Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 43/2012

Úrskurður

 

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 19. febrúar 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 43/2012.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 16. desember 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hjá stofnuninni hafi kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 13. júlí til 18. desember 2009 en á þeim tíma hafi kærandi ekki uppfyllt almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hún hafi verið í 100% vinnu. Í bréfinu var kæranda jafnframt tilkynnt að skuldin að fjárhæð 228.479 kr. innheimtist skv. 2. mgr. 39. gr. laganna þar sem hún var ekki lengur skráð sem atvinnuleitandi. Kærandi vildi ekki una þessu og kærði þessa innheimtu til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 27. febrúar 2012. Kærandi krefst þess að skuldin verði felld niður með öllu eða lækkuð verulega. Til vara krefst kærandi að 15% álagið verði fellt niður. Vinnumálastofnun telur að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 181.055 kr.

 

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta 1. apríl 2009.

 

Þann 16. júlí 2009 kom kærandi á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og tilkynnti að hún væri komin með vinnu hjá B, jafnframt fyllti hún út tekjuáætlun upp á 120.000 kr. á mánuði og tók fram að hún væri að fara í 70% starf hjá B. Í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komu tekjur vegna starfa kæranda til frádráttar atvinnuleysisbótum á tímabilinu. Í kæru sinni segir kærandi að henni hafi í september 2009 verið ljóst að hún væri að vinna meira en sem næmi 68% starfshlutfalli og að hún hafi þá komið á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar til að fá að afhenda launaseðla sína. Vegna misskilnings varðandi samkeyrslu við ríkisskattstjóra tjáði þjónustufulltrúi Vinnumálastofnunar kæranda að hún þyrfti ekki að skila inn launaseðlunum enda myndi samkeyrslan við ríkisskattstjóra fyrirbyggja ofgreiðslu atvinnuleysisbóta. Vegna verklags ríkisskattstjóra er þó slík samkeyrsla einungis fær þremur mánuðum eftir að aðili fær greidd laun og getur því Vinnumálastofnun ekki samkeyrt greiðslu atvinnuleysisbóta jafnóðum líkt og kæranda var tjáð.

 

Þann 5. janúar 2010 kom kærandi á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar til að breyta umsókn sinni um atvinnuleysisbætur. Tilkynnti kærandi að hún hefði hætt störfum hjá B þann 19. desember 2009. Kærandi skilaði vottorði vinnuveitanda hjá B og á því var kærandi skráð í 100% vinnu frá 13. júlí til 18. desember 2009. Á sama tíma átti sér stað samkeyrsla tölvugagna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra og kom þá í ljós að kærandi hafði haft aðrar tekjur en hún hafi gefið upp við stofnunina. Var þá kærandi beðin um að skila inn launaseðlum/greiðsluseðlum til stofnunarinnar svo hún gæti staðreynt að greiðslur til kæranda væru réttar. Eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar gerði þó ekki meira í máli hennar þar sem mál hennar var til meðferðar hjá Greiðslustofu Vinnumálastofnunar á sama tíma vegna vottorðs vinnuveitanda hjá B. Í kjölfarið var skráningu kæranda hjá stofnuninni breytt afturvirkt og hún skráð í 100% vinnu frá 13. júlí til 18. desember 2009. Við það myndaðist skuld hjá kæranda og við greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda 1. febrúar 2010 var skuldajafnað 25% af atvinnuleysisbótum hennar við þá skuld sem hafði myndast.

 

Sökum mikilla anna hjá Vinnumálastofnun fékk kærandi ekki sent frekari bréf frá stofnuninni vegna skuldar hennar fyrr en með bréfi, dags. 16. desember 2011. Í því bréfi var kæranda tilkynnt að hún skuldi stofnuninni 198.677 kr. ásamt 15% álagi, 29.802 kr., eða samtals 228.479 kr. Við yfirferð á máli kæranda kom í ljós að staða skuldar kæranda í dag er 181.055 kr. en ekki er krafist 15% álags.

 

Í kæru gefur kærandi skýra mynd af atvikum máls og greinir frá samskiptum sínum við Vinnumálastofnun. Kærandi hafði verið á fullum atvinnuleysisbótum fram að því að henni bauðst hlutastarf, eða 68% staða hjá B. Þann 13. júlí 2009 hafi hún hafið þar störf. Um leið og hún hafi fengið starfið hafi hún farið á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og tilkynnt skriflega um þetta starf.


Í september 2009 hafi kæranda orðið ljóst að þótt hún hafi einungis verið ráðin í 68% stöðu þá hafi hún unnið meira en sem því hafi numið. Af þeim sökum hafi kærandi aftur farið á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar til að tilkynna um aukið starfshlutfall. Kærandi hafi viljað koma í veg fyrir að hún fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur og beðið um að fá að afhenda launaseðla sína. Þeirri ósk kæranda hafi verið hafnað og henni tjáð að óþarfi væri að afhenda launaseðla og að samkeyrsla kerfisins við ríkisskattstjóra kæmi í veg fyrir að hún fengi ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Við samkeyrsluna kæmu laun hennar í ljós og hún fengi greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við það. Þessar leiðbeiningar hafi hins vegar verið rangar. Eina leiðin til að koma í veg fyrir ofgreiðslu bóta á þessum tíma hefði verið að skrá aukið starfshlutfall. Það sé enginn vafi um það að hefðu starfsmenn þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar tekið við launaseðlum hennar á þessum tíma þá hefði kærandi ekki fengið ofgreiddar bætur. Í stað þess hafi kæranda verið talin trú um að samkeyrsla við skrár ríkisskattstjóra kæmi í veg fyrir ofgreiðslu.

 

Þann 1. desember 2009 hafi kæranda verið sagt upp störfum í B og í kjölfarið hafi kærandi ákveðið að hefja nám. Kærandi hafi lokið störfum í B 19. desember og þá farið á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og tilkynnt um það. Einnig hafi kærandi tilkynnt um þá ákvörðun sína að hefja nám og því væri hún ekki atvinnuleitandi lengur. Kæranda hafi við það tækifæri verið ráðlagt að sækja samt sem áður um bætur frá 19. desember 2009 og fram að skólabyrjun þann 6. janúar 2010.

 

Þann 14. janúar 2010 hafi kærandi fengið bréf frá eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar um að hún hafi haft aðrar tekjur en hún hafði gefið upp við stofnunina og hafi verið óskað eftir launaseðlum síðustu þriggja mánaða. Í kjölfarið hafi hún farið með umrædda launaseðla á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og þaðan sendir til eftirlitsdeildar stofnunarinnar. Færslur hjá þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar staðfesti þetta.

 

Það veki undrun kæranda að í byrjun febrúar 2010 hafi kærandi fengið greiddar ríflega 75.000 kr. atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 19. desember til 6. janúar 2010. Ef kærandi hafi á þessum tímapunkti verið komin í skuld við Vinnumálastofnun þá fái hún ekki skilið af hverju þessi fjárhæð hafi ekki verið tekin upp í þá skuld.

 

Það veki einnig undrun kæranda að á þessum tæplega tveimur árum sem liðin séu frá því að kæranda barst bréfið frá eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar hafi henni aldrei verið tilkynnt um að hún væri komin í skuld við stofnunina. Þegar kærandi skoðar „mínar síður“ standi á öllum launaseðlum, ofgreiðslur 0 kr. Hins vegar hafi starfsmaður þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar gefið kæranda þær upplýsingar að þegar launaðseðlum kæranda sé flett upp hjá stofnuninni þá standi alls staðar neðst á öllum seðlunum ofgreitt X kr. og skuld X kr. (X=síhækkandi krónutölur). Einnig hafi kærandi fengið afhent skjal, dags. 1. janúar 2010, þar sem skuld hennar sé sundurliðuð eftir mánuðum og auk þess skjal, dags. 31. desember 2010, sem sýni fram á að þessi skuld hafi legið ansi lengi fyrir. Hvorugt skjalanna geti kærandi opnað á „mínum síðum“. Fyrst svo sé þá fái kærandi ekki skilið hvers vegna henni hafi fyrst verið tilkynnt um þessa skuld tæplega tveimur árum eftir að hún hafi afhent launaseðla sína og bótatíma lauk. Kærandi telur að með þessu hafi falist brot á tilkynningarskyldu skv. 14. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

 

Kæru sína byggir kærandi á því að það hafi verið vegna rangra vinnubragða, óvandaðra stjórnsýsluhátta og mistaka starfsmanna Vinnumálastofnunar að hún hafi fengið greiddar of háar atvinnuleysisbætur árið 2009. Það hafi verið í góðri trú sem kærandi hafi þegið þessar bætur. Hins vegar hafi viðbrögð starfsmanna Vinnumálastofnunar gert kæranda ómögulegt að gæta hagsmuna sinna. Þær leiðbeiningar sem kærandi fékk hafi einfaldlega verið rangar.

 

Í fyrsta lagi hafi Vinnumálastofnun ekki uppfyllt leiðbeiningarskyldu sína skv. 7. gr. stjórnsýslulaga. Þær leiðbeiningar sem kærandi hafi fengið frá þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar um að samkeyrsla við skattskrár kæmi í veg fyrir ofgreiðslu bóta hafi verið rangar. Hið rétta sé að sökum vinnufyrirkomulags hjá ríkisskattstjóra sé stofnuninni einungis mögulegt að sækja gögn frá embættinu til að samkeyra við greiðsluskrá Atvinnuleysistryggingasjóðs þremur mánuðum eftir að tekjur séu greiddar, sbr. heimild skv. 4. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Því sé það nauðsynlegt að atvinnuleitendur tilkynni um þá tilfallandi vinnu eða hlutastörf er þeir taka á sama tíma og þeim séu greiddar atvinnuleysisbætur. Þetta komi skýrt fram í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 99/2010.

 

Í öðru lagi hafi Vinnumálastofnun ekki uppfyllt skyldu sína um hraða málsmeðferð skv. 9. gr. stjórnsýslulaga. Það hafi verið í janúar 2010 sem kærandi afhenti eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar launaseðla samkvæmt ósk hennar og fyrst núna hafi kæranda verið tilkynnt um þessa skuld. Ekkert hafi fram komið sem útskýri þessa töf og verði að telja að tvö ár séu óhæfilega langur tími án þess að niðurstaða fáist í málið. Það sem geri þetta sérstaklega ámælisvert sé að í febrúar 2010 hafi kærandi fengið síðustu greiðslu frá Vinnumálastofnun en hefði mál kæranda fengið eðlilega afgreiðslu þá hefði sú fjárhæð átt að fara upp í umrædda skuld.

 

Sú langa málsmeðferð sem þetta mál hafi hlotið hafi einnig haft þær afleiðingar að kæranda sé erfiðleikum bundið að sanna hinar röngu leiðbeiningar sem henni hafi verið gefnar fyrir tæplega tveimur árum. Starfsmenn Vinnumálastofnunar muni að sjálfsögðu lítið eftir þessu máli. Þó verði að ætla að þar sem þessi óeðlilega langi tími sem liðið hafi, hafi þær afleiðingar að sönnunarbyrðin falli á Vinnumálastofnun, þ.e. að sýna fram á að kæranda hafi verið veittar réttar leiðbeiningar þegar hún hafi komið á stofnunina til að tilkynna um aukið starfshlutfall.

 

Í þriðja lagi hafi Vinnumálastofnun ekki uppfyllt tilkynningarskyldu sína skv. 14. gr. stjórnsýslulaga. Stofnuninni hafi borið að tilkynna kæranda um skuld sína þegar upplýsingar um hana hafi legið fyrir. Líkt og áður hafi verið bent á hafi óeðlilega langur tími liðið frá því að upplýsingar um skuld þess hafi legið fyrir þar til kæranda barst tilkynning um hana.

 

Með hliðsjón af öllu framangreindu telur kærandi að ofgreiðslu atvinnuleysisbóta megi rekja beint til mistaka, óvandaðra stjórnsýsluhátta og rangra leiðbeininga starfsmanna Vinnumálastofnunar. Kærandi ítrekar að hún hafi alla tíð gert allt sem í hennar valdi standi til að veita stofnuninni réttar upplýsingar um starfshlutfall sitt til að allar greiðslur til sín væru réttar. Kæranda hafi ranglega verið talin trú um að samkeyrsla við skattskrár kæmi í veg fyrir ofgreiðslu bóta. Meðferð þessa máls hafi ekki verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti og kærandi hafi mátt vænta þess að hún væri ekki í skuld hjá Vinnumálastofnun er hún hafi greitt kæranda bætur í febrúar 2010. Þessir annmarkar á málsmeðferð hljóti að hafa það í för með sér að kæranda beri ekki að greiða umrædda fjárhæð.

 

Verði ekki fallist á kröfu kæranda um að umrædd skuld verði felld niður þá fer kærandi fram á að 15% álagið verði fellt niður, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, enda hafi kærandi sýnt fram á að ofgreiðslu atvinnuleysisbóta megi rekja beint til mistaka starfsmanna Vinnumálastofnunar. Einnig bendir kærandi á að sú greiðsla sem hún hafi fengið í júlí 2009 hafi verið of lág og fer kærandi því fram á að sú fjárhæð sem henni hafi borið verði endurreiknuð og komi til lækkunar á skuld hennar. Fram komi í vinnuveitendavottorði að í júlí 2009 hafi kærandi aðeins verið í 13% vinnu en þó fengið aðeins greiddar 30% atvinnuleysisbætur þann mánuð.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 23. ágúst 2012, er bent á að samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar skuli sá sem teljist tryggður öðlast rétt til grunnatvinnuleysistrygginga.

 

Vinnumálastofnun vísar í greinargerð sinni til 1. mgr. 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt er fyrir um greiðslur atvinnuleysistrygginga samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

 

Jafnframt vísar stofnunin til 1. mgr. 36. gr. laganna sem mælir fyrir um frádrátt frá greiðslum atvinnuleysisbóta vegna tekna umsækjanda. Í samræmi við málsgreinina hafi tekjur vegna starfa kæranda hjá Krónunni komið til frádráttar atvinnuleysisbótum á tímabilinu. Þar sem kærandi hafi aðeins gefið upp að hún væri í 70% starfi hafi hún haldið rétti til 30% bóta, að teknu tilliti til tekna hennar að frádregnu frítekjumarki skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þegar kærandi hafi tilkynnt um breytta hagi sína, þ.e. að hún hafi misst starfið hjá B, hafi hún skilað nýju vottorði vinnuveitanda og við það hafi komið í ljós að hún hafði verið í 100% starfi hjá B en ekki 70% líkt og hún hafi tilkynnt um. Við það hafi réttur kæranda til atvinnuleysisbóta verið endurreiknaður afturvirkt og komið í ljós að myndast hafði skuld hjá kæranda við Vinnumálastofnun að fjárhæð 228.479 kr. með 15% álagi.

 

Þegar atvinnuleitandi vinnur 100% starf sé ljóst að skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta sé ekki fyrir hendi. Því telur Vinnumálastofnun að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur er hún hafi fengið greiddar fyrir það tímabil sem hún hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Í kæru hafi meðal annars komið fram að kærandi byggi kæru sína á því að Vinnumálastofnun hafi ekki gætt að leiðbeiningarskyldu skv. 7. gr. stjórnsýslulaga þar sem þær leiðbeiningar sem hún hafi fengið á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar varðandi samkeyrslu gagna við ríkisskattstjóra hafi verið rangar. Einnig hafi kærandi vísað til málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga og talið að Vinnumálastofnun hafi brotið gegn henni þar sem tæp tvö ár hafi liðið frá því að hún hafi skilað inn umbeðnum upplýsingum þangað til hún hafi fengið tilkynningu um skuld hennar við stofnunina. Í því samhengi hafi kærandi einnig talið að Vinnumálastofnun hafi brotið gegn 14. gr. stjórnsýslulaga með því að tilkynna henni ekki strax og fyrir lá að hún skuldaði stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi tekið fram að með hliðsjón af öllu þessu og þar sem málsmeðferðin hafi ekki verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti eigi hún ekki að þurfa að greiða umrædda fjárhæð til baka.

 

Samkvæmt skýrum leiðbeiningum 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber atvinnuleitanda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur ásamt 15% álagi. Hafi ofgreiðsla bóta komið til vegna annmarka er rekja megi til Vinnumálastofnunar skuli fella niður álag. Fellst því Vinnumálastofnun á að fella niður kröfu um 15% álag, enda ljóst að vegna misskilnings hjá starfsmanni þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar hafi kæranda verið veittar rangar upplýsingar. Þótt ofgreiðsla atvinnuleysisbóta til kæranda stafi af ástæðum sem rekja megi til stofnunarinnar sé ljóst að kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur sem hún hafi ekki átt rétt á. Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laganna beri Vinnumálastofnun að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi hinn tryggði fengið hærri bætur en hann hafi átt rétt á. Hver svo sem ástæða kunni að vera fyrir ofgreiðslu. Vinnumálastofnun bendir á úrskurð nefndarinnar í máli nr. 21/2011 þar sem segi orðrétt:

 

[...] stofnunin hafi gert mistök við meðferð málsins og kærandi hafi í góðri trú tekið á móti greiðslu atvinnuleysisbóta. Á þessar málsástæður kæranda verður ekki fallist. Löggjafinn hefur tekið af öll tvímæli um að Vinnumálastofnun geti ávallt krafið þann um endurgreiðslu sem hefur fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur, sbr. fyrstu tvo málsliði 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kæranda beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir umrætt tímabil að fjárhæð 181.055 kr.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. ágúst 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 11. september 2012. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

 

Kærandi hefur í greinargerðum sínum vísað til þess að Vinnumálstofnun hafi brotið gegn henni með því að virða ekki verklagsreglur stjórnsýslulaga, svo sem ákvæði 7., 9. og 14. gr., og hljóti þessir annmarkar að hafa það í för með sér að kæranda beri ekki að greiða umkrafða fjárhæð. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður ekki hjá því komist að átelja Vinnumálastofnun fyrir að veita rangar leiðbeiningar sem leiddu til íþyngjandi ákvörðunar stofnunarinnar um að krefja kæranda um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta. Um málsmeðferðarhraða verður að taka undir með kæranda að óeðlilega langur tími hafi liðið frá því að kærandi fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur þar til hún var krafin um endurgreiðslu eða um tvö ár.

 

Hins vegar gildir sú meginregla í íslenskum stjórnsýslurétti að brot gegn verklagsreglum stjórnsýslulaga hefur ekki þær afleiðingar í för með sér að stjórnvaldsákvörðun verði felld úr gildi. Hefur meðal annars verið kveðið upp úr um það í dómum Hæstaréttar Íslands í málum dómsins árið 2000 bls. 2917 og árið 1998 bls. 3781. Úrskurðarnefndin telur því ekki forsendu til að ógilda hina kærðu ákvörðun á þeim grundvelli sem kærandi krefst. Skýr lagaákvæði eru fyrir því í lögum nr. 54/2006 að fái bótaþegi ofgreiddar atvinnuleysisbætur skuli hann endurgreiða þær. Óumdeilt er að kærandi fékk ofgreiddar bætur og ber samkvæmt skýru lagaákvæði að endurgreiða þá fjárhæð.

 

Mál þetta lýtur annars vegar að túlkun á 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, en hún var svohljóðandi á því tímabili er kærandi er talin hafa fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur:

 

Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 2. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum og séreignarsjóðum, og fjármagnstekjur hins tryggða. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.

 

Málið lýtur hins vegar að 2. mgr. 39. gr. laganna sem er svohljóðandi:

 

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

 

Vinnumálastofnun hefur tekið undir þau sjónarmið að starfsmanni stofnunarinnar hafi orðið á mistök og veitt kæranda rangar upplýsingar og fallist á að fella niður 15% álag vegna endurgreiðslunnar. Stofnunin vísar hins vegar til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 21/2011 um að löggjafinn hafi tekið af allan vafa um að stofnunin geti ávallt krafið þann sem hefur fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur um endurgreiðslu, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Krafa Vinnumálastofnunar er að kærandi endurgreiði þær atvinnuleysisbætur sem hún fékk greiddar á tímabilinu 13. júlí til 18. desember 2009 að fjárhæð 181.055 kr. Fallast verður á að kæranda beri að endurgreiða fjárhæðina.

 

Með vísan til framangreinds, sem og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, er hún staðfest.

 

 

 

 


 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta sem tilkynnt var með bréfi, dags. 16. desember 2011, að fjárhæð 181.055 kr. er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum