Hoppa yfir valmynd
4. júní 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 115/2012.

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 4. júní 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A í máli nr. 115/2012.

 

1.
Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 12. apríl 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 11. apríl 2012 fjallað um rétt hennar til atvinnuleysisbóta. Umsóknin var samþykkt en með vísan til starfsloka kæranda hjá B var réttur hennar til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá 1. febrúar 2012. Vinnumálastofnun tók ákvörðun þessa á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi sem barst 9. júlí 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 1. febrúar 2012. Samkvæmt vottorði vinnuveitanda starfaði kærandi hjá B frá 16. ágúst 2010 til 31. júlí 2011. Kemur fram að ástæða starfsloka hafi verið sú að kærandi væri í barneignarfríi. Frekari skýringar bárust frá B með tölvupósti þann 12. mars 2012 þar sem staðfest var að kærandi hefði sagt upp starfi sínu þann 31. október 2011 og lokið störfum þann 31. janúar 2012.

Kærandi greinir frá því í skýringarbréfi sínu til Vinnumálastofnunar, sem barst 29. febrúar 2012, að ástæða fyrir starfslokum hennar hafi verið sú að það hafi reynst henni erfitt að vinna á B, það hafi sérstaklega reynst henni erfitt þegar vistmenn létust. Kærandi hafi misst eiginmann sinn árið 2007 í slysi og vinnan á B hafi sett hana í aðstæður sem hún átti erfitt með að ráða við. Hún hafi því ekki treyst sér í þessa vinnu. Í málinu liggur fyrir læknisvottorð, dags. 2. apríl 2012. Þar segir að kærandi hafi misst mann sinn í slysi í október 2007. Í byrjun árs 2010 fari þessi missir að leita mikið á hana og hún fengið þunglyndiseinkenni. Í framhaldinu hafi hún farið í lyfjameðferð og viðtöl. Hún hafi sagt upp starfi sínu vegna breytinga hjá Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í ágúst sama ár. Eingöngu hafi verið fyrirsjáanlegt að þroskaþjálfar fengju að halda forstöðumannsstöðu eftir það. Kærandi hafi þá ráðið sig hjá B 1. september 2010, en hafi fljótlega orðið þunguð. Hún hafi í þeirri stöðu sem hún hafi verið í átt erfitt með það að vistmenn á Bvoru að falla frá og hafi hún því sagt upp störfum 31. október 2011.

Mál kæranda var fyrst tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar þann 29. mars 2012. Stofnunin mat það svo að skýringar kæranda á ástæðum starfsloka teldust ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og með bréfi, dags. 30. mars 2012, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að samþykkja umsókn hennar um atvinnuleysisbætur en með vísan til starfsloka kæranda hjá B var réttur hennar til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, sbr. 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun barst þann 2. apríl 2012 læknisvottorð frá Heilsugæslu Reykjavíkur vegna kæranda. Þar kemur fram að í byrjun árs 2010 hafi kærandi fengið þunglyndiseinkenni og í kjölfarið farið á lyf og í viðtalsmeðferð. Kærandi hafi sagt upp starfinu á B þar sem hún hafi átt erfitt með að vistmenn væru að falla frá. Í kjölfarið var mál kæranda tekið fyrir að nýju á fundi hjá úthlutunarnefnd stofnunarinnar. Það var mat úthlutunarnefndar að ný gögn í málinu breyttu ekki fyrri ákvörðun í málinu og var því ákvörðunin frá 29. mars 2012 staðfest.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 26. júlí 2012, er vísað til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og bent á að til umfjöllunar sé hvort kærandi hafi sagt starfi sínu lausu hjá B af gildum ástæðum í skilningi lagagreinarinnar. Orðalagið „gildar ástæður“ hafi verið túlkað þröngt og hafi fá tilvik verið talin falla þar undir. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar segi meðal annars að það sé erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða aðstæður liggi að baki ákvörðun þess að fólk segi störfum sínum lausum séu gildar, þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Því hafi verið lagt til að lagareglan yrði matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir eru og misst hafa fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Veiti lögin þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segja upp störfum sínum, um að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.

Vinnumálastofnun fellst ekki á að framangreindar ástæður kæranda geti talist gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Fjölskipuð úthlutunarnefnd hafi einnig komist að þeirri niðurstöðu að kærandi skyldi sæta biðtíma á grundvelli 54. gr. laganna. Verði ekki séð að aðstæður kæranda hafi tekið breytingum eftir að hún hóf störf hjá vinnuveitanda eða að forsendubrestur fyrir áframhaldandi vinnu kæranda hafi átt sér stað. Kærandi hafi sjálf sagt í erindi til stofnunarinnar að henni hafi mátt vera það ljóst að vistmenn kynnu að falla frá. Eins verði ekki séð að kærandi hafi látið á það reyna að hefja störf eftir að fæðingarorlofi hennar lauk.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. ágúst 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 3. september 2012. Kærandi sendi skýringarbréf, sem barst 3. september 2012, þar sem hún ítrekar kröfur sína og gerir frekari grein fyrir afstöðu sinni.

 

2.
Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 17. gr. laga nr. 134/2009, en hún er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur. Í skilningi 1. mgr. 54. gr. er orðalagið „gildar ástæður“ skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir.

Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar segir að nefnd er fjallaði um efni laganna hafi tekið afstöðu til þess hvað gætu talist gildar ástæður og komist að þeirri niðurstöðu að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega slíkar ástæður í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagaregla þessi verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun sé þar með falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falli að umræddri reglu. Stofnuninni beri því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Kærandi sagði sjálf upp starfi sínu hjá B. Í kæru kæranda til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að hún telji að það séu fullgildar ástæður fyrir uppsögn hennar og hafi hún lagt fram læknisvottorð sem staðfesti það. Hún hafi ekki gert ráð fyrir því hve sterk áhrif það hefði á hana að vinna svo náið með fólki sem var við aldur og dauðsföll daglegt brauð í vinnunni.

Fyrir liggur að aðstæður kæranda breyttust ekki eftir að hún hóf störf á B og þar til hún sagði þar upp störfum. Henni mátti vera það ljóst að vistmenn á B kynnu að falla frá. Að mat úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða var hin kærða ákvörðun rétt og í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Ber því að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar í tvo mánuði.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 11. apríl 2012 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

Hulda Rós Rúríksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum