Hoppa yfir valmynd
25. september 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 132/2011

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 25. september 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A í máli nr. 132/2011.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 18. júlí 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið að stöðvar greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysisbætur, nr. 54/2006, þar sem hún hefði verið í eigin rekstri, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Jafnframt var kærandi krafin um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta vegna tímabilsins 1. mars–19. maí 2011 að fjárhæð 363.090 kr. eða 417.554 kr. ásamt 15% álagi.

Þá tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda með bréfi, dags. 12. september 2011, að stofnunin hefði á fundi sínum 5. september 2011 fjallað aftur um ákvörðun stofnunarinnar frá 15. júlí 2011 og tekið nýja ákvörðun í máli kæranda. Var fyrri ákvörðun frá 15. júlí 2011 um viðurlög skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar felld niður en ákvörðun um tveggja mánaða viðurlög og innheimtu látin standa.

Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 6. október 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 1. júní 2010 og fékk greiddar bætur í samræmi við bótarétt sinn.

Þann 27. október 2010 sótti kærandi um samning við Vinnumálastofnun um þróun eigin viðskiptahugmyndar að stofnun fyrirtækisins B á grundvelli reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, nr. 12/2009.

Með bréfi, dags. 12. nóvember 2010, upplýsti Vinnumálastofnun kæranda um að ákveðið hefði verið að samþykkja umsókn hennar um styrk til þróunar viðskiptahugmyndar á grundvelli 7. gr. reglugerðar nr. 12/2009 og gerður var samningur við kæranda sem gilti í þrjá mánuði, frá 12. nóvember 2010 til 28. febrúar 2011.

Í maí 2011 var kærandi enn skráð atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun og fyrirtækið B enn með starfsemi. Samkvæmt Vinnumálastofnun hafði kærandi hvorki skilað framvinduskýrslu né lokaskýrslu, sbr. 2. og 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 12/2009.

Með bréfi, dags. 17. maí 2011, var óskað eftir athugasemdum kæranda vegna framangreindra atvika enda gat kærandi ekki talist í virkri atvinnuleit skv. a-lið 13. gr., sbr. 14. gr., laga um atvinnuleysistryggingar, á sama tíma og hún vann að rekstri fyrirtækis.

Engar athugasemdir bárust frá kæranda og með bréfi, dags. 8. júlí 2011, var kæranda tilkynnt að greiðslur til hennar skyldu stöðvaðar þar sem hún uppfyllti ekki almenn skilyrði laganna til að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Þá segir í bréfi stofnunarinnar að kærandi skuli ekki fá greiddar atvinnuleysisbætur þann tíma sem hún uppfyllti ekki skilyrði laganna.

Með tölvupósti, dags. 11. júlí 2011, bárust andmæli frá kæranda. Fyrir mistök var kæranda birt ákvörðun um viðurlög á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er mál hennar var tekið fyrir að nýju þann 18. júlí 2011. Þegar upp komst um mistök hjá stofnuninni var síðari ákvörðun afturkölluð með bréfi, dags. 12. september 2011.

Í kæru, dags. 6. október 2011, kveðst kærandi ekki hafa verið í eigin rekstri og aldrei hafa rekið fyrirtæki. Hún hafi verið hjá Vinnumálastofnun að vinna með eigin viðskiptahugmynd í þrjá mánuði sem stofnunin vilji nú fá endurgreidda. Kærandi upplýsir að áhugamál hennar sé að sauma og hafi hún gert það án greiðslu. Efniskostnaður sé dýr og fólk/vinir greiði hann sjálfir og leyfi kæranda að vinna með eigin hugmyndir. Kærandi setji allar sínar hugmyndir á Facebook-síðu sem hún hafi búið til á meðan hún vann með eigin viðskiptahugmynd hjá Vinnumálastofnun.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 23. nóvember 2011, er bent á að deilt sé um synjun stofnunarinnar á greiðslum atvinnuleysisbóta til handa kæranda á þeim grundvelli að hún hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé virk atvinnuleit skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta en með virkri atvinnuleit skv. 14. gr. laganna sé meðal annars átt við færni til flestra almennra starfa, hafa frumkvæði að starfsleit, hafa vilja og getu til að taka starfi óháð því hvort um fullt starf, hlutastarf eða vaktavinnu sé að ræða og hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða.

Í 62. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé Vinnumálastofnun veitt heimild til að styrkja atvinnuleitendur vegna þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum. Skuli ráðherra setja nánari reglur um styrkina samkvæmt greininni. Í 7. gr. reglugerðar nr. 12/2009 sé mælt fyrir um þróun eigin viðskiptahugmyndar.

Úrræði þetta miði að því að gera atvinnuleitanda, með þröngum skilyrðum, kleift að ýta viðskiptahugmynd úr vör. Markmið ákvæðisins sé ekki að vera framfærsla rekstraraðila eftir að hugmynd hefur komist til framkvæmda.

Samningur um þróun eigin viðskiptahugmyndar vegna B hafi verið samþykktur 12. nóvember 2010 og runnið út 28. febrúar 2011. Kærandi hafi hvorki skilað framvinduskýrslu né lokaskýrslu líkt og henni hafi borið skv. 2. og 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 12/2009. Kærandi hafi engu að síður fengið greiddar atvinnuleysisbætur þar til eftirlit Vinnumálastofnunar hafði kannað mál kæranda og tilkynnt henni að greiðslur atvinnuleysisbóta skyldu stöðvaðar. Ekki verði séð að kærandi geti talist í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar á meðan hún vinni að rekstri fyrirtækis. Að öðrum kosti væri úrræði 7. gr. reglugerðar nr. 12/2009 með öllu óþarft enda tilgangur heimildarinnar að veita atvinnuleitendum undanþágu frá skilyrði laga um virka atvinnuleit þann tíma sem samningur varir. Ekki verði heldur séð að ástæða væri fyrir að móta þá heimild ef atvinnuleysisbætur skyldu án slíkra úrræða engu að síður greiddar atvinnuleitendum sem störfuðu við stofnun fyrirtækis.

Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um upplýsingaskyldu til Vinnumálastofnunar og í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009, sem breytti lögum um atvinnuleysistryggingar, segi meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna“.

Í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé enn frekar mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysisbóta og að þeim beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni eða aðstæðum. Í 1. mgr. 59. gr. laganna sé svo kveðið á um viðurlög við brotum á upplýsingaskyldu hins tryggða.

Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi unnið að rekstri B eftir að samningur um þróun eigin viðskiptahugmyndar kæranda hafði runnið út. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun að starfsemi hefði haldið áfram eftir þann tíma. Í 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt kveðið á um þá skyldu umsækjanda um greiðslur atvinnuleysisbóta að vera í virkri atvinnuleit.

Vinnumálastofnun telji að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem hún hafi fengið greiddar fyrir það tímabil sem hún hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna.

Samkvæmt skýrum leiðbeiningum 39. gr. laganna beri kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur ásamt 15% álagi enda liggi ljóst fyrir að heimild kæranda til þróunar á eigin viðskiptahugmynd hafi einungis staðið til lok febrúarmánaðar 2011. Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. beri Vinnumálastofnun að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi hinn tryggði fengið hærri bætur en hann hafi átt rétt á. Beri kæranda því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. mars–19. maí 2011 að viðbættu álagi að fjárhæð samtals 417.554 kr.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að við undirbúning að umsögn úrskurðarnefndar í máli þessu hafi komið í ljós að Vinnumálastofnun hafði ekki áður birt kæranda ákvörðun um biðtíma á grundvelli 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 12. september 2011, þar sem ákvörðun um viðurlög á grundvelli 60. gr. laganna var afturkölluð segi engu að síður að ákvörðun um tveggja mánaða viðurlög skuli standa. Kærandi hafi ekki þurft að sæta biðtíma frá því að henni var synjað um áframhaldandi greiðslur atvinnuleysisbóta og telji stofnunin ekki ástæðu til að krefjast staðfestingar á biðtímaákvörðun í ljósi þessa.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. nóvember 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 12. desember 2011. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 27. janúar 2012, þar sem hún kveðst hafa sótt í upphafi um sex mánuði en ekki fengið það samþykkt. Ekki hafi staðið til boða að lengja það tímabil þrátt fyrir að fram hafi komið í svari Vinnumálastofnunar að það hafi verið möguleiki. Eftir að tímabilinu lauk hafi hún haldið Facebook-síðunni áfram opinni einfaldlega til að hafa eitthvað að gera.

Þá segir kærandi að hún hafi skilað framvinduskýrslu sem og lokaskýrslu, handskrifuðum til Vinnumálastofnunar. Ekki hafi verið haft samband við kæranda og hún látin vita að það þyrfti að skila þessum skýrslum og enn síður að hún hafi verið látin vita að þær hafi ekki komist til skila.

Kærandi kveðst hafa sótt um fjöldamörg störf síðan hún varð atvinnulaus og á tímabili sótt um sjö til tíu störf á viku. Hins vegar hafi ekkert komið út úr því og oft og tíðum hafi hún ekki einu sinni fengið tölvupóst um að ráðið hefði verið í starfið. Það að kærandi sé ekki í virkri atvinnuleit eigi því ekki við nein rök að styðjast. Auk þess hafi kærandi sótt fjölmörg námskeið á vegum Vinnumálastofnunar sem og annarra til að virkja sig og auka möguleika sína á framtíðarstarfi.

Síðustu mánuðir hafi verið kæranda mjög erfiðir. Kærandi hafi fengið óskýr svör frá Vinnumálastofnun þegar hún hafi leitað til hennar og ekki skilið innihald bréfanna þegar kæranda hafi borist þau. Kærandi hafi ekki fengið leiðbeiningar frá Vinnumálastofnun um hvað henni bæri að gera og sé því búin að vera tekjulaus síðan í maí.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Kærandi tók þátt í vinnumarkaðsaðgerð með því að gera samning við Vinnumálastofnun um þróun eigin viðskiptahugmyndar til rúmlega þriggja mánaða frá 12. nóvember 2010 til 28. febrúar 2011 í samræmi við 7. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, nr. 12/2009. Kærandi stofnaði fyrirtækið B og fólst starfsemi þess í hönnun og saumi á fatnaði sem seldur var á Facebook-síðu. Kærandi lét hjá líða að skila framvinduskýrslu til Vinnumálastofnunar svo sem henni bar skv. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 12/2009. Hún var enn skráð atvinnulaus í maí 2011 en fyrir lá að fyrirtækið B var enn með starfsemi.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er virk atvinnuleit skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta. Með virkri atvinnuleit skv. 14. gr. laganna er átt við færni til flestra almennra starfa, hafa frumkvæði að starfsleit, hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, vera reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf, hlutastarf eða vaktavinnu er að ræða og hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða.  

Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er mælt fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar og kemur þar meðal annars fram að sá sem telst tryggður skuli upplýsa stofnunina um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma sem hann færi greiddar atvinnuleysisbætur. Í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er einnig mælt fyrir um upplýsingaskyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysisbóta. Þar kemur fram að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum.

Kærandi vann áfram að rekstri B eftir að samningur um þróun eigin viðskiptahugmyndar hafði runnið út án þess að tilkynna það til Vinnumálastofnunar eins og henni bar að gera. Í ljósi þeirrar upplýsingaskyldu atvinnuleitenda sem kveðið er á um í 3. mgr. 9. gr., sbr. 2. mgr. 14. gr., laga um atvinnuleysistryggingar verður talið að kærandi hafi brotið gegn trúnaðarskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun í umrætt sinn, er hún lét hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um áframhaldandi starfsemi fyrirtækis síns. Þá er til þess að líta að kærandi gat ekki talist í virkri atvinnuleit skv. 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hún vann við fyrirtæki sitt. Kærandi uppfyllti því ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar eftir að gildistími samnings um þróun eigin viðskiptahugmyndar rann út 28. febrúar 2011.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. mars til 19. maí 2011 að viðbættu 15% álagi að fjárhæð samtals 417.554 kr.

Með vísan til framangreinds og gagna málsins er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest.

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 5. september 2011 um niðurfellingu bótaréttar A er staðfest.

Kærandi endurgreiði ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. mars til 19. maí 2011 að viðbættu álagi að fjárhæð samtals 417.554 kr.

 

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

 Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum