Hoppa yfir valmynd
6. október 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 45/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 6. október 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 45/2011.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 3. febrúar 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 2. febrúar 2011 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur. Umsókn kæranda var samþykkt, en með vísan til námsloka hans voru greiðslur atvinnuleysistrygginga felldar niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 15. mars 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysistrygginga þann 20. desember 2010. Samkvæmt gögnum er fylgdu umsókn kæranda um atvinnuleysistryggingar, hafði kærandi verið skráður í nám við Borgarholtsskóla í Grafarvogi. Kærandi var ekki skráður í nám á vorönn 2011, en hann hafði ekki lokið námi við skólann.

Í skýringarbréfi til Vinnumálastofnunar, dags. 14. janúar 201, greindi kærandi frá því að hann hafi hætt námi sínu við Borgarholtsskóla vegna fjárhagslegra ástæðna. Hann sé kominn það langt í námi og eigi svo fáar einingar eftir að námið sé ekki lengur lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Einnig búi hann í Garðinum og þurfi að sækja skóla í Grafarvogi.

Mál kæranda var tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar þann 2. febrúar 2011. Það var mat stofnunarinnar að skýringar kæranda á ástæðum námsloka teldust ekki gildar í skilningi 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með bréfi, dags. 3. febrúar 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda þá ákvörðun stofnunarinnar að samþykkja umsókn hans um atvinnuleysisbætur, en með vísan til námsloka hans var réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir.

Með bréfi, dags. 9. febrúar 2011, óskaði náms- og starfsráðgjafi
Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum, eftir því að mál kæranda yrði endurskoðað hjá Vinnumálastofnun. Bendir námsráðgjafinn á að kærandi hafi verið á námssamningi hjá Vinnumálastofnun haustið 2009 vegna náms í grunndeild bíliðna í Borgarholtsskóla. Hann hafi svo farið í lánshæfa hluta námsins á vorönn 2010 og ekki þegið greiðslur atvinnuleysisbóta á meðan, einnig hafi kærandi haldið áfram námi sínu á haustönn 2010. Námsráðgjafinn segir nám kæranda á vorönn 2011 ekki hafa verið lánshæft vegna þess hversu fáar einingar stóðu eftir af námi hans, en hann hafði fyrirhugað að útskrifast í lok þeirrar annar. Nú hafi kærandi hins vegar verið tilneyddur að hætta námi um áramót vegna fjárskorts. Kærandi búi í Garði en námið sé í Grafarvogi og kostnaðarsamt hafi verið fyrir hann að ferðast til þess að sækja umrætt nám. Segir námsráðgjafinn að kærandi hafi verið samferða öðrum nemenda og hafi því deilt kostnaðinum, en sá nemandi hafi hætt í skólanum um áramót og þar með hafi kærandi ekki haft efni á því að sækja skólann.

Úthlutunarnefnd Vinnumálastofnunar tók mál kæranda fyrir að nýju á fundi þann 9. mars 2011. Með bréfi, dags. 10. mars 2011, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að staðfesta fyrri ákvörðun stofnunarinnar frá 2. febrúar 2011.

Í rökstuðningi með kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 15. mars 2011, vísar kærandi til símtals við starfsmann Vinnumálastofnunar þar sem honum hafi verið tjáð að hann hefði átt að skipuleggja nám sitt þannig að allt námið hefði verið lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Kærandi vísar til skýringarbréfs síns til Vinnumálastofnunar, dags. 14. janúar 2011, og segist vera ósáttur við að ekki sé tekið tillit til aðstæðna hans þar sem augljóst sé að hann hefði lokið námi sínu við skólann ef hann hefði haft möguleika á því að komast á milli heimilis síns og skólans. Kærandi segir að niðurstaða Vinnumálastofnunar hafi valdið honum mikilli vanlíðan og honum finnist hann órétti beittur.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 21. júní 2011, vísar Vinnumálastofnun til 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum en hafi hætt námi án gildra ástæðna, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum.

Vinnumálastofnun áréttar að í athugasemdum við 55. gr. í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að eðlilegt sé að þeir sem hætti námi án þess að hafa til þess gildar ástæður sæti sams konar biðtíma og þeir sem hætti störfum án gildra ástæðna, sbr. 54. gr. frumvarpsins. Orðalagið „gildar ástæður“ hefur verið skýrt þröngt sem þýðir í raun og veru að fá tilvik falli þar undir.

Vinnumálastofnun vísar til þess að samkvæmt framlögðu vottorði um skólavist hafi kærandi verið skráður í nám við Borgarholtsskóla í Grafarvogi á haustönn 2010, en hafi ekki verið skráður í námskeið á vormisseri 2011. Þá liggur fyrir að kærandi hafi ekki lokið bifvélavirkjunarbraut skólans.

Vinnumálastofnun vísar til skýringa kæranda á ástæðum að baki námslokum hans, en þær lúti aðallega að fjárhagsástæðum.

Vinnumálastofnun bendir á að tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem misst hafi störf sín tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Gera verði þá kröfu til þeirra sem segi upp starfi sínu eða hætti námi að þeir hafi til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að stunda nám eða gegna launuðu starfi. Það sé mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda á því hvers vegna hann hætti námi teljist ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Því skuli kærandi sæta biðtíma skv. 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Niðurstaða Vinnumálastofnunar er því að greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda skuli fyrst hefjast þegar umsækjandi hafi verið skráður hjá Vinnumálastofnun án greiðslu atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, að því gættu að hann uppfylli öll almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. júní 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 7. júlí 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Málið lýtur að túlkun á 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

 Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur hætt námi, sbr. c-lið 3. gr., án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Staðfesting frá viðkomandi skóla um að námi hafi verið hætt skal fylgja umsókninni.“

Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur hættir námi, sbr. c-lið 3. gr. laganna, og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur.

Í athugasemdum við 55. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segir að þeir sem hætta námi án þess að hafa til þess gildar ástæður þurfi að sæta sams konar biðtíma og þeir sem hætti störfum án gildra ástæðna, sbr. 54. gr. frumvarpsins. Vísað er til umfjöllunar um 54. gr. í því sambandi. Þar kemur fram að erfiðleikum sé bundið að skilgreina nákvæmlega gildar ástæður í lögum og reglugerðum og því þurfi að meta hvert tilvik fyrir sig. Orðalagið „gildar ástæður“ hefur verið skýrt þröngt sem þýðir að fá tilvik falla þar undir. Af framangreindu er ljóst að ef ekki liggja fyrir veigamiklar ástæður fyrir því að námi er hætt, þarf umsækjandi um atvinnuleysisbætur að sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Verður ekki fallist á að fjárhagsaðstæður geti almennt talist til gildra ástæðna í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi hætti í námi aðallega af fjárhagslegum ástæðum, en í kæru til úrskurðarnefndarinnar kveðst hann hafa átt fjárhagslega erfitt með að komast frá heimili sínu í Garði og í Borgarholtsskóla í Grafarvogi í Reykjavík. Í bréfi hans til Vinnumálastofnunar kemur fram að hann hafi ekki efni á að halda námi áfram. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að þær ástæður séu ekki gildar í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og ber því að láta kæranda sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysistrygginga.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 3. febrúar 2011 í máli A um niðurfellingu bótaréttar kæranda í tvo mánuði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum