Hoppa yfir valmynd
4. júní 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 109/2012.

 

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 4. júní 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 109/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 29. febrúar 2012, sendi Vinnumálastofnun kæranda, A, innheimtubréf þar sem fram kemur að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hjá stofnuninni hafi hún fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. janúar 2009 til 19. mars 2011 að fjárhæð 116.157 kr. ásamt 15% álagi eða samtals 133.581 kr. Um sé að ræða skerðingu á bótum vegna leiðréttinga á hlutastarfi og vegna tekna í hlutastarfi. Skuldin verði innheimt skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hún sé ekki lengur skráð sem atvinnuleitandi. Kærandi greinir frá því að hún hafi fengið innheimtubréf frá sýslumanninum á Blönduósi í heimabanka sinn 15. maí 2012 og bréf þess efnis hefði borist henni í pósti daginn eftir. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, mótt. 22. júní 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð. Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram að vísa skuli málinu frá þar sem það er of seint fram komið.

Af hálfu kæranda kemur meðal annars fram að hún hafi þegið 40% atvinnuleysisbætur frá desembermánuði 2008 til hausts 2009. Eftir það hafi hún þegið 20% bætur þar til hún hafi hætt á atvinnuleysisbótum 2011. Þá greinir kærandi frá því að hún hafi fengið þrjú innheimtubréf frá Vinnumálastofnun áður en henni barst innheimta frá sýslumanninum á Blönduósi. Það fyrsta hafi borist 2009, síðan 2010 og 2011 og svipað bréf, dags. 29. febrúar 2012. Kærandi kveðst hafa skrifað Vinnumálastofnun og reynt að útskýra mál sitt. Þá leggur hún áherslu á að hún hafi aldrei fengið upplýsingar við skráningu þess efnis að hún yrði að tilkynna um hverja einustu lögbundnu launasamningshækkun sem hún hafi fengið til þess að mismunurinn færðist ekki í „skuldapott“.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 27. júní 2012, bendir Vinnumálastofnun á að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda hafi ákvörðun stofnunarinnar verið kynnt kæranda með bréfi, dags. 29. febrúar 2012. Í ljósi þess að kæra til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða sé dagsett 22. júní 2012 telur stofnunin að þriggja mánaða kærufrestur sé liðinn og vísa beri málinu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar dags. 3. júlí 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og henni gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 17. júlí 2012. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. október 2012, var kærandi látin vita um tafir á afgreiðslu málsins vegna gríðarlegs fjölda kærumála hjá úrskurðarnefndinni. Kærandi kvartaði til umboðsmanns Alþingis 23. september 2012 þar sem hún taldi sig hafa orðið fyrir óréttlæti af hálfu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Með bréfi, dags. 8. nóvember 2012, var máli kæranda vísað frá umboðsmanni Alþingis þar sem mál hennar var enn til umfjöllunar hjá úrskurðarnefndinni.

 

2.

Niðurstaða

 Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæra kæranda barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 22. júní 2012. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur til kæranda hefur verið henni kunn frá því hún fékk innheimtubréf stofnunarinnar 29. febrúar 2012. Í bréfi Vinnumálastofnunar kemur meðal annars skýrlega fram að ef viðtakandi hafi athugasemdir við efni bréfsins eða vilji koma að andmælum og frekari skýringum skuli hann hafa samband í tölvupósti á tiltekið netfang hjá stofnuninni. Þá kemur einnig skýrlega fram að viðtakanda sé heimilt að kæra ákvörðun stofnunarinnar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skv. 2. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistrygginga og kærufrestur sé þrír mánuðir frá dagsetningu bréfsins, sbr. og 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.

 

Ekkert í gögnum máls þessa gefur til kynna að afsakanlegt sé að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.


Úrskurðarorð

Kæru A sem barst 22. júní 2012 er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum