Hoppa yfir valmynd
27. október 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 216/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 27. október 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 216/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 10. nóvember 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 8. nóvember 2010 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 28. október 2010. Vinnumálastofnun synjaði umsókn kæranda á grundvelli a-liðar 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hún þáði greiðslur sjúkradagpeninga og endurhæfingarlífeyris á sama tíma og hún óskaði eftir greiðslu atvinnuleysistrygginga og var því ekki talin vera í virkri atvinnuleit. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 18. nóvember 2010. Hún krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og henni verði greiddar atvinnuleysisbætur frá umsóknardegi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 28. október 2010, en umsókninni var hafnað sökum þess að hún þáði ósamrýmanlegar greiðslur á sama tíma og taldist því ekki vera í virkri atvinnuleit. Samkvæmt framlögðu læknisvottorði, dags. 7. október 2010, var hún í 50% starfi í kjölfar slyss þegar henni var sagt upp starfi. Óvíst væri að hún réði við hærra starfshlutfall í framhaldinu.

Kærandi sótti aftur um greiðslur atvinnuleysistrygginga þann 15. febrúar 2011. Var umsókn kæranda samþykkt þann 4. apríl 2011.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 18. nóvember 2010, setur kærandi fram þá kröfu að Vinnumálastofnun endurskoði fyrri ákvörðun stofnunarinnar um að synja henni um atvinnuleysisbætur frá umsóknardegi þann 28. október 2010. Kærandi bendir á að hún hafi verið í fullu starfi er hún hafi orðið fyrir slysi. Kærandi segir að hún hafi snúið aftur til vinnu eftir slysið og hafi starfshlutfall hennar þá verið 50% og á móti launagreiðslum hafi komið endurhæfingarlífeyrir. Kærandi tekur einnig fram að greiðslum endurhæfingarlífeyris hafi lokið þann 1. nóvember 2010. Kærandi segir að henni hafi verið sagt upp starfi sínu vegna samdráttar hjá fyrirtæki vinnuveitanda og hún hafi verið atvinnulaus síðan, en hún hafi fullan hug á því að vera virk í atvinnuleit og sé að leita að starfi við sitt hæfi.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 18. maí 2011, vísar Vinnumálastofnun til a-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar er kveðið á um að virk atvinnuleit sé skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta, en með virkri atvinnuleit skv. 14. gr. sé meðal annars átt við færni til flestra almennra starfa, að eiga frumkvæði að starfsleit, vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara og að atvinnuleitandi sé reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi óháð því hvort um fullt starf, hlutastarf eða vaktavinnu sé að ræða.

Vinnumálastofnun vísar til umsóknar kæranda um greiðslur atvinnuleysistrygginga þann 28. október 2010 og annarra fyrirliggjandi gagna sem staðfesta að kærandi þáði greiðslur endurhæfingarlífeyris frá aprílmánuði 2010 til og með nóvembermánuði 2010.

Vinnumálastofnun vísar til 1. mgr. 51. gr. laga þar sem fjallað er um ósamrýmanlegar greiðslur sem leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum. Þar segi meðal annars að hver sá sem njóti endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð teljist ekki tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar á sama tímabili. Í athugasemdum með umræddu ákvæði í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 134/2009 segi að greiðslur endurhæfingalífeyris á grundvelli laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, skuli ekki teljast til samrýmanlegra greiðslna „enda bæði kerfin ætluð til framfærslu þegar einstaklingar geta ekki tekið virkan þátt á vinnumarkaði“. Sé sérstaklega tekið fram að greiðslur sem ætlaðar séu til að bæta óvinnufærni að fullu, úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, verði ósamrýmanlegar atvinnuleysistryggingum. Af orðalagi greinarinnar sé því ljóst að hver sá er þiggi greiðslur slysadagpeninga, sjúkradagpeninga eða endurhæfingarlífeyris geti ekki talist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar á sama tíma. Fái atvinnuleitandi greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags sem komi til vegna óvinnufærni að fullu, teljist sá hinn sami ekki tryggður samkvæmt lögunum þann tíma.

Vinnumálastofnun telji því ljóst að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á þeim tíma er hún sótti um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni. Telji Vinnumálastofnun að stofnuninni hafi því borið að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 28. október 2010.

Niðurstaða Vinnumálastofnunar er að kærandi eigi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga á meðan hún þiggur greiðslur endurhæfingalífeyris.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. maí 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir
3. júní 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

 Hver sá sem nýtur slysadagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar, sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eða greiðslna úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem koma til vegna óvinnufærni að fullu telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili.

Í athugasemdum með umræddu ákvæði í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 134/2009 segir að greiðslur endurhæfingalífeyris á grundvelli laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, skuli ekki teljast til samrýmanlegra greiðslna „enda bæði kerfin ætluð til framfærslu þegar einstaklingar geta ekki tekið virkan þátt á vinnumarkaði“. Atvinnuleitandi sem þiggur greiðslur endurhæfingarlífeyris getur því ekki talist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar á sama tíma.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 28. október 2010, en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í máli þessu þáði kærandi greiðslur endurhæfingalífeyris frá Tryggingastofnun frá aprílmánuði 2010 til nóvembermánaðar 2010. Er því ljóst að kærandi þáði ósamrýmanlegar greiðslur á sama tíma og hún sótti um greiðslur atvinnuleysistryggingar hjá Vinnumálastofnun, þann 28. október 2010, og bar því Vinnumálastofnun að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur.

Í a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um eitt af meginskilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta, sem er virk atvinnuleit af hálfu atvinnuleitanda. Samkvæmt 14. gr. laganna er með virkri atvinnuleit meðal annars átt við færni til flestra almennra starfa og vilja og getu til að taka starfi sem býðst án fyrirvara.

Í máli þessu liggur fyrir vottorð læknis, dags. 7. október 2010, þar sem fram kemur að kærandi hafi lent í alvarlegu slysi og að nokkur óvissa sé um vinnufærni hennar og hversu hátt starfshlutfall hún ráði við sökum heilsufars síns.

Í ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 10. nóvember 2010 rökstyður stofnunin höfnun á umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á þann hátt að kærandi teljist ekki vera virk í atvinnuleit þar sem hún þiggi greiðslur endurhæfingarlífeyris. Einnig vísar Vinnumálastofnun til framlagðs læknisvottorðs þess efnis að nokkur óvissa sé varðandi starfshæfni kæranda. Vinnumálastofnun vísar til a-liðar 13. gr. laga því til stuðnings, en ljóst þykir af efni ákvörðunarinnar að átt sé við a-lið 1. mgr. 13. gr. laganna. Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 18. maí 2011, fer Vinnumálastofnun fram á staðfestingu á ákvörðun sinni í máli kæranda. Þar vísar Vinnumálastofnun til a-liðar 1. mgr. 13. gr. laganna, en stofnunin virðist þó aðallega styðjast við 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem fjallað er um ósamrýmanlegar greiðslur sem leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum, sem í tilfelli kæranda eru greiðslur endurhæfingarlífeyris henni til handa. Misvísandi heimfærsla Vinnumálastofnunar til lagaákvæða í ákvörðun kæranda verður ekki talin hafa haft áhrif á niðurstöðu málsins, en þó er ástæða til að benda á þá staðreynd að Vinnumálastofnun viðhafði ekki vandaða stjórnsýsluhætti er hún færði fram lagarök í greinargerð sinni til úrskurðarnefndarinnar sem ekki er að finna í ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda.

Ljóst er að kærandi uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á þeim tíma er hún sótti um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni, þar sem hún þáði greiðslur endurhæfingalífeyris á sama tíma. Vinnumálastofnun bar því að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 28. október 2010.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 10. nóvember 2010 í máli A um synjun á umsókn kæranda um greiðslur atvinnuleysistrygginga er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum