Hoppa yfir valmynd
18. mars 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 99/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 18. mars 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 99/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur 25. janúar 2010. Var bótaréttur hennar reiknaður 59% í samræmi við fyrirliggjandi gögn. Við samkeyrslu Vinnumálastofnunar við staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra kom í ljós að kærandi var að fá tekjur frá fyrirtækinu X ehf. sem er í hennar eigu. Réttur kæranda til greiðslu atvinnuleysistrygginga var endurskoðaður og leiðréttur í kjölfarið. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 9. júní 2010. Kærandi gerir þær kröfur að hlutfall atvinnuleysisbóta hennar verði ekki skert og síðasta greiðsla verði leiðrétt í samræmi við það. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í erindi kæranda kemur fram að þegar hún hafi skráð sig fyrst atvinnulausa hafi henni verið sagt að hún þyrfti ekki að loka launagreiðendanúmeri fyrirtækis síns og að tekjur mættu verða allt að 59.000 kr. á mánuði án skerðingar bóta. Í maí hafi henni borist athugasemd vegna þess að hún hafi haft tekjur á tímabilinu sem hún var skráð atvinnulaus. Kærandi kveðst ekki hafa haft nein föst verkefni síðan hún hafi skráð sig upphaflega, bara tilfallandi verk sem hún sjái ekki fyrir frá mánuði til mánaðar. Kærandi greinir frá því að hún hafi fyllt út eyðublaðið eins og beðið hafi verið um en af vankunnáttu hafi hún sett 15% í reitinn starfshlutfall. Eftir samtal við starfsmann Vinnumálastofnunar hafi henni skilist að hún hafi átt að hafa þennan reit auðan en setja í athugasemdir að um tilfallandi verkefni hafi verið að ræða. Þessar leiðbeiningar hafi hún ekki fengið í upphafi.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 16. desember 2010, kemur fram að við samkeyrslu stofnunarinnar við staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafi komið í ljós að kærandi væri að fá tekjur frá fyrirtækinu X ehf. sem er í hennar eigu. Vinnumálastofnun kveðst í kjölfarið hafa óskað eftir því að kærandi gerði grein fyrir þeim greiðslum sem henni hafi borist frá fyrirtækinu. Í framhaldinu hafi kærandi haft samband og tilkynnt með rafrænu eyðublaði þann 17. maí 2010, að hún væri í 15% hlutastarfi hjá fyrirtækinu. Vinnumálastofnun kveðst hafa endurskoðað greiðslur atvinnuleysistrygginga í ljósi þessara upplýsinga um hlutastarf kæranda og greiðslur frá 25. janúar 2010 leiðréttar í samræmi við uppgefið hlutastarf.

Vinnumálastofnun bendir á að lög nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Sökum vinnufyrirkomulags hjá ríkisskattstjóra sé stofnuninni einungis mögulegt að sækja gögn frá embættinu til að samkeyra við greiðsluskrá Atvinnuleysistryggingarsjóðs, þremur mánuðum eftir að tekjur eru greiddar, sbr. heimild skv. 4. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Því sé það nauðsynlegt að atvinnuleitendur tilkynni um þá tilfallandi vinnu eða hlutastörf er þeir taka á sama tíma og þeim eru greiddar atvinnuleysisbætur. Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé lögð sú skylda á atvinnuleitendur að upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar á högum þeirra sem kunna að hafa áhrif á greiðslur atvinnuleysistrygginga.

Vinnumálastofnun bendir á að mál þetta snúist um það hvort störf kæranda fyrir X ehf. teljist til tilfallandi vinnu eða hlutastarfs í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt bendir stofnunin á að efni kærunnar er sagt vera „útreikningur atvinnuleysisbóta sem greiddar voru 1. júní“ en Vinnumálastofnun telur að á tímabilinu 25. janúar til 30. mars hafi kærandi starfað hjá X ehf. í 15% hlutastarfi. Af kæru megi ráða að kærandi telji að starfshlutfall þess starfs sem hún gegndi á meðan hún var skráð atvinnulaus eigi ekki að koma til skerðingar á bótahlutfalli hennar. Kærandi segi meðal annars að hún hafi „af vankunnáttu“ skráð sig í 15% starfshlutfall þegar hún gerði grein fyrir þeim Y kr. er hún hafði í tekjur í febrúar 2010. Stofnunin greinir frá því að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi fengið sömu fjárhæð frá fyrirtækinu X ehf. í mars 2010. Vinnumálastofnun fellst ekki á að jafnar tekjur frá sama launagreiðanda í tvo mánuði eða fleiri geti talist til tilfallandi vinnu í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Þar sem kærandi er bæði launþegi og eigandi fyrirtækisins X ehf. telur stofnunin að kærandi sé í bestu stöðunni til að meta í hve háu hlutfalli starf hennar sé fólgið, meðal annars með tilliti til vinnuframlags og þess tíma sem hlutastarf hjá fyrirtækinu krefst af henni. Hafi kærandi metið vinnu sína sem 15% starf. Bótaréttur kæranda byggi á starfi hennar hjá X ehf. Samkvæmt gögnum hafi hún greitt sér Y kr. í mánaðarlaun til júlí 2009, Y kr. nemi 18% af þeirri fjárhæð.

Vinnumálastofnun vísar að lokum til þess að skv. 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli tryggingahlutfall þess sem misst hefur starf sitt að hluta nema mismun réttar hans hefði hann misst starf sitt að öllu leyti og telur Vinnumálastofnun að það starfshlutfall er kærandi gaf upp í bréfi til stofnunarinnar 17. maí 2010 skuli standa.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. desember 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 4. janúar 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Kærandi er launamaður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. a-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi veitti tilteknar upplýsingar um hagi sína með umsókn sinni um atvinnuleysisbætur sem Vinnumálastofnun móttók 28. janúar 2010. Þar kom ekki fram að hún hygðist starfa áfram hjá sínu eigin fyrirtæki. Í byrjun maí 2010 aflaði Vinnumálastofnunin sér upplýsinga sem gáfu til kynna að kærandi væri að þiggja laun hjá fyrirtækinu sínu og sendi af því tilefni bréf til kæranda, dags. 10. maí 2010. Í framhaldi af því tilkynnti kærandi um tilfallandi tekjur, sbr. rafbréf hennar til stofnunarinnar og útfyllt eyðublað um tilfallandi tekjur, dags. 17. maí 2010. Á eyðublaðinu kom fram að hún væri í 15% hlutastarfi hjá sínu eigin fyrirtæki og henni hefði verið tjáð að hún mætti afla sér 59.000 kr. tekna á mánuði án þess að slíkt hefði áhrif á bótagreiðslur til hennar.

Í málinu liggja fyrir gögn frá ríkisskattstjóra þar sem meðal annars koma fram launatekjur kæranda á tímabilinu janúar–júní 2010. Kærandi hafði samkvæmt þessum gögnum launatekjur frá fyrirtækinu sínu í janúar–apríl 2010, þ.e. hún hafði Y kr. laun í janúar 2010, Y kr. mánaðarlaun í febrúar og mars 2010 en Y kr. í apríl 2010. Engar launagreiðslur voru inntar af hendi í maí og júní 2010.

Kærandi heldur því fram að hún hafi fengið leiðbeiningar hjá Vinnumálastofnun um að hún mætti fá allt að 59.000 kr. í mánaðarlaun hjá fyrirtækinu sínu án þess að slíkt myndi skerða greiðslu atvinnuleysisbóta til hennar. Frekari gögn um þessa fullyrðingu kæranda hafa ekki verið lögð fram og Vinnumálastofnun hefur ekki hafnað þessu sem röngu. Eigi að síður er ljóst að víðtækar upplýsingar um stöðu atvinnuleitenda liggja fyrir, meðal annars á heimasíðu Vinnumálastofnunarinnar. Þar kemur skýrt fram að atvinnuleitanda ber að veita nákvæmar upplýsingar um hagi sína, meðal annars vegna hlutastarfs og tilfallandi tekna. Lagt verður því til grundvallar að Vinnumálastofnun hafi ekki brotið á leiðbeiningarskyldu sinni í málinu þannig að máli skipti um úrslit málsins.

Vinnumálastofnun hefur lagt til grundvallar að draga eigi úr greiðslum atvinnuleysisbóta til kæranda á tímabilinu frá því að hún hóf töku bótanna og til loka mars 2010. Þetta er reist á því grundvallaratriði að kærandi hafi verið í hlutastarfi á þessu tímabili í skilningi 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með hliðsjón af því að kærandi upplýsti ekki um eðli þessa starfs í öndverðu og að starfið var hjá fyrirtæki sem í fullu var í eigu kæranda, verður talið að kærandi hafi verið í hlutastarfi fram til marsloka 2010. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest með vísan til þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir henni.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um útreikning á atvinnuleysisbótum A er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum