Hoppa yfir valmynd
11. júní 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 106/2012.

 

 

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 11. júní 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 106/2012.

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 16. maí 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 15. maí 2012 fjallað um höfnun hans á á þátttöku í vinnumarkaðsúrræðinu „Vinnandi vegi“. Vegna höfnunar kæranda var réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði frá og með 16. maí 2012 sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 18. júní 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 23. desember 2010. Kærandi skrifaði undir svokallaðan námssamning 2 þann 30. janúar 2012 við stofnunina sem fólst í því að honum var heimilt að stunda nám við frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík á vorönn 2012 samhliða töku atvinnuleysisbóta með því skilyrði að hann væri í virkri atvinnuleit.

Kærandi var boðaður með tölvupósti, dags. 5. mars 2012, á Atvinnumessu sem halda átti 8. mars 2012 í Laugardagshöll. Var það liður í vinnumarkaðsátakinu „Vinnandi vegi“. Annar tölvupóstur var sendur til kæranda 15. mars 2012 og honum tilkynnt um næstu skref í „Vinnandi vegi“. Var kærandi jafnframt beðinn um að skrá sig hjá einni af fjórum ráðningarskrifstofum fyrir 1. apríl 2012. Kæranda voru einnig send textaskilaboð í farsíma 28. mars 2012 þar sem framangreint var ítrekað. Kærandi sinnti ekki boðun Vinnumálastofnunar um að skrá sig hjá einni af fjórum ráðningarskrifstofum sem stofnunin hafði gert samning við.

Kæranda var með bréfi, dags. 4. maí 2012, gefinn kostur á að upplýsa Vinnumálastofnun um ástæður þess að hafa hafnað þátttöku í vinnumarkaðsúrræðinu „Vinnandi vegi“ með því að hafa ekki sinnt tilmælum Vinnumálastofnunar um að skrá sig hjá að minnsta kosti einni ráðningarskrifstofu. Í bréfinu kom fram að skýringar skyldu berast stofnuninni innan sjö daga frá dagsetningu þess.

Kærandi sendi skýringarbréf til Greiðslustofu Vinnumálastofnunar 14. maí 2012 þar sem hann tók fram að hann væri á skólastyrk frá Vinnumálastofnun og beiðni stofnunarinnar vegna ,,Vinnandi vegs“ hefði farið framhjá honum sökum þess að hann hafi verið að þreyta próf. Á fundi Vinnumálastofnunar 15. maí 2012 voru skýringar kæranda ekki metnar gildar og var kæranda tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 16. maí 2012.

Í kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða greinir kærandi frá því að þegar verkefnið ,,Vinnandi vegur“ hafi verið í gangi hafi hann verið skráður í Háskólann í Reykjavík og verið á námsstyrk hjá Vinnumálastofnun. Kærandi greinir einnig frá því að honum hafi verið sagt að í námssamningi hans stæði, eins og hjá öllum, að atvinnuleitandi væri undanþeginn virkri atvinnuleit á sama tíma. Hann hafi ekki verið að hugsa mikið um að skrá sig þar sem hann hafi verið á fullu við að læra. Hann sé í frumgreinanámi í Háskólanum. Þá hafi ekki komið fram í tölvubréfinu að ef hann myndi ekki skrá sig, þá myndi hann missa bæturnar.

 

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 4. júlí 2012, kemur fram að í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Þar segi að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Samkvæmt g-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða.

Jafnframt tekur stofnunin fram að skv. h-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist sá í virkri atvinnuleit sem er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Þá beri atvinnuleitanda að tilkynna Vinnumálastofnun, án ástæðulauss dráttar, um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni eða aðstæðum að öðru leyti, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi hafi ekki sinnt boði Vinnumálastofnunar um að skrá sig hjá einni af fjórum ráðningarskrifstofum í tengslum við vinnumarkaðsátakið „Vinnandi veg“ en kærandi hafi greint frá því að boð stofnunarinnar hafi farið fram hjá sér þar sem hann hafi verið í prófum. Vinnumálastofnun vísar til þess að kærandi hafi greint frá því í kæru að hann hafi ekki sinnt því að skrá sig þar sem hann hafi verið á fullu að læra. Enn fremur hafi hann sagt að Vinnumálastofnun hafi tjáð honum að hann hafi verið undanþeginn virkri atvinnuleit á gildistíma námssamnings sem gerður hafi verið á milli hans og Vinnumálastofnunar.

Vinnumálastofnun greinir frá því að 30. janúar 2012 hafi verið gerður námssamningur á milli kæranda og stofnunarinnar. Í honum hafi falist að kæranda væri heimilt að stunda nám samhliða töku atvinnuleysisbóta með því skilyrði að hann væri í virkri atvinnuleit á sama tíma og í reglulegum samskiptum við stofnunina. Framangreind skilyrði hafi komið skýrlega fram í samningnum sjálfum sem var undirritaður af kæranda. Jafnframt sé það verklag meðal ráðgjafa stofnunarinnar að ítreka sérstaklega við atvinnuleitendur sem geri slíkan námssamning að þeir séu í virkri atvinnuleit samhliða námi og þurfi því að vera tilbúnir að taka starfi sem býðst. Af því leiði að þrátt fyrir að kærandi hafi verið á námssamningi á vegum stofnunarinnar hafi honum borið að sinna boði stofnunarinnar um að skrá sig hjá einni af fjórum ráðningarskrifstofum sem Vinnumálastofnun gerði samning við fyrir 1. apríl 2012.

Vinnumálastofnun greinir frá því með því að skrá sig ekki hjá einni af ráðningarskrifstofunum í vinnumarkaðsátakinu „Vinnandi vegi“ hafi kærandi ekki uppfyllt skyldu sína gagnvart stofnuninni skv. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í ljósi þess að rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sé það mat Vinnumálastofnunar að hvorki skýring sú er kærandi taki fram í bréfi sínu til stofnunarinnar né í kæru sinni til úrskurðarnefndar geti réttlætt það að kærandi hafi ekki skráð sig hjá neinni af ráðningarskrifstofunum.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. júlí 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 30. júlí 2012. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. nóvember 2012, var kærandi látinn vita um tafir á afgreiðslu málsins vegna gríðarlegs fjölda kærumála hjá úrskurðarnefndinni.

 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta snýst um það hvort kæranda, sem var á svokölluðum námssamningi 2, væri skylt að vera jafnframt í virkri atvinnuleit. Kærandi, sem var í fjarnámi í frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík á vorönn 2012, og Vinnumálastofnun gerðu 30. janúar 2012 með sér námssamning 2. Í samningnum kemur fram að hann sé gerður skv. 5. gr. reglugerðar nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, og reglugerð nr. 13/2009, um nám og námskeið sem eru viðurkennd sem vinnumarkaðsúrræði. Eru fyrstu tvær málsgreinar 5. gr. reglugerðar nr. 12/2009 svohljóðandi:

 

Vinnumálastofnun er heimilt að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins enda ekki talið líklegt að atvinnuleitanda verði boðið starf á næstu vikum að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Með námssamningnum skuldbindur atvinnuleitandinn sig til að stunda að fullu starfstengt nám sem hann hefur valið sér í samráði við ráðgjafa Vinnumálastofnunar eftir að færni hans og staða hefur verið metin og greiðir Vinnumálastofnun honum á sama tíma atvinnuleysisbætur sem hann á rétt til á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar. Skilyrði er að atvinnuleitandi hafi starfað sem launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þó án tillits til starfshlutfalls skv. 4. mgr. 15. gr. laganna, námið sé viðurkennt sem vinnumarkaðsúrræði, sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir og að það kunni að nýtast atvinnuleitandanum beint við atvinnuleit að námi loknu að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Jafnframt er það skilyrði að námið sé ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

 

Atvinnuleitandinn skal fullnægja skilyrðum um mætingu sem sett eru um námið sem og önnur skilyrði um reglulega ástundun þess auk þess að eiga regluleg samskipti við ráðgjafa Vinnumálastofnunar meðan á gildistíma námssamnings stendur. Atvinnuleitandinn þarf ekki að vera í virkri atvinnuleit á sama tíma.

Í reglugerðinni er það tekið skýrt fram að atvinnuleitandi þarf ekki að vera í virkri atvinnuleit á sama tíma og námssamningur er í gildi. Þá er heldur ekki skilyrði þess efnis í reglugerð nr. 13/2009, um nám og námskeið sem eru viðurkennd sem vinnumarkaðsúrræði. Skilyrði námssamningsins þess efnis að atvinnuleitandi skuli vera í virkri atvinnuleit á samningstímanum gengur því í berhögg við framangreint reglugerðarákvæði í 5. gr. reglugerðar nr. 12/2009 sem sérstaklega er vitnað til í námssamningnum. Skilyrði það er Vinnumálastofnun setti í námssamninginn styðst því ekki við skráða réttarheimild og það átti sér ekki stoð í framangreindri reglugerð að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda.

Í ljósi þess sem að framan hefur verið rakið er hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Úrskurðarorð

 

 Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 15. maí 2012 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er felld úr gildi. Kærandi á rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta í tvo mánuði frá og með 16. maí 2012.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                 Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum