Hoppa yfir valmynd
1. september 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 231/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 1. september 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 231/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 14. október 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem kærandi hafi verið við vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en kærandi hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 14. desember 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að ný ákvörðun verði tekin í máli hennar á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 10. mars 2009 og fékk greiddar bætur í samræmi við rétt sinn. Með bréfi, dags. 10. september 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að hún hafi verið við vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Við eftirgrennslan eftirlitsdeildar Vinnumálastofnunar, hafði komið í ljós að á samskiptavefnum „Facebook“ hafði kærandi til sölu fatnað og snyrtivörur undir nafninu „X.isog „snyrtivörur til sölu“.

Í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 10. september 2010, kemur einnig fram að stofnuninni hafði borist upplýsingar þess efnis, að kærandi hefði verið erlendis í júlí mánuði árið 2010 og að kærandi hefði stundað nám við heilsu og förðunarskóla á sama tíma og kærandi þáði atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun óskaði eftir skriflegum skýringum frá kæranda og bárust stofnuninni skýringar kæranda í tölvupósti dag. 18. september 2010. Í svarbréfi kæranda staðfesti hún styttri dvöl erlendis en minntist ekki á netverslun sína eða sjálfstæða starfsemi hennar við sölu á snyrtivörum og öðrum varningi.

Vinnumálastofnun taldi skýringar kæranda vera ófullnægjandi og með bréfi, dags. 29. september 2010, var kæranda send öll fyrirliggjandi gögn eftirlitsdeildar Vinnumálastofnunar í máli hennar, þ.m.t. útprentanir af „facebook“ síðu kæranda. Í bréfi eftirlitsdeildar Vinnumálastofnunar var óskað eftir skriflegum skýringum kæranda á sölu hennar á meðal annars snyrtivörum og fatnaði, en kærandi tók ekki afstöðu til framangreindra atriða í bréfi sínu til Vinnumálastofnunar, dags. 18. september 2010. Einnig óskaði Vinnumálastofnun eftir skýringum á því hvenær kærandi hóf fyrrnefnda sjálfstæða starfsemi. Þá óskaði stofnunin eftir skýringum kæranda á því hvers vegna hún hafi ekki tilkynnt þessa sjálfstæðu starfsemi til Vinnumálastofnunar.

Í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 29. september 2010, var kæranda einnig gerð grein fyrir því að brot gegn 35. gr. a. og 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 gæti leitt til viðurlaga skv. XI. kafla laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun barst bréf frá kæranda, dags. 4. október 2010, þar sem kærandi segist hafi leitað tækifæra til að afla sér tekna og að hún hafi ekki gert sér grein fyrir því að henni bæri skylda til að tilkynna Vinnumálastofnun um starfsemi sína.

Með bréfi, dags. 5. október 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar skyldu stöðvaðar þar sem kærandi hefði orðið uppvís að vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Niðurstaða stofnunarinnar var því að kærandi skyldi ekki eiga rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga fyrr en hún hefði starfað í a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.

Kærandi sendi ítarlegt bréf til Vinnumálastofnunar í kjölfar synjunarinnar, dags. 14. október 2010, og óskaði eftir endurupptöku málsins. Sem fylgigögn með bréfi sínu sendi kærandi Vinnumálastofnun afrit af færslusögu kæranda hjá greiðslukortafyrirtækinu Paypal og yfirlit yfir bankareikning kæranda.

Með bréfi, dags. 10. nóvember 2010, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun stofnunarinnar frá 14. október 2010 skyldi staðfest. Taldi Vinnumálastofnun að gögn þau er kærandi lagði fram með bréfi sínu, dags. 14. október 2010, staðfestu umfang starfsemi hennar en að ekki væri ástæða til þess að taka nýja ákvörðun í máli hennar. Kæranda var leiðbeint um rétt sinn til að kæra ákvörðun stofnunarinnar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

Í skýringarbréfi sínu til eftirlitsdeildar Vinnumálastofnunar, dags. 14. október 2010, segir kærandi að hún geti ekki fallist á þá niðurstöðu að hún hafi stundað vinnu samhliða því að hafa þegið atvinnuleysisbætur. Segir kærandi litla atvinnumöguleika vera í hennar byggðarlagi og því hafi hún reynt að breyta stöðu sinni og farið á námskeið til þess að læra að setja á gelneglur. Bendir kærandi á að hún hafi ekki sótt um styrk fyrir þessu námskeiði hjá Vinnumálastofnun, heldur tekið lán fyrir námskeiðskostnaðinum. Kærandi segist ekki hafa hagnast á þessari iðju, námskeiðs- og efniskostnaður hafi verið hár og lítið hafi verið um viðskiptavini.

Kærandi skýrir tilurð netverslunar sinnar þannig, að hún hafi ætlað að kaupa snyrtivörur til eigin nota erlendis frá. Segir kærandi að hún hafi séð að sendingarkostnaðurinn hafi verið hár og hún hafi reiknað út að með því að panta meira magn, myndi verðið á hverri vöru verða hlutfallslega lægra. Kærandi segist því hafa pantað meira magn af vörunum en hún þurfti til eigin nota, í því skyni að geta keypt vörurnar á lægra verði, hún hafi síðan selt varninginn á kostnaðarverði og því sé í raun um að ræða sjálfboðavinnu sem hún hafi sinnt í atvinnuleysi sínu.

Kærandi vísar jafnframt til fylgigagna bréfsins, dags. 14. október 2010, sem hún telur að sýni fram á að hún hafi ekki hagnast neitt á þessari iðju sinni, heldur þvert á móti orðið fyrir fjárhagslegu tapi.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags 14. desember 2010, viðurkennir kærandi að hafa í fáfræði sinni brotið gegn 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006. Kærandi ítrekar þá afstöðu sína sem kemur fram í bréfi hennar til Vinnumálastofnunar, dags. 14. október 2010, að hún líti ekki svo á að hún hafi stundað vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur.

Kærandi bendir á að starfsemi hennar hafi borið vott um sjálfsbjargarviðleitni hennar, verandi íbúi í byggðarlagi með litla atvinnumöguleika. Kærandi leggur áherslu á að henni sé núna orðið fyllilega ljóst að henni hafi yfirsést sú skylda að tilkynna Vinnumálastofnun þessar „sjálfsbjargartilraunir“ sínar. Telur kærandi að ákvörðun Vinnumálastofnunar á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sé afar íþyngjandi og telur að úrskurða beri að nýju í máli hennar á grundvelli 59. gr. laganna.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 14. apríl 2010, bendir Vinnumálastofnun á að lög nr. 54/2006 gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Vinnumálastofnun vísar til 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og jafnframt til laga nr. 134/2009 um breytingar á atvinnuleysistryggingum, en með þeim lögum voru gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun bendir á að verknaðarlýsing ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geri grein fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins er beitt. Segir í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009, að meðal annars komi til greina að beita viðurlögum á grundvelli ákvæðisins þegar atvinnuleitandi gefur stofnuninni „vísvitandi rangar upplýsingar“ sem leiða til þess að atvinnuleitandi telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta. Einnig sé gert ráð fyrir því að Vinnumálastofnun beiti viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfar á innlendum markaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt, samkvæmt 35. gr. a. eða 10. gr. laganna. Segir enn fremur í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins að breyting á 60. gr. laganna sé mikilvægur liður í því að sporna við svartri atvinnustarfsemi.

Jafnframt áréttar Vinnumálastofnun ákvæði 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem sú skylda er lögð á þá sem tryggðir eru samkvæmt lögunum, að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, eða sæta biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun telur að það liggi fyrir í máli þessu að kærandi hafi selt snyrtivörur og annan varning á sama tíma og hún þáði greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun. Vinnumálastofnun vísar í upplýsingar af „facebook“ síðu kæranda og samskiptafærslur af þeirri síðu þar sem fram kemur að kærandi hefur einnig selt umræddan varning í Kolaportinu. Vinnumálastofnun bendir á að kærandi hafi ekki mótmælt því að hún hafi staðið að umræddri starfsemi. Stofnunin vísar til kæru kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða dags. 14. desember 2010, þar sem kærandi segir að hún hafi sökum „fáfræði“ sinnar brotið gegn 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það sé afstaða Vinnumálastofnunar að það ætti öllum að vera ljóst að atvinnuleitandi sem þiggur greiðslu atvinnuleysistrygginga beri skylda til þess að tilkynna um tilfallandi vinnu til Vinnumálastofnunar um leið og atvinnuleitandi hefur störf.

Vinnumálastofnun áréttar að kærandi hafði ekki tilkynnt fyrrnefnda sölu á varningi til stofnunarinnar er eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar óskaði eftir upplýsingum frá kæranda. Telur Vinnumálastofnun því að kærandi hafi brugðist þeirri skyldu sem hvílir á atvinnuleitendum um að tilkynna um tilfallandi vinnu til stofnunarinnar, sbr. 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar, í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar 60. gr. sömu laga.

Að öllu framangreindu er því niðurstaða Vinnumálastofnunar sú að stöðva skuli greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda og að kærandi skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en kærandi starfað í a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. apríl 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 10. maí 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

 

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

 Sá sem veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði a innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39.gr.

Þessu ákvæði var bætt við lög um atvinnuleysistryggingar með 23. gr. laga nr. 134/2009. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að síðarnefndu lögunum var ákvæðið skýrt nánar. Þar kom meðal annars fram að beita ætti ákvæðinu í þrenns konar tilvikum, í fyrsta lagi þegar atvinnuleitandi veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögunum, í öðru lagi þegar atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna og í þriðja lagi þegar atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu, sbr. nú 35. gr. a.

Helsti tilgangur 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er að tryggja að atvinnuleitendur veiti upplýsingar um breytta hagi sína í atvinnumálum. Með þessu á meðal annars að sporna gegn „svartri atvinnustarfsemi“.

Kærandi seldi snyrtivörur og annan varning á sama tíma og hún þáði greiðslur atvinnuleysisbóta. Hún auglýsti á tveimur netsíðum ýmsan varning til sölu, meðal annars töskur, fatnað og snyrtivörur auk þess sem hún seldi vörur sínar í Kolaportinu.

60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á við þegar atvinnuleitandi hefur starfað á vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit væri hætt. Þegar 60. gr. laganna er beitt á þessum forsendum þarf að skýra orðin að „starfa á vinnumarkaði“ með hliðsjón af a- og b-liðum 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt a-lið ákvæðisins er launamaður hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald. Í b-lið ákvæðisins er kveðið á um að sjálfstætt starfandi einstaklingur sé hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum fjármálaráðherra, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns.

Kærandi var ekki launamaður í skilningi a-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar enda fékk hún ekki laun fyrir að starfa í þjónustu annarra. Hins vegar er ljóst af gögnum málsins að hún stundaði verslunarrekstur á Netinu á sama tíma og hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Því þarf að skoða hvort hún hafi verið sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi 3. gr. b-liðar laga um atvinnuleysistryggingar.

Núverandi skilgreining á sjálfstætt starfandi einstaklingum var sett í lög um atvinnuleysistryggingar með 1. gr. laga nr. 37/2009, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar. Fram kom í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 37/2009 að „þeir sem greiða staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjald einu sinni á ári teljist sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi laganna“. Af hinum tilvitnuðum ummælum verður ráðið að jafnvel þeir sem sinna smávægilegum sjálfstæðum rekstri teljast sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Verslunarrekstur kæranda var smár í sniðum. Eigi að síður var reksturinn skattskyldur, sbr. b-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Jafnframt bar kæranda að reikna sér endurgjald, sbr. 58. gr. laga um tekjuskatt og reglur skattyfirvalda um reiknað endurgjald á tekjuárinu 2010. Hvort sem kærandi gerði skattyfirvöldum grein fyrir starfsemi sinni eða ekki er ljóst að hún var sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á sama tíma og hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur. Hún upplýsti Vinnumálastofnun ekki um þessa starfsemi sína fyrr en eftir að stofnunin spurðist fyrir um hana í september 2010.

Af framansögðu er ljóst að kærandi var starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hún þáði atvinnuleysisbætur. Hún tilkynnti Vinnumálastofnun hvorki um þessa atvinnustarfsemi sína né að atvinnuleit hennar hafi verið hætt. Það er niðurstaða nefndarinnar að með framangreindri háttsemi hafi hún brotið gegn 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og því beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun. Kærandi lét Vinnumálastofnun ekki vita fyrir fram að hún væri að starfa á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hún þáði greiðslu atvinnuleysisbóta. Í ljósi þessa voru skilyrði fyrir hendi að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til hennar á grundvelli 2. ml. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt var heimilt að kveða á um að kærandi skyldi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hún hefði starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hún myndi sækja aftur um atvinnuleysisbætur, sbr. 1. ml. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vakin er athygli á því að með hinni kærðu ákvörðun krafði Vinnumálastofnun kæranda ekki um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, sbr. 3. ml. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 1. ml. 2. mgr. 39. gr. sömu laga. Engin afstaða verður því tekin til þess hvort kæranda hafi borið að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 14. október 2010 í máli A þess efnis að stöðva skuli greiðslu atvinnuleysisbóta til hennar og hún skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum