Hoppa yfir valmynd
18. desember 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 185/2011

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 18. desember 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 185/2011.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 15. desember 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, um ákvörðun sína frá 14. desember 2011 þess efnis að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta á grundvelli þess að 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, væri ekki uppfyllt. Samkvæmt g-lið 14. gr. laganna væri það skilyrði fyrir því að teljast tryggður á grundvelli laganna að atvinnuleitandi ætti ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann væri í virkri atvinnuleit, en kærandi var að vinna sem verktaki hjá B. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 21. desember 2011. Kærandi krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til 60% atvinnuleysisbóta á tímabilinu frá 7. nóvember til 14. desember 2011. Vinnumálastofnun telur ákvörðun stofnunarinnar vera rétta.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 7. nóvember 2011. Í umsókn kæranda kemur fram að hann sé í 40% starfi hjá B. Við afgreiðslu umsóknar kæranda hjá Vinnumálastofnun kom í ljós að kærandi starfaði sem verktaki hjá B á eigin kennitölu og féll því undir skilgreiningu á sjálfstætt starfandi einstaklingi, sbr. b-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Í kæru sinni, dags. 21. desember 2011, greinir kærandi frá því að hann hafi sinnt 40% verktakastarfi sínu hjá B samhliða öðrum störfum án þess að það hafi haft áhrif á þau. Umsókn hans hafi einungis verið miðuð við 60% starfshlutfall. Kærandi telur að hann uppfylli öll skilyrði fyrir því að vera í virkri atvinnuleit. Kærandi greinir frá því að tildrög starfs hans hjá B hafi verið þau að í desember 2008 hafi hann verið atvinnulaus og boðist 40% starf hjá B sem hann hafi gegnt með öðrum störfum síðan. Kærandi krefst þess að viðurkennt verði að hann eigi rétt á 60% atvinnuleysisbótum það tímabil sem hann sannanlega hafi ekki verið í starfi, þ.e. tímabilið 7. nóvember til 14. desember 2011.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinumarkaðsaðgerða, dags. 15. mars 2012, er bent á að í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um hvað teljist virk atvinnuleit í skilningi laganna. Í
g-lið ákvæðisins komi fram að atvinnuleitandi megi ekki eiga rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann teljist vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við.

 

Vísar stofnunin til þess að skv. b-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum er gert að standa skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns sem sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laganna.

 

Einnig er vísað til þess að í 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Samkvæmt f- og
g-liðum ákvæðisins þurfi atvinnuleitandi að hafa stöðvað rekstur og lagt fram staðfestingu um stöðvun reksturs til að geta átt rétt á greiðslum. Í 20. og 21. gr. laganna sé svo frekar mælt fyrir um hvað felist í staðfestingu á stöðvun rekstrar.

 

Af framangreindu telur Vinnumálastofnun ljóst að heimild til greiðslu atvinnuleysistrygginga til atvinnuleitanda sé meðal annars háð því að viðkomandi sé ekki með opinn rekstur þann tíma sem hann þiggur atvinnuleysisbætur.

 

Vinnumálastofnun bendir á 17. og 22. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt er fyrir um greiðslur samhliða minnkuðu starfshlutfalli og um hlutastörf atvinnuleitanda. Stofnunin bendir á að heimild 22. gr. laganna um hlutastörf sjálfstætt starfandi einstaklinga sé háð því að hinn tryggði ráði sig til starfa sem launamaður í skilningi a-liðar 3. gr. laganna. Þá bendir stofnunin á að með þessu hafi löggjafinn valið að gera greinarmun á réttarstöðu launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga enda sé nokkur eðlismunur á aðstæðum þeirra. Vinnumálastofnun vekur athygli á að hvorki sjálfstætt starfandi einstaklingar né launamaður í skilningi 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar uppfylli skilyrði laganna, hefji hann rekstur eða heldur áfram rekstri samhliða töku atvinnuleysisbóta.

 

Vinnumálastofnun upplýsir að með lögum nr. 131/2008, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, og lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðarsjóð launa, hafi, fram til 31. desember 2011, verið í gildi bráðabirgðaákvæði VI sem veitti sjálfstætt starfandi einstaklingum færi á að rækja störf sín án þess að hætta rekstri. Þegar framangreindu ákvæði hafi sleppt hafi almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar tekið við og þ.m.t. fyrrgreind skilyrði f- og g-liða 18. gr. laganna um að rekstur hafi verið stöðvaður. Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun að synja beri umsókn kæranda og að ákvörðun stofnunarinnar frá 15. desember 2011 skuli standa.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. mars 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 2. apríl 2012. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. mars 2012, var kærandi látinn vita um tafir á afgreiðslu málsins vegna gríðarlegs fjölda kærumála hjá úrskurðarnefndinni.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Kærandi hefur unnið sem verktaki á eigin kennitölu við ráðgjöf og sölu vátrygginga fyrir B, samkvæmt samningi þar að lútandi, dags. 29. maí 2009. Hann kveðst vera í 40% starfshlutfalli hjá B. Samkvæmt b-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar telst hver sá vera sjálfstætt starfandi einstaklingur sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum fjármálaráðherra, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns. Kærandi telst því vera sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og var honum synjað um 60% atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 7. nóvember til 14. desember 2011, en á þeim tíma var hann eingöngu í 40% starfi hjá B sem verktaki.

 

Samkvæmt g-lið 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar telst sá vera í virkri atvinnuleit sem uppfyllir það skilyrði að eiga ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði nema ákvæði 17. gr. eða 22. gr. laganna eigi við. Samkvæmt 22. gr. laganna er sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem missir starf sitt, en ræður sig sem launamaður til starfa í minna starfshlutfall, hlutfallslega tryggður samkvæmt lögunum.

 

Í 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er gerð grein fyrir almennum skilyrðum þess að sjálfstætt starfandi einstaklingur geti fengið atvinnuleysisbætur. Samkvæmt f- og g-liðum 18. gr. þarf atvinnuleitandi að hafa stöðvað rekstur og lagt fram staðfestingu á stöðvun reksturs til að geta átt rétt á slíkum bótum. Skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta til atvinnuleitenda er því háð því að viðkomandi einstaklingur sé ekki með opinn rekstur þann tíma sem hann þiggur atvinnuleysisbætur.

 

Í bráðabirgðaákvæði VI með lögum um atvinnuleysistryggingar var Vinnumálastofnun veitt heimild til að greiða atvinnuleysisbætur til sjálfstætt starfandi einstaklinga þrátt fyrir að ekki væri búið að stöðva rekstur. Var sjálfstætt starfandi einstaklingum þó gert að tilkynna skattyfirvöldum um verulegan samdrátt í rekstri sínum og heimilt að taka að sér tilfallandi verkefni samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir allt að 100.000 kr. á mánuði án þess að til kæmi skerðing á greiðslum atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. laganna. Framangreint bráðabirgðaákvæði gilti til 31. desember 2011. Fyrir liggur að aðstæður kæranda falla ekki að nefndu bráðabirgðaákvæði og því gilda almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar um hann. Samkvæmt f- og g-lið 18. gr. laganna er það skilyrði laganna að rekstur hafi verið stöðvaður og var Vinnumálastofnun því ekki heimilt að greiða kæranda atvinnuleysisbætur á meðan rekstur hans var opinn.

 

Með vísan til ofangreinds, og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, þá verður hún staðfest.


 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 15. desember 2011 um að synja umsókn A um 60% atvinnuleysisbætur frá og með 7. nóvember 2011 er staðfest.

 

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúríksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum