Hoppa yfir valmynd
4. júní 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 108/2012.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 4. júní 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 108/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 8. maí 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hann hafi verið við vinnu hjá B frá nóvember 2011 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, fyrir tímabilið frá 1. nóvember 2011 til 20. mars 2012, samtals að fjárhæð 800.047 kr. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, mótteknu 22. júní 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 24. ágúst 2010 og fékk greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við rétt sinn.

Vinnumálastofnun sendi kæranda erindi 27. mars 2012 þar sem honum var tilkynnt að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að hann hafi starfað hjá B samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta og án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Í bréfinu var kæranda veittur frestur til að skila inn skýringum og athugasemdum vegna þessara upplýsinga innan sjö daga. Kærandi skilaði skýringum 28. mars 2012 til Vinnumálastofnunar þar sem fram kom að B væri óstofnað fyrirtæki sem hann og félagi hans hafi nýlega byrjað með.

Með bréfi, dags. 18. apríl 2012, var óskað eftir upplýsingum frá kæranda um vinnu hans hjá B, þ.e. hvenær vinna fór fram við uppsetningu á glugga- og dyrabyrgjum við C. Vinnumálastofnun bárust skýringar frá kæranda með tölvupósti, dags. 24. apríl 2012, þar sem fram kom að um hafi verið að ræða þeirra fyrsta verk og komið hefði í ljós við tilboðsgerðina að þeir hefðu misreiknað sig eitthvað og ekki reiknað 800.000 kr. með inn í tilboðið. Þá tók kærandi fram að vörurnar hefðu skemmst í flutningum til landsins og þeir hefðu þurft að leggja út í viðgerðarkostnað vegna þess. Af þeim sökum hafi þeir ekki getað greitt sér nein laun fyrir vinnuna. Vinnan við uppsetningu hefði staðið yfir í janúarmánuði 2012.

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun Vinnumálastofnunar 7. maí 2012 og var rökstuðningur sendur honum með bréfi, dags. 29. maí 2012. Í kjölfar þess barst stofnuninni erindi frá kæranda, dags. 8. júní 2012, þar sem kærandi fór fram á endurupptöku í máli hans. Með erindinu fylgdi bréf frá eiganda B, D, þar sem fram kemur að aðkoma kæranda að fyrirtækinu hafi byrjað í nóvember 2011 og falist í því að kærandi hafði samband við tryggingafélög til að kynna vörur og þjónustu fyrirtækisins og athuga með samstarf. Nafn kæranda hafi verið sett á heimasíðu fyrirtækisins í þeim tilgangi að ef einhver tilfallandi verkefni myndu falla til og viðkomandi kaupandi myndi hafa samband við kæranda í gegnum heimasíðu fyrirtækisins gæti hann hafa átt tilkall til sölulauna. Vinnumálastofnun tók mál kæranda fyrir að nýju en taldi að af nýjum gögnum í málinu væri ekki ljóst að ákvörðun stofnunarinnar, dags. 8. maí 2012, hefði verið byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum og var því endurupptökubeiðni kæranda hafnað.

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru að hann hafi ekki verið í vinnu samhliða því að þiggja bætur. Tilgreindur maður hafi haft samband við hann í nóvember sem hugðist opna fyrirtæki sem heiti B. Kærandi, sem var atvinnulaus og ekki í stöðu til að hafna möguleikum á tekjum, hafi ákveðið að senda fjóra tölvupósta á tryggingafyrirtæki um þessa hugsanlegu starfsemi í von um samstarf. Kærandi kveðst hafa fengið þau svör til baka að ekki væri áhugi á samstarfi og hann hafi ekki aðhafst frekar fyrir B. Samþykkt hafi verið að hafa nafn kæranda á heimasíðu fyrirtækisins ef ske kynni að einhver verkefni kæmu inn á heimasíðu fyrirtækisins en þá gæti hann átt tilkall til sölulauna. Kærandi kveðst hafa fylgst með fyrirtækinu í von um að hafa tekjur af því þótt hann hafi ekki starfað fyrir það. Kærandi greinir jafnframt frá því að B hafi lokið við tvö verkefni frá því í nóvember.

 

 

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 29. júní 2012, bendir Vinnumálastofnun á að málið varði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi var í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að tilkynna um að atvinnuleit væri hætt skv. 35. gr. a eða 10. gr. laganna. Vinnumálastofnun bendir á að með lögum nr. 134/2009 hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Verknaðarlýsing ákvæðisins geri grein fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins sé beitt. Segi í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009 að Vinnumálastofnun skuli beita viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða 35. gr. a laganna.

Vinnumálastofnun vísar til ákvæða 10. og 35. gr. a og bendir á að í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laganna að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laganna sé að finna nánari útlistun á því hvað telst til virkrar atvinnuleitar. Vinnumálastofnun telur ljóst að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án vinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og skipti þá engu máli hvort starfið sé launað eða ekki.

Vinnumálastofnun bendir á að af gögnum málsins megi ráða að kærandi hafi starfað við fyrirtækið B á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Ljóst sé að kærandi tilkynnti ekki um þessar breytingar á högum sínum til stofnunarinnar en rík skylda hvíli á þeim sem njóta greiðslna atvinnuleysisbóta að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um sig og hagi þeirra. Vinnumálastofnun bendir einnig á að útskýringar kæranda um aðkomu hans að starfsemi B hafi verið nokkrar og ólíkar. Í fyrstu samskiptum kæranda við Vinnumálastofnun, í kjölfar bréfs stofnunarinnar til hans, dags. 27. mars 2012, tekur kærandi fram að B sé óstofnað fyrirtæki sem hann og félagi hans byrjuðu nýlega með. Hafi þetta komið fram í tölvupósti kæranda, dags. 28. mars 2012. Með tölvupósti, dags. 24. apríl 2012, hafi kærandi tekið fram að þeirra fyrsta verk hefði komið til í nóvember 2011 og lokið í janúar 2012. Af póstinum sé ljóst að kærandi tók þátt í starfsemi fyrirtækisins enda segi kærandi í póstinum meðal annars: „Þetta var okkar fyrsta verkefni sem við tókum að okkur í nóvember. Tilboðið sem við gerðum ...“, „...við sáum fram á að tapa...“, „...strax úr sögunni að við gætum greitt okkur einhver laun...“, „...við fengum vörurnar...“ og „við fengum skaðabætur...

Í skýringarbréfi, dags. 7. júní 2012, undirrituðu af eiganda B sé svo tekið fram að aðkoma kæranda að B hafi einungis falist í því að hann hafi haft samband við fjögur tryggingafélög og fyrir hönd fyrirtækisins um hugsanlegt samstarf. Ekkert hafi orðið úr því og þá eigi þátttöku kæranda að hafa verið lokið nema hvað nafnið hans var tiltekið á heimasíðu fyrirtækisins í þeirri von að aðilar myndu hafa samband við hann um kaup á þjónustu B og þá gæti kærandi krafist sölulauna fyrir. Ekkert slíkt verkefni hafi komið til ennþá. Vinnumálastofnun bendir á að skýringar kæranda í kæru séu í samræmi við framangreindar skýringar. Vinnumálastofnun bendir á að stofnunin hafi metið skýringar kæranda frá 7. júní 2012 svo að þær breyttu engu um afgreiðslu máls hans hjá stofnuninni, sbr. höfnun á endurupptöku, dags. 13. júní 2012.

Vinnumálastofnun meti útskýringar sem kærandi tiltók fyrst í skýringarbréfi sínu 7. júní 2012, og aftur í kæru, sem svo að þær séu ekki í neinu samræmi við fyrri útskýringar kæranda. Þá meti Vinnumálastofnun það svo að þessar skýringar kæranda séu fram komnar eingöngu vegna þess að fyrri skýringar kæranda hafi ekki verið metnar gildar og kærandi sé með þessu að reyna að útbúa eftir á skýringar sem hann telji að stofnunin muni fallast á. Enda séu nýjustu skýringar kæranda ekki í neinu samræmi eða takti við fyrri skýringar kæranda, sér í lagi skýringarbréf hans frá 24. apríl 2012 en í því bréfi noti kærandi ítrekað hugtökin okkar og ítrekað við.

Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt eða um tilfallandi vinnu, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum. Vinnumálastofnun telur að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar frá 1. nóvember 2011 til 20. mars 2012. Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfyllir ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Beri kæranda því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. nóvember 2011 til 20. mars 2012 að fjárhæð 800.047 kr. með 15% álagi.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. júlí 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 17. júlí 2012. Athugasemdir kæranda bárust í tölvubréfi, dags. 27. september 2012.

Í athugasemdum kæranda greinir hann frá því að í fyrri bréfum hafi hann ítrekað notað orðin við og okkar eins og hann sé stór hluti af þessu fyrirtæki sem hann á að hafa starfað fyrir. Kærandi kveðst vissulega hafa gert það þar sem hann reyni að vera stoltur af því sem hann geri. Hann hafi greinilega miklað sig meira en hann hefði átt að gera. Kærandi kveðst tilbúinn að sýna fram á alla þá vinnu sem hann hafi unnið fyrir B en það sé sáralítið. Aðeins nokkrir tölvupóstar.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með hliðsjón af mikilvægi ákvæðisins við framkvæmd atvinnuleysistryggingakerfisins þykir réttlætanlegt að varpa ítarlegu ljósi á forsögu þess og tilgang. Markmiðið með þessu er að setja fram skýr viðmið um hvernig beri að túlka ákvæðið.

Þegar lög um atvinnuleysistryggingar voru upphaflega sett var kveðið á um þá meginreglu í fyrstu málsgrein 60. gr. laganna að sá sem aflar sér eða reynir að afla sér atvinnuleysisbóta samkvæmt lögunum með svikum getur misst rétt sinn í allt að tvö ár og þurft að sæta sektum. Það var hvergi skýrlega skilgreint hvað væru svik í skilningi ákvæðisins og er sú ályktun nærtæk að ákvæðinu hafi sjaldan verið beitt fram til þess tíma sem því var breytt með setningu 23. gr. laga nr. 134/2009. Þessi nýja regla tók gildi 1. janúar 2010 og veigamesti tilgangur hennar var að sporna gegn „svartri atvinnustarfsemi“.

Í athugasemdum greinargerðar við 23. gr. frumvarps þess er síðar varð að lögum nr. 134/2009 kom meðal annars fram að beita ætti ákvæðinu í þrenns konar tilvikum, í fyrsta lagi þegar atvinnuleitandi veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögunum, í öðru lagi þegar atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna og í þriðja lagi þegar atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu, sbr. nú 35. gr. a.

 

Með setningu 4. gr. laga nr. 103/2011 var orðalagi fyrsta málsliðar 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar breytt. Frá og með 3. september 2011 hefur ákvæðið verið svohljóðandi:

 

Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

 

Þegar þessi texti er skýrður er óhjákvæmilegt að horfa til þeirra athugasemda sem vitnað var hér til að framan um 23. gr. laga nr. 134/2009. Þannig er ljóst að fyrsti málsliður ákvæðisins á við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku.

Sérstök ástæða er til að taka fram að orðalagið „[h]ið sama gildir“ í upphafi annars málsliðar 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar vísar einvörðungu til viðurlaganna sem upp eru talin í fyrsta málslið ákvæðisins en ekki til þeirra huglægu skilyrða sem þar þurfa að vera uppfyllt. Þessi túlkun byggir meðal annars á því að greiðsla atvinnuleysisbóta er ekki ætluð þeim sem sinna störfum á vinnumarkaði og því teljast það svik í skilningi annars málsliðar 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ef atvinnuleitandi sinnir starfi á vinnumarkaði án þess að láta Vinnumálastofnun vita af því með þeim hætti sem kveðið er á um í 10. og 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar. Þessi skilningur er í samræmi við orðalag annars málsliðar 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og fær einnig stoð í athugasemdum greinargerðar við 23. gr. frumvarps þess er síðar varð að lögum nr. 134/2009.

Hvort sem háttsemi fellur undir fyrsta eða annan málslið 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eru viðurlög við bótasvikum ströng en þau fela í sér að atvinnuleitanda ber ekki að eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Jafnframt ber atvinnuleitanda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr. laganna, sbr. lokamálslið 60. gr. laganna.

Samkvæmt gögnum málsins, sbr. meðal annars upplýsingar frá kæranda sjálfum, var hann að vinna í þágu B. Þá kemur einnig fram í gögnum málsins og samkvæmt kæranda að hann sé skráður á heimasíðu fyrirtækisins í þeirri von að haft verði samband við fyrirtækið í gegnum hann og hann eigi þá tilkall til sölulauna. Í samskiptasögu Vinnumálastofnunar við kæranda er skráð 6. febrúar 2012 að komið hafi í ljós í símtali að kærandi hafi verið að vinna að verkefni með nokkrum félögum, B, en þau hafi fengið fyrsta verkefnið sitt þá helgi. Hann hafi verið spurður um laun en segist ekki hafa fengið greitt fyrir það. Þeir hafi lent í tjóni hjá Eimskipum og þyrftu að endurvinna einhvern hluta. Þetta sé tryggingamál sem taki tíma. Þá greinir kærandi frá því að hann geti hætt á atvinnuleysisbótum í febrúar vegna verkefna hjá B og ætli að hafa samband fyrir miðjan mánuð.

 

Í þessu máli verður ekki fallist á að kærandi hafi verið að sinna tilfallandi vinnu í skilningi 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar en telja verður tilfallandi vinnu þá atvinnustarfsemi sem fellur til með óreglubundnum hætti og standi að jafnaði stutt yfir hverju sinni en ekki yfir nokkurra mánaða samfellt skeið eins og á við í þessu máli. Af þessum sökum kemur eingöngu til greina að beita 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á þeim grundvelli að kærandi hafi starfað á vinnumarkaði á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit væri hætt.

Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda sem kveðið er á um í 35. gr. a sömu laga, verður að telja að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda ber því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um, enda var hann starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu eða að atvinnuleit hafi verið hætt. Þá er ákvæði 60. gr. laganna fortakslaust en í því felst að ekki er heimild til að beita vægari úrræðum en ákvæðið kveður á um. Skal kærandi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.

 

Kæranda ber einnig að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið frá 1. nóvember 2011 til 20. mars 2012 alls kr. 800.047 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 8. maí 2012 í máli A þess efnis að hann skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.

Kærandi skal endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 800.047 kr.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

            Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum