Hoppa yfir valmynd
8. janúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 7/2012

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 8. janúar 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A í máli nr. 7/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 20. september 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 15. september 2011 fjallað um rétt kæranda til atvinnuleysisbóta. Umsóknin var samþykkt en með vísan til starfsloka hjá B. var réttur kæranda til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá 10. janúar 2012. Vinnumálastofnun tók ákvörðun þessa á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 11. nóvember 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 1. september 2011.

 

Samkvæmt vottorði vinnuveitenda, dags. 1. september 2011, starfaði kærandi hjá B. frá 1. júní 2010 til 31. ágúst 2011 í 100% starfi. Kærandi sagði sjálfur starfi sínu lausu hjá B. Hann greinir frá því í bréfi sínu til Vinnumálastofnunar, sem barst 6. september 2011, að ástæða þess hafi verið sú að honum hafi boðist vinna hjá C. Hann hafi því sagt upp starfi sínu hjá B. í þeim tilgangi að fara í vinnu hjá C. Í bréfi kæranda kemur einnig fram að næstsíðasta starfsdag hans hjá B. hafi verið hringt í hann frá C. og honum tilkynnt að hætt væri við ráðningu, en þá hafi þegar verið búið að ráða annan mann í stöðu hans hjá B.

 

Í bréfi B. til Vinnumálastofnunar, dags. 21. október 2011, kemur fram að kærandi hafi gefið þá skýringu á uppsögn sinni að honum hefði boðist starf á betri kjörum hjá C. frá og með 1. september 2011 og að hann vildi reyna fyrir sér á nýjum vettvangi.

 

Í bréfi C., dags. 21. október 2011, kemur fram að fósturfaðir kæranda hafi falast eftir vinnu fyrir hann. Hafi kærandi verið fenginn í viðtal og honum tjáð að hann gæti komið á tilteknum degi og málið yrði skoðað frekar. Bréfritari tekur fram að honum hafi ekki verið kunnugt að kærandi væri í vinnu og hygðist segja því starfi upp, heldur talið víst að hann væri atvinnulaus. Bréfritari hafi síðan leitað upplýsinga um kæranda frá fyrri vinnuveitendum og hafi fengið upplýsingar um hann sem hafi verið þess eðlis að ekki kæmi til greina að ráða hann til vinnu.

 

Kæranda var með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 6. september 2011, gefinn kostur á að koma afstöðu sinni, varðandi ástæður uppsagnarinnar, skriflega á framfæri við stofnunina. Kærandi óskaði eftir endurupptöku málsins og kvað Vinnumálastofnun upp nýjan úrskurð 7. nóvember 2011, þar sem fyrri úrskurður stofnunarinnar frá 15. september 2011, var staðfestur. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi á ákvörðun Vinnumálastofnunar á grundvelli 21. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og var hann veittur með bréfi, dags. 21. desember 2011.

 

Kærandi kveður vera ósamræmi milli skýringa C. og þess sem hann muni. Hann hafi farið í viðtal og síðan hafi honum verið boðið að prófa, en það hafi hann ekki getað gert þar sem hann hafi verið í annarri vinnu á þeim tíma og hafi hann í kjölfarið verið spurður hvenær hann gæti losnað. Viðtalið hafi farið fram 8. ágúst 2011 og hafi C viljað fá hann til að prófa 24. ágúst 2011 en hann hafi komið því á framfæri að hann myndi ekki losna úr vinnu fyrr en 31. ágúst 2011. Hafi C sagst mundu hafa samband við hann um mánaðamótin, hann hafi sjálfur haft samband 30. ágúst 2011 og þá hafi honum verið sagt að ekkert yrði af ráðningu. Þá hafi verið búið að ráða í hans stöðu hjá B. eins og fram hefur komið.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinumarkaðsaðgerða, dags. 17. apríl 2012, er vísað til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og bent á að til umfjöllunar sé hvort kærandi hafi sagt starfi sínu lausu hjá B. af gildum ástæðum í skilningi lagagreinarinnar. Orðalagið „gildar ástæður“ hafi verið túlkað þröngt og hafi fá tilvik verið talin falla þar undir. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar segi meðal annars að það sé erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða aðstæður liggi að baki ákvörðun þess að fólk segi störfum sínum lausum séu gildar, þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Því hafi verið lagt til að lagareglan yrði matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

 

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að svo ástæður fyrir uppsögn séu gildar í tilvikum sem atvinnuleitandi segi starfi sínu lausu til að hefja störf á öðrum stað, telji Vinnumálastofnun að atvinnuleitandi þurfi að hafa tryggt sér annað starf áður en hann segi upp sínu fyrra starfi. Það að atvinnuleitandi hafi farið í atvinnuviðtal og einungis verið boðaður til að koma aftur og skoða málið frekar telji stofnunin ekki gilda ástæðu fyrir að atvinnuleitandi segi upp starfi sínu. Vinnumálastofnun telji að kæranda hafi mátt vera það ljóst að boð um að mæta og skoða málið frekar jafngildi því ekki að kærandi hafi verið kominn með nýtt starf í kjölfar uppsagnar á fyrra starfi.

 

Vinnumálastofnun bendir á að kærandi tiltaki í kæru sinni nýjar ástæður fyrir því að hann hafi sagt starfi sínu lausu. Tiltaki hann að vinnuaðstæður séu slæmar, þar sé mikill hiti og hávaði og að hann hafi áhyggjur af heilsu sinni þar sem hann sé mikið einsamall. Það sé mat Vinnumálastofnunar að launamaður sem telji vinnuaðstæður sínar óviðunandi skuli leita til vinnuveitanda síns varðandi betri vinnuaðstöðu og ef slíkt skili ekki árangri skuli leitað til Vinnueftirlitsins og stéttarfélags launamanns áður en sagt sé upp starfi. Í tilfelli kæranda sé ekki að finna að hann hafi gert reka að því að fá bætt úr aðstöðu sinni á vinnustað áður en hann sagði starfi sínu lausu og því teljist þessar ástæður kæranda ekki gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. apríl 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 7. maí 2012. Kærandi sendi skýringarbréf með tölvupósti 7. maí 2012.

 

 

 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 17. gr. laga nr. 134/2009, en hún er svohljóðandi:

 

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

 

Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur. Í skilningi 1. mgr. 54. gr. er orðalagið „gildar ástæður“ skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir.

 

Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar segir að nefnd er fjallaði um efni laganna hafi tekið afstöðu til þess hvað gætu talist gildar ástæður og komist að þeirri niðurstöðu að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega slíkar ástæður í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagaregla þessi verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun sé þar með falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falli að umræddri reglu. Stofnuninni beri því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

 

Kærandi sagði sjálfur upp starfi sínu hjá B. Í kæru kæranda til úrskurðarnefndarinnar segir: „Ástæða uppsagnar er sem fyrr segir að skipta um starf en réttara væri að íhuga ástæður starfaskipta. Ástæður starfaskipta voru þær að ég hafði áhyggjur af heilsufari vegna vinnu hjá B er mikill hiti og hávaði vegna tækja og í fyrsta skiptið sem ég var að vinna í hita (inni). Aðrar vinnur sem ég hef unnið voru annaðhvort úti eða í kælum/frystum. Þá veiktist ég meira en venjulega (loftgæði eru aðalorsök veikinda) og svo má líka nefna ég hafði áhyggjur af andlegri heilsu enda var ég oftast einsamall (m/heyrnarhlífar) í endurtekinni framleiðsluvinnu og var við það að fara á taugum vegna leiðinda, pirrings og andlegrar þreytu sem því fylgir.“ Um ástæður þess að kærandi var ekki ráðinn hjá C. segir kærandi: „Svolítið ósamræmi er milli skýringa C og þess er ég man um þetta viðtal. Rétt er það að fósturfaðir minn hafi falast eftir vinnu hjá þeim...og rétt er það að ég fór í viðtal hjá þeim en aftur á móti var ég ekki boðaður í annað viðtal heldur var mér boðið að prófa, eitthvað sem ég gat ekki gert meðan ég væri í vinnu og svo hafði ég tjáð honum að ég hafi verið í vinnu á þeim tíma...svo er það annað: viðtalið var 8.8.11 og hann vildi fá mig til að prófa 24.8.11 en ég sagðist ekki losna úr núverandi vinnu fyrr en 31.5.11.“

 

Með ofangreindri lýsingu sinni staðfestir kærandi að hann hafi sagt upp starfi sínu hjá B. án þess að hafa tryggt sér annað starf. Lýsing kæranda á samskiptum hans við C. er nákvæmlega samhljóða lýsingu fyrirtækisins í bréfi sem liggur fyrir hjá úrskurðarnefndinni en þar segir: „Til mín kom í morgun A og óskaði eftir að ég sendi ykkur skýringu á því hvers vegna C réði hann ekki til starfa í sumar eins og til stóð. Þannig er mál með vexti að fósturfaðir hans hafði samband við okkur nokkrum sinnum í sumar og var að falast eftir vinnu fyrir A. Við síðan ákváðum að skoða það mál frekar án þess að þekkja nokkuð til A og fáum hann hingað í viðtal. Ég segi við hann að hann geti komið á tilteknum degi og við skoðað málið frekar. Á þeim tíma vissi ég ekki að hann væri í vinnu og hygðist segja upp því starfi, taldi víst að hann væri atvinnulaus. Ég leita síðan upplýsinga um A frá fyrri vinnuveitendum og fæ um hann upplýsingar sem voru þess eðlis að ekki kom til greina að okkar hálfu að ráða hann til vinnu. Við létum þá fósturfaðir hans vita að af ráðningu A yrði ekki.“

 

Kærandi sagði upp starfi sínu án þess að hafa tryggt sér annað starf. Ekki er unnt að fallast á þau sjónarmið kæranda að ástæður hans fyrir uppsögn hjá B. hafi verið af gildum ástæðum þar sem það er mat úrskurðarnefndarinnar að það geti ekki talist „gildar ástæður“ uppsagnar að einstaklingur sé að leita sér að nýju starfi. Hin kærða ákvörðun var rétt og í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Ber því að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar í tvo mánuði.

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 28. október 2011 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er staðfest.

 

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúríksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum