Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 20/2012

Úrskurður

 

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 25. janúar 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 20/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 15. desember 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hún hafi verið við vinnu hjá ferðaþjónustunni B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, fyrir tímabilið frá 1. maí til 19. nóvember 2011 að fjárhæð samtals 1.005.774 kr. þegar hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði Pétur Steinn Guðmundsson hdl. hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða f.h. kæranda með erindi, dags. 6. febrúar 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 6. júní 2008.

 

Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda, með erindi dags. 24. nóvember 2011, að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að hún hefði verið í vinnu hjá ferðaþjónustufyrirtækinu B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Kærandi skilaði inn skýringum til Vinnumálastofnunar 28. nóvember 2011 þar sem fram kom að B væri fyrirtæki eiginmanns hennar og svaraði hún einstaka sinnum í símann fyrir hann án þess að um launað starf væri að ræða.

 

Kæranda var að hennar beiðni sendur rökstuðningur með bréfi, dags. 19. janúar 2012.

 

Af hálfu kæranda er þess krafist, fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og henni greitt það sem hún á rétt á samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Af hálfu kæranda er bent á að hún sé ekki starfsmaður félagsins B. Ferðaþjónustan B sé ekki til sem lögaðili og geti því ekki haft starfsfólk. Gera verði þá lágmarkskröfu til Vinnumálastofnunar að meintur vinnuveitandi sé almennt til og geti sem slíkur haft hæfi til greiðslu launa. Netsíðuna B eigi eiginmaður kæranda. Þær tilvísanir sem komi fram í greinargerð Vinnumálastofnunar og tengist framangreindri vefsíðu séu hreinar getgátur, algerlega án nokkurs rökstuðnings. Fullyrðing Vinnumálastofnunar þess efnis að sönnun felist í því að rússneskir ríkisborgarar skuli nota vefsíðu eiginmanns kæranda til tjáskipta og þakki fyrir samskipti sé með ólíkindum. Þá sé sú tilvísun Vinnumálastofnunar að sönnun finnist á meintu broti á lögum þar sem bloggað sé á vefsíðu kæranda að hún sé „sál fyrirtækisins“ langt frá öllum raunveruleika. Í öllum tilfellunum séu engin rök eða sönnun fyrir þeirri fullyrðingu vinnumálastofnunar að kærandi hafi brotið gegn ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Það að símanúmer kæranda sé á vefsíðu leiði ekki til þess að hún hafi brotið gegn lögum. Hún hafi ekki yfirráð yfir síðunni heldur eiginmaðurinn. Hún svari endrum og sinnum í síma þegar eiginmaður hennar er utan þjónustusvæðis, en hún starfi ekki hjá fyrirtækinu og fái ekki greidd þar laun.

 

Kærandi telur að 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi ekki við um hana. Ekki sé grundvöllur fyrir þeim ásökunum sem Vinnumálastofnun hafi lagt fram og úrskurðað um.

 

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 21. maí 2012, bendir Vinnumálastofnun á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Mál þetta varði viðurlög vegna brota á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt skv. 35. gr. a eða 10. gr. laganna.

 

Með lögum nr. 134/2009 um breytingar á atvinnuleysistryggingar hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laganna. Verknaðarlýsing lagagreinarinnar geri grein fyrir því hvaða atvik geta leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins er beitt. Segi í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009, að meðal annars komi til greina að beita viðurlögum á grundvelli ákvæðisins þegar atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða 35. gr. a laganna.

 

Bent er á 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem fram kemur að sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum skuli tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit. Jafnframt áréttar Vinnumálastofnun ákvæði 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem sú skylda sé lögð á þá sem tryggðir eru samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu á þeim tíma er sá tryggði fær greiddar atvinnuleysisbætur, eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

 

Í 13. gr. laganna segi að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistrygginga að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laganna sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Það sé ljóst að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, hvort sem hann þiggi laun fyrir eður ei.

 

Af gögnum málsins megi ráða að kærandi hafi verið í starfi hjá ferðaþjónustunni B á sama tíma og hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Helstu gögn málsins hafi verið tekin af heimasíðunni B en þar megi sjá í umsögnum viðskiptavina ferðaþjónustunnar að þeir séu þakklátir fyrir þjónustu kæranda. Ein umsögnin sá á þá leið að kærandi sé „sál fyrirtækisins“. Jafnframt sé nafn kæranda og farsímanúmer gefið upp í tengiliðum á heimasíðunni. Kærandi hafi ekki tilkynnt um þessar breytingar á högum sínum til stofnunarinnar en rík skylda hvíli á þeim sem njóti greiðslna atvinnuleysisbóta að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar sem geti ákvarðað bótarétt viðkomandi.

 

Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt eða tilkynningu um tekjur, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja kæranda hafa brugðist skyldum sínum og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt. Jafnframt er kæranda gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr. laganna fyrir tímabilið 1. maí til 19. nóvember 2011 að fjárhæð 1.005.774 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. maí 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 6. júní 2012. Fresturinn var síðar framlengdur til 4. júlí 2012. Lögmaður kæranda sendi bréf með frekari athugasemdum, dags. 4. júlí 2012.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, en hún er svohljóðandi:

 

Sá sem veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði a innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39.gr.

 

Þessu ákvæði var bætt við lög um atvinnuleysistryggingar með 23. gr. laga nr. 134/2009. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að síðarnefndu lögunum var ákvæðið skýrt nánar. Þar kom meðal annars fram að beita ætti ákvæðinu í þrenns konar tilvikum, í fyrsta lagi þegar atvinnuleitandi veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögunum, í öðru lagi þegar atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna og í þriðja lagi þegar atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu, sbr. nú 35. gr. a.

 

Helsti tilgangur 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er að tryggja að atvinnuleitendur veiti réttar upplýsingar um hagi sína í atvinnumálum og upplýsi um breytingar sem á þeim kunna að verða. Með þessu á meðal annars að sporna gegn „svartri atvinnustarfsemi“.

 

Eiginmaður kæranda rekur ferðaþjónustu á netinu sem ber heitið B. Nafn kæranda og farsímanúmer hennar var gefið upp sem tengiliður á heimasíðu fyrirtækisins. Á sömu heimasíðu má sjá í umsögnum viðskiptavina ferðaþjónustunnar að þeir séu þakklátir fyrir þjónustu kæranda og er ein umsögnin þannig að kærandi sé „sál fyrirtækisins“. Af framangreindu má ráða að kærandi hafi lagt vinnu af mörkum í þágu ferðaþjónustunnar. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða telur því að beita beri 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á þeim grundvelli að kærandi hafi starfað á vinnumarkaði á sama tíma og hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit væri hætt.

 

Þá ber kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, fyrir tímabilið frá 1. maí til 19. nóvember 2011 að fjárhæð samtals 1.005.774 kr. með 15% álagi þegar hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.


 

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 15. desember 2011 í máli A þess efnis að synja skuli kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta og hún skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.

 

Kærandi skal endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, að fjárhæð samtals 1.005.774 kr.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Málið var endurupptekið og úrskurðað á ný þann 17. febrúar 2015

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum