Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 45/2012

Úrskurður

 

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 19. febrúar 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 45/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 12. janúar 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 11. janúar 2012 tekið ákvörðun um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans. Ástæðan var sú að kærandi hafði stundað nám samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Jafnframt taldi Vinnumálastofnun að kærandi hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1.–20. september 2011 að fjárhæð 24.082 kr. sem honum bæri að endurgreiða með 15% álagi skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 8. mars 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði látin niður falla. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 11. júlí 2011.

 

Þann 4. ágúst 2011 tilkynnti kærandi í viðtali við ráðgjafa stofnunarinnar um fyrirhugað nám sitt í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík. Þann 5. ágúst 2011 var tölvupóstur sendur á netfang kæranda og smáskilaboð í farsímanúmer þar sem honum var tilkynnt um að hann uppfylli skilyrði námssamnings 3 (nám er vinnandi vegur) og hann boðaður til ráðgjafa til að skrifa undir slíkan samning. Kærandi mætti ekki í boðað viðtal.

 

Við samkeyrslu Vinnumálastofnunar við nemendaskrá Háskólans í Reykjavík sem gerð var skv. 4. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kom í ljós að kærandi var skráður í nám samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Þann 15. desember 2011 var kæranda sent bréf frá eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar þar sem óskað var eftir því að hann hefði samband við Vinnumálastofnun og færði fram skýringar á framangreindum upplýsingum. Var kæranda leiðbeint að koma að athugasemdum innan sjö virkra daga frá dagsetningu bréfsins.

 

Á fundi vinnumálastofnunar 11. janúar 2012 var tekin sú ákvörðun að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hann var skráður í nám jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt var kærandi krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 1.–20. september 2011 að fjárhæð 24.082 kr. á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laganna. Var kæranda í sama bréfi leiðbeint um rétt sinn til endurupptöku á málinu fyrir viðeigandi stjórnvaldi, heimild sinni til að óska eftir rökstuðningi stofnunarinnar á ákvörðun þessari sem og um kæruheimild sína til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Ákvörðunarbréf stofnunarinnar var sent kæranda 12. janúar 2012.

 

Þann 31. janúar 2012 bárust Vinnumálastofnun síðbúnar skýringar frá kæranda þar sem hann greindi frá því að hann væri ósáttur við ákvörðun stofnunarinnar um endurgreiðslur ofgreiddra bóta og lagði áherslu á að hann hefði verið í 50% starfi samhliða töku atvinnuleysisbóta og að unnt væri að stunda umrætt nám samhliða vinnu.

 

Með bréfi, dags. 9. febrúar 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að þar sem ekki væri séð að ákvörðun stofnunarinnar hefði verið tekin á grundvelli ófullnægjandi gagna og að engin ný gögn hefðu borist stofnuninni er réttlættu að ákvörðun ætti að falla niður, væri ekki tilefni til að taka nýja ákvörðun í máli kæranda. Var fyrri niðurstaða Vinnumálastofnunar því staðfest.

 

Í kæru, dags. 8. mars 2012, bendir kærandi á að í málinu sé um að ræða endurgreiðslu atvinnuleysisbóta þar sem hann hafi verið í námi og ekki haft námssamning. Málið hafi átt að taka fyrir með tilliti til nýrra gagna/upplýsinga. Kröfur hafi verið gerðar um að krafa um endurgreiðslu yrði látin niður falla. Krefst kærandi þess að lágmarki að sýnt verði fram á með óyggjandi hætti að Vinnumálastofnun hafi ekki, eins og stofnunin haldi fram, vitað um aðstæður kæranda.

 

Kærandi kveðst hafa hitt tvo starfsmenn Vinnumálastofnunar vegna mála sinna og í aðdraganda þess að hann hafi hafið nám. Kærandi hafi á engan hátt farið dult með að hann væri að hefja nám og hafi ekki verið beðinn um að skrifa undir námssamning. Annar starfsmaðurinn hafi boðið kæranda fullar bætur fyrstu sex mánuði af námstímanum sem kærandi hafi ekki þegið því hann hafi átt von á um 50% vinnu með náminu, sem hann hafi fengið og stundi nú. Kærandi sé í meistaranámi, það sé hugsað með vinnu og um 98% þátttakenda séu í 100% vinnu. Námið sé ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 29. maí 2012, er tekið fram að lög um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006, gildi um atvinnuleysisbætur launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir.

 

Vinnumálastofnun bendir á c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem nám sé skilgreint. Þá lúti málið að 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og bent á að í athugasemdum með frumvarpi til laganna um greinina sé ítrekuð sú meginregla að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi nema annað leiði af samningum um vinnumarkaðsaðgerð. Ekki skipti máli hvort um sé að ræða dagskóla, kvöldskóla eða fjarnám. Auk þess sé það eitt af almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysisbótum að atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Samkvæmt 5. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitanda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki sé Vinnumálastofnun heimilt að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitanda sem sé tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Forsenda þess að slíkur samningur sé gerður sé að viðkomandi einstaklingur óski eftir því að slíkur samningur verði gerður við sig í upphafi annar og að því gefnu að hann hafi uppfyllt sett skilyrði.

 

Það liggi fyrir að kærandi hafi verið boðaður í viðtal hjá ráðgjafa Vinnumálastofnunar til að skrifa undir námssamning við stofnunina þann 10. ágúst 2011. Kærandi hafi ekki mætt í boðað viðtal. Í kæru segi að kæranda hafi verið boðinn umræddur samningur sem hann hafi ekki þegið þar sem hann hafi átt von á 50% vinnu. Umrætt starf hefði ekki leitt til þess að skilyrði fyrir gerð námssamnings 3 hefðu ekki verið uppfyllt í máli kæranda.

 

Það hafi því verið mat stofnunarinnar að meginregla sú sem fram komi í 1. mgr. 52. gr. laganna eigi við um tilvik kæranda. Samkvæmt ákvæðinu teljist kærandi ekki tryggður samkvæmt lögunum á sama tíma og hann sé skráður í nám.

 

Þá bendir Vinnumálastofnun á að samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfyllir ekki skilyrði laganna. Beri því kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1.–20. september 2011 að fjárhæð 24.082 kr. með 15% álagi.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. maí 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 13. júní 2012. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Úrskurðarnefndin kallaði eftir upplýsingum um námshlutfall kæranda í þeim tilgangi að meta hvort undanþágureglur 2. og 3. mgr. 52. gr. gætu átt við í máli hans. Samkvæmt upplýsingum er nefndinni bárust var námshlutfall kæranda 22 einingar.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., teljist ekki tryggður á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum við nefnda lagagrein í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað er við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dagskóla, kvöldskóla eða fjarnám. Í 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna er fjallað um undanþágur frá meginreglunni í þeim tilvikum er námshlutfall er undir tilteknum einingafjölda og nám ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Samkvæmt upplýsingum um námshlutfall kæranda eiga umræddar undanþáguheimildir ekki við í tilviki hans.

 

Í málinu liggur fyrir að kærandi hafi stundað nám samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að gerður hafi verið námssamningur skv. 5. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, nr. 12/2009. Í málinu liggur einnig fyrir að kærandi hafi verið boðaður í viðtal til að skrifa undir námssamning, en hafi ekki mætt til þess viðtals.

 

Með vísan til framangreindra lagaákvæða og málsatvika allra er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki átt rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta á tímabilinu 1.–20. september 2011 enda var hann á sama tíma skráður í nám. Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda var því réttmæt og er staðfest.

 

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum en hún hljóðar svo:

 

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Ljóst þykir af framangreindu og gögnum málsins að kærandi var í námi og þáði atvinnuleysisbætur á sama tíma án þess að fyrir lægi námssamningur. Með vísan til þess og rökstuðnings Vinnumálastofnunar verður hin kærða ákvörðun staðfest.

 


 

Úrskurðarorð


Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda, er staðfest. Jafnframt skal kærandi endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals 24.082 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum