Hoppa yfir valmynd
23. október 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 144/2011

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 23. október 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 144/2011.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 30. ágúst 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 29. ágúst 2011 fjallað um höfnun hans á atvinnutilboði. Vegna höfnunarinnar var bótaréttur kæranda felldur niður frá og með degi ákvörðunar þann 29. ágúst 2011 í þrjá mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sbr. 61. gr. sömu laga, enda hafði kærandi hætt í námi 20. mars 2009 og var því um ítrekunaráhrif að ræða. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 19. október 2011. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 12. mars 2009. Þann 20. mars 2009 var kæranda sent frestunarbréf og hann settur á 40 daga bið eftir atvinnuleysisbótum þar sem hann hætti í námi. Hinn 14. október 2010 var kærandi boðaður í ferilskrárgerð á vegum Vinnumálastofnunar og var boðunin send á netfangið B og í símanúmerið C. Hinn 22. október 2010 hringdi kærandi í Vinnumálastofnun og kvaðst ekki hafa fengið boðun. Hann breytti gsm-númeri og netfangi. Þann 25. maí 2011 var ferilskrá kæranda send E og voru honum í kjölfarið ítrekað send boð um að taka þátt í átaksverkefni E en án árangurs. Hinn 7. júlí 2011 sendi Vinnumálastofnun kæranda tölvupóst á netfangið B og hann beðinn um að uppfæra símanúmerið sitt á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Hinn 14. júlí 2011 sendi Vinnumálastofnun kæranda aftur tölvupóst á sama netfang en nú í símanúmerið D og honum veittar leiðbeiningar um hvernig eigi að taka þátt í nám er vinnandi vegur. Hinn 28. júlí 2011 var haldinn fundur hjá Vinnumálastofnun þar sem ákveðið var að senda kæranda bréf og bjóða honum að skýra höfnun sína á þátttöku í úrræði á vegum stofnunarinnar. Hinn 5. ágúst 2011 var bréfið endursent á annað póstfang, á annað póstfang 10. ágúst 2011 og svo enn annað 15. ágúst 2011. Hinn 18. ágúst 2011 skrifaði kærandi undir námssamning 3 við Vinnumálastofnun þar sem hann skráði sig í tölvunarfræði við Háskóla Íslands. Hinn 19. ágúst 2011 barst Vinnumálastofnun skýringarbréf frá kæranda. Í bréfinu segist kærandi ekki hafa vitað af atvinnuviðtalinu af ýmsum ástæðum. Hinn 29. ágúst 2011 var tekin ákvörðun á fundi Vinnumálastofnunar um að samþykkja biðtíma þar sem kærandi hefði hafnað atvinnutilboði og skýringar voru ekki teknar gildar. Þann 30. ágúst 2011 var kæranda tilkynnt ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður greiðslur atvinnuleysisbóta til hans í þrjá mánuði frá og með ákvörðunardegi. Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 61. gr. sömu laga. Kæranda var tilkynnt í bréfinu að um væri að ræða niðurfellingu bótaréttar öðru sinni því 9. febrúar 2009 hafi hann hætt í námi og sætt þá niðurfellingu bótaréttar.

 

Í erindi kæranda, dags. 19. október 2011, kemur fram að hann telji Vinnumálastofnun ekki fara með rétt mál þar sem hann hafi fengið námssamning 18. ágúst 2011 og síðan verið tekinn af bótum 29. ágúst sama ár. Kærandi kveður þetta hafa komið sér illa, enda verið búinn að kaupa námsbækur fyrir tugi þúsunda. Kærandi telur þetta fá staðfestu í því að Vinnumálastofnun hafi hafnað því að senda sér afrit af öllum gögnum málsins, þ.e. um eðli vinnunnar sem átti að hafa verið í boði og um það að ekki hafi verið reynt að ná í sig.

 

Það vekur athygli úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 22. nóvember 2011, er ekki tekið á námi kæranda, hvorki árið 2009 né árið 2011. Þá er í sömu greinargerð hvorki minnst á þann námssamning sem gerður var við kæranda né hin þriggja mánaða ítrekunaráhrif.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 22. nóvember 2011, segir að mál þetta varði 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar séu tilgreindar ástæður sem geti komið til greina sem gildar skýringar við höfnun á starfi. Í athugasemdum við 57. gr. komi fram að gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum.

 

Vinnumálastofnun bendir á að eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysisbóta sé að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið nánar á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Fram komi að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Jafnframt sé tekið fram að skv. h-lið 1. mgr. 14. gr. laganna teljist sá í virkri atvinnuleit sem sé reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Þá beri atvinnuleitanda að tilkynna Vinnumálastofnun, án ástæðulauss dráttar, um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni eða aðstæðum að öðru leyti, sbr. 2. mgr. 14. gr. laganna. Í því felist meðal annars að atvinnuleitandi tilkynni stofnuninni um breytingar á lögheimilisfangi og símanúmerum. Vinnumálastofnun líti svo á að það teljist liður í virkri atvinnuleit að upplýsa stofnunina um þær breytingar sem verði á högum atvinnuleitanda, hafi þær breytingar bein áhrif á getu atvinnuleitandans til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum og sinna starfsviðtölum sem stofnunin boðar til með sannanlegum hætti.

 

Í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar hafi kærandi sagst ekki hafa vitað af atvinnutilboði. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá fulltrúa E hafi, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, ekki verið unnt að ná sambandi við kæranda í þau símanúmer sem kærandi hafði gefið upp til stofnunarinnar. Þá hafi uppgefið heimilisfang kæranda ekki reynst uppfært í kerfi Vinnumálastofnunarinnar enda hafi stofnuninni ekki borist tilkynning um breytt heimilisfang frá kæranda. Tilkynning hafi borist Vinnumálastofnun eftir að stofnunin hafi óskað eftir skýringum frá kæranda.

 

Vinnumálastofnun telur umsækjendur um atvinnuleysisbætur sjálfa bera ábyrgð á atvinnuleit sinni. Það sé grundvallarskilyrði þess að unnt sé að bjóða atvinnuleitanda starf að hann svari símhringingum og öðrum boðum er honum séu send. Það sé því mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda séu ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og telur stofnunin að tilraunir atvinnurekanda til að bjóða kæranda í atvinnuviðtal hafi verið virtar að vettugi.

 

Í ljósi þess að rík skylda hvílir á umsækjendum um atvinnuleysisbætur að vera virkir í atvinnuleit, telji Vinnumálastofnun að kærandi eigi að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta í samræmi við 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. nóvember 2011, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 12. desember sama ár. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með tölvubréfi, dags. 12. desember 2011. Þar ítrekar hann fyrri sjónarmið sín um að ekki hafi verið fjallað um námsmannasamninginn sem Vinnumálastofnun hafi gert við sig 18. ágúst 2011. Af samskiptasögu megi sjá að námsmannasamningur hafi gerður en óútskýrt sé af hverju Vinnumálastofnun tjái sig ekki um samninginn.

 

Hvað varðar þá fullyrðingu Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki þegið starfið af því kærandi eigi að hafa sagst ætla í skóla um haustið og svo það að ekki hafi náðst í sig, kveður kærandi vera rangt. Þá beri gögnin með sér að reynt hafi verið að ná í annan aðila en kæranda og telur kærandi það óskiljanlegt af hálfu Vinnumálastofnunar.

 

Kærandi mótmælir því einnig að ekki hafi verið hægt að ná í sig með tölvupósti, því hann hafi virkað óaðfinnanlega.

 

Þá sé ekki rétt að kærandi hafi sætt biðtíma í tvo mánuði heldur þurfti hann að sæta biðtíma í þrjá mánuði vegna þess að hann hafi hætt námi. Kærandi telur að verið sé að refsa sér þar sem hann hafi verið veikur og þurft á aðgerð að halda sem olli því að hann gat ekki setið á skólabekk.

 

Þá bárust viðbótarathugasemdir kæranda með tölvupósti, dags. 23. janúar 2012, með framsendum tölvupósti frá Vinnumálastofnun, dags. 30. desember 2011, þar sem hann finnur að afstöðu stofnunarinnar en í tölvupósti hennar virðist vera gengið út frá því að kærandi hafi tekið þátt í nám er vinnandi vegur.

 

 

 

2.

Niðurstaða

 

Kæruefni í máli þessu er afmarkað í kæru. Þar kemur fram að verið sé að kæra þá ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 29. ágúst 2011 að fella niður bótarétt kæranda vegna höfnunar hans á atvinnutilboði. Í 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er gert ráð fyrir að ákvarðanir Vinnumálastofnunar séu kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar. Úrskurður þessi nær einungis til þess að fjalla um kæruatriði en ekki önnur atriði í samskiptum kæranda og Vinnumálastofnunar.

 

Í greinargerð kæranda er í löngu máli fjallað um samskipti hans við Vinnumálastofnun, sem varða þá staðreynd að gerður var við hann samningur um nám eftir að þau atvik voru til staðar sem urðu til þess að hin kærða ákvörðun var tekin. Vegna þess að hin kærða ákvörðun var tekin og bótaréttur kæranda felldur niður, telur kærandi sig hafa orðið fyrir beinu fjárhagslegu tjóni þegar hann keypti sér námsbækur til að taka þátt í námi sem var hluti af úrræði Vinnumálastofnunar „nám er vinnandi vegur“. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða telur sér ekki fært að fjalla um það ferli sem kærandi lýsir vegna þessa enda geta þau samskipti ekki með neinu móti fallið undir umfjöllun nefndarinnar um hina kærðu ákvörðun. Úrskurðarnefndin lítur svo á að engar forsendur séu til að fjalla um síðar tilkomin samskipti kærða við Vinnumálastofnun, þ.e. samskipti sem eru óviðkomandi þeim atvikum sem urðu til þess að hin kærða ákvörðun var tekin.

 

Eins og lýst hefur verið, hefur kærandi þegið atvinnuleysisbætur frá því á árinu 2009. Á árinu 2011 var ferilskrá kæranda send E og í júlímánuði sama ár var honum send ítrekuð boð um að taka þátt í átaksverkefni E. Þetta reyndist án árangurs því hvorki barst svar frá kæranda í gegnum þau símanúmer sem hann hafði gefið Vinnumálastofnun upp eða netföng sem hann hafði sjálfur gefið upp. Í lok júlímánaðar var svo sent bréf til kæranda en það var endursent Vinnumálastofnun. Bréfið var sent á annað póstfang þann 10. ágúst 2011 og enn annað póstfang þann 15. ágúst 2011. Engin viðbrögð komu fram til Vinnumálastofnunar frá kæranda enda virtist ómögulegt með öllu að ná sambandi við hann eftir þeim leiðum sem hann sjálfur hafði gefið upp. Það var fyrst 19. ágúst 2011 að skýringar bárust Vinnumálastofnun frá kæranda. Vinnumálastofnun taldi skýringar kæranda ekki gildar og tók í kjölfarið ákvörðun um að fella niður bótarétt kæranda með vísan til 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Í 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um það þegar starfi eða atvinnuviðtali er hafnað. Í 1. mgr. segir að sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama eigi við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali.

 

Af samskiptasögu Vinnumálastofnunar og öðrum gögnum málsins má sjá að ítrekað hafi verið reynt að ná í kæranda í símanúmer, netföng og heimilisföng sem kærandi hafði sjálfur gefið upp. Að mati úrskurðarnefndarinnar er ljóst að kærandi lét hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um breytta hagi sína, þ.e. um nýtt heimilisfang og rétt símanúmer. Kærandi ber ábyrgð á að koma slíkum upplýsingum til Vinnumálastofnunar enda ekki á færi nokkurs annars að hafa slíkar upplýsingar, en kæranda sjálfs. Það verður ekki hjá því komist að líta svo á að kærandi hafi hafnað samskiptum við Vinnumálastofnun með því að láta ekki svo nauðsynlegar upplýsingar í té þangað, sem heimilisföng, netföng og símanúmer eru. Um leið verður ekki hjá því komist að líta svo á að kærandi hafi með framferði sínu hafnað atvinnutilboði Vinnumálastofnunar. Á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar var Vinnumálastofnun rétt að taka þá ákvörðun að kærandi skyldi sæta viðurlögum samkvæmt því. Því ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

 

Úr­skurðar­orð 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 29. ágúst 2011 í máli A er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum