Hoppa yfir valmynd
27. október 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 233/2010.

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 27. október 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 233/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 20. október 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 20. október 2010 fjallað um rétt hennar til atvinnuleysistrygginga. Vinnumálastofnun tók þá ákvörðun að færa bótarétt kæranda niður úr 100% í 75%, þar sem kærandi hafði eingöngu dagvistun fyrir börn sín til kl. 14.00 og var því samkvæmt mati stofnunarinnar ekki fullvirk í atvinnuleit skv. 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 15. desember 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 30. júlí 2008. Í ágústmánuði 2010 var kærandi boðuð á námskeið hjá stofnuninni. Kærandi hringdi í þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar í kjölfar boðunar og óskaði eftir því að þurfa ekki að sitja umrætt námskeið þar sem börn hennar höfðu eingöngu vistun til kl. 14.00. Í athugasemd úr samskiptasögu kæranda og Vinnumálastofnunar úr tölvukerfi Vinnumálastofnunar, dags. 27. ágúst 2010, kemur fram að tekið hafi verið tillit til aðstæðna kæranda og að stofnunin muni bjóða henni að sitja annað námskeið.

Þann 28. september 2010 var kæranda send boðun á annað námskeið á vegum Vinnumálastofnunar. Samkvæmt athugasemdum úr samskiptasögu kæranda og Vinnumálastofnunar mætti hún á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar þann 30. september 2010 en taldi sig þurfa lengri frest til að lengja vistunartíma barna sinna.

Þann 13. október 2010 hringdi kærandi á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og óskaði eftir því að hún yrði ekki boðuð á námskeið fram að áramótum þegar hún hugðist hefja nám.

Vinnumálastofnun sendi kæranda bréf, dags. 20. október 2010, og tilkynnti kæranda þá ákvörðun stofnunarinnar að færa bótarétt kæranda niður úr 100% í 75%, þar sem kærandi hefði eingöngu dagvistun fyrir börn sín til kl. 14.00.

Þann 12. nóvember 2010 sendi kærandi erindi til Vinnumálastofnunar og óskaði eftir skriflegum rökstuðningi vegna ákvörðunar um niðurfærslu bótaréttar kæranda. Svar barst frá Vinnumálastofnun, dags. 13. desember 2010. Þar kemur meðal annars fram að ákvörðun um að færa niður bótarétt kæranda í 75% úr 100%, hafi verið tekin á grundvelli 13., 14., og 4. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 15. desember 2010, segir kærandi að Vinnumálastofnun hafi gefið upp misvísandi upplýsingar um ástæður að baki ákvörðunar um niðurfellingu bótaréttar hennar. Kærandi vísar til þess að henni hafi borist bréf frá Vinnumálastofnun, dags. 20. október 2010, þar sem henni hafi verið boðið að bregðast við ákvörðun Vinnumálastofnunar um að skerða bótarétt hennar. Kærandi kveðst hafa gert athugasemdir í tölvupósti, dags. 22. október 2010, og sé afrit af þeim tölvupósti í fylgigögnum með kæru. Í skýringarbréfi sínu bendir kærandi á að vistunartími barna hennar sé til kl. 14.00 en hún hafi örugga pössun fyrir börnin eftir þann tíma. Kærandi gerir þá athugasemd í kæru sinni að hvergi sé í lögum um atvinnuleysistryggingar gerð krafa um að foreldrar séu með börn sín í leikskóla. Þar sé gerð krafa um að atvinnuleitendur geti tekið starfi með fullu starfshlutfalli og kveðst kærandi hafa uppfyllt það skilyrði. Bendir kærandi á að sú ráðstöfun að hafa börnin ekki í fullri vistun hafi verið vegna fjárhagslegra aðstæðna hennar en einnig bendir hún á að maki hennar sé námsmaður og að reglulegri kennslu í námi hans sé yfirleitt lokið kl. 14.00 á daginn.

Kærandi vísar máli sínu til stuðnings til niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 4/2007.

Kærandi segir að í símtali við Vinnumálastofnun hafi henni verið tjáð að bótaréttur hennar hafi verið lækkaður í 75% að hennar eigin ósk. Þar sem kærandi vildi ekki kannast við slíka beiðni, hafi starfsmaður Vinnumálastofnunar ráðfært sig við sinn yfirmann og í kjölfarið veitt kæranda nýja skýringu á skerðingu bótaréttarins, þá að kærandi hafi afþakkað vinnumarkaðsúrræði með því að hafa ekki börnin í vistun lengur en til kl. 14.00. Kærandi mótmælir því að hafa hafnað úrræði og segir hið rétta í málinu vera að þar sem hún hafi verið boðuð á námskeið með tveggja daga fyrirvara hafi hún beðið um örlítið lengri frest. Kærandi tekur það skýrt fram að hún hafi ekki afþakkað námskeið og henni hafi ekki verið tjáð að beiðni um lengri frest gæti varðað skerðingu bótaréttar.

Kærandi segir að hún hafi verið mjög virk í atvinnuleit og hún hafi leitað ýmissa úrræða út úr atvinnuleysi sínu. Kærandi segist hafa fundið námsleið sem hafi hentað aðstæðum hennar og er hún hafi fengið staðfestingu á skólavist hafi hún haft samband við starfsmann Vinnumálastofnunar þann 13. október 2010. Kærandi segir að starfsmaður Vinnumálastofnunar hafi tjáð henni að ef hún myndi ekki hringja í kæranda þann dag, þyrfti kærandi ekki að mæta á frekari námskeið þar sem hún væri að fara að hefja nám, en kærandi segist ekki hafa fengið símtal frá starfsmanni Vinnumálastofnunar þann 13. október 2010.

Kærandi gagnrýnir málsmeðferð Vinnumálastofnunar. Segir kærandi að hún hafi sent erindi í tölvupósti þann 12. nóvember 2010 en ekki fengið svar. Kærandi segist hafa hringt í Greiðslustofu Vinnumálastofnunar í lok nóvember mánaðar 2010, þar sem henni hafi verið tjáð að tölvupóstur hennar til stofnunar frá 12. nóvember 2010 hafi ekki borist stofnuninni. Kærandi vísar til bréfs Vinnumálastofnunar, dags. 13. desember 2010, sem barst henni þann 15. desember 2010 og bendir á að töluvert sé um tilvísanir í lög sem erfitt sé fyrir „leikmann“ að meta.

Kærandi mótmælir því að hún hafi ekki mætt á boðuð námskeið og segir það vera alrangt og vísar til áðurnefndra sjónarmiða sinna varðandi umræddar boðanir á námskeið.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 4. maí 2011, vísar Vinnumálastofnun til ákvæða 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem segi að eitt af meginskilyrðum atvinnuleysistrygginga sé að einstaklingur sem þiggur atvinnuleysisbætur sé í virkri atvinnuleit.

Vinnumálastofnun bendir á að nánar sé lýst í a–h-liðum 1. gr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, hvað teljist vera virk atvinnuleit. Vinnumálastofnun vísar einnig til
a-liðar 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem fram komi að með virkri atvinnuleit skv. 14. gr. sömu laga sé átt við færni til flestra almennra starfa, að eiga frumkvæði að starfsleit, hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, vera reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf, hlutastarf eða vaktavinnu sé að ræða og að hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða.

Vinnumálastofnun vísar til þess að í 4. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé veitt heimild til að veita undanþágu frá skilyrðum laganna, þannig að atvinnuleitandi geti vegna aldurs, félagslegra aðstæðna eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra fjölskyldumeðlima óskað eftir hlutastarfi eða starfi innan tiltekins svæðis og talist virkur í atvinnuleit. Vinnumálastofnun vísar til athugasemda með 14. gr. í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar, en þar sé sérstaklega tekið fram að með umönnunarskyldu vegna ungra barna sé ekki átt við þau tilvik þegar atvinnuleitandi beri fyrir sig að hafa ekki barnapössun fyrir börn á dagvinnutíma.

Vinnumálastofnun vísar einnig til 4. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem segi að tryggingarhlutfall launamanns geti „aldrei orðið hærra en sem nemur starfshlutfalli hans á ávinnslutímabilinu eða því starfshlutfalli sem hann er reiðubúinn að ráða sig til, sbr. 4. mgr. 14. gr“.

Vinnumálastofnun áréttar að með umsókn um atvinnuleysistryggingar felist meðal annars yfirlýsing um að atvinnuleitandi óski eftir því að fá greiddar atvinnuleysisbætur meðan á atvinnuleit standi. Atvinnuleit megi ekki vera háð fyrirvörum og þurfi umsækjandi að vera almennt reiðubúinn til þess að ganga í öll venjubundin störf. Telur Vinnumálastofnun að ekki sé hægt að teljast að fullu í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar ef ákveðinn vinnutími komi eingöngu til greina, sbr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun vísar til þess að kærandi eigi þrjú ung börn og að kærandi hafi ítrekað ekki getað sótt námskeið hjá Vinnumálastofnun sökum þess að hún hafi ekki haft gæslu fyrir börnin eftir kl. 14.00 á daginn, en kærandi hafi upplýst stofnunina um að hún muni lengja vistunartímann þegar hún fái vinnu. Vinnumálastofnun vísar einnig til fyrirspurnar frá kæranda þar sem óskað var eftir því að hún þyrfti ekki að sitja námskeið hjá stofnuninni þar sem hún hygðist hefja nám.

Vinnumálastofnun telur því af öllu ofangreindu, að ekki sé unnt að líta svo á að kærandi uppfylli að fullu skilyrði 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um virka atvinnuleit. Telur Vinnumálastofnun að í ljósi þess að kærandi virðist eingöngu geta sinnt atvinnuleit sinni í skilningi 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar til kl. 14.00 á daginn, sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi aðeins rétt til 75% atvinnuleysistrygginga. Berist Vinnumálastofnun nýjar upplýsingar frá kæranda er gefi til kynna að hún sé að fullu fær til starfa og þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum muni stofnunin taka mál hennar upp að nýju.

Niðurstaða Vinnumálastofnunar er því að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda um niðurfærslu bótaréttar kæranda úr 100% í 75%.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. maí 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. maí 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2.

Niðurstaða

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur í lok júlí 2008 og rúmum tveimur árum síðar, eða í lok ágúst 2010, var fallist á, af hálfu Vinnumálastofnunar, að hún þyrfti ekki að taka þátt í vinnumarkaðsúrræði, þ.e. námskeiði, sem að hluta til var haldið eftir kl. 14.00. Mánuði síðar hafnaði hún aftur að taka þátt í vinnumarkaðsúrræði af þessu tagi. Kærandi hafði símasamband við Vinnumálastofnun 13. október 2010 og óskaði eftir því að þurfa ekki að sækja námskeið fram að áramótum þar sem hún hygðist hefja nám í ársbyrjun 2011. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 20. október 2010, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hennar hefði verið lækkaður úr 100% í 75%. Þrátt fyrir andmæli kæranda stóð Vinnumálastofnun við þessa ákvörðun, sbr. rökstuðning stofnunarinnar, dags. 13. desember 2010.

Með því að sækja um atvinnuleysisbætur er atvinnuleitandi einnig að sækja um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistrygginga. Eitt skilyrða þess að vera í virkri atvinnuleit er að hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, sbr. g-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Viðurlög eru við því að hafna þátttöku í vinnumarkaðsaðgerð, sbr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ekki verður séð að önnur ákvæði en 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi til álita þegar beita á atvinnuleitanda viðurlögum fyrir að taka ekki þátt í vinnumarkaðsúrræði.

Þrátt fyrir þessi afdráttarlausu lagaákvæði um skyldu atvinnuleitenda að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum og hvaða afleiðingar það kann að hafa, ef út af þessari skyldu er brugðið, kaus Vinnumálastofnun að beita ekki þessum lagaúrræðum í máli kæranda. Þess í stað var ákveðið að lækka bótarétt kæranda úr 100% í 75% og hefur þessi ákvörðun verið rökstudd með vísan til þess að kærandi uppfyllti ekki að öllu leyti skilyrði 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Áður en hin kærða ákvörðun var tekin var kæranda ekki boðið að andmæla hinni fyrirhugaðri ákvörðun, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Með ákvörðuninni var ekki farið eftir þeim reglum sem gilda þegar atvinnuleitandi hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerð, sbr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þessir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun leiða til þess að hún verður felld úr gildi.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 20. október 2010 í máli A þess efnis að hlutfall atvinnuleysisbóta kæranda skuli vera 75% er felld úr gildi.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum