Skal tryggingarhlutfall atvinnuleitanda þá nema mismun réttar hans hefði hann misst starf sitt að öllu leyti og þess starfshlutfalls sem hann gegnir áfram. Af tilvitnuðum lagaákvæðum sé ótækt að fallast á það með kæranda að skerðing skuli einungis taka mið af starfshlutfalli en ekki samanlögðum tekjum hans.

Meginregluna um skerðingu atvinnuleysisbóta vegna tekna er að finna í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segi að gert sé ráð fyrir því að hvers konar tekjur eða greiðslur úr öðrum tryggingakerfum komi til frádráttar atvinnuleysisbótum hins tryggða. Sé tekið fram að miðað skuli við óskertan rétt umsækjanda til atvinnuleysisbóta. Með þessu móti sé verið að veita þeim sem séu á hlutfallslegum atvinnuleysisbótum samhliða minnkuðu starfshlutfalli meira svigrúm til tekna.

Í samræmi við framangreint ákvæði séu atvinnuleysisbætur einstaklinga í hlutastörfum skertar með þeim hætti að fyrst sé starfshlutfall viðkomandi dregið frá bótarétti hans. Atvinnuleitandi með 100% bótarétt í 40% hlutastarfi fái því aðeins greiddar 60% af þeim bótum sem hann á rétt til, sbr. 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Skerðing vegna tekna sé svo framkvæmd þannig að óskertur réttur atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki sé dreginn frá samanlögðum tekjum hans og þeim atvinnuleysisbótum sem hann á rétt á. Helmingur þeirrar fjárhæðar sem nái umfram fullar atvinnuleysisbætur ásamt frítekjumarki myndar skerðingu atvinnuleitanda.

Í máli þessu hafi verið staðið að skerðingu með framangreindum hætti. Meðal gagna í máli kæranda sé að finna frekari útlistun á útreikningi á skerðingu kæranda. Verði ekki séð að ranglega hafi verið staðið að greiðslum atvinnuleysisbóta til kæranda á tímabilinu.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. júní 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 28. júní 2013. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2.

Niðurstaða 

Óumdeilt er í máli þessu að kærandi var í 40% starfshlutfalli á sama tíma og hann þáði greiðslu atvinnuleysisbóta. Kærandi heldur því fram að um tilfallandi vinnu hafi verið að ræða. Á þetta verður ekki fallist þar sem tilfallandi vinna í skilningi 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar á aðallega við atvik þar sem atvinnuleitandi fær vinnu með skömmum fyrirvara og vinnur í stuttan tíma. Einnig getur tilfallandi vinna átt við þá aðstöðu að atvinnuleitandi fái vinnu annað slagið. Þetta á ekki við í þessu máli þar sem kærandi var með ráðningarsamning til fjögurra mánaða og gegndi 40% starfshlutfalli. Við úrlausn málsins verður því að miða við að kærandi hafi verið í hlutastarfi í skilningi 1. mgr. 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Það leiðir af lestri 1.–4. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að tryggingarhlutfall atvinnuleitanda í atvinnuleysistryggingakerfinu getur aldrei orðið hærra en sem nemur hlutfallslegum rétti þeirra í kerfinu. Atvinnuleitandi getur haft hlutfallslegan rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta af margvíslegum ástæðum, svo sem vegna þess að hann hafi ekki sinnt fullri vinnu á ávinnslutímabili. Þegar svo háttar til að atvinnuleitandi hefur fullan rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta en sinnir hlutastarfi þá lækkar það rétt viðkomandi í kerfinu, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Af síðastnefnda lagaákvæðinu leiðir að kærandi hafði 60% bótarétt á tilteknu tímabili vegna tímabundinnar vinnu. Það leiddi til þess að útreikningar á skerðingu atvinnuleysisbóta tóku mið af því. Aðferð Vinnumálastofnunar við að reikna þessa skerðingu út var samræmi við svohljóðandi 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar:

Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.

Af þessu ákvæði leiðir, sem og margnefndri 1. mgr. 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, að kærandi átti eingöngu rétt á að fá greiddar 60% af þeim atvinnuleysisbótum sem hann ella hefði átt að fá. Skerðing vegna tekna er svo útfærð þannig að óskertur réttur kæranda til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki er dreginn frá samanlögðum tekjum hans og þeim atvinnuleysisbótum sem hann á rétt á. Helmingur þeirrar fjárhæðar sem nær umfram fullar atvinnuleysisbætur ásamt frítekjumarki myndar því reiknigrundvöll skerðingar á greiðslu atvinnuleysisbóta. Vinnumálastofnun beitti því réttum aðferðum við að finna út rétt kæranda í atvinnuleysistryggingakerfinu.

Með vísan til framangreinds, og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A um að skerða bótarétt hans vegna hlutastarfs er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum