Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 90/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 24. apríl 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 90/2011.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 29. júní 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 22. júní 2011 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 12. apríl 2011. Vinnumálastofnun samþykkti umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur, en með vísan til námsloka kæranda var réttur hennar til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, með vísan til 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 19. júlí 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 12. apríl 2011. Hún hafði sótt um að komast að í búfræðinámi við Landbúnaðarháskóla Íslands á haustönn 2010 en umsókninni var hafnað þar sem hún var ekki talin hafa nægan undirbúning eins og fram kemur í bréfi skólans, dags. 24. júní 2010. Fram kemur að auk grunnskólaprófs eða sambærilegrar menntunar skuli umsækjandi hafa lokið minnst 36 einingum í framhaldsskóla. Kæranda var ráðlagt að skrá sig í framhaldsskóla haustið á eftir og taka þar eins margar einingar og hún teldi sig ráða við. Síðan gæti hún sent Landbúnaðarháskólanum endurnýjaða umsókn vorið 2011. Samkvæmt skólavottorði frá framhaldsskólanum B var kærandi skráð í nám við skólann á haustönn 2010 frá 2. ágúst 2010 til 15. janúar 2011. Hún lauk 45 einingum í skólanum. Hún hélt ekki áfram námi í framhaldsskólanum á vorönn. Kærandi hefur fært fram misvísandi skýringar á því fyrir Vinnumálastofnun annars vegar og úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hins vegar. Í tölvupósti kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 9. júní 2011, kemur fram að ástæða þess að hún hafi ekki haldið áfram í námi á vorönn 2011 hafi verið sú að hún ekki haft efni á því og því tekið sér pásu. Hún stefni að því að hefja nám þá um haustið. Vinnumálastofnun taldi þessar ástæður ekki gildar í skilningi 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og með bréfi, dags. 29. júní 2011, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að samþykkja umsókn hennar um atvinnuleysisbætur en með vísan til þess að hún hafði hætt námi sínu var réttur hennar til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar nætur fyrir. Fyrir úrskurðarnefndinni hefur kærandi haldið því fram að fjárskortur hafi ekki verið aðalástæðan fyrir því að hún hafi ekki haldið áfram námi heldur sú að hún hafi lokið einingunum sem hana hafi skort í framhaldsskólanum B í janúar 2011 til þess að komast að í Landbúnaðarháskólann, en þá hafi verið of seint fyrir hana að skrá sig þar í nám á vorönn. Hún hafi þá ráðgert að sækja um í skólanum haustið 2011 en vegna atvinnuleysis að hluta til og synjunar Vinnumálastofnunar á atvinnuleysisbótum hafi hún ekki haft tök á því.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 5. ágúst 2011, er bent á að í X. kafla laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna ákvæði er mæli fyrir um biðtíma er hinn tryggði skuli sæta segi hann starfi upp án gildra ástæðna eða hætti námi án gildra ástæðna. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé í umfjöllun um 1. mgr. 55. gr. laganna vísað til athugasemda við 54. gr. frumvarpsins um hvaða ástæður geti talist gildar. Í fyrrnefndri greinargerð við 1. mgr. 54. gr. laganna segi að erfitt geti reynst að telja upp með tæmandi hætti hvaða ástæður séu gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laganna. Lagareglan sé því matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur, falli að umræddri reglu. Skuli stofnunin líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða og hafa í huga að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Jafnframt beri að líta til þess að orðalagið „gildar ástæður“ beri að túlka þröngt í þessu samhengi og þar af leiðandi færri tilvik en ella sem falli þar undir. Í dæmaskyni um gildar ástæður í skilningi laganna séu til dæmis nefnd þau tilvik þegar fjölskylda umsækjanda flytur búferlum vegna starfa maka eða vegna heilsufarsástæðna atvinnuleitanda.

Fram kemur að kærandi hafi fyrir Vinnumálastofnun fært fram þau rök fyrir því að hætta námi að hún hafi ekki haft efni á því. Námslok vegna fjárhagslegra erfiðleika hafi ekki verið taldar gildar ástæður í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í rökstuðningi fyrir kæru sinni beri kærandi fram annars konar skýringar á námslokum sínum. Hún hafi ráðgert að hefja nám við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri haustið 2010, en henni hafi verið synjað um inngöngu þar sem hana hafi skort tilskilinn fjölda framhaldsskólaeininga. Hún hafi því stundað nám við framhaldsskólann B á vorönn 2010 og lokið því í janúar 2011. Hjá kæranda komi fram að þá hafi verið of seint að hefja nám í Landbúnaðarháskólanum.

Vinnumálastofnun telur að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hún hygðist raunverulega hefja nám í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Stofnunin kannaði hvort kærandi væri skráð í nám við skólann á haustönn 2011 en svo var ekki. Telur stofnunin þá staðreynd vega þungt við matið á því hvort sú skýring sem kærandi reiði fram í rökstuðningi sínum fyrir kæru teljist vera gild í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt telji stofnunin að óumflýjanlegt sé að líta til þeirrar staðreyndar að misræmis gæti í skýringum kæranda á námslokum.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. ágúst 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 25. ágúst 2011. Athugasemdir kæranda eru dagsettar 6. september 2011 og bárust 7. september 2011.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. a-lið 18. gr. laga nr. 134/2009, en hún er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur hætt námi, sbr. c-lið 3. gr., án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Staðfesting frá viðkomandi skóla um að námi hafi verið hætt skal fylgja umsókninni.“

Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur hættir námi, sbr. c-lið 3. gr. laganna, og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur.

Í athugasemdum við 55. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segir að þeir sem hætta námi án þess að hafa til þess gildar ástæður þurfi að sæta sams konar biðtíma og þeir sem hætti störfum án gildra ástæðna, sbr. 54. gr. frumvarpsins. Vísað er til umfjöllunar um 54. gr. frumvarpsins í því sambandi. Þar kemur fram að erfiðleikum sé bundið að skilgreina nákvæmlega gildar ástæður í lögum og reglugerðum og því þurfi að meta hvert tilvik fyrir sig. Af framangreindu er ljóst að ef ekki liggja fyrir veigamiklar ástæður fyrir því að námi er hætt, þarf umsækjandi um atvinnuleysisbætur að sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Fjárhagsástæður hafa almennt ekki talist gildar ástæður í þessu sambandi.

Kærandi stundaði nám í framhaldsskólanum B á haustönn 2010 og lauk önninni 15. janúar 2011. Kærandi færði fram þær skýringar fyrir Vinnumálastofnun að hún hefði hætt í námi vegna þess að hún hefði ekki efni á því. Fyrir úrskurðarnefndinni hefur kærandi fært þær skýringar að hún hafi ætlað sér að stunda nám við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Henni hafi verið synjað um inngöngu á haustönn 2010 vegna of lítis undirbúnings og henni bent á að afla sér frekari menntunar á framhaldsskólastigi. Það hafi hún gert með námi sínu í framhaldsskólanum B, en þá hafi verið of seint að hefja nám í háskólanum. Nám í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri hófst á vorönn 2011 þann 9. janúar.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að þær ástæður sem kærandi hefur fært fram séu ekki gildar í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og ber því að láta kæranda sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysistrygginga.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 22. júní 2011 í máli A um niðurfellingu bótaréttar kæranda í tvo mánuði er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum