Hoppa yfir valmynd
22. september 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 28/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 22. september 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 28/2011.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 5. október 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 15. september 2010 tekið ákvörðun um að stöðva greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar. Ástæðan var sú að kærandi hafi stundað nám samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysistrygginga, án þess að tilkynna það til Vinnumálastofnunar og án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Jafnframt taldi Vinnumálastofnun að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 1. júní til 19. ágúst 2010 að fjárhæð 302.338 kr. sem henni bæri að endurgreiða skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 18. apríl 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð og að Vinnumálastofnun geri við hana afturvirkan námssamning. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 26. maí 2009, og fékk greitt í samræmi við rétt sinn.

Við samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar og nemendaskrá Háskóla Íslands sem gerð var skv. 4. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, kom í ljós að kærandi var skráð í nám við skólann samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysistrygginga, án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um nám sitt. Með bréfi, dags. 10. ágúst 2010, óskaði eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar eftir því að kærandi hefði samband við stofnunina og færði fram skýringar á framangreindum upplýsingum.

Þann 16. ágúst 2010 barst Vinnumálastofnun skýringarbréf frá kæranda þar sem hún gerði grein fyrir námi því sem hún lagði stund á við Háskóla Íslands.

Með bréfi, dags. 5. október 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnunin hefði tekið ákvörðun um að stöðva greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar þar sem hún var skráð í nám samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt var kærandi krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 1. júní til 19. ágúst 2010 er hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, að fjárhæð 302.338 kr. með 15% álagi, skv. 2. mgr. 39. gr. laganna.

Þann 13. október 2010 barst Vinnumálastofnun erindi frá kæranda þar sem hún óskaði eftir frekari rökstuðningi á fyrrgreindri ákvörðun stofnunarinnar. Þann 10. nóvember 2010 sendi Vinnumálastofnun kæranda rökstuðning fyrir ákvörðun stofnunarinnar frá 5. október 2010.

Í skýringarbréfi sínu til Vinnumálastofnunar, dags. 16. ágúst 2010, segir kærandi að hún sé menntuð sem danskennari, en síðastliðin ár hafi engar stöður danskennara verið auglýstar, því hafi hún neyðst til þess að skrá sig atvinnulausa. Þá segir kærandi að hún hafi átt eftir að ljúka lokaritgerð sinni í spænsku við Háskóla Íslands, til lúkningar á BA-prófi í spænsku, en einnig til þess að fá útskrift frá Listaháskóla Íslands, en það skipti hana miklu að geta lokið því verkefni. Kærandi segist vera móðir þriggja barna, en hún hafi unnið við ritgerðarsmíðar í hjáverkum á því tímabili er börn hennar voru í sumarleyfi. Þá segir kærandi að hún hafi skráð sig í diplómanám á meistarastigi fyrir kennsluréttindi í spænsku fyrir næsta skólaár, en þar sem hún hafi ekki lokið ritgerðinni hafi Háskóli Íslands tilkynnt henni að hún hafi verið skráð úr því námi.

Þann 13. október 2010 barst Vinnumálastofnun bréf sem maki kæranda skrifaði fyrir hennar hönd. Þar segir að kærandi hafi verið í virkri atvinnuleit frá því að hún hafi skráð sig atvinnulausa. Kærandi telji að skráning hennar í Háskóla Íslands vegna lokaritgerðar geti ekki talist fullt nám þar sem engin mæting sé. Telji kærandi mun minni bindingu felast í ritgerðarskrifum en til dæmis fjarnámi og að hún hefði hæglega getað stundað fulla vinnu samhliða því að skrifa ritgerðina. Hins vegar hafi enga vinnu verið að fá, en mistök kæranda hafi falist í því að leita ekki til ráðgjafa Vinnumálastofnunar í því skyni að sækja um námssamning, sem hefði getað komið í veg fyrir að hún lenti í þessari aðstöðu.

Þá segir kærandi að hún hafi ekki fengið neina tilkynningu um að ekki væri hægt að skrá sig í nám samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysistrygginga, enda hefði hún þá valið að þiggja ekki greiðslu atvinnuleysisbóta. Sé það mat kæranda að það séu hæfileg viðurlög að Vinnumálastofnun hafi stöðvað greiðslur atvinnuleysisbóta henni til handa, enda hafi það skapað mikla fjárhagslega erfiðleika fyrir fjölskyldu hennar. Kærandi bendir á að hún hafi í byrjun októbermánaðar fengið tímabundið starf með 50% starfshlutfalli sem forfallakennari í spænsku við Tækniskólann.

Í bréfi sínu gerir kærandi þær kröfur að fá nánari rökstuðning fyrir ákvörðun Vinnumálastofnunar, þ.e. grundvöll ákvörðunarinnar og rökin að baki fjárhæð endurgreiðslukröfunnar. Kærandi fer einnig fram á endurskoðun ákvörðunarinnar og að Vinnumálastofnun geri við hana afturvirkan námssamning vegna náms hennar við Háskóla Íslands.

Í rökstuðningi með kæru til úrskurðarnefndarinnar segir kærandi að hún fari fram á að krafa um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta verði felld niður. Til vara gerir kærandi kröfu um að nám hennar verði skilgreint skv. c-lið 3. gr. og 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, enda sé um að ræða nám sem muni nýtast kæranda í atvinnuleit og sé ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Kærandi gerir einnig kröfu um að báðir aðilar viðurkenni mistök af sinni hálfu, því ef kærandi hefði leitað ráðgjafar í tæka tíð hefði nám hennar verið skilgreint í samræmi við ofangreind sjónarmið. Kærandi fer einnig fram á að bótaréttur hennar fyrir umrætt tímabil verði endurmetinn skv. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, enda telji hún að nám hennar hafi fallið undir undanþáguákvæði ákvæðisins og hún hefði því haldið atvinnuleysisbótum sínum ef hún hefði leitað samþykkis fulltrúa Vinnumálastofnunar í tæka tíð.

Kærandi vísar til c-liðar 3. gr. laga þar sem kveðið er á um að einstök námskeið teljast ekki til náms, en kærandi segist hafa verið skráð í eitt námskeið til 20 ECTS eininga. Kærandi telur að hún hafi ekki verið í fullu námi samkvæmt skilgreiningu laga um atvinnuleysistryggingar eða samkvæmt skilgreiningum Lánasjóðs íslenskra námsmanna á fullu námi. Þá segir kærandi að henni hafi verið með öllu ókunnugt að hún ætti ekki rétt á bótum yfir sumarið vegna náms og hún hafi því verið í góðri trú og haldið að hún ætti rétt til atvinnuleysisbóta samkvæmt gildandi lögum og reglum, annars hefði hún gert aðrar ráðstafanir og leitað til ráðgjafa Vinnumálastofnunar.

Kærandi furðar sig á því að hafa ekki fengið tilkynningu um breytta réttarstöðu sína yfir sumarið, enda hafi hún fylgst með tilkynningum frá Vinnumálastofnun og meðal annars sótt námskeið á vegum stofnunarinnar í janúar 2010. Það er mat kæranda að það séu hæfileg viðurlög að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar hafi verið stöðvaðar, en hún hafi verið án launa og greiðslu atvinnuleysistrygginga fram að fyrstu útborgun í núverandi starfi í októbermánuði. Það er einnig mat kæranda að krafa Vinnumálastofnunar um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta standist ekki kröfur um meðalhóf og sanngirni.

Í fylgigögnum með kæru til úrskurðarnefndar leggur kærandi fram afrit af tilkynningarblaði Vinnumálastofnunar varðandi sumarið 2010, þess efnis að námsmenn teljist ekki í virkri atvinnuleit í námsleyfum og eigi þar af leiðandi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga. Kærandi segist ekki hafa fengið þessa tilkynningu og henni hafi því verið með öllu ókunnugt um þessar breytingar á úthlutunarreglum.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags.7. júní 2011, áréttar Vinnumálastofnun að í c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna skilgreiningu á hugtakinu „námi“ sem samfelldu námi í viðurkenndri menntastofnun sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Einnig vísar Vinnumálastofnun til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar er mælt fyrir um réttindi námsmanna. Þar segir að hver sá sem stundar nám skv. c-lið 3. gr. sömu laga teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum á því tímabili, sé námið ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerðum Vinnumálastofnunar.

Vinnumálastofnun vísar til gagna málsins en þar komi fram að kærandi hafi verið skráð í 20 ECTS eininga nám við Háskóla Íslands. Sé það mat Vinnumálastofnunar að þrátt fyrir að um einn áfanga hafi verið að ræða, sé ekki unnt að líta á námið sem einstakt námskeið, enda um nám á háskólastigi að ræða sem leiðir þar að auki til ákveðinnar prófgráðu. Vinnumálastofnun vísar til upplýsinga frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, en 18 ECTS eininga nám sé lánshæft hjá sjóðnum. Nám kæranda nam 20 ECTS einingum og sé þar af leiðandi lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Vinnumálastofnun áréttar að meginregla laga um atvinnuleysistryggingar sé sú að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi og ekki skipti máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla, staðarnám eða fjarnám. Þegar námið sé þar að auki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna sé ljóst að atvinnuleitandi geti leitað til sjóðsins á sama hátt og aðrir námsmenn í lánshæfu námi.

Vinnumálastofnun vísar til rökstuðnings með kæru til úrskurðarnefndarinnar þar sem kærandi óski eftir því að gerður verði við hana afturvirkur námssamningur á grundvelli 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun áréttar að í 3. mgr. 52. gr. laganna sé skýrlega tekið fram að þrátt fyrir meginregluna í 1. og 2. mgr. 52. gr. sé Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á, hvort sá sem stundar nám á háskólastigi sem nemi allt að 20 ECTS einingum á námsönn, „enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna“. Vinnumálastofnun telur að 20 ECTS eininga háskólanám sé það umfangsmikið að skilyrði til gerðar námssamnings við þær aðstæður séu ekki fyrir hendi.

Vinnumálastofnun bendir á að svo hægt sé að taka afstöðu til þess hvort námsmenn kunni að uppfylla skilyrði 52. gr. laganna, þurfi stofnuninni að sjálfsögðu að hafa borist tilkynning um nám viðkomandi atvinnuleitanda, enda beri atvinnuleitanda skv. 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem kunni að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða um annað sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku.

Það sé mat Vinnumálastofnunar að 5. gr. reglugerðar nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitanda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, sé undantekning frá meginreglu 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem beri að túlka þröngt. Þar af leiðandi telji Vinnumálastofnun ótækt að beita heimild til gerðar námssamnings við kæranda afturvirkt. Það sé mat Vinnumálastofnunar að með hliðsjón af framangreindum atriðum sé stofnuninni ekki heimilt að gera afturvirkan námssamning vegna náms kæranda, eftir að námsönn er lokið.

Vinnumálastofnun vísar til 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar er fjallað um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum. Samkvæmt skýru orðalagi greinarinnar beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Það sé því mat Vinnumálastofnunar að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. júní til 19. ágúst 2010, að fjárhæð 302.338 kr. Niðurstaða Vinnumálastofnunar sé því að kærandi hafi ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum meðan hún var skráð í nám við Háskóla Íslands og að henni beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hún uppfyllti ekki skilyrði laganna.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar dags. 20. júní 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 4. júlí 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, en hún er svohljóðandi:

Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Þá segir í c-lið 3. gr. laga sömu laga:

Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

Í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám.

Nám kæranda var 20 ECTS eininga áfangi sem fól í sér skrif á BA-ritgerð í spænsku við félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Ljóst er að meginregla 1. mgr. 52. gr. á við um kæranda, þ.e. hún stundaði nám í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Undanþáguheimildir 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna koma til skoðunar þegar nám er ekki lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Nám kæranda var 20 ECTS einingar og telst lánshæft samkvæmt reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Undanþáguheimildirnar eiga því ekki við í máli hennar.

Kærandi hefur fært fram þau rök að 20 ECTS ritgerð eigi að meta sem einstakt námskeið í skilningi c-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistrygginga, því hafi ekki verið um „námað ræða í skilningi ákvæðisins. Ekki verður fallist á þau rök kæranda, enda um að ræða lokaritgerð sem gerir námsmönnum kleift að ljúka prófgráðu.

Kærandi óskaði sérstaklega eftir því að við hana yrði gerður afturvirkur námssamningur. Fjallað er um heimild til að gera námssamning í lögum um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, en skv. 12. gr. laganna eru námsúrræði einn flokkur vinnumarkaðsaðgerða. Í sömu grein segir að ráðherra kveði í reglugerð nánar á um skipulag vinnumarkaðsaðgerða. Fjallað er um nám og námskeið sem eru viðurkennd sem vinnumarkaðsúrræði í reglugerð nr. 13/2009. Samkvæmt reglugerðinni telst nám sem er lánshæft samkvæmt reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna ekki til námsúrræða.

Af framansögðu er ljóst að þar sem nám kæranda er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna á hún ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta. Því ber að staðfesta niðurstöðu Vinnumálastofnunar um stöðvun greiðslna atvinnuleysistrygginga til kæranda.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal sá sem er tryggður samkvæmt lögunum og fengið hefur hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna.

Í athugasemdum um ákvæðið í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að gert sé ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar og að þetta eigi við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Ekki verður fallist á þær röksemdir kæranda að henni beri engin skylda til að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna þess að hún hafi tekið á móti greiðslum atvinnuleysisbóta í góðri trú. Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur í tilvikum sem þessum. Ber kæranda því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. júní til 19. ágúst 2010, er hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 5. október 2010 í máli A um stöðvun á greiðslum atvinnuleysistrygginga er staðfest. Kærandi skal endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 302.338 kr.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum