Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 49/2012

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 19. febrúar 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 49/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 7. mars 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hann hafi verið við vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að fjárhæð 231.352 kr. með inniföldu 15% álagi, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysisbætur. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 14. mars 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 9. júlí 2010.

 

Vinnumálastofnun barst bréfi, dags. 23. janúar 2012, frá B varðandi vinnu kæranda hjá sveitarfélaginu. Kemur þar fram að kærandi vann við ræstingar á tímabilinu október 2009 til febrúar 2011 sem hann fékk greitt fyrir samkvæmt innsendum reikningum. Um fimm mánaða skeið skilaði kærandi hins vegar inn reikningum með nafni sambýlismanns síns. Meðfylgjandi bréfi þessu voru umræddir fimm reikningar.

 

Kæranda var sent bréf frá Vinnumálastofnun, dags. 9. febrúar 2012, þar sem óskað var eftir skriflegri afstöðu hans á umræddri verktakavinnu og útgefnum reikningum í nafni annars manns samhliða töku atvinnuleysisbóta. Í skýringarbréfi kæranda, dags. 29. febrúar 2012, segir að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að honum hafi verið óheimilt að stunda umrætt starf samhliða töku atvinnuleysisbóta og að hann hefði talið að B myndi sjá um að tilkynna vinnuna til Vinnumálastofnunar. Kemur þar einnig fram að sú leið hafi verið farin að gefa út fimm reikninga í nafni sambýlismanns kæranda í því skyni að nýta uppsafnaðan persónuafslátt hans.

 

Kæranda var tilkynnt, með bréfi, dags. 7. mars 2012, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að stöðva greiðslur til hans vegna starfsins hjá B og skyldi kærandi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað a.m.k. í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Enn fremur var kæranda gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir 35 daga samtals að fjárhæð 231.352 kr. með inniföldu 15% álagi í samræmi við 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Í bréfi kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 28. febrúar 2012, kemur meðal annars fram að starf hans hjá B hafi verið hlutastarf í tvær klukkustundir á dag. Hann hafi ekki fengið útskýringar um það hjá vinnuveitanda að um verktakavinnu hafi verið að ræða, hvað þá að það væri óheimilt með atvinnuleysisbótum. Honum hafi heldur ekki verið kunnugt um reglugerðir og lög varðandi þessi mál. Hann hafi aðeins talið sig vera í venjulegri vinnu, litlu hlutastarfi sem væri heimilt í tengslum við atvinnuleysisbætur. Hann hafi talið sig fullnægja tilkynningarskyldu sinni til Vinnumálastofnunar, þar sem hann hafi greint félagsmálastjóranum sem réði hann um það að hann væri á atvinnuleysisbótum. Varðandi það að gefa út reikninga í nafni annars manns hafi sá maður verið maki hans og hafi þeir orðið sammála um að óska eftir því að makinn tæki formlega við vinnunni til að nýta uppsafnaðan skattaafslátt hans. Hann hafi einnig komið að vinnunni og fengið tekjurnar greiddar inn á sinn reikning. Þetta hafi verið tekjur heimilisins og notaðar í sameiginlega neyslu. Sent hafi verið formlegt erindi um þetta til vinnuveitandans og það verið samþykkt. Þetta ætti því að vera Greiðslustofu óviðkomandi.

 

Í kæru kæranda, dags. 14. mars 2012, greinir hann frá því að hann hafi óvænt fengið tímabundið hlutastarf á sínum tíma, eða í tvær klukkustundir á dag, sem hann hafi talið vera heimilt með atvinnuleysisbótum og með tilliti til frítekjumarka. Kærandi kveður að mjög hafi verið hvatt til þess þá af Vinnumálastofnun og hafi kærandi greint vinnuveitanda sínum frá stöðu sinni hjá stofnuninni. Kærandi hafi talið að tenging væri þannig við Vinnumálastofnun og hann hefði þar með sinnt tilkynningarskyldu sinni. Hann viti til þess að atvinnurekendur hafi afskráð fólk hjá Vinnumálastofnun við ráðningu. Þannig sé þessu farið í C þaðan sem kærandi er.

 

Kærandi hafi hvorki fengið athugasemdir né aðvörun frá vinnuveitandanum eða t.a.m. í gegnum skattkerfið.

 

Kærandi telur ljóst að hlutirnir hafi farið eitthvað á víxl í þessu máli og út frá sanngirnissjónarmiðum ætti að milda þetta mál, bótarétturinn ætti að haldast, endurgreiðslan að lækka um helming og álag að falla niður.

 

Kærandi sendi úrskurðarnefndinni í kjölfarið annað bréf, dags. 29. mars 2012, þar sem fram kemur að í bréfi til kæranda frá Vinnumálastofnun, dags. 7. mars 2012, hafi engar tímasetningar verið og við yfirferð á skattframtali 2012 megi ætla að í bréfinu sé átt við launagreiðslur 2011. Staðreynd málsins sé sú að kærandi hafi engar greiðslur fengið frá B árið 2011 og séu því heimildir Vinnumálastofnunar vægast sagt mjög ótraustar. Niðurstaða stofnunarinnar orki því tvímælis.

 

Þá greinir kærandi frá því að hlutastarf hans hjá B árið 2010 muni að einhverju leyti hafa skarast við fullar atvinnuleysisbætur og hljóti spurning um frítekjumark að koma þar inn í. Frá þessu hafi verið greint í kærunni svo og í svarbréfi kæranda til Vinnumálastofnunar frá 28. febrúar 2012.

 

Loks telur kærandi að það að hægt sé að beita 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í þessu máli sé víðs fjarri öllum sanni. Öll rök hnígi frekar að 59. gr. laganna þar sem kærandi hafi meðal annars greint vinnuveitanda ítrekað frá stöðu sinni hjá Vinnumálastofnun og hlutirnir hafi þar með skolast til.

 

Í tölvupósti D, f.h. kæranda, til úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. júní 2012, kemur fram að Vinnumálastofnun haldi því fram að kærandi hafi haft launatekjur jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur í 35 daga í janúar og febrúar 2011. Samkvæmt staðfestu skattframtali frá ríkisskattstjóra hafi kærandi ekki fengið neinar launagreiðslur frá B árið 2011. Það hafi því verið ástæðulaust af kæranda að tilkynna Vinnumálastofnun um tekjur á þeim tíma. Varðandi vinnuna hjá B er tekið fram að fyrirkomulag hennar hafi verið samþykkt af öllum hlutaðeigandi aðilum, en formlegur/skriflegur samningur hafi aldrei legið fyrir.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 4. júní 2012, bendir Vinnumálastofnun á að mál þetta varði viðurlög 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi var í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að tilkynna að atvinnuleit væri hætt skv. 35. gr. a eða 10. gr. laganna.

 

Vinnumálastofnun bendir á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysisbætur launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Með lögum nr. 134/2009, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laganna. Verknaðarlýsing ákvæðisins geri grein fyrir því hvaða atvik geta leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins er beitt. Í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009, segi að Vinnumálastofnun skuli beita viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða 35. gr. a laganna. Þá vísar Vinnumálastofnun til 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem fjallar um tilkynningu um að atvinnuleit sé hætt og 35. gr. a um tilkynningu um tilfallandi vinnu.

 

Vinnumálastofnun bendir á að í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laganna að hann sé virkur í atvinnuleit. Þá bendir stofnunin á að í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfar á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, hvort sem hann þiggi laun fyrir eður ei. Einnig bendir Vinnumálastofnun á 60. gr. laganna sem fjallar um það þegar atvinnuleysisbóta er aflað með sviksamlegum hætti.

 

Vinnumálastofnun telur ljóst að af gögnum málsins megi ráða að kærandi hafi unnið fyrir Seltjarnarnesbæ á tímabilinu október 2009 til febrúar 2011. Kærandi hafi ekki tilkynnt um vinnuna til stofnunarinnar en rík skylda hvíli á þeim sem njóti greiðslna atvinnuleysisbóta að sjá til þess að stofnuni hafi réttar upplýsingar sem geta ákvarðað bótarétt viðkomandi. Þá telur Vinnumálastofnun í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirra skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum til að tilkynna að atvinnuleit sé hætt eða tilkynningu um tekjur, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, að kærandi hafi brugðist skyldum sínum við stofnunina og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt. Jafnframt sé kæranda gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr. laganna, sem fjalli um leiðréttingu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum, en samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. greinarinnar beri kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hann hafi ekki uppfyllt skilyrði laganna. Við útreikning á endurgreiðslu ofgreiddra bóta hafi verið tekið mið af þeim útgefnu reikningum sem Vinnumálastofnun hafi undir höndum vegna vinnu kæranda hjá B. Beri kæranda því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 231.352 kr. með 15% álagi.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. júní 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 20. júní 2012. Frekari athugasemdir og gögn bárust frá kæranda með tölvubréfi, dags. 14. júní 2012, þar sem fram kemur að Vinnumálastofnun hafi haldið því fram að kærandi hafi haft launatekjur jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur í 35 daga mánuðina janúar og febrúar 2011. Samkvæmt staðfestu skattframtali hafi kærandi engar launagreiðslur hlotið frá B árið 2011. Að tilkynna tekjur til Vinnumálastofnunar jafnhliða bótagreiðslum þessa tiltekna daga hafi því verið ástæðulaust af hálfu kæranda.

 

Varðandi umrædda vinnu hjá B tekur kærandi fram að fyrirkomulag vinnunnar hafi verið samþykkt af öllum hlutaðeigandi aðilum, en formlegur/skriflegur samningur hafi aldrei legið fyrir, t.a.m. hafi engar athugasemdir verið hafðar uppi í ársbyrjun 2011. Þessi þáttur málsins sé Vinnumálastofnun eiginlega óviðkomandi.

 

Með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 31. október 2012, var kæranda tilkynnt, með vísan til 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að afgreiðsla máls hans muni tefjast og að ástæða þess sé gríðarlegur fjöldi kærumála hjá úrskurðarnefndinni, jafnframt að vonir stæðu til að málinu myndi ljúka sem fyrst.

 


 

 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún var svohljóðandi þar til henni var breytt 2. september 2011 með lögum nr. 103/2011:

Sá sem veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.


Þessu ákvæði var bætt við lög um atvinnuleysistryggingar með 23. gr. laga nr. 134/2009, en með þeim lögum voru gerðar ýmsar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar í því skyni að gera strangari kröfur um trúnaðarskyldur atvinnuleitenda gagnvart Vinnumálastofnun. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 134/2009 segir að beita eigi ákvæði 60. gr. í þrenns konar tilvikum. Í fyrsta lagi þegar atvinnuleitandi veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður samkvæmt lögunum, í öðru lagi þegar atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum og hefur ekki tilkynnt Vinnumálastofnun að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna og í þriðja lagi þegar atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu, sbr. 35. gr. a. Síðastnefnda greinin er svohljóðandi:


Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vara.


Helsti tilgangur 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er að tryggja að atvinnuleitendur veiti réttar upplýsingar um hagi sína í atvinnumálum og upplýsi um breytingar sem á þeim kunna að verða. Með þessu á meðal annars að sporna gegn „svartri atvinnustarfsemi“.


Kærandi hefur staðfest að hafa verið í starfi fyrir B á tímabilinu október 2009 til febrúar 2011. Reikningar fyrir störf kæranda í október 2010 til febrúarloka 2011 eru skráðir á sambýlismann hans, en kærandi hefur gengist við því að þeir, sambýlismennirnir, hafi orðið sammála um að óska eftir því að makinn tæki formlega við vinnunni til að nýta uppsafnaðan skattaafslátt sambýlismannsins. Kærandi hefur því viðurkennt að um tekjur fyrir starf hans hjá B á umræddum tíma hafi verið að ræða og verður litið á það með þeim hætti þrátt fyrir þá staðreynd að reikningar fyrir vinnuna hafi verið skráðir á sambýlismanninn og enn fremur að kærandi hafi ekki talið umræddar tekjur fram til skatts á sínu skattframtali.


Kærandi tilkynnti ekki um vinnu sína hjá B til Vinnumálastofnunar eins og honum bar að gera. Í ljósi afráttarlausrar verknaðarlýsingar 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvílir á atvinnuleitendum til að tilkynna til vinnumálastofnunar að atvinnuleit sé hætt eða tilkynna um tekjur, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, verður að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt þeim lögum og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við það.


Kærandi kveðst hafa staðið í þeirri meiningu að vinnuveitanda hans bæri að tilkynna um vinnu kæranda. Ekki verður fallist á að kærandi geti varpað þeirri ábyrgð yfir á vinnuveitanda, enda atvinnuleitanda skylt að tilkynna um slíkt sjálfur skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar. Bent er á að upplýsingar um þessi atriði er að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar og farið er yfir þessar reglur á kynningarfundum hennar.


Kæranda ber einnig að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 231.352 kr. með inniföldu 15% álagi, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.


Með vísan til ofangreinds, og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, frá 7. mars 2012, í máli A, þess efnis að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og að hann skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur samtals að fjárhæð 231.352 kr. með inniföldu 15% álagi, er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum