Hoppa yfir valmynd
3. júní 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 158/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 3. júní 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 158/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 20. ágúst 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 18. ágúst 2010 fjallað um fjarveru kæranda á boðað námskeið á vegum stofnunarinnar. Vegna fjarveru kæranda var réttur hennar til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði frá og með degi ákvörðunar sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi mótteknu 23. ágúst 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 23. mars 2009. Hún skráði sig á ljósmyndanámskeið þann 26. apríl 2010 en námskeiðið var haldið frá 26. apríl til 3. júní 2010. Vinnumálastofnun bárust þann 7. júní 2010 upplýsingar frá þeim sem héldu námskeiðið að kærandi hafi ekki sótt námskeiðið. Í kjölfarið sendi stofnunin kæranda bréf, dags. 30. júní 2010, þar sem kæranda var greint frá því að stofnunin hafi fjallað um höfnun hennar á þátttöku í námskeiðinu á fundi sama dag. Jafnframt sagði og stofnunin hafi frestað afgreiðslu málsins þar sem afstaða hennar lá ekki fyrir og var óskað eftir skýringum frá kæranda.

Skýringarbréf kæranda á fjarveru hennar á umræddu námskeiði barst 3. ágúst 2010. Skýringarnar voru ekki metnar gildar og í kjölfarið var hin kærða ákvörðun tekin þann 18. ágúst 2010 um að stöðva greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda í tvo mánuði frá ákvörðunardegi.

Í erindi kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða greinir kærandi frá samskiptum sínum við fulltrúa Vinnumálastofnunar hjá „ungu fólki til athafna“. Þar hafi komið fram að öll námskeið sem boðið hafi verið upp á á þessum tíma hafi verið fullsetin eða þegar hafin. Kærandi kveðst hafa valið eitt námskeiðið sem boðið hafi verið upp á en fulltrúinn hafi ekki verið viss um hvort það væri laust. Kæranda hafi svo verið sagt að þar sem hún væri ófrísk þá þyrfti hún ekki að hafa áhyggjur af því ef námskeiðið væri fullt, því þá tæki hún bara þátt þegar hún myndi ljúka fæðingarorlofi. Kærandi greinir frá því að fulltrúinn hafi síðar ætlað að senda henni tölvubréf og láta hana vita hvenær námskeiðið væri haldið og á hvaða tíma. Kærandi kveðst ekki hafa fengið neitt tölvubréf og því hafi hún haldið að námskeiðið væri full setið og að hún ætti ekki að mæta á það.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 5. apríl 2010, kemur fram að í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Þar segi að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Vinnumálastofnun greinir frá því að í skýringarbréfi kæranda til stofnunarinnar og í kæru segi hún að þar sem fulltrúi stofnunarinnar hafi ekki sent henni upplýsingar um námskeið í tölvubréfi hafi hún gert ráð fyrir því að hún ætti ekki að mæta. Segi þar ennfremur að starfsmaður stofnunarinnar sem hafi séð um skráninguna hafi sagt kæranda að óvíst væri að laust væri á námskeiðinu og hún yrði látin vita um nánari dagsetningu síðar. Slíkar upplýsingar hafi þó aldrei borist henni. Vinnumálastofnun fellst ekki á þessar fullyrðingar um að henni hafi ekki verið tjáð hvenær umrætt námskeið hafi verið haldið. Í fyrirliggjandi gögnum málsins sé að finna bókun á umrætt námskeið, staðfest af kæranda. Með undirskrift kæranda þann 26. apríl 2010 hafi hún staðfest að hún hafi verið boðin á námskeið frá 26. apríl til 3. júní 2010. Þar komi fram hvenær og hvar námskeiðið hafi verið haldið. Þá segi í bréfinu að mikilvægt sé að uppfylla kröfur um mætingaskyldu. Vinnumálastofnun bendir á að það liggi fyrir að bókun á námskeiðið hafi farið fram sama dag og námskeiðið hófst og samkvæmt vinnureglu Vinnumálastofnunar sé atvinnuleitendum ekki boðið að skrá nafn sitt á formlegt eyðublað sé námskeiðið fullbókað. Í ljósi þess að rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sé það mat Vinnumálastofnunar að skýring sú er kærandi gefi í bréfi sínu til stofnunarinnar geti ekki réttlætt fjarveru hennar á boðaðri vinnumarkaðsaðgerð á vegum stofnunarinnar og að með fjarveru sinni hafi hún brugðist skyldum sínum skv. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. apríl 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 26. apríl 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 21. gr. laga nr. 134/2009, en hún er svohljóðandi:

 Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.

Í athugasemdum við 58. gr. með frumvarpi til laga atvinnuleysistryggingar kemur fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar og sé litið svo á að hinum tryggðu sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Samkvæmt 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er virk atvinnuleit skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Til að geta talist vera í virkri atvinnuleit þarf umsækjandi að hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, sbr. g-lið 14. gr. laganna. Ekki er gert ráð fyrir undanþágum frá þessari skyldu, en gera verður ráð fyrir því að til slíkrar þátttöku sé boðað með eðlilegum hætti og kæranda almennt gert mögulegt að taka þátt í slíkum aðgerðum.Atvinnuleitanda ber að tilkynna Vinnumálastofnun ef hann telur sig ekki geta sótt námskeið sem hann er boðaður til og verður slík tilkynning að berast stofnuninni án ástæðulausrar tafar. Kærandi skráði sig á námskeið hjá Vinnumálastofnun þann 26. apríl 2010 sem hófst þann sama dag. Kærandi mætti ekki á námskeiðið og boðaði ekki forföll. Kærandi gaf þær skýringar á fjarveru sinni að henni hafi verið sagt að hún myndi fá tölvubréf þar sem fram kæmi tími og staðsetning námskeiðsins og hvort námskeiðið væri fullsetið. Hún hafi hins vegar ekki fengið slíkt tölvubréf og því hafi hún haldið að námskeiðið væri fullsetið.

Kærandi undirritaði staðfestingu á því að hún myndi mæta á tilgreint námskeið á tilteknum stað og á tilteknum tíma sem að auki hófst þann sama dag og hún skráði sig á námskeiðið.

Kærandi mætti í viðtal hjá ráðgjafa Vinnumálastofnunar þann 26. apríl 2010 og skrifaði undir bókunarblað á námskeið sem átti að byrja þann sama dag. Með undirritun sinni staðfestingu hún að hún myndi mæta á námskeiðið á tilteknum stað og á tilteknum tíma. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun bóka ráðgjafar atvinnuleitendur ekki á námskeið sem eru full eða óvíst að verði haldin. Eftir að búið er að skrifa undir bókunarblað er viðkomandi skráður á námskeið og allar upplýsingar eiga að liggja fyrir.

Í ljósi framanritaðs og með vísan til rökstuðnings Vinnumálastofnunar að öðru leyti verður ekki talið að skýring kæranda réttlæti fjarveru hennar á námskeiðinu. Því ber að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar um tímabundna niðurfellingu á rétti hennar til atvinnuleysisbóta.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 18. ágúst 2010 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum