Hoppa yfir valmynd
6. október 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 16/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 6. október 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 16/2011.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 20. október 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 14. október 2010 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur. Umsókn kæranda var samþykkt, en með vísan til námsloka hennar voru greiðslur atvinnuleysistrygginga felldar niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 18. janúar 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dag.s 13. september 2010. Með bréfi, dags. 22. september 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að afgreiðslu umsóknar hennar um atvinnuleysistryggingar hafi verið frestað og óskað var eftir upplýsingum frá henni varðandi nám hennar og hvort því hafi verið hætt eða lokið með prófgráðu.

Vinnumálastofnun bárust skriflegar skýringar frá kæranda þann 22. september 2010. Kærandi sagðist vera í fjarnámi og hún hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga þar sem hún hafi misst fyrra starf sitt sem hafi verið tímabundið sumarstarf. Þá segir kærandi að hún hafi verið í námi á haustönn 2009, vorönn 2010 og sé nú í fjarnámi á haustönn 2010. Í kjölfarið sótti kærandi um að fá að gera námssamning við Vinnumálastofnun vegna náms á haustönn 2010. Þann 23. september 2010 er kæranda tilkynnt að hún uppfylli ekki skilyrði stofnunarinnar fyrir gerð námssamnings þar sem hún hafi ekki starfað samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hún sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga.

Kærandi hafði samband við þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar vegna synjunar á námssamningi. Samkvæmt athugasemdum í samskiptasögu kæranda og Vinnumálastofnunar úr gagnagrunnum stofnunarinnar var kæranda tilkynnt að ef hún myndi hætta námi því sem hún var skráð í, gæti það orðið til þess að hún myndi ekki eiga rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga í tvo mánuði frá móttöku umsóknarinnar.

Vinnumálastofnun tók þá ákvörðun á fundi sínum þann 29. september 2010 að hafna umsókn kæranda um greiðslur atvinnuleysistrygginga þar sem hún væri í námi án þess að fyrir lægi námssamningur við Vinnumálastofnun.

Kærandi sagði sig úr námi sínu við Framhaldsskólann á Laugum þann 30. september 2010.

Með bréfi, dags. 20. október 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnunin hefði tekið þá ákvörðun að fella niður rétt hennar til greiðslu atvinnuleysistrygginga í tvo mánuði frá móttöku umsagnar. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá lágu fyrir skýringar kæranda á ástæðum námsloka sinna.

Í skýringarbréfi til Vinnumálastofnunar segir kærandi að hún hafi sagt sig úr námi við Framhaldsskólann á Laugum, í kjölfar synjunar Vinnumálastofnunar á námssamningi. Þá segir kærandi að hún sé þunguð og hún þurfi því á greiðslum atvinnuleysistrygginga að halda, eins telji hún að mikilvægara sé að búa henni og barninu gott heimili heldur en að stunda nám.

Í rökstuðningi með kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 18. janúar 2011, kemur fram að kærandi hafi mætt á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Egilsstöðum í því skyni að kanna hvaða rétt hún ætti er hún missti fyrra starf sitt. Þar hafi kærandi hitt fyrir starfsmann Vinnumálastofnunar sem hafi upplýst hana um möguleika á því að gera námssamning. Kærandi segist hafa skráð sig í nám í framhaldi af því. Þá segir kærandi að hún hafi verið skráð atvinnulaus þann 13. september 2010, en þann 21. september 2010 hafi henni borist synjun Vinnumálastofnunar á námssamningi. Þá segir kærandi að hún hafi í framhaldi af því haft samband við Vinnumálastofnun sem hafi tilkynnt henni að hún þurfi að segja sig úr námi til þess að eiga rétt á atvinnuleysisbótum, sem hún hafi síðan gert. Vinnumálastofnun hafi svo á ný haft samband við kæranda og krafið kæranda skýringa á því að hún hafi hætt námi sínu.

Kærandi telur sig hafa fengið afar slæma ráðgjöf og villandi upplýsingar frá starfsmönnum Vinnumálastofnunar á Egilsstöðum og bendir meðal annars á að umsókn um námssamning sé ekki dagsett rétt af hálfu Vinnumálastofnunar. Hún óskar því eftir að ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli hennar verði endurskoðuð þar sem óeðlilegt sé að einstaklingur sé látinn gjalda fyrir vankunnáttu starfsmanna Vinnumálastofnunar.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 6. júní 2011, bendir Vinnumálastofnun á að málið varði þá ákvörðun stofnunarinnar að synja kæranda um greiðslur atvinnuleysistrygginga í tvo mánuði þar sem hún hætti í námi sínu án gildra ástæðna. Einnig varði málið þá ákvörðun stofnunarinnar að synja kæranda um gerð námssamnings þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði þau sem stofnunin setur fyrir slíkri samningsgerð. Vinnumálastofnun áréttar að meginregla laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 52. gr., sé að námsmenn eigi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga. Ýmsar undanþágur sé að finna í 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en samkvæmt mati Vinnumálastofnunar falli kærandi ekki undir neina þeirra.

Vinnumálastofnun vísar til 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar komi fram að sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum en hafi hætt námi án gildra ástæðna, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum. Í athugasemdum við 55. gr. í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að eðlilegt sé að þeir sem hætti námi án þess að hafa til þess gildar ástæður, sæti sams konar biðtíma og þeir sem hætti störfum án gildra ástæðna, sbr. 54. gr. frumvarpsins. Í fyrrnefndri greinargerð segir við 1. mgr. 54. gr. að erfitt geti reynst að telja með tæmandi hætti hvaða ástæður séu gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. Lagareglan sé því matskennd og sé Vinnumálastofnun falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggi, falli að umræddri reglu. Skuli stofnunin líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða og hafa í huga að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Jafnframt beri að líta til þess að orðalagið „gildar ástæður“ hafi verið skýrt þröngt sem þýði í raun og veru að fá tilvik falli þar undir.

Vinnumálastofnun áréttar að tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem misst hafa störf sín tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Gera verði þá kröfu til þeirra sem segi upp starfi sínu eða hætti námi að þeir hafi til þess gildar ástæður. Telur Vinnumálastofnunar að námslok vegna fjárhagslegra örðugleika hafi ekki verið taldar gildar ástæður í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun vísar til 5. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, nr. 12/2009, þar sem mælt er fyrir um námssamninga og sett skilyrði fyrir gerð slíkra samninga. Stofnunin bendir á að skilyrði fyrir gerð námssamninga hafi verið rýmkuð til þess að koma betur til móts við þá sem séu án atvinnu en sem vilja geta nýtt sér þann möguleika að stunda nám samhliða greiðslum atvinnuleysistrygginga. Fram kemur að á vef Vinnumálastofnunar sé skilmerkilega gerð nánari grein fyrir hinum rýmkuðu skilyrðum. Námsúrræðum þessum hafi verið skipt í tvo flokka, námssamning 1 og námssamning 2. Almennu skilyrðin séu þau að umsækjandi hafi starfað sem launamaður samfellt á síðustu sex mánuðum á innlendum vinnumarkaði, að námið sé skilgreint sem vinnumarkaðsúrræði og sé ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Einnig skuli umsækjandi hafa samráð við ráðgjafa Vinnumálastofnunar um val á námi og námsskeiðum áður en skráning á námskeið fari fram.

Vinnumálastofnun vísar til þess að atvinnuleitandi skuli eiga sex mánaða samfellda vinnusögu áður en hann sæki um atvinnuleysisbætur en þar af sé heimilt að taka tillit til þess hafi atvinnuleitandi verið í allt að þrjá mánuði á atvinnuleysisbótum á því tímabili. Það sé svo ráðgjafi Vinnumálastofnunar sem leggi mat á umsókn og hvort hún uppfylli fyrrgreind skilyrði. Telji Vinnumálastofnun ljóst að kærandi uppfyllti ekki skilyrði til gerðar námssamnings við stofnunina, hvorki námssamnings 1 né 2, enda hafði hún ekki starfað samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hún sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga.

Niðurstaða Vinnumálastofnunar er því að kærandi eigi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga fyrr en að tveimur mánuðum liðnum frá móttöku umsóknar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. júní 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. júní 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Fyrir úrskurðarnefndinni hefur Vinnumálastofnun haldið því fram að þetta mál lúti að tveimur ágreiningsefnum, annars vegar þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að synja kæranda um gerð námssamnings, sbr. bréf stofnunarinnar til kæranda dags. 4. október 2010, og hins vegar þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að samþykkja greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda en fella bótagreiðslur niður í tvo mánuði, sbr. bréf stofnunarinnar til kæranda dags. 20. október 2010.

Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 21. janúar 2011. Ekki verður fyllilega ráðið af kærunni að kærð sé sú ákvörðun sem Vinnumálastofnun birti með bréfi, dags. 4. október 2010. Eigi að síður er lagt til grundvallar að einnig sé verið að kæra þá ákvörðun. Hins vegar er ljóst að kæra vegna þeirrar ákvörðunar barst að liðnum kærufresti, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Ekki verður séð að þetta sé afsakanlegt eða að veigamiklar ástæður mæli með því að þetta kæruatriði verði tekið til skoðunar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Því verður þessum lið málsins vísað frá.

Kæra vegna ákvörðunarinnar sem birt var með bréfi, dags. 20. október 2010, telst komin fram innan kærufrestsins enda þykir sýnt að kæran hafi verið afhent pósti innan frestsins í skilningi 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.

Við úrlausn á því hvort rétt hafi verið að synja kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta í tvo mánuði verður að líta til svohljóðandi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr.
a-lið 18. gr. laga nr. 134/2009:

 Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur hætt námi, sbr. c–lið 3. gr., án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Staðfesting frá viðkomandi skóla um að námi hafi verið hætt skal fylgja umsókninni.

Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur hættir námi, sbr. c-lið 3. gr. laganna, og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur. Í athugasemdum við 55. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segir að þeir sem hætta námi án þess að hafa til þess gildar ástæður þurfi að sæta sams konar biðtíma og þeir sem hætti störfum án gildra ástæðna, sbr. 54. gr. frumvarpsins. Vísað er til umfjöllunar um 54. gr. í því sambandi. Þar kemur fram að erfiðleikum sé bundið að skilgreina nákvæmlega gildar ástæður í lögum og reglugerðum og því þurfi að meta hvert tilvik fyrir sig. Orðalagið „gildar ástæður“ hefur verið skýrt þröngt sem þýðir að fá tilvik falla þar undir. Af framangreindu er ljóst að ef ekki liggja fyrir veigamiklar ástæður fyrir því að námi er hætt, þarf umsækjandi um atvinnuleysisbætur að sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi hafði stundað nám við Framhaldsskólann á Laugum í tvær annir áður en hún missti starf sitt og sótti um greiðslu atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun.

Samkvæmt fyrirliggjandi skólavottorði frá Framhaldsskólanum á Laugum var kærandi skráð í nám við skólann á haustönn 2010, eða frá 25. ágúst 2010. Í rökstuðningi með kæru til úrskurðarnefndarinnar færir kærandi fram þau rök að hún hafi eingöngu skráð sig í áframhaldandi nám við Framhaldsskólann á Laugum í kjölfar ráðgjafar starfsmanns Vinnumálastofnunar í upphafi septembermánaðar, um möguleika hennar á því að stunda nám samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysistrygginga. Gögn málsins þykja ekki styðja þessa fullyrðingu kæranda, enda var hún þegar skráð í nám á haustönn 2010, er hún leitaði til Vinnumálastofnunar í byrjun septembermánaðar 2010.

Kærandi hefur einnig fært fram þau rök að hún hafi hætt námi sínu í kjölfar synjunar Vinnumálastofnunar á gerð námssamnings og sökum þess að hún sé þunguð og telji mikilvægara að búa barni sínu gott heimili en að stunda nám. Samkvæmt því liggja fjárhagsástæður að baki námslokum kæranda sem ekki geta almennt talist til gildra ástæðna í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að þær ástæður sem kærandi hefur fært fram séu ekki gildar í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og ber því að láta kæranda sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysistrygginga.

 

Úrskurðarorð

Því kæruatriði, sem lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar að synja kæranda, A um gerð námssamnings, er vísað frá.

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar, að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði, er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum