Hoppa yfir valmynd
12. maí 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 161/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 12. maí 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 161/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 31. ágúst 2010, var kæranda, A, tilkynnt að samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar hafi hann verið staddur erlendis á tímabilinu frá 13. júlí til 26. júlí 2010 og af þeirri ástæðu hafi verið ákveðið að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði frá og með 1. september 2010. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi mótteknu 30. ágúst 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Af hálfu kæranda kemur fram að hann hafi farið til D-lands til að leita sér að vinnu og að athuga um möguleika sína á að klára nám sitt við háskóla þar í landi. Kærandi kveðst hafa búið í fimm ár í D-landi og þekkja marga sem hafi verið með honum í námi og hann hafi verið að athuga hjá þeim um atvinnumöguleika. Kærandi kveðst hafa þurft að hætta í námi vegna veikinda sonar síns en hann eigi eftir eitt ár í skólanum. Kærandi greinir frá því að hann sé sáttur við að bæturnar skerðist vegna þeirra daga sem hann dvaldist erlendis en hann skilji ekki af hverju greiðslur bóta falli niður í tvo mánuði.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 28. mars 2011, kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta frá stofnuninni hinn 24. febrúar 2009. Þann 21. maí 2010 hafi borist rafræn staðfesting á atvinnuleit á kennitölu kæranda frá D-landi. Vinnumálastofnun hafi því sent kæranda erindi 5. ágúst 2010 og óskað eftir skýringum á dvöl hans erlendis. Hinn 10. ágúst 2010 hafi kærandi skilað inn skýringum á dvöl sinni erlendis og farseðlum sem staðfestu brottfarar- og heimkomudag. Mál kæranda hefði verið tekið fyrir á fundi stofnunarinnar hinn 30. ágúst 2010 og þann 31. ágúst 2010 hafi kæranda svo verið sent bréf þar sem hin kærða ákvörðun var tilkynnt.

Vinnumálastofnun greinir frá því að kærandi hafi ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. september til 20. september 2010. Kærandi hafi hafið störf í september á meðan á viðurlagatíma stóð. Kærandi hafi sótt aftur um atvinnuleysistryggingar hjá stofnuninni 27. nóvember 2010 og í samræmi við 3. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi biðtími kæranda verið felldur niður.

Vinnumálastofnun vísar til þess að í c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysistrygginga þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Þá vísar stofnunin til 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en þar sé kveðið á um skyldu þess sem fær greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli laganna til að upplýsa stofnunina um allar þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili og annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Vinnumálastofnun greinir frá því að í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, segi meðal annars „að láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna“.

Vinnumálastofnun vísar til þess að í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé enn frekar mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysistrygginga. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum.

Þá vísar Vinnumálastofnun í 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem fram kemur að sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. h-lið 1. mgr. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, eigi ekki rétt til atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun er tilkynnt aðila. Ljóst sé að kærandi hafi verið staddur erlendis tímabilið 13. júlí til 26. júlí 2010. Í 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt kveðið á um þá skyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysistrygginga að vera í virkri atvinnuleit. Sé það jafnframt gert að skilyrði að umsækjandi sé staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. laganna. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrir fram um þessa utanlandsferð sína, líkt og honum hafi borið að gera skv. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun greinir frá því að í skýringarbréfi til stofnunarinnar segist kærandi ekki hafa vitað af framangreindum skilyrðum laga um atvinnuleysistryggingar. Þá segist kærandi hafa farið erlendis til að athuga með náms- og atvinnumöguleika. Vinnumálastofnun kveðst margsinnis hafa vakið athygli á því að eitt af skilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta sé að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hérlendis. Einu undanþágurnar frá skilyrðum c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna í VIII. kafla laganna. Á kynningarfundum stofnunarinnar sé sérstaklega vakin athygli á framangreindum atriðum og þeim sem huga að ferð til útlanda á sama tíma og þeir eru skráðir í atvinnuleit hjá stofnuninni, bent á að hafa samband við þjónustuskrifstofu stofnunarinnar fyrir brottfarardag. Þá vekur stofnunin athygli á því að í tilvikum sem tilkynnt er um slíkar ferðir fyrirfram sé atvinnuleitanda gerð grein fyrir því, nema fyrir liggi E-303 vottorð hjá stofnuninni, fái hann ekki greiddar atvinnuleysisbætur á meðan hann dvelst erlendis. Það sé því eindregin afstaða Vinnumálastofnunar að eftirlitsaðgerðum stofnunarinnar verði ekki jafnað við tilkynningu frá atvinnuleitanda og verði í ljósi 9. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að gera greinarmun á þeim sem láta sjálfir vita um ferðir sínar og þeirra sem stofnuninni berast upplýsingar um með öðrum hætti.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 31. mars 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 24. apríl 2011. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Þýðingarmestu atvik þessa máls eru þau að kærandi sótti um atvinnuleysisbætur í febrúar 2009 og nokkru síðar var umsókn hans samþykkt. Kærandi hélt af landi brott 13. júlí 2010 og sneri til baka 26. júlí sama ár. Hann lét Vinnumálastofnun ekki vita af þessari brottför sinni fyrr en eftir að Vinnumálastofnun hafði sent honum fyrirspurn um málið með bréfi dags. 5. ágúst 2010. Vinnumálastofnun tók í kjölfarið þá ákvörðun að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda í tvo mánuði.

Kærandi ber því við í málinu að hann hafi ekki vitað að honum væri óheimilt að fara til útlanda nema láta Vinnumálastofnun af því vita fyrir fram. Litið er svo á að með þessu haldi kærandi því fram að leiðbeiningarskylda Vinnumálastofnunar hafi verið brotin í málinu. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem styrkja þá ályktun að leiðbeiningarskylda hafi verið brotin í málinu. Fram hefur komið í máli Vinnumálastofnunar að veittar séu upplýsingar um þessi atriði á kynningarfundum stofnunarinnar. Einnig verður til þess að líta að tíðkanlegt er að launþegar upplýsi vinnuveitendur sínar um fjarvistir vegna dvalar erlendis en réttarsamband atvinnuleitanda og Vinnumálastofnunar er um sumt eðlislíkt því sem er á milli launþega og vinnuveitanda. Þessu til viðbótar hafa um nokkurt skeið verið veittar upplýsingar um réttindi og skyldur atvinnuleitenda á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Í ljósi framanritaðs og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram um þennan þátt málsins, verður talið að Vinnumálastofnun hafi veitt kæranda fullnægjandi leiðbeiningar í skilningi 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Hin kærða ákvörðun var reist á svohljóðandi 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 22. gr. laga 134/2009:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Kærandi lét Vinnumálastofnun ekki vita af því fyrir fram að hann myndi dvelja erlendis. Með því braut hann gegn þeirri skyldu sinni að upplýsa Vinnumálastofnun um þær breytingar sem verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti, sbr. h-lið 1. mgr. 14. gr., 2. mgr. 14. gr. og 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laganna leiddi brot þetta til þess að kærandi átti ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að liðnum tveimur mánuðum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar var tilkynnt honum.

Með hliðsjón af framanrituðu og þeim rökum, sem Vinnumálastofnun hefur fært fram í málinu, verður hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 30. ágúst 2010, í máli A, um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði, er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum