Hoppa yfir valmynd
5. mars 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 150/2011

Úrskurður

 

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 5. mars 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A í máli nr. 150/2011.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 1. september 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 31. ágúst 2011 fjallað um mál hans hjá stofnuninni. Tekin hefði verið sú ákvörðun að fella niður greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda í þrjá mánuði frá ákvörðunardegi, sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 59. gr., sbr. 61. gr., laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem kærandi hafi verið með tekjur vegna starfa samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 2. nóvember 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 10. janúar 2011.

 

Við samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra komu fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur kæranda vegna vinnu hjá B. og var kæranda sent bréf 13. júlí 2011 þar sem honum var tilkynnt um það. Í bréfinu var óskað eftir skriflegum skýringum á hinum ótilkynntu tekjum í apríl 2011. Með bréfi, dags. 5. ágúst 2011, óskaði stofnunin eftir upplýsingum um ótilkynntar tekjur í maí 2011. Engar skýringar bárust frá kæranda.

 

Í kæru sinni kveðst kærandi hafa farið í afleysingatúr hjá B. í júní 2011. Hann og kona hans hafi látið Vinnumálastofnun vita af því í gegnum netspjall og í síma hjá stofnuninni.

 

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 23. janúar 2012, vísar Vinnumálastofnun til 1. mgr. 59. gr., sbr. 61. gr., laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið er á um viðurlög við brotum á upplýsingaskyldu þeirra sem tryggðir eru samkvæmt þeim lögum.

 

Vinnumálastofnun bendir á að einnig sé mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysistrygginga í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistrygginga. Þar komi fram að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009 segi meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna“.

 

Vinnumálastofnun vísar einnig til 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt er fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar, en atvinnuleitanda beri skylda til þess að upplýsa Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem kunni að verða á högum hans eða annað sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

 

Vinnumálastofnun vísar einnig til 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið er á um þá skyldu atvinnuleitanda að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu atvinnuleitanda á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur.

 

Í kjölfar samkeyrslu Vinnumálastofnunar við gagnagrunn ríkisskattstjóra hafi komið fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur hjá kæranda frá B., fyrir apríl og maí 2011. Kærandi hafi hvorki skilað tilkynningu um störf hjá fyrirtækinu né um tekjur á tímabilinu. Af samskiptasögu kæranda megi sjá að Vinnumálastofnun hafi ekki borist upplýsingar um vinnu kæranda á þeim tíma sem um ræði. Í kæru til úrskurðarnefndarinnar segist kærandi hafa í júní 2011 farið í vinnu hjá B. og að hann ásamt konu hans hafi látið vita af vinnu. Það sé rétt að Vinnumálastofnun hafi borist tilkynning frá kæranda 14. júní 2011 vegna starfa hans hjá B í júní. Það að tilkynna tekjur í júní 2011 geti ekki réttlætt það að kærandi hafi vanrækt að tilkynna um tekjur frá fyrirtækinu í apríl og maí 2011. Verði því ekki séð að tilkynning kæranda frá júní 2011 hafi áhrif á niðurstöðu í máli hans. Jafnvel þótt kærandi hefði í júní 2011 tilkynnt um tilfallandi tekjur hjá B. í apríl og maí á sama ári yrði slík tilkynning of seint fram komin, sbr. 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Vinnumálastofnun segir að kærandi hafi í umrætt sinn látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atvik er haft hafi bein áhrif á rétt hans til greiðslu atvinnuleysistrygginga. Skuli kærandi því sæta biðtíma á grundvelli 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar sem kærandi hafi áður sætt biðtíma á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. ákvörðun Vinnumálastofnunar frá mars 2010, hafi ákvörðun stofnunarinnar ítrekunaráhrif, sbr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi skuli því sæta viðurlögum í formi þriggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysistryggingar frá dagsetningu ákvörðunar.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. janúar 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 8. febrúar 2012. Kærandi sendi frekari athugasemdir með tölvupósti, dags. 8. febrúar 2012.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 10. janúar 2011. Með bréfi, dags. 13. júlí 2011, var kæranda gerð grein fyrir því að við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra hafi komið fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur á kæranda vegna vinnu hjá B. Óskar var skriflegra upplýsinga um ótilkynntar tekjur í apríl 2011. Með öðru bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 5. ágúst 2011, var óskað eftir upplýsingum um ótilkynntar tekjur í maí 2011. Engar skýringar bárust frá kæranda, en í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 2. nóvember 2011, kemur fram hjá kæranda að hann hafi verið í vinnu hjá B. í júní 2011. Á grundvelli þessara upplýsinga var sú ákvörðun tekin að stöðvar greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda um tveggja mánaða skeið, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Þegar atvinnuleitandi sinnir tilfallandi vinnu, samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysisbóta, ber honum að upplýsa um slíkt fyrir fram, sbr. 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar. Brjóti atvinnuleitandi á þessu ákvæði kann hann að sæta viðurlögum skv. 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. til dæmis úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 7. desember 2010 í máli nr. 80/2010. Sinni atvinnuleitandi hlutastarfi, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur, kann hann einnig að sæta viðurlögum skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Viðurlög á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eru mun meira íþyngjandi en þau sem getið er í 59. gr. laganna.

 

Í ljósi þess að kærandi var í starfi, eftir að hann hóf töku atvinnuleysisbóta, og án þess að hann upplýsti fyrirfram um eðli þess starfs, verður að leggja til grundvallar að 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi fremur við í máli hans en 59. gr. laganna.

 

Leggja verður til grundvallar að hin kærða ákvörðun hafi verið reist á röngum lagagrundvelli, þ.e. beita átti fremur 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í málinu í stað 59. gr. laganna. Þar sem viðurlög skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eru afar íþyngjandi í garð atvinnuleitenda verður að veita þeim kost á að leita endurskoðunar á ákvörðun sem reist er á ákvæðinu. Af þessari ástæðu getur úrskurðarnefndin ekki afgreitt málið á þeim lagagrundvelli. Því verður hin kærða ákvörðun ómerkt og Vinnumálastofnun falið að taka málið til löglegrar meðferðar.

 


 

 

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 31. ágúst 2011 í máli A um niðurfellingu bótaréttar hans í tvo mánuði er ómerkt og málinu vísað aftur til Vinnumálastofnunar til löglegrar meðferðar.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúríksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum