Hoppa yfir valmynd
19. mars 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 61/2012

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 19. mars 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 61/2012.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Í innheimtubréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, A, dags. 16. desember 2011, kemur fram að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hjá stofnuninni hafi kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. janúar–19. september 2009 og að um sé að ræða afturvirkar leiðréttingar vegna hlutastarfs. Höfuðstóllinn sé 173.184 kr. en ásamt 15% álagi að fjárhæð 25.978 kr. sé heildarskuld kæranda við Vinnumálastofnun 199.162 kr. Kærandi vildi ekki una ákvörðuninni og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 30. mars 2012. Vinnumálastofnun telur að úrskurðarnefndinni beri ekki að taka stjórnsýslukæruna til meðferðar.

 

Samkvæmt samskiptasögu Vinnumálastofnunar var umsókn kæranda send 16. desember 2008 og má af því telja að hún hafi þá fyrst sótt um atvinnuleysisbætur. Í færslu 28. október 2009 er ritað í samskiptasöguna: „Fundur 1121 – Samkeyrsla júní 2009. Synjun – Skilar ekki gögnum. B Óuppgefnar tekjur 195612.“ Þann 28. janúar 2011 virðist vera farið yfir þessa stöðu máls kæranda aftur. Þann 16. desember 2011 er skráð í samskiptasögu og eins liggur fyrir bréf Vinnumálastofnunar, dagsett sama dag, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta ásamt 15% álagi með vísan til 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Þann 14. mars 2012 var mál kæranda sent Innheimtumiðstöðinni á Blönduósi til frekari innheimtu. Þann 30. mars 2012 hafði maki kæranda samband við Vinnumálastofnun og í kjölfarið barst úrskurðarnefndinni kæra dagsett sama dag.

 

Í kæru, dags. 30. mars 2012, kemur fram að kærandi hafi minnkað starfshlutfall sitt í lok ársins 2008 og þegið atvinnuleysisbætur í nokkra mánuði. Hún kveðst hafa fengið sent ítrekunarbréf frá sýslumanninum á Blönduósi 15. mars 2012. Kærandi hafði samband og hafi þá verið sagt að bréfið hafi verið sent 16. desember 2011. Kærandi kveðst aldrei hafa fengið það bréf.

 

Kærandi sé afar ósátt, um sé að ræða reikning upp á 199.162 kr. Kærandi kveðst ekki skilja að hægt sé að koma með svona gamla bakreikninga og setja svo vexti ofan á og spyr hvort ekki séu takmörk fyrir því hversu langt aftur í tímann sé hægt að sækja þetta.

 

Kærandi segist ekki muna eftir að hún hafi þegið atvinnuleysisbætur áður.

 

Kæranda finnist þetta afar óþægilegt og komi þetta sér mjög illa fyrir hana. Það hljóti einhver að vera ábyrgur fyrir þessu. Í lok ársins 2008 hafi kærandi verið umsjónarmaður í vinnunni sinni með hærri laun en þegar hrunið kom hafi hún misst það starf og lækkað í launum. Hún hafi getað tekið aukavaktir ef henni hentaði og auðvitað hafi hún gert það.

 

Kæranda hafi aldrei verið gerð grein fyrir því að hún gæti fengið bakreikning ef hún tæki aukavaktir. Máli sínu til stuðnings bendir kærandi á að það geti ekki verið eðlileg vinnubrögð að koma með bakreikninga þrjú til fjögur ár aftur í tímann. Það væri eðlilegt af Vinnumálastofnun að hún fengi ofgreiddar bætur fyrir til dæmis janúar, þá séu þær dregnar frá bótum í febrúar og svo koll af kolli.

 

Kærandi fer fram á að krafan verði felld niður að fullu og að litið verði á þetta sem mjög ósanngjarna kröfu.

 

Í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 20. júní 2012, kemur fram að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda hafi ákvörðun stofnunarinnar verið tilkynnt með bréfi, dags. 16. desember 2011. Í ljósi þess að kæra til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða sé dagsett 30. mars 2012 telur Vinnumálastofnun að þriggja mánaða kærufrestur sé liðinn og að vísa beri máli frá nefndinni, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 25. júní 2012, sent afrit af bréfi Vinnumálastofnunar og veittur frestur til 9. júlí 2012 að gera athugasemdir við það. Hinn 10. júlí 2012 barst úrskurðarnefnd afrit af kæru frá kæranda. Þann 16. júlí 2012 var kæranda sent afrit af gögnum sem nefndinni bárust frá Vinnumálastofnun og veittur frestur til 30. júlí til að gera frekari athugasemdir. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Meðal gagna málsins sem úrskurðarnefndinni hefur borist er afrit af innheimtubréfi til kæranda, sem dagsett er 16. desember 2011. Í bréfinu segir meðal annars: „Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hjá Vinnumálastofnun fékkst þú ofgreiddar atvinnuleysistryggingar á tímabilinu 01.01.09 – 19.09.09. Um er að ræða afturvirkar leiðréttingar vegna hlutastarfs. Skuld þín innheimtist hér með skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006, þar sem þú ert ekki lengur skráður sem atvinnuleitandi.“ Síðar segir: „Hafir þú athugasemdir við efni bréfs þessa eða vilt koma að andmælum og frekari skýringum er þér bent á að senda tölvupóst innan 14 daga frá dagsetningu bréfs þessa.“ Kærandi heldur því fram að henni hafi ekki borist framangreint bréf og að hún hafi ekki vitað af kröfu Vinnumálastofnunar fyrr en hún fékk bréf dagsett 15. mars 2012.

 

Úrskurðarnefndin hefur óskað eftir að fá afrit allra gagna vegna málsins frá Vinnumálastofnun. Engin önnur gögn eru til staðar í málinu en framangreint innheimtubréf. Því getur úrskurðarnefndin ekki með nokkru móti áttað sig á því hvort krafa Vinnumálastofnunar á hendur kæranda er réttmæt. Kæranda var ekki gefinn kostur á að tala máli sínu áður en ákveðið var að hefja formlegt innheimtuferli þrátt fyrir að fullt tilefni hafi verið til þess og með vísan til reglna stjórnsýslulaga.

 

Eins og mál þetta liggur fyrir er það mat úrskurðarnefndarinnar að réttlætanlegt sé að taka kæru kæranda til meðferðar þrátt fyrir að meira en þrír mánuðir hafi verið liðnir frá dagsetningu innheimtubréfs Vinnumálastofnunar til kæranda, þegar kærandi sendi kæru sína inn til úrskurðarnefndarinnar. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að við meðferð málsins hafi Vinnumálastofnun brotið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga með því að hafa ekki rannsakað málið nægilega þar sem engin gögn liggja fyrir um rannsókn stofnunarinnar. Þá var ekki gætt andmælaréttar kæranda auk þess sem ekki var gætt málshraðareglu stjórnsýsluréttarins. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun skuli felld úr gildi vegna margvíslegra ágalla við meðferð málsins eins og lýst er að framan.

 


 

Úr­skurðar­orð

Hin kærða ákvörðun í máli A er felld úr gildi.

 

 

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum