Hoppa yfir valmynd
5. desember 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 179/2011

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 5. desember 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 179/2011.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 31. október 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 28. október 2011 fjallað um fjarveru kæranda á boðað námskeið á vegum Vinnumálastofnunar. Vegna fjarveru kæranda var réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði frá og með 28. október 2011. Ákvörðun stofnunarinnar var tekin á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Mál kæranda var tekið fyrir að nýju á fundi Vinnumálastofnunar 1. desember 2011 og með bréfi stofnunarinnar, dags. 5. desember 2011 var kæranda tilkynnt um að ákvörðun um tveggja mánaða biðtíma hefði ekki verið breytt. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 19. desember 2011, og krefst þess að ákvörðunin verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 28. október 2008.

 

Með bréfi, dags. 26. september 2011, boðaði Vinnumálastofnun kæranda á Dale Carnegie námskeið. Í bréfinu var vakin sérstök athygli á því að það gæti valdið niðurfellingu á greiðslum atvinnuleysisbóta ef atvinnuleitandi hafnaði úrræðum Vinnumálastofnunar eða sinnti ekki mætingarskyldu á námskeiðið. Kæranda var einnig sent umrætt bréf í tölvupósti 29. september 2011. Námskeiðið var haldið á mánudögum á tímabilinu frá 3. október til 21. nóvember 2011. Kærandi mætti ekki fyrsta mánudaginn vegna veikinda en mætti 10. október 2011. Í kjölfarið lét kærandi Vinnumálastofnun vita að hann gæti ekki setið námskeiðið og var kæranda bent á að senda inn skriflegar skýringar vegna þess.

 

Kærandi sendi skýringarbréf, dags. 11. október 2011, til Vinnumálastofnunar. Í skýringarbréfinu kemur fram að ástæða þess að kærandi hafi ekki getað setið námskeiðið sé vegna þess að hann sé haldinn félagsfælni og námskeiðið hafi verið of mikið fyrir hann.

 

Í kæru, dags. 19. desember 2011, greinir kærandi frá því að hann hafi beðið um að fá að fara af námskeiðinu vegna þess hversu illa honum leið. Hann hafi sent inn skriflegar skýringar og vottorð frá B barnageðlækni sem hafi verið læknirinn hans frá átta ára aldri. Í vottorðinu komi fram að hann sé haldinn félagsfælni. Í desember hafi hann svo einnig skilað inn starfshæfnisvottorði til Vinnumálastofnunar. Kærandi greinir frá því að Dale Carnegie námskeið sé mjög erfitt fyrir þá sem eru félagsfælnir. Þá hafi honum verið tjáð að hann yrði boðaður á annað námskeið sem enn hafi ekki orðið af.

 

Í læknisvottorði, dags. 12. desember 2011, kemur fram að kærandi hafi átt við ákveðin fælnis-einkenni að etja sem gæti gert honum erfitt fyrir á mjög fjölmennum vinnustöðum. Að öðru leyti sé hann vinnufær.

 

Í greinargerð Vinnumálstofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 20. mars 2012, kemur fram að mál þetta lúti að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en þar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgt hafi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. skýrt nánar. Þar komi fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

 

Vinnumálastofnun bendir á að skv. g-lið 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem standa til boða. Í 13. gr. laga um vinnumarkaðsúrræði, nr. 55/2006, komi einnig fram skylda þess sem telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun býður upp á.

 

Vinnumálstofnun greinir frá því að kærandi hafi verið boðaður á námskeið hjá Dale Carnegie og hafi stofnuninni ekki verið kunnugt um skerta vinnufærni hans. Í umsókn hans um atvinnuleysisbætur sé ekki minnst á félagsfælni kæranda eða að það gæti skert möguleika hans á að taka almennum störfum eða þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum.

 

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal umsækjandi um atvinnuleysisbætur taka fram á umsókn sinni allar þær upplýsingar sem varða vinnufærni hans. Þá skal sá er fær greiddar atvinnuleysisbætur upplýsa Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna. Enn fremur segi í 2. mgr. 14. gr. laganna að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.

 

Vinnumálastofnun bendir á að í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segi meðal annars að kveða þurfi á um „skyldu hins tryggða til að veita Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar með umsókn um atvinnuleysisbætur, svo sem hvort hann geti ekki unnið tiltekin störf vegna heilsu sinnar ásamt vottorði sérfræðilæknis því til stuðnings, sbr. 4. mgr., til að unnt sé að aðstoða hann við að fá starf við hæfi og gefa viðkomandi kost á að fá starf við hæfi og gefa viðkomandi kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum þegar í upphafi“. Segi þar enn fremur að „láti hinn tryggði hjá líða að upplýsa stofnunina um atriði er skipt geta máli um tækifæri hans til að verða aftur virkur á vinnumarkaði getur það varðað tímabundnum missi atvinnuleysisbóta, sbr. 59. gr. frumvarpsins“. Enda geti það verið mjög þýðingarmikið að réttar upplýsingar liggi fyrir, meðal annars svo unnt sé í samræmi við vinnufærni hins tryggða að bjóða honum vinnumarkaðsaðgerðir og starfstengd úrræði við hæfi.

 

Þá vísar Vinnumálstofnun í 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um ef látið er hjá líða að veita upplýsingar eða látið hjá líða að tilkynna um breytingar á högum. Vinnumálstofnun telur ljóst að samkvæmt upplýsingum frá kæranda að ástæður þær er liggja fyrir höfnun á framangreindu vinnumarkaðsúrræði voru til staðar er kærandi sótti atvinnuleysisbætur 22. október 2008. Hafði hann ekki upplýst um skerta vinnufærni sína og var Vinnumálastofnun fyrst ljóst um ofangreind atriði eftir að kærandi hafnaði námskeiði hjá Dale Carnegie. Læknisvottorð það sem kærandi leggi fram sé gefið út eftir að hann hafnaði vinnumarkaðsúrræði og óskað var eftir skýringum frá honum. Þar sem Vinnumálstofnun hafði ekki verið upplýst um skerta vinnufærni kæranda og þar sem ekkert var skráð í umsóknum hans sem gaf til kynna annað en hann væri fullfær til vinnu, leggi Vinnumálstofnun ekki annað til grundvallar en að kærandi hafi hafnað vinnumarkaðsaðgerðum sökum skertrar vinnufærni enda upplýsingar þess efnis of seint fram komnar. Vinnumálstofnun telur því að ástæða höfnunarinnar sé ekki gildar í skilningi 1. mgr. 58. gr., sbr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Vinnumálastofnun greinir frá því að samkvæmt bréfi stofnunarinnar frá 5. desember 2011 sé ákvörðun í máli kæranda tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr., sbr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með vísan til ofangreindra atriða telur Vinnumálastofnun að rétt hafi verið að vísa einnig til 59. gr. laganna í þessu bréfi. Vinnumálastofnun telur að í ljósi þess hversu rík skylda hvílir á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum að skýring kæranda geti ekki réttlætt fjarveru hans á framangreindu námskeiði og að með fjarveru sinni hafi kærandi brugðist skyldum sínum skv. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Með vísan til framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að greiðslur atvinnuleysisbóta skuli fyrst hefjast þegar kærandi hefur verið skráður hjá Vinnumálastofnun án greiðslna atvinnuleysistrygginga í tvo mánuði frá 28. október 2011, að því gefnu að hann uppfylli öll almenn skilyrði laga um atvinnuleysistrygginga á sama tíma.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. mars 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 13. apríl 2012. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. mars 2012, var kærandi látinn vita um tafir á afgreiðslu málsins vegna gríðarlegs fjölda kærumála hjá úrskurðarnefndinni.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 21. gr. laga nr. 134/2009, en hún er svohljóðandi:

 

Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.

 

Í athugasemdum við 58. gr. með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og þeir sem tryggðir eru samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Sé litið svo á að hinum tryggðu sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist þeir þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

 

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir eru vinnumarkaðsúrræði meðal annars einstök námskeið, svo sem námskeið um gerð starfsleitaráætlunar eða sjálfstyrkingu og námskeið til að bæta tiltekna færni. Samkvæmt 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 4. gr. laga nr. 134/2009, er virk atvinnuleit skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta til atvinnuleitanda. Til að geta talist vera í virkri atvinnuleit þarf umsækjandi að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða. Í 3. mgr. 13. gr. er kveðið á um heimild til handa Vinnumálastofnun til þess að boða atvinnuleitanda til stofnunarinnar með sannanlegum hætti og skal atvinnuleitandi vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.

 

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi hætti eftir annan dag námskeiðsins en hann hafði boðað forföll fyrsta daginn sem námskeiðið var haldið. Samkvæmt gögnum málsins tjáði kærandi fulltrúa Vinnumálastofnunar frá því sama dag og hann hætti að hann treysti sér ekki til að halda áfram á námskeiðinu. Í tölvupósti sem kærandi sendi daginn eftir kemur fram að hann sé með félagsfælni. Kærandi hefur lagt fram læknisvottorð og starfshæfnisvottorð til nánari skýringar á því af hverju hann hætti á námskeiðinu. Eru vottorðin gefin út eftir að kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta og eftir að hann hætti á umræddu námskeiði.

 

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal umsækjandi setja í umsókn um atvinnuleysisbætur allar þær upplýsingar er varða vinnufærni hans og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum. Í umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur, dags. 22. október 2008, kemur fram að hann sé almennt vinnufær og að hann sé ekki með skerta vinnufærni. Í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. gr. laga nr. 159/2010, er kveðið á um þá skyldu atvinnuleitanda að tilkynna Vinnumálastofnun um breytingar á vinnufærni eða aðstæðum að öðru leyti, þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar.

 

Þá er 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 22. gr. laga nr. 134/2009 og 3. gr. laga nr. 153/2010, svohljóðandi:

 

Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

 

Kærandi hafði ekki upplýst fyrirfram um skerta vinnufærni sína eins og honum bar að gera skv. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ef slíkar ástæður væru til staðar. Fram kemur í læknabréfi B, dags. 14. desember 2011, að kærandi hafi átt við ákveðin fælniseinkenni að etja sem gætu gert honum erfitt fyrir á mjög fjölmennum vinnustöðum, en að öðru leyti sé hann vinnufær. Kæranda láðist að upplýsa fyrirfram um þessa erfiðleika sína og ekkert lá fyrir um það að kærandi væri ekki fullfær til almennrar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og að hann uppfyllti að öðru leyti skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Í ljósi þess sem að framan er ritað og með vísan til rökstuðnings Vinnumálastofnunar að öðru leyti verður ekki talið að skýring kæranda fyrir því að hann hætti á námskeiðinu réttlætti það að hann hætti á því. Af þeim sökum ber að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar kæranda í tvo mánuði með vísan til 1. mgr. 58., sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.



Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 1. desember 2011 í máli A

um niðurfellingu bótaréttar kæranda í tvo mánuði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum