Hoppa yfir valmynd
6. október 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 219/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 6. október 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 219/2010.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 15. júní 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 27. maí 2010 tekið þá ákvörðun að stöðva greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda. Ástæðan var sú að hann var skráður í nám við Háskóla Íslands samhliða því að fá greiddar atvinnuleysistryggingar án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Jafnframt var kærandi krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysistrygginga fyrir tímabilið 1. janúar til 19. febrúar 2010 að fjárhæð 334.029 kr. skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 23. nóvember 2010.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Vinnumálastofnun geri við hann nýjan námssamning sem gildi fyrir vorönn árið 2010 og að hann verði ekki látinn sæta skerðingu á bótarétti. Einnig krefst kærandi þess að upphaf þess tímabils sem krafa um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysistrygginga tekur til, sé 15. janúar 2010 í stað 1. janúar 2010 þar sem nám það er ágreiningur standi um hafi hafist þann 15. janúar 2010. Kærandi krefst þess einnig að hann fái að semja um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysistryggingum með fjórum hlutagreiðslum á árinu 2011. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 2. september 2009.

Þann 14. september 2009 undirritaði kærandi námssamning við Vinnumálastofnun vegna sex eininga náms á haustönn 2009 við Háskóla Íslands. Á námssamningi kemur fram að samningstímabil sé frá ágúst 2009 til desember 2009. Í febrúarmánuði árið 2010 voru gögn Vinnumálastofnunar samkeyrð við nemendaskrá Háskóla Íslands skv. 4. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem leggur þá skyldur á menntastofnanir að láta Vinnumálastofnun í té slíkar upplýsingar. Við þá samkeyrslu gagna kom í ljós að kærandi var áfram skráður í nám við Háskóla Íslands á vorönn 2010 samhliða því að fá greiddar atvinnuleysistryggingar án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar sendi kæranda bréf, dags. 19. febrúar 2010, þar sem óskað var eftir skýringum kæranda á framangreindum upplýsingum. Kærandi sendi Vinnumálastofnun tölvupóst, dags. 22. febrúar 2010, þar sem kærandi segist hafa verið með námssamning og vonist til þess að hann sé enn með námssamning. Kærandi sendi Vinnumálastofnun aftur tölvupóst, dags. 23. febrúar 2010, þar sem hann óskar eftir því að gera námssamning við stofnunina fyrir 12 ECTS eininga námi við Háskóla Íslands á vorönn árið 2010, en til vara óskaði kærandi þess að Vinnumálastofnun gerði við hann námssamning fyrir 6 ECTS eininga námi við Háskóla Íslands þar sem kærandi myndi þá segja sig úr öðrum áfanganum.

Kærandi mætti á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar þann 2. mars 2010. Ræddi kærandi við þjónustufulltrúa Vinnumálastofnunar sem tjáði honum að ekki væri unnt að gera námssamning vegna náms hans á vorönn án skerðinga á atvinnuleysisbótum hans, sbr. 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í skýringarbréfi sínu til Vinnumálastofnunar, dags. 23. febrúar 2010, segir kærandi að hann hafi talið að námssamningurinn sem hann gerði við Vinnumálastofnun þann 14. september 2009, myndi gilda áfram. Kærandi bendir jafnframt á 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem kveðið er á um heimild Vinnumálastofnunar til að meta sérstaklega hvort sá sem stundar nám á háskólastigi, sem nemi allt að 20 ECTS einingum í ólánshæfu námi, uppfylli skilyrði laganna. Kærandi bendir á að námskeið þau sem hann hafi sótt í Háskóla Íslands hafi verið vönduð og muni auka færni hans og hæfni á vinnumarkaði.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 23. nóvember 2010, segir kærandi að námið sem hann hafi sinnt í Háskóla Íslands án þess að fyrir lægi námssamningur við Vinnumálastofnun, hafi verið kennt seinni hluta dags og engin mætingarskylda hafi verið. Telur kærandi sig því hafa verið í virkri atvinnuleit síðan í maímánuði árið 2009 og að ástunda þetta nám hafi ekki hindrað hann í atvinnuleit sinni, þvert á móti hafi námið aukið möguleika hans á því að fá atvinnu. Kærandi segir jafnframt að honum hafi ekki verið bent sérstaklega á að hann yrði að gera annan samning fyrir næstu önn og viðurkennir að hann hafi ekki lesið námssamninginn. Kærandi segist því hafa gert ráð fyrir að samningurinn gilti út skólaárið, hann hafi mistúlkað námssamninginn við Vinnumálastofnun.

Kærandi kveðst hafa verið meðvitaður um að ekki mætti vera í fullu námi samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysisbóta og bendir hann á að hann hafi verið undir því 20 ECTS eininga marki sem fram komi í 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 4. maí 2011, bendir Vinnumálastofnun á að í c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna skilgreiningu á námi. Samkvæmt þeirri skilgreiningu eigi námið að vera við viðurkennda menntastofnun og standa yfir í lágmark sex mánuði. Vinnumálastofnun vísar til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og telur ljóst af ákvæði lagagreinarinnar að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stunda nám. Vinnumálastofnun bendir einnig á að í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segi meðal annars að mælst sé til þess að aðstæður séu metnar heildstætt og þá einkum með tilliti til þess hvort umsækjandi teljist geta verið í virkri atvinnuleit, sbr. 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi gerði námssamning við Vinnumálastofnun þann 14. september 2009 fyrir haustönnina. Vinnumálastofnun bendir á að námssamningar séu tímabundnir og þá þurfi að endurnýja að því gefnu að skilyrði standi enn til gerðar slíkra samninga við viðkomandi. Vinnumálastofnun áréttar að kærandi hafi ekki farið fram á endurnýjun á námssamningnum í byrjun árs 2010, þó svo hann hafi á vorönn árið 2010 verið skráður í 12 ECTS einingar í Háskóla Íslands. Vinnumálastofnun bendir á að kærandi hafi fyrst haft samband við Vinnumálastofnun varðandi ofangreind atriði, eftir að honum hafði verið tilkynnt um samkeyrslu stofnunarinnar við nemendaskrá.

Vinnumálastofnun vísar til þeirra skýringa kæranda að hann sé með námssamning við stofnunina. Vinnumálastofnun bendir á að þar sem kærandi hafi verið skráður í 12 ECTS eininga háskólanám hafi eingöngu verið heimilt að gera námssamning á grundvelli 3. mgr. 52. laga um atvinnuleysistryggingar. Sú undanþáguheimild sé bundin því skilyrði að greiðslur atvinnuleysisbóta skerðist að sama marki, í samræmi við umfang námsins. Vinnumálastofnun bendir á að í tilfelli kæranda hefði sú undanþáguheimild þýtt 40% skerðingu á atvinnuleysistryggingum hans.

Vinnumálastofnun bendir einnig á að kærandi hafi ekki verið tilbúinn að sæta slíkri skerðingu og að slitnað hafi upp úr fundi kæranda og þjónustufulltrúa Vinnumálastofnunar um mál hans þann 2. mars árið 2010, án þess að til undirritunar námssamnings hafi komið. Vinnumálastofnun ítrekar að ekki sé að finna heimild fyrir stofnunina til að gera námssamning við umsækjendur atvinnuleysistrygginga sem stunda meira nám en 10 ECTS einingar án þess að til komi skerðing vegna þess náms, sbr. 2. og 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar sem kærandi hafi ekki reynst reiðubúinn til að skrifa undir námssamning vegna náms á vorönn, segir stofnunin að ekki hafi verið tekin afstaða til þess hvort skilyrði greinarinnar um sérstakar aðstæður hafi verið uppfyllt eða hvort aðstæður kæranda gefi nægilegt tilefni til að veita undanþágu á grundvelli 3. mgr. 52. gr. laganna. Vinnumálastofnun telur að þess í stað verði að álykta að meginregla sú er fram kemur í 1. mgr. 52. gr. eigi við um tilvik kæranda.

Það er því mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði um atvinnuleysistryggingar á tímabilinu 1. janúar til 19. mars 2010.

Vinnumálastofnun telur að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á umræddu tímabili, sem honum beri að endurgreiða, að fjárhæð 334.029 kr. samkvæmt skýru ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. maí 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. maí 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Þá var kæranda sent bréf úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. júní 2011, þar sem bent var á að nefndin hefði aflað upplýsinga um það að vorönn viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands hafi hafist 14. janúar 2010, en kærandi hafði krafist þess að Vinnumálastofnun miðaði endurgreiðslukröfu sína við 15. janúar í stað 1. janúar 2010 eins og gert hafði verið.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.

Þá segir í c-lið 3. gr. laga sömu laga:

Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

Í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám.

Kærandi var með námssamning á haustönn 2009. Hann fór ekki fram á endurnýjun samningsins á vorönn 2010, en þá lagði hann stund á 12 ECTS eininga nám í Háskóla Íslands, fyrr en með tölvupóstum 22. og 23. febrúar 2011 eftir að samkeyrsla Vinnumálastofnunar við nemendaskrá hafði verið gerð. Kærandi leitaði eftir því á fundi 2. mars 2010 að gera nýjan námssamning við stofnunina. Þar sem hann var skráður í 12 ECTS eininga háskólanám var eingöngu heimilt að gera slíkan samning á grundvelli 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en sú undanþáguheimild er bundin því skilyrði að greiðslur atvinnuleysisbóta skerðist að sama marki í samræmi við umfang námsins. Það hefði þýtt 40% skerðingu á bótagreiðslum til kæranda. Hann var ekki tilbúinn til þess og það slitnaði upp úr fundi kæranda með starfsmanni Vinnumálastofnunar.

Greiðslum atvinnuleysisbóta til kæranda var hætt 27. maí 2010 með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi gerir í kæru sinni kröfu um að gerður verði við hann námssamningur vegna vorannar 2010 að teknu tilliti til skerðingar lögum samkvæmt. Kærandi krefst þess að önnin miðist við 15. janúar 2010 en þá hafi námið hafist.

Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er sá sem telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar skylt að upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Kærandi var í námi á vorönn 2010 auk þess að þiggja greiðslur atvinnuleysistrygginga án þess að vera með námssamning við stofnunina og án þess að upplýsa Vinnumálastofnun um aðstæður sínar. Kærandi ber fyrir sig að hann hafi ekki vitað að þörf væri á að gera nýjan námssamning fyrir vorönn 2010 þar sem hann hefði verið með námssamning á haustönn 2009. Í þeim námssamningi kæranda við Vinnumálastofnun kemur fram að hann væri tímabundinn frá undirskrift í september 2009 til desember 2009. Kæranda mátti því vera ljóst að hann ætti ekki rétt á atvinnuleysistryggingum á vorönn 2010 án þess að fyrir lægi nýr námssamningur. Með því að synja nýjum námssamningi 2. mars 2010 með skerðingum atvinnuleysisbóta skv. 2. og 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar telur úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að kærandi hafi fyrirgert rétti sínum til þess að gera námssamning fyrir vorönn 2010. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun þar sem kærandi átti ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta þar sem hann var skráður í nám í Háskóla Íslands án námssamnings við Vinnumálastofnun.

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum en hún hljóðar svona:

 Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segir í umfjöllun um 39. gr. að gert sé ráð fyrir því að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Jafnframt segir að þetta eigi við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Kærandi fer einnig fram á að endurgreiðslukrafa Vinnumálastofnunar á hendur honum vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta verði látin niður falla. Ekki verður fallist á þær röksemdir kæranda að fella beri niður kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta til hans. Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur í tilvikum sem þessum. Ber kæranda því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. janúar til 19. mars 2010, er hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 27. maí 2010 í máli A um stöðvun á greiðslum atvinnuleysistrygginga er staðfest. Kærandi skal endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 334.029 kr.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum