Hoppa yfir valmynd
1. apríl 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 104/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 1. apríl 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 104/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 15. júní 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi á fundi sínum þann 27. maí 2010 ákveðið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda, með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hún hafi verið í námi. Jafnframt var kærandi krafin um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta frá 1. janúar til 19. apríl 2010, alls 232.331 kr. skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 22. júní 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi var með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 3. mars 2010, upplýst um að við samkeyrslu stofnunarinnar við nemendaskrá, skv. 4. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, hefði komið í ljós að kærandi væri skráð í nám jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysistryggingar án þess að fyrir liggi námssamningur við stofnunina. Vísað var til ákvæðis 1. og 2. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um að sá sem stundi nám teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum og kæranda bent á að hafa samband við stofnunina. Var kæranda jafnframt leiðbeint að koma að athugasemdum innan sjö daga frá dagsetningu bréfsins.

Samkvæmt upplýsingum úr samskiptasögu kæranda og Vinnumálastofnunar hafði kærandi samband við stofnunina hinn 9. mars 2010. Þar kveðst kærandi hafa fengið 50% atvinnuleysisbætur. Hún sé hárgreiðslukona í 50% starfi en sé að vinna minna en það. Hún sé skráð í meistaraskólann, 10 einingar, fjögur kvöld í viku og sé ekki á lánum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Kæranda var með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 15. júní 2010, tilkynnt um hina kærðu ákvörðun eins og fyrr greinir. Kæran barst úrskurðarnefndinni 22. júní sama ár. Viku síðar bárust Vinnumálastofnun frekari skýringar og andmæli kæranda við hinni kærðu ákvörðun. Með bréfi stofnunarinnar til kæranda, dags. 12. júlí 2010, var tilkynnt að hin kærða ákvörðun stæði óbreytt.

Hinn 29. júní 2010 barst staðfesting frá Tækniskólanum um að kærandi væri skráð í 17 einingar í kvöldskóla í meistaranám í hársnyrtiiðn ásamt skýringum kæranda um að námið sé ætlað með 100% vinnu. Hún hafi verið skráð í 50% starf.

Af hálfu kæranda kemur fram að hún hafi verið í meistaranámi í kvöldskóla veturinn 2010 og í 50% vinnu með og á 50% atvinnuleysisbótum. Kærandi kveðst ekki hafa vitað að þetta væri ekki leyfilegt. Þar sem hún hafi ekki verið í fullu námi, þetta hafi verið á kvöldin, ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og einungis verið átta einingar.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 22. desember 2010, kemur meðal annars fram að kærandi hafði samband við stofnunina í tölvupósti 9. mars 2010 og sagst vera í 10 eininga námi í „meistaraskólanum“. Með tölvupósti, dags. 26. mars 2010, hafi kæranda verið bent á að hafa samband við þjónustuskrifstofu stofnunarinnar til að kanna hvort hún uppfyllti skilyrði fyrir gerð námssamnings hjá stofnuninni. Hafi verið óskað eftir umsókn um námssamning ásamt skólavottorði.

Þar sem kærandi hafi hvorki skilað inn umbeðnum gögnum né sótt um námssamning hjá stofnuninni í júní 2010, hafi tekin ákvörðun um að stöðva greiðslur til kæranda þar sem hún hafi verið skráð í nám jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysistryggingar skv. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt hafi kærandi verið krafin um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysistrygginga fyrir tímabilið 1. janúar til 19. apríl 2010. Hafi ákvörðunarbréf stofnunarinnar verið sent kæranda hinn 15. júní 2010.

Vinnumálastofnun vísar til þess að í athugasemdum með 52. gr. með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar sé ítrekuð sú meginregla að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi nema annað leiði af samningi um vinnumarkaðsaðgerðir. Ekki skipti máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Auk þessa sé það eitt af almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitanda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, sé Vinnumálastofnun heimilt að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitanda sem sé tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Forsenda þess að slíkur samningur skuli gerður sé að viðkomandi einstaklingur óski eftir slíkum samningi í upphafi annar, að því gefnu að hann uppfylli sett skilyrði.

Vinnumálastofnun telur að af gögnum málsins megi sjá að kærandi hafi ekki sótt um slíkan námssamning fyrir vorönn 2010 og uppfylli því ekki skilyrði 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Undantekning 2. mgr. 52. gr. eigi eingöngu við þegar um sé að ræða háskólanám en kærandi stundi nám í Tækniskólanum. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. þurfi nám að vera hluti af vinnumarkaðsaðgerð samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar svo kærandi geti þegið atvinnuleysisbætur samhliða námi. Kærandi hafi ekki sótt um slíkan námssamning áður en nám hófst og hafi ekki orðið við beiðni stofnunarinnar um að sækja um hann.

Jafnframt telur Vinnumálastofnun að þegar litið sé til umfangs fjarnáms kæranda verði að telja að hún geti ekki talist í virkri atvinnuleit enda sé um að ræða nám upp á átta framhaldsskólaeiningar sem samsvari hálfu námi. Þá bendir stofnunin á að svo hægt sé að taka afstöðu til þess hvort námsmenn kunni að uppfylla skilyrði 52. gr. laganna þurfi að hafa borist tilkynning um nám viðkomandi, enda beri atvinnuleitanda skv. 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um „allar þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku“.

Ljóst sé að 5. gr. reglugerðar nr. 12/2009 sé undantekning á meginreglu 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem beri að túlka þröngt og þar af leiðandi sé ótækt að beita heimild til gerðar námssamnings afturvirkt. Það sé mat Vinnumálastofnunar að stofnuninni sé ekki heimilt að gera afturvirkan námssamning eftir að námsönn í skólanum sé lokið. Af þessum sökum teljist kærandi ekki tryggður skv. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þann tíma sem hún var skráð í nám. Þá greinir Vinnumálastofnun frá því að fjallað sé um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum í 39. gr. laga um atvinnuleysisbætur. Í 2. mgr. þess ákvæðis sé kveðið á endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum auk 15% álags. Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. beri kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið frá 1. janúar til 19. apríl 2010.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. desember 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 14. janúar 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Kærandi stundaði nám í kvöldskóla án þess að upplýsa Vinnumálastofnun um það en samkvæmt c-lið 3. gr. og 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar voru veruleg líkindi til þess að kærandi teldist námsmaður í skilningi laganna og að hún hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 3. mars 2010, var henni bent á þá meginreglu sem í gildi væri skv. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og var henni veittur frestur til að koma að skýringum og eftir atvikum kanna hvort hún uppfyllti skilyrði þess að fá námssamning. Kærandi sendi Vinnumálastofnun upplýsingar um námið þann 9. mars 2010 og með rafbréfi dags. 26. mars 2010 benti starfsmaður stofnunarinnar henni á að sækja um gerð námssamnings.

Kærandi sótti ekki um slíkt en eigi að síður fékk hún áfram greiddar atvinnuleysisbætur fram til 19. apríl 2010. Ekkert gerðist í máli kæranda fyrr en á fundi Vinnumálastofnunar 27. maí 2010 en þar var sú ákvörðun tekin að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda. Þessi ákvörðun var reist á 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og var hún tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 15. júní 2010. Kærandi sendi Vinnumálastofnun andmæli sín við þessari ákvörðun hinn 29. júní 2010 og í kjölfarið var málið tekið upp aftur en sama ákvörðun tekin, sbr. bréf Vinnumálastofnunar dags. 12. júlí 2010.

Sú ákvörðun að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta og endurheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur er íþyngjandi. Um ákvarðanir af þessu tagi gildir nú 2. mgr. 35. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 10. gr. laga nr. 134/2009:

„Vinnumálastofnun er heimilt að halda eftir greiðslu atvinnuleysisbóta sem hinum tryggða hefur áður verið ákvörðuð í allt að einn mánuð frá því að greiðsluna átti að inna af hendi þegar stofnunin hefur rökstuddan grun um að hinn tryggði uppfylli ekki lengur skilyrði laganna eða hafi þegar fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Þegar slíkur grunur vaknar skal Vinnumálastofnun án ástæðulauss dráttar og að lágmarki fimm virkum dögum fyrir næsta greiðsludag atvinnuleysisbóta skv. 1. mgr. tilkynna hlutaðeigandi með sannanlegum hætti að fyrirhugað sé að halda eftir greiðslu. Skal stofnunin jafnframt hefja athugun á málinu þegar í stað skv. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og veita hlutaðeigandi andmælarétt skv. 13. gr. sömu laga. Ákvæði stjórnsýslulaga gilda að öðru leyti um málsmeðferðina.“

Telja verður að Vinnumálastofnun hafi við meðferð málsins brotið á þessu lagákvæði þegar sú ákvörðun var tekin á fundi 27. maí 2010 að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda. Á hinn bóginn var úr þessu bætt þegar kærandi fékk að tjá sig um ákvörðunina með bréfi dags. 29. júní 2010. Í framhaldi af andmælum kæranda var fyrri ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest, sbr. bréf stofnunarinnar 12. júlí 2010. Þrátt fyrir að Vinnumálastofnun hafi farið á svig við 2. mgr. 35. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þykir með hliðsjón af hagsmunum kæranda nauðsynlegt að leysa úr málinu með efnislegum hætti í stað þess að ógilda hina kærðu ákvörðun.

Kærandi var í námi í skilningi c-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Um nám var að ræða sem ekki var á háskólastigi. Því geta undantekningarreglur 2. mgr. og 3. mgr. 52. gr. ekki átt við. Kærandi lét ekki Vinnumálastofnun vita fyrir fram af náminu en það bar henni að gera, sbr. til dæmis 1. mgr. og 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvörðun Vinnumálastofnunar var því efnislega reist á réttum lagalegum forsendum, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum