Hoppa yfir valmynd
4. júní 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 76/2012

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 4. júní 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 76/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 16. desember 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum stofnunarinnar hefði hún fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. apríl til 31. desember 2009. Um væri að ræða afturvirkar leiðréttingar vegna hlutastarfs og tekna og skuldin yrði innheimt á grundvelli 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hún væri ekki lengur skráð sem atvinnuleitandi. Kæranda var gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 264.838 kr. með 15% álagi að fjárhæð 39.726 kr., samtals 304.564 kr. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru móttekinni 4. maí 2012. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 Kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta 5. janúar 2009 samhliða hlutastarfi sínu hjá B og fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá þeim degi til 17. ágúst 2010 í samræmi við rétt sinn en hún reiknaðist með 60% bótarétt.

 Kærandi var skráð í 41% hlutastarf hjá B á tímabilinu 5. janúar 2009 til 29. janúar 2010 og samkvæmt uppgefinni tekjuáætlun var hún með áætlaðar 90.000 kr. á mánuði á tímabilinu janúar til mars, 120.000 kr. á mánuði á tímabilinu apríl til maí 2009 en engin tekjuáætlun lá fyrir vegna tímabilsins júní 2009 til janúar 2010. Á tímabilinu janúar 2009 til ágúst 2010 naut kærandi einnig greiðslna frá Greiðslustofu lífeyrissjóða og samkvæmt uppgefinni tekjuáætlun var kærandi með áætlaðar 36.000 kr. á mánuði í lífeyrissjóðsgreiðslur.

Er kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur var í gildi bráðabirgðaákvæði V við lög um atvinnuleysistryggingar er mælti fyrir um undantekningu frá skerðingu bóta skv. 36. gr. laganna. Tók ákvæðið til þeirra atvinnuleitenda sem fengu greiðslur atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli og voru að lágmarki í 50% starfshlutfalli. Þar sem kærandi var skráð í 41% starfshlutfall gat bráðabirgðaákvæði V ekki tekið til hennar. Þar af leiðandi kom til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar sem raunverulegar tekjur samkvæmt framlögðum launaseðlum námu iðulega hærri fjárhæð en það sem var áætlað og sökum þess að á tímabilinu júní 2009 til janúar 2010 lá engin tekjuáætlun fyrir, safnaði kærandi upp skuld á sama tíma og hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá stofnuninni.

Skuld kæranda var send til Innheimtumiðstöðvarinnar á Blönduósi 14. mars 2012 til frekari innheimtu eftir að hin kærða ákvörðun, dags. 16. desember 2012, var send og greiddi kærandi alls 71.871 kr. inn á höfuðstól skuldarinnar.

Í desember 2012 var útistandandi skuld kæranda við Vinnumálastofnun 232.692 kr. felld niður í samræmi við heimild frá Ríkisendurskoðun til að afskrifa kröfur sem stofnast höfðu á árunum 2009 og 2010 vegna þeirra er fengu greiddar atvinnuleysistryggingar samhliða hlutastarfi. Skiptist niðurfellingin í 199.005 kr. í höfuðstól og 33.687 kr. í álagsniðurfellingu. Kæranda var tilkynnt um niðurfellinguna með bréfi, dags. 11. janúar 2013.

Af hálfu kæranda kemur meðal annars fram að hún hafi ekki skilið launaseðlana frá Vinnumálastofnun og hafi reynt að fá útskýringu á þeim hjá stofnuninni en það hafi ekki gengið. Kærandi kveðst einnig hafa leitað skýringa hjá stofnuninni þegar hún hafi allt í einu fengið hærri greiðslur en hún var vön. Hún hafi alltaf fengið sama svarið frá stofnuninni, þ.e. að ákveðinn starfsmaður myndi hafa samband við hana. Hann hafi hins vegar aldrei haft samband. Kærandi kveðst hafa staðið í þessu í marga mánuði og haustið 2011 hafi henni verið sendir útreikningar. Kærandi kveðst hafa tekið eftir mörgum vitleysum á launaseðlunum, svo sem staðgreiðslu sem átti ekki að vera og misræmi í reiknaðri staðgreiðslu og persónuafslætti. Kærandi gerir þær kröfur að farið verði yfir mál hennar og útreikningur fyrir árin 2009 og 2010 verði leiðréttur.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 26. mars 2012, kemur fram að málið varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefjast endurkröfu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum til kæranda sem fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. apríl til 31. desember 2009. Samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta gegndi kærandi hlutastarfi hjá B. Þá naut hún einnig greiðslna frá lífeyrissjóði. Meginregluna um skerðingu atvinnuleysisbóta vegna tekna sé að finna í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í samræmi við 1. mgr. þess ákvæðis hafi tekjur kæranda vegna starfa hennar hjá B og lífeyrissjóðsgreiðslur til frádráttar atvinnuleysisbótum þar sem raunveruleg laun kæranda fyrir starf hennar hjá B hafi iðulega verið hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir og sökum þess að á tímabilinu júní 2009 til janúar 2010 hafi engin tekjuáætlun legið fyrir, safnaðist upp skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar á sama tíma og kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá stofnuninni.

Vinnumálastofnun bendir á að innheimta skuldar kæranda hafi verið send til Innheimtumiðstöðvarinnar á Blönduósi og í kjölfarið hafi kærandi greitt 59.220 kr. inn á höfuðstól skuldarinnar og 12.651 kr. hafi verið skuldajafnað við inneign á vaxtaendurgreiðslum. Þá hafi útistandandi skuld kæranda að fjárhæð 232.692 kr. verið felld niður í desember 2012 í samræmi við heimild Ríkisendurskoðunar til að afskrifa skuldir þeirra atvinnuleitanda sem fengið höfðu greiddar atvinnuleysisbætur á móti minnkuðu starfshlutfalli á árunum 2009 og 2010. Heimild til afskrifta var fengin í desember 2012 og fóru afskriftirnar fram í sama mánuði. Var kæranda tilkynnt um niðurfellingu skuldar hennar við stofnunina með bréfi, dags. 11. janúar 2013.

Vinnumálastofnun telur að réttilega hafi verið staðið að innheimtu skuldar kæranda fram að þeim tíma er heimild til afskrifta var fengin. Þá vekur stofnunin athygli á því að þar sem umrædd heimild hafi fyrst fengist í desember 2012 hafi stofnunin ekki heimild að lögum til að endurgreiða þær innborganir sem fram fóru fyrir þann tíma. Er það mat stofnunarinnar að réttilega hafi verið staðið að innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta í máli kæranda.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. apríl 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 16. apríl 2012. Athugasemdir bárust frá kæranda í tölvubréfi, dags. 22. apríl 2013.

Kærandi greinir frá því í athugasemdum sínum að þegar hún hafi sótt um hlutabætur til Vinnumálastofnunar hafi hún verið í 60% starfi hjá B og 40% örorkubótum frá lífeyrissjóði og því skilji hún ekki af hverju hún hafi ekki fallið undir bráðabirgðaákvæði V við lög um atvinnuleysistryggingar. Þá hafi henni ekki verið tilkynnt að hún þyrfti að skila inn tekjuáætlun fyrir júní 2009 til janúar 2010. Kærandi fer fram á endurgreiðslu á því sem hún greiddi af kröfunni. Þá telur kærandi að Vinnumálastofnun hafi ekki haft heimild til að innheimta greiðslur hjá henni eftir að hún hafi verið búin að kæra ákvörðunina.

 

2.

Niðurstaða

Í máli þessu liggur fyrir að með bréfi, dags. 16. desember 2011, var kæranda tilkynnt um að hún hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. apríl til 31. desember 2009. Um væri að ræða afturvirkar leiðréttingar vegna hlutastarfs og tekna og skuldin yrði innheimt á grundvelli 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í bréfinu er tilgreint að heimilt sé að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skv. 2. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og að kærufrestur sé þrír mánuðir skv. 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistrygginga segir að kæran skuli vera skrifleg og skuli berast innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um hana. Kæra teljist nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn.

Kærandi sendi inn kæru 3. maí 2012 eða um fimm og hálfum mánuðum eftir að innheimtubréf, dags. 16. desember 2011, var sent. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi í tölvupóstsambandi við Vinnumálastofnun frá því henni var kunnugt um hina kærðu ákvörðun og óskaði ítrekað eftir endurmati á ofgreiðslunni. Með vísan til framanritaðs, annarra atvika málsins og 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga verður fallist á að taka kæru þessa til efnislegrar meðferðar í stað þess að vísa henni frá í samræmi við meginreglur um kærufresti, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, 1. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Í bráðabirgðaákvæði V við lög um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. gr. laga nr. 131/2008, kemur fram sú undanþága að þegar atvinnuleysisbætur voru greiddar samhliða minnkuðu starfshlutfalli skv. 17. eða 22. gr. mátti lengja hlutfallslega það tímabil sem heimilt er að greiða tekjutengdar atvinnuleysisbætur skv. 1. mgr. 32. gr. miðað við mismun réttar hins tryggða hefði hann misst starf sitt að öllu leyti og þess starfshlutfalls sem hann gegnir áfram. Bráðabirgðaákvæðið gilti til 31. desember 2011, sbr. 5. gr. laga nr. 103/2011. Í ákvæðinu kemur fram að skilyrðin fyrir beitingu þess séu að hinn tryggði haldi að lágmarki 50% starfshlutfalli. Í samskiptaskrá Vinnumálastofnunar við kæranda er skráð 6. janúar 2009 að kærandi hafi lækkað starfshlutfall sitt úr 58% í 41%. Þá kemur skýrt fram á launaseðlum kæranda frá Vinnumálastofnun að kærandi sé skráð í 41% starfshlutfall. Af þessum sökum verður ekki fallist á þá málsástæðu kæranda að beita hefði átti fyrrgreindu bráðabirgðaákvæði V í máli hennar.

Hvað varðar þá málsástæðu kæranda að hún telur Vinnumálastofnun ekki hafa haft heimild til að innheimta greiðslur hjá henni eftir að hún hafði kært ákvörðunina er bent á 4. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem fram kemur að stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Í gögnum máls þessa liggur fyrir hverjar tekjur kæranda voru í starfi hennar hjá B á umræddu tímabili.

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir:

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Í greinargerð með ákvæðinu er áréttað að Vinnumálastofnun hafi heimildir samkvæmt því til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Sérstaklega er tekið fram að það eigi við í öllum tilvikum sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið hærri greiðslur en honum bar. Það er því tekið fram að ekki skipti máli hver ástæða þess er að hinn tryggði hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Í 17. og 22. gr., sbr. 32. og 34. gr., laga um atvinnuleysistryggingar er nákvæm útlistun á því hvernig reikna skuli þær hámarksbætur sem hinn tryggði getur átt rétt á úr sjóðnum. Kærandi fékk ofgreiddar bætur að fjárhæð 264.838 kr. á tímabilinu frá 1. apríl til 31. desember 2009 og er sá útreikningur Vinnumálastofnunar ekki vefengdur. Ekki verður hjá því komist að staðfesta niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar að öðru leyti enda er hún í samræmi við ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. framantalin lagaákvæði.

Eins og fram kemur í greinargerð Vinnumálastofnunar greiddi kærandi 59.220 kr. inn á höfuðstól skuldarinnar og 12.651 kr. hafi verið skuldajafnað við inneign á vaxtaendurgreiðslum. Alls voru því 71.871 kr. lögð inn á kröfuna en útistandandi skuld kæranda að fjárhæð 232.692 kr. var felld niður í desember 2012.


Úr­skurðar­orð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A sem tilkynnt var henni í bréfi, dags. 16. desember 2011, um endurkröfu ofgreiddra atvinnuleysisbóta á tímabilinu 1. apríl til 31. desember 2009 er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

for­maður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                     Helgi Áss Grétarsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum