Hoppa yfir valmynd
3. september 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 120/2012.

 

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 3. september 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 120/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 11. maí 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, Reykjavík, að stofnunin hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar, þar sem hún hafi verið við vinnu við leigubílaakstur samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, fyrir tímabilin frá 11.‒12. og 25.‒26. febrúar, 21.‒23. janúar, 5.‒6. febrúar, 4.‒5. og 11.‒12. mars, 6.‒7. og 21.‒22. maí, 4.‒5. og 16.‒19. júní, 28. mars til 19. apríl, 13.‒14. og 27.‒28. ágúst, 9.‒10. og 23.‒24. september, 7.‒8. og 21.‒22. október, 4.‒5. og 18.‒19. nóvember, 2.‒3. desember og 16.‒17. desember árið 2011 og 13.‒14. og 27.‒28. janúar, 10.‒11. og 24.‒25. febrúar, 9.‒10. og 23.‒24. mars, 8.‒9. og 30.‒31. mars, 18.‒19. og 20.‒21. apríl árið 2012, alls í 84 daga, samtals að fjárhæð 472.994 kr. með 15% álagi. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 5. júlí 2012. Kærandi krefst þess að hinni kærðu ákvörðun verði breytt á þann veg að endurgreiðslan verði einungis 6.300 kr. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 3. nóvember 2010.


 

Við samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar og Vegagerðarinnar sem fram fór í apríl 2012 kom upp að kærandi hafi starfað við akstur leigubíla árin 2011 og 2012 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni var kærandi að leysa af við akstur leigubíla á tímabilinu frá 11. febrúar 2011 til 19. apríl 2012, samtals í 84 daga.

Vinnumálastofnun óskaði með bréfi, dags. 16. apríl 2012, eftir því að kærandi gerði grein fyrir þeim tekjum er kærandi hafði á sama tíma og hún þáði atvinnuleysisbætur. Kærandi mætti á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar tvisvar sinnum, 18. og 23. apríl 2012, og tilkynnti að hún væri að aka leigubíl. Í seinna skiptið skilaði hún tekjuáætlun ásamt upplýsingum um unna daga í mars og apríl 2012.

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru að hún hafi verið að vinna tilfallandi vinnu á sama tíma og hún þáði atvinnuleysisbætur. Hún hafi verið að keyra leigubíl fyrir tvo leigubílstjóra um helgar og þegar það var í boði. Kærandi greinir frá því að hún hafi fengið þær upplýsingar að heimilt væri að hafa slíkar aukatekjur svo lengi sem þær færu ekki fram yfir frítekjumark, sbr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun byggi á því að henni beri að endurgreiða allar þær tekjur sem hún hafði af framangreindri vinnu þrátt fyrir að hún hafi í nánast öllum tilvikum verið undir markinu þar sem henni hafi láðst að tilkynna um þessa vinnu, sbr. skyldu þar um í 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar. Því miður hafi henni láðst að tilkynna um þetta atriði en sér hafi ekki verið kunnugt um tilkynningarskylduna. Kærandi telur að það sé hins vegar annað álitaefni hvaða áhrif það hafi að vanrækja þessa skyldu. Kærandi bendir á að Vinnumálastofnun byggi ákvörðun sína á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt því ákvæði sé ljóst að sá sem vanrækir tilkynningarskylduna geti verið beittur tvenns konar viðurlögum. Að hann þurfi að hafa starfað í a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um bætur annars vegar, og að honum verði jafnframt gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, hins vegar. Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi meðal annars: „Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi.“


 

Samkvæmt þessu hafi hún átt fullan rétt á að afla sér aukatekna vegna hinnar tilfallandi vinnu, allt að frítekjumarkinu, 59.047 kr. á mánuði. Verði því ekki séð að hún hafi fengið ofgreitt nema 5.478 kr. sem hún hafði yfir fyrrgreindu frítekjumarki í febrúar 2012. Það eitt og sér að tilkynningarskylda hafi verið vanrækt leiði ekki til þess að litið verði svo á að henni hafi verið ofgreitt. Kærandi telur ljóst að að frátöldum þessum 5.478 kr. hafi hún ekki fengið „hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en [hún] átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda“ og því sé engin heimild til að krefja hana um þessar greiðslur. Kærandi telur að samkvæmt þessu sé einungis hægt að beita hana þeim viðurlögum að hún skuli ekki eiga rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrr en hún hefur stafað í a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og henni skuli jafnframt vera gert að endurgreiða 5.478 kr. auk 15% álags, alls 6.300 kr.

 

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 27. júlí 2012, kemur fram að þar sem kærandi fallist á í kæru að hún skuli ekki eiga tilkall til greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hún hafi starfaði í a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en telji að fjárhæð ofgreiddra atvinnuleysisbóta sé röng og hún eigi einungis að endurgreiða 6.300 kr. auk 15% álags taki stofnunin einungis afstöðu til þess hluta málsins. Vinnumálastofnun bendir á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Stofnunin vísar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og að um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta gildi ákvæði 2. mgr. 39. gr. sömu laga.

Kærandi segi í kæru að hún eigi einungis að endurgreiða þann hluta tekna sem hún hafi fengið fyrir leigubílaakstur sem fór umfram frítekjumark 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þ.e. þá mánuði sem tekjur hennar vegna akstursins fóru umfram 59.047 kr. Skilyrði þess að 36. gr. laganna eigi við sé að atvinnuleitandi uppfylli skilyrði laganna á þeim tíma sem hann þiggur hinar tilfallandi tekjur, ef atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrði laganna þá komi 36. gr. og þ. á m. frítekjumark 4. mgr. greinarinnar aldrei til skoðunar. Vinnumálastofnun bendir á að í tilviki kæranda hafi hún starfað sem verktaki (sjálfstætt starfandi) við akstur leigubifreiða. Samkvæmt
f-lið 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé það eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga að viðkomandi hafi stöðvað rekstur. Í 20. og 21. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé frekar gerð grein fyrir stöðvun rekstrar. Það sé að hinn tryggði meðal annars leggi fram yfirlýsingu um að öll starfsemi hans hafi verið stöðvuð. Samkvæmt framangreindu sé sjálfstætt starfandi einstaklingum ekki fært að þiggja atvinnuleysistryggingar á sama tíma og þeir stunda vinnu við eigin rekstur. Skipti þá ekki máli í því sambandi hvort viðkomandi standi mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns, sbr. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar sem kærandi starfaði við eigin rekstur á þeim tíma sem krafa um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta nær til sé ekki ástæða til að líta til frítekjumarks 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar enda átti kærandi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga á sama tíma.

Vinnumálastofnun bendir á að kærandi hafi aldrei tilkynnt um tilfallandi vinnu sína við akstur leigubíla og því ekki uppfyllt tilkynningarskyldu sína, sbr. 3. mgr. 9. gr., 10. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, og þar sem hún teljist ekki vera í virkri atvinnuleit þá daga sem hún starfaði sem verktaki við leigubílaakstur uppfyllti hún ekki skilyrði laganna um að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta fyrir þá daga, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í málinu liggi fyrir að kærandi starfaði við leigubílaakstur á meðan hún þáði greiðslur atvinnuleysistrygginga. Vinnumálastofnun hafi ekki borist tilkynning frá kæranda vegna vinnu hennar. Stofnunin telji að það eigi öllum að vera ljóst að atvinnuleitanda sem þiggi greiðslu atvinnuleysistrygginga beri skylda til að tilkynna vinnu til stofnunarinnar um leið og þeir hefji störf. Eigi það jafnt við um störf sem eru tilfallandi, hlutastörf eða í tilfelli sem viðkomandi hafi hætt atvinnuleit að öllu leyti. Í tilfelli kæranda hafi henni borið að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín, deginum áður en hún hóf störf, sbr. 35. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 


 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. ágúst 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 3. september 2012. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda. Með bréfum úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða til kæranda, dags. 13. nóvember 2012 og 12. ágúst 2013, var henni tilkynnt að afgreiðsla málsins myndi tefjast vegna gríðarlegs málafjölda hjá nefndinni.

 

2.

Niðurstaða

Kærandi í máli þessu starfaði í afleysingum við akstur leigubíla frá 11. febrúar 2011 til 19. apríl 2012, samtals í 84 daga, án þess að tilkynna það til Vinnumálastofnunar. Kærandi fellst á að hún skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hún hafi starfað í a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi telur að fjárhæð ofgreiddra atvinnuleysisbóta sé röng og telur að hún eigi einungis að endurgreiða 6.300 kr. að inniföldu 15% álagi.

Í 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011, segir:

Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.


 

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta en þar segir:

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt gögnum málsins, sbr. meðal annars upplýsingum frá kæranda sjálfum, starfaði hún við leigubílaakstur á tímabilinu frá 11. febrúar 2011 til 19. apríl 2012. Hún telur að hún eigi einungis að endurgreiða þann hluta tekna sinna fyrir leigubifreiðaaksturinn sem fór umfram frítekjumark 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þ.e. þá mánuði sem tekjur hennar fóru umfram 59.047 kr. Skilyrði þess að 36. gr. laganna komi til skoðunar er að atvinnuleitandi uppfylli skilyrði laganna á þeim tíma sem hann þiggur hinar tilfallandi tekjur, ef atvinnuleitandi uppfyllir ekki skilyrði laganna kemur 36. gr. aldrei til skoðunar. Kærandi starfaði sem verktaki við akstur leigubifreiðar. Samkvæmt f-lið 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er það eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga að hafa stöðvað rekstur. Í 20. og 21. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er frekar gerð grein fyrir stöðvun rekstrar. Hinn tryggði þarf meðal annars að leggja fram yfirlýsingu um að öll starfsemi hans hafi verið stöðvuð. Samkvæmt framangreindu er sjálfstætt starfandi einstaklingum ekki fært að þiggja atvinnuleysisbætur á sama tíma og þeir stunda vinnu við eigin rekstur. Skiptir ekki máli hvort viðkomandi stendur mánaðarlega eða með öðrum reglubundnum hætti skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns, sbr. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar sem kærandi starfaði við eigin rekstur á þeim tíma sem krafa um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta nær til átti hún ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta á sama tíma.


 

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að kærandi hafi tilkynnt Vinnumálastofnun um leigubílaaksturinn, þ.e. um hina tilfallandi vinnu í skilningi 35. gr. a laganna fyrr en eftir að Vinnumálastofnun kallaði eftir skýringum hennar eftir samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar og Vegagerðarinnar. Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um þá skyldu atvinnuleitanda að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar á högum viðkomandi eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, eins og námsþátttöku og tekjur fyrir tilfallandi vinnu. Þá er atvinnuleitanda skv. 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skylt að tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit en hún gat ekki talist í virkri atvinnuleit þá daga sem hún starfaði sem verktaki við leigubifreiðaakstur. Kærandi kveður sér ekki hafa verið kunnugt um viðkomandi reglur en að mati úrskurðarnefndarinnar getur kærandi ekki borið fyrir sig vankunnáttu í lögunum þar sem víðtækar upplýsingar um stöðu atvinnuleitenda liggja fyrir, meðal annars á heimasíðu Vinnumálastofnunarinnar. Þar kemur skýrt fram að atvinnuleitanda ber að veita nákvæmar upplýsingar um hagi sína, meðal annars vegna tilfallandi tekna.

Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið telur úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að rétt hafi verið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og að hún skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda ber einnig að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilin frá 11.‒12. og 25.‒26. febrúar, 21.‒23. janúar, 5.‒6. febrúar, 4.‒5. og 11.‒12. mars, 6.‒7. og 21.‒22. maí, 4.‒5. og 16.‒19. júní, 28. mars til 19. apríl, 13.‒14. og 27.‒28. ágúst, 9.‒10. og 23.‒24. september, 7.‒8. og 21.‒22. október, 4.‒5. og 18.‒19. nóvember, 2.‒3. desember og 16.‒17. desember árið 2011 og 13.‒14. og 27.‒28. janúar, 10.‒11. og 24.‒25. febrúar, 9.‒10. og 23.‒24. mars, 8.‒9. og 30.‒31. mars, 18.‒19. og 20.‒21. apríl árið 2012, alls í 84 daga, samtals að fjárhæð 472.994 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag.


Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 11. maí 2012 í máli A þess efnis að hún skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.

Kærandi skal endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 472.994 kr.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

            Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum