Hoppa yfir valmynd
18. mars 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 120/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 18. mars 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 120/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur þann 21. júlí 2009. Umsókninni fylgdi vottorð vinnuveitanda þar sem fram kom að kærandi hafði starfað hjá X ehf. frá 14. mars 2007 til 5. janúar 2008. Réttur kæranda til greiðslu atvinnuleysisbóta var metinn á grundvelli þessara upplýsinga 82%. Í júní 2009 uppgötvaði kærandi að hún væri ekki með 100% bótarétt. Hún kvað vottorð vinnuveitanda hafa verið rangt og sendi hún inn nýtt vottorð þar sem fram kom að hún hafði starfað hjá fyrirtækinu til 5. júlí 2008 og ætti því rétt á 100% atvinnuleysisbótum. Hún fékk greiddar 100% atvinnuleysisbætur frá 18. júní 2010. Kærandi krefst þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur frá dagsetningu umsóknar en Vinnumálastofnunar krefst þess að hin kærða ákvörðun standi.

Af hálfu lögmanns kæranda, B hdl., er þess krafist að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja kæranda um leiðréttingu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið frá júlí 2009 til maí 2010 verði endurupptekin og breytt þannig að hlutfall atvinnuleysisbóta verði leiðrétt. Kærandi hafi starfað hjá X ehf. og hafi fyrirtækið skráð ranga dagsetningu á vottorð vinnuveitenda. Þannig hafi staðið þar að kærandi hafi starfað til 5. janúar 2008 í stað 5. júlí 2008. Kærandi hafi aldrei séð hið ranga vottorð X ehf. en það hafi verið sent beint frá fyrirtækinu í bréfsíma hjá Vinnumálastofnun. Þetta hafi X ehf. staðfest með yfirlýsingu sinni. Vegna þessara mistaka hafi kærandi aðeins fengið greidd 82% atvinnuleysisbóta í stað 100% sem hún hefði ella átt rétt á. Bent er á að þegar Vinnumálastofnun hafi afgreitt málið og ákvarðað réttindi kæranda til atvinnuleysisbóta hafi henni ekki verið send nein sérstök tilkynning um afgreiðsluna. Kærandi hafi því ekki getað áttað sig á mistökunum með vísan til þess að Vinnumálastofnun hafi tilkynnt henni um réttindi hennar. Þeirri staðhæfingu Vinnumálastofnunar að kæranda hafi mátt vera mistökin ljós þegar greiðsluseðill hafi verið sendur er mótmælt. Hafa verði í huga að umræddir greiðsluseðlar séu torlesnir. Á þeim sé aragrúi upplýsinga og alls ekki auðhlaupið að því að skilja þær allar. Kærandi sé ekki mikið menntuð, hafi aðeins lokið grunnskólanámi og hafi verið stopult í framhaldsskólanámi. Hún sé ung að árum og óreynd í samskiptum við stjórnsýsluna.

Af hálfu kæranda er bent á 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga en á líklega að vera 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem fram kemur að þar sé undanþáguregla sem heimili að mál sé endurupptekið þótt meira en ár sé liðið ef veigamiklar ástæður mæli með því. Í máli þessu hafi ekki liðið meira en ár og því ekki nauðsynlegt að teygja undanþáguna út á ystu brún lagaheimildar. Aðstæður í málinu séu mjög sérstakar að því leyti að afstaða Vinnumálastofnunar byggi á innsláttarvillu í vottorði frá þriðja aðila. Sá aðili hafi leiðrétt villuna undireins og hún hafi orðið honum ljós. Reynslan sýni að mistök verði. Þegar það gerist beri að leiðrétta þau eins vel og nokkur kostur sé. Kærandi beri ekki ábyrgð á þeim mistökum sem orðið hafi, en gjaldi fyrir það verði ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest. Það sé röng niðurstaða.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 16. desember 2010, kemur fram að ákvörðun Vinnumálastofnunar um tryggingarhlutfall kæranda hafi verið byggð á gögnum sem borist hafi frá vinnuveitanda kæranda. Á grundvelli þess vottorðs hafi kæranda verið reiknaður 82% bótaréttur. Þar sem Vinnumálastofnun sendi ekki tilkynningar til umsækjenda þegar umsóknir þeirra séu samþykktar, hafi ákvörðun Vinnumálastofnunar ekki verið tilkynnt kæranda bréflega. Ákvörðun um bótarétt eigi þó að hafa verið kunnug kæranda þegar í september 2009 þegar seðill frá Greiðslustofu stofnunarinnar vegna greiðslu atvinnuleysisbóta hafi verið sendur kæranda. Bótaréttur atvinnuleitanda komi fram á öllum launaseðlum Vinnumálastofnunar og eigi það ekki að geta farið fram hjá neinum, hvaða bótahlutfalli greiðslur stofnunarinnar byggist á. Samkvæmt samskiptasögu kæranda hafi hún fyrst haft samband vegna bótaréttar síns í júní 2010 eða rétt tæpu ári eftir að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hafi borist stofnuninni. Breytt vinnuveitendavottorð hafi verið móttekið hjá Vinnumálastofnun þann 18. júní 2010.

Vinnumálastofnun telur að það falli í hlut umsækjanda um atvinnuleysisbætur að kanna hvort upplýsingar sé rétt skráðar í fylgigögnum með umsókn. Eigi það sérstaklega við um vottorð frá vinnuveitanda enda bótaréttur innan atvinnuleysistryggingakerfisins nær eingöngu byggður á þeim upplýsingum sem þar komi fram. Hafi kærandi ekki sýnt fram á ástæðu sem réttlætt geti þann langa tíma sem það hafi tekið kæranda að færa fram veigamikil gögn í máli hennar enda hafi henni mátt vera ljóst strax og fyrsta útborgun hafi farið fram að greiðsla hafi tekið mið af 82% bótarétti. Framangreint misræmi á starfshlutfalli kæranda í vottorði vinnuveitanda sé ekki hægt að rekja til mistaka hjá Vinnumálastofnun. Þar sem svo langur tími hafi verið liðinn frá því að ákvörðun um bótarétt kæranda var henni kunn og þar til kærandi framvísaði nýju vottorði vinnuveitanda telji Vinnumálastofnun að ekki sé ástæða til að breyta fyrri ákvörðun.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. desember 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 4. janúar 2011. Bréf B hdl., dags. 20. janúar 2011, barst fyrir hönd kæranda þann 24. janúar 2011. 

 

2.

Niðurstaða

Umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur er dagsett 21. júlí 2009 og verður ekki annað ráðið en að kærandi hafi sótt um 100% atvinnuleysisbætur. Við vinnslu umsóknarinnar fylgdi meðal annars yfirlitsblað þar sem fram kom að kærandi hafi starfað á kaffihúsi frá 1. september 2006 til 1. janúar 2007 og svo frá ársbyrjun 2007 til 5. júní 2008 hjá X ehf. Vinnuveitendavottorð frá X ehf. gaf hins vegar til kynna að kærandi hafi hætt störfum 5. janúar 2008. Vinnumálastofnun lagði til grundvallar að kærandi hafi hætt störfum hjá X ehf. 5. janúar 2008 og var það til þess fallið að lækka bótahlutfall hennar. Samkvæmt vottorði frá X ehf. var kæranda ekki veittar upplýsingar um efni þess vinnuveitendavottorðs sem lagt var fram sumarið 2009.

Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda ekki um þá ákvörðun sína að hún ætti eingöngu að fá greiddar 82% atvinnuleysisbætur. Þessi tilhögun samrýmdist ekki 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þar eð slík tilkynning var ekki augljóslega óþörf. Hér ber einnig að hafa til hliðsjónar 3. mgr. 20. gr. en þar er meðal annars tiltekið að ekki þurfi að veita leiðbeiningar skv. 2. mgr. 20. gr. hafi umsókn aðila verið tekin til greina að öllu leyti.

Eins og framan er rakið þá var umsókn kæranda ekki tekin til greina að öllu leyti. Þeim mun ríkari ástæða var til að tilkynna ákvörðunina sérstaklega og veita kæranda leiðbeiningar skv. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Upplýsingar á launaseðlum geta ekki vegið upp á móti þessu eins og stofnunin hefur haldið fram í málinu.

Kærandi hefur fengið greiddar 100% atvinnuleysisbætur síðan 20. maí 2010 en vill fá slíkar bætur greiddar frá og með umsóknardegi, þ.e. 21. júlí 2009. Til að svo megi verða þarf annaðhvort að taka mál hennar upp aftur, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga, eða afturkalla hina upphaflegu stjórnvaldsákvörðun, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga.

Í athugasemdum við 24. gr. frumvarps til stjórnsýslulaga kemur fram að það sé fremur algengt að breyta ákvörðunum hafi þær verið rangar eða óheppilegar að efni til. Beita má ákvæðinu eingöngu að fenginni beiðni aðila. Lagt er til grundvallar að um sé að ræða upplýsingar um málsatvik sem byggt hafi verið á við ákvörðun málsins en þó ekki rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem mjög litla þýðingu hafi haft við úrlausn þess.

Í ljósi þess að Vinnumálastofnun stóð ekki rétt að því í upphafi að tilkynna kæranda um að umsókn hennar hafi ekki að öllu leyti verið tekin til greina, verður að líta svo á að kærandi hafi fyrst vitað af efni ákvörðunarinnar í júní 2010. Beiðni hennar um endurupptöku var því innan þess frests sem getið er um í 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Fallist er á að taka eigi málið upp á nýju á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi engar atvinnuleysisbætur greiddar fyrir desember 2009. Þann tíma, sem kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 21. júlí 2009 til 19. maí 2010, fékk hún greiddar 82% atvinnuleysisbætur. Þetta ber að leiðrétta þannig að bætur hennar á þessu tímabili hækki upp í 100%, sbr. 5. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þetta þýðir að kærandi á að fá greiddar 18% atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 21. júlí 2009 til 30. nóvember annars vegar og 1. janúar 2010 til 19. maí 2010 hins vegar. Telja verður að hún eigi rétt á að fá þessar bætur greiddar með vöxtum, sbr. 5. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun er felld úr gildi. Kærandi, A á að fá greiddar 18% atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 21. júlí 2009 til 30. nóvember 2009 annars vegar og hins vegar fyrir tímabilið 1. janúar 2010 til 19. maí 2010.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum