Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 10/2012

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 19. febrúar 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 10/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 16. desember 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum stofnunarinnar hefði hún fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilunum 1. janúar 2009 til 19. nóvember 2010 annars vegar og 1.–19. janúar 2011 hins vegar. Um væri að ræða afturvirkar leiðréttingar vegna tekna í hlutastarfi og skuldin yrði innheimt á grundvelli 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hún væri ekki lengur skráð sem atvinnuleitandi. Kæranda var gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 266.579 kr. með 15% álagi að fjárhæð 39.987, samtals 306.566 kr. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru móttekinni 22. janúar 2012. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta 8. desember 2008.

 

Samkvæmt uppgefinni tekjuáætlun kæranda var hún í 50% starfshlutfalli hjá B. með áætlaðar 110.000 kr. á mánuði samhliða töku atvinnuleysisbóta. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komu þessar tekjur kæranda til frádráttar atvinnuleysisbótum hennar á tímabilinu. Tekjur kæranda samkvæmt launaseðlum hennar voru iðjulega hærri heldur en áætlaðar tekjur samkvæmt tekjuáætlun og safnaði kærandi upp skuld á sama tíma og hún fékk greiddar atvinnuleysistryggingar frá stofnuninni. Vinnumálastofnun skuldajafnaði því ofgreiddum atvinnuleysisbótum við því sem nam 25% af atvinnuleysisbótunum í hverjum mánuði á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum, sbr. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 16. mars 2011, að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur væri hafnað þar sem réttur hennar til atvinnuleysistrygginga skerðist að fullu þegar tekið var tillit til tekna af hlutastarfi hennar hjá B. Kæranda var síðan tilkynnt með bréfi, dags. 16. desember 2011, að ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. janúar 2009 til 19. nóvember 2010 og 1.–19. janúar 2011 næmu samtals 306.566 kr. með 15% álagi og að henni bæri að endurgreiða stofnuninni fjárhæðina á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru, móttekinni 23. janúar 2012, að hún hafi greint frá því í tölvupósti til starfsmanns Vinnumálastofnunar að þegar hún sótti um bætur hafi hún verið búin að ráða sig í 50% starf hjá B. en hún myndi taka alla þá aukavinnu sem hún gæti fengið. Þá hafi henni verið sagt að ef hún myndi senda launaseðlana sína um hver mánaðamót myndi hún fá það sem henni bæri. Af þeim sökum sé hún mjög ósátt við að fá kröfu um afturvirka leiðréttingu að fjárhæð 306.577 kr. Kærandi telur að ekki sé um mistök að ræða af hennar hálfu, hún hafi sent launaseðlana sína á faxi, hvort tveggja á greiðslustofuna á Skagaströnd og Vinnumálastofnun í Reykjavík. Greinilegt sé að launaseðlar hennar hafi ekki verið notaðir til að reikna út bætur til hennar.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 14. maí 2012, kemur fram að í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um frádrátt frá greiðslum atvinnuleysistrygginga vegna tekna umsækjanda. Í samræmi við 1. mgr. ákvæðisins hafi tekjur kæranda vegna starfa hennar hjá B. komið til frádráttar atvinnuleysisbótum á tímabilinu. Þar sem launaseðlar kæranda hafi iðulega borið með sér hærri launatekjur en tekjuáætlun gerði ráð fyrir hafi safnast upp skuld í greiðslukerfi stofnunarinnar á sama tíma og kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Ofgreiddum atvinnuleysisbótum hafi verið skuldajafnað að því sem nam 25% af atvinnuleysisbótunum í hverjum mánuði á móti síðar tilkomnum greiðslum í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Vinnumálastofnun greinir frá því að með bréfi, dags. 16. mars 2011, hafi kæranda verið tilkynnt um að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hafi verið hafnað þar sem réttur hennar til atvinnuleysistrygginga skerðist að fullu þegar tekið hafi verið tillit til tekna af hlutastarfi hennar hjá B., sbr. 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Eftirstöðvar skuldar kæranda hafi þá numið 266.579 kr. að viðbættu 15% álagi eða samtals 306.566 kr. Vinnumálstofnun telur að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt skýrum leiðbeiningum 39. gr. laganna beri atvinnuleitanda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur ásamt 15% álagi og beri kæranda því að endurgreiða fjárhæðina.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. maí 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 4. júní 2012. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda. 

 

 

2.

Niðurstaða


Mál þetta lýtur að því að kærandi fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 1. janúar 2009 til 19. nóvember 2010 og á tímabilinu 1.–19. janúar 2011

Í gögnum máls þessa liggur fyrir hverjar tekjur kæranda voru í starfi hennar hjá B á umræddum tímabilum.

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir:

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

 

Í greinargerð með ákvæðinu er áréttað að Vinnumálastofnun hafi heimildir samkvæmt því til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Sérstaklega er tekið fram að það eigi við í öllum tilvikum sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið hærri greiðslur en honum bar. Það er því tekið fram að ekki skipti máli hver ástæða þess er að hinn tryggði hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Með vísan til þessa eru engin rök til þess að fella niður skyldu kæranda til endurgreiðslu ofgreiddra bóta.


Í 17. og 22. gr., sbr. 32. og 34. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, er nákvæm útlistun á því hvernig reikna skuli þær hámarksbætur sem hinn tryggði getur átt rétt á úr sjóðnum. Kærandi fékk ofgreiddar bætur að fjárhæð 266.579 kr. á tímabilinu frá 1. janúar 2009 til 19. nóvember 2010 og á tímabilinu 1.–19. janúar 2011 og er sá útreikningur Vinnumálastofnunar ekki véfengdur. Með vísan til þeirra gagna og raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram í málinu verður fallist á þennan þátt hinnar kærðu ákvörðunar.


Það liggur fyrir í málinu að kærandi upplýsti Vinnumálastofnun um tekjur sínar með því að leggja fram launaseðla sína með reglubundnu millibili. Jafnframt er ljóst að launagreiðslur kæranda voru mun hærri en samkvæmt áætlun sem hún sjálf hafði lagt fram. Við útgreiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda miðaði Vinnumálastofnun við áætlunina en ekki við launaseðla kæranda. Þeirri fullyrðingu kæranda hefur ekki verið mótmælt að hún hafi frá öndverðu lagt á það áherslu að fá greiddar bætur eins og réttur sinn væri á hverjum tíma, þ.e. kærandi óskaði sérstaklega eftir því að fá ekki ofgreiddar atvinnuleysisbætur í hverjum mánuði. Með vísan til framangreinds og lokamálsliðar 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þykir rétt að fella niður 15% álag að fjárhæð 39.987 kr.

 


 

Úr­skurðar­orð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A sem tilkynnt var henni í bréfi, dags. 16. desember 2011, um endurkröfu ofgreiddra atvinnuleysisbóta á tímabilinu 1. janúar 2009 til 19. nóvember 2010 og 1.–19. janúar 2011 er staðfest. Ákvörðun um að henni beri að endurgreiða fjárhæðina með 15% álagi er hins vegar hafnað. Kærandi skal endurgreiða 266.579 kr.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum