Hoppa yfir valmynd
9. september 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 183/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 9. september 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 183/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 29. september 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar hafi hann verið staddur erlendis frá 17. júlí til 17. september 2010 og hafi því ekki uppfyllt skilyrði þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur á því tímabili. Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda jafnframt, að þar sem hann hafi látið hjá líða að veita upplýsingar um dvöl sína erlendis, hafi stofnunin tekið ákvörðun um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá degi ákvörðunar, 29. september 2010, með vísan til 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 30. september 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga frá Vinnumálastofnun þann 5. ágúst 2008 og fékk greiddar bætur í samræmi við rétt sinn.

Þann 21. júlí 2010 barst rafræn staðfesting á atvinnuleit á kennitölu kæranda frá B-landi. Í kjölfarið sendi Vinnumálastofnun kæranda bréf þann 5. ágúst 2010 þar sem óskað var eftir skýringum á dvöl hans erlendis. Engar athugasemdir bárust frá kæranda og með bréfi, dags. 31. ágúst 2010, var honum tilkynnt að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hans skyldu stöðvaðar. Í bréfi Vinnumálastofnunar er vakin athygli á því að ef skýringar kæranda myndu berast stofnuninni yrði mál hans tekið upp að nýju. Þann 20. september 2010 skilaði kærandi inn skýringum á dvöl sinni í útlöndum sem og farseðlum sem staðfestu brottfarar- og heimkomudag. Samkvæmt farseðli hafði kærandi dvalið erlendis frá 17. júlí til 17. september 2010.

Mál kæranda var tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar þann 27. september 2010 og tók stofnunin ákvörðun um að fella niður greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda í tvo mánuði frá ákvörðunardegi í samræmi við 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Var kæranda tilkynnt um ákvörðun Vinnumálastofnunar með bréfi, dags. 29. september 2010. Kæranda var einnig tilkynnt að hann fengi ekki greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 17. júlí til 17. september 2010 í samræmi við c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem kærandi hafi á því tímabili ekki uppfyllt skilyrði þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 30. september 2010, segir kærandi að hann hafi ekki verið í fríi í þessari umræddu ferð, heldur hafi hann verið í atvinnuleit og mætt í viðtöl hjá teiknistofum og skrifstofum í B-landi. Einnig bendir kærandi á að hann sé einstæður faðir og þurfi hann að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum muni það hafa alvarlegar fjárhaglegar afleiðingar fyrir hann og fjölskyldu hans.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 4. maí 2011, vísar Vinnumálastofnun til c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 þar sem mælt er fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysistrygginga þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Vinnumálastofnun vísar einnig til 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt er fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar, en atvinnuleitanda ber skylda til þess að upplýsa Vinnumálstofnun um allar þær breytingar sem kunna að verða á högum hans eða annað sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun bendir á að í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009, til breytinga á lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, segi meðal annars að láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálstofnun nauðsynlegar upplýsingar eða veiti rangar upplýsingar, komi til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Vinnumálstofnun áréttar að einnig er mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysistrygginga í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistrygginga. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum. Vinnumálastofnun vísar einnig til 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem kveðið er á um viðurlög við brotum á upplýsingaskyldu hins tryggða. Segi þar að sá sem lætur hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla sömu laga, fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir.

Vinnumálastofnun telur ljóst að kærandi hafi verið staddur erlendis á tímabilinu frá 17. júlí til 17. september 2010. Vinnumálastofnun áréttar því að í c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um nr. 54/2006 sé skýrt kveðið á um það skilyrði laganna að umsækjandi þurfi að vera staddur hér á landi. Kærandi tilkynnti ekki Vinnumálastofnun fyrirfram um utanlandsferð sína, eins og honum bar skv. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.

Vinnumálastofnun vísar til ummæla kæranda í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 3. maí 2011, þar sem kærandi segist hafa verið erlendis í atvinnuleit. Vinnumálastofnun bendir á að stofnunin hafi margsinnis vakið athygli á því að eitt af skilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta sé að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi, Einu undanþágur frá skilyrðum c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna í VII. kafla laganna. Vinnumálastofnun bendir einnig á að sérstaklega sé vakin athygli á framangreindum atriðum á kynningarfundum stofnunarinnar og þeim sem huga að ferð til útlanda á sama tíma og þeir eru skráðir í atvinnuleit hjá stofnuninni, sé bent á að hafa samband við þjónustuskrifstofu stofnunarinnar fyrir brottfarardag.

Vinnumálastofnun vekur jafnframt athygli á því að í þeim tilvikum er Vinnumálastofnun er tilkynnt um slíkar ferðir fyrir fram sé atvinnuleitanda gerð grein fyrir því að hann fái ekki greiddar atvinnuleysisbætur á meðan hann dvelur erlendis nema fyrir liggi E-303 vottorð hjá stofnuninni.

Vinnumálastofnun segir það eindregna afstöðu stofnunarinnar að eftirlitsaðgerðum stofnunarinnar verði ekki jafnað við tilkynningu frá atvinnuleitanda og telur stofnunin að í ljósi 9. gr. og 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, verði að gera greinarmun á þeim sem láta sjálfir vita um ferðir sínar og þeim sem ekki láta sjálfir vita um ferðir sínar, en stofnuninni berist þær upplýsingar með öðrum leiðum.

Það er mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi í umrætt sinn látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atvik er höfðu bein áhrif á rétt hans til greiðslu atvinnuleysistrygginga. Hann eigi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga í tvo mánuði frá ákvörðunardegi, þann 29. september 2010, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Niðurstaða Vinnumálastofnunar er því að kærandi skuli sæta biðtíma í tvo mánuði frá ákvörðunardegi, sbr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá fái hann ekki greiddar atvinnuleysisbætur fyrir þann tíma er hann var erlendis og uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. maí 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. maí 2011. Bréf úrskurðarnefndarinnar barst ekki kæranda og var endursent þar sem kæranda var ekki að finna á því heimilisfangi sem hann gaf upp í kæru sinni til nefndarinnar. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, en hún er svohljóðandi:

 Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar [skv. 14. gr.] eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma ea viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Þetta ákvæði þarf meðal annars að túlka með hliðsjón af því að eitt af skilyrðum þess að geta haldið rétti sínum í atvinnuleysistryggingakerfinu er að vera búsettur og staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Það er óumdeilt að kærandi dvaldi erlendis á tímabilinu frá 17. júlí til 17. september 2010, en hann tilkynnti Vinnumálastofnun ekki fyrirfram að hann yrði ekki staddur á landinu á umræddu tímabili. Kærandi hefur fært fram þær skýringar að hann hafi ekki verið í fríi í umræddri ferð, heldur hafi hann verið í atvinnuleit og mætt í viðtöl hjá atvinnurekendum.

Hafi atvinnuleitandi hug á að leita sér að vinnu í öðru landi en á Íslandi getur hann á meðan ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Frá þessari meginreglu má víkja ef atvinnuleitandi uppfyllir tiltekin skilyrði og sækir um vinnu í aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, sbr. ákvæði VIII. kafla laga um atvinnuleysistryggingar. Af þessu leiðir að útilokað er að greiða atvinnuleitendum atvinnuleysisbætur til að sækja um atvinnu í ríkjum sem enga samninga hafa við Ísland um gagnkvæmt samstarf í vinnumarkaðsmálum. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki fallist á að kærandi geti réttlætt tveggja mánaða dvöl sína í B-landi með því að hann hafi verið að leita sér þar að vinnu.

Í ljósi þeirrar upplýsingaskyldu atvinnuleitenda sem kveðið er á um í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, verður fallist á að kærandi hafi brotið gegn trúnaðarskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun í umrætt sinn, er hann hélt af landi brott án þess að láta vita af því fyrir fram. Því bar Vinnumálastofnun að láta hann sæta viðurlögum skv. 1. mgr. 59. gr. laganna. Að auki ber kæranda að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hann þáði á meðan hann var staddur erlendis og uppfyllti ekki skilyrði um greiðslu atvinnuleysistrygginga, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.

Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 29. september 2010 í máli A um niðurfellingu bótaréttar kæranda í tvo mánuði og endurgreiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 17. júlí 2010 til 17. september 2010 er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum