Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 102/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 7. apríl 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 102/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 2. júní 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann sama dag fjallað um höfnun hennar á atvinnutilboði. Vegna höfnunarinnar var bótaréttur kæranda felldur niður frá og með degi ákvörðunar þann 2. júní 2010 í 40 daga sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 16. júní 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 10. mars 2009. Hinn 30. apríl 2010 var kærandi boðuð í starfsviðtal hjá ungmennafélaginu X og skrifaði kærandi undir atvinnutilboð hjá stofnuninni. Var starfið fólgið í yfirumsjón yfir kofasmíðum sem og almennri íþróttaþjálfun fyrir grunnskólabörn. Kærandi mætti ekki í starfsviðtalið og af þeim sökum óskaði Vinnumálastofnun eftir athugasemdum frá henni. Ástæða kæranda fyrir því að hafna atvinnutilboðinu var að hún væri með slæmt sólar- og frjókornaofnæmi. Hinn 10. maí 2010 barst Vinnumálastofnun læknisvottorð, dags. 7. maí 2010, þar sem fram kemur að útivinna og við gras og garða komi ekki til greina sökum ofnæmis.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 22. desember 2010, segir að mál þetta varði 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi ekki lagt fram læknisvottorð um skerta vinnufærni við ákveðnar aðstæður í upphafi umsóknar um atvinnuleysisbætur. Þvert á móti merki hún við í umsókn sinni að hún sé almennt vinnufær. Vinnumálastofnun hafi tekið mið af þeim upplýsingum enda sé skýrt kveðið á um það í h-lið 1. mgr. 14. gr., sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, að umsækjanda beri að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á því að fá starf við hæfi sem og að tilkynna stofnuninni um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans, án ástæðulausrar tafar. Þá greinir Vinnumálastofnun frá því að kærandi segi í kæru að hún hafi skilað inn til Vinnumálastofnunar læknisvottorði vegna frjókornaofnæmis árið 1999. Kveður stofnunin að sér sé ekki kunnugt um eldra læknisvottorð kæranda. Jafnvel þó svo kærandi hefði skilað læknisvottorði fyrir áratug síðan telur stofnunin það ekki nægjanlega tilkynningu til stofnunarinnar enda hafi fjórar umsóknir um atvinnuleysisbætur borist frá kæranda frá þeim tíma. Í nýjustu umsókn um atvinnuleysisbætur segist kærandi vilja taka hvaða starfi sem er. Því verði ekki séð að kærandi hafi, fyrir höfnun á atvinnutilboði, greint stofnuninni frá skertri vinnufærni eða gert fyrirvara á umsókn vegna starfa sem fela í sér útiveru.

Komi upplýsingar um skerta vinnufærni upp þegar starf er í boði kunni að koma til viðurlaga skv. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hinn tryggði hefði þegar átt að hafa gefið upp allar nauðsynlegar upplýsingar um vinnufærni sína. Mikilvægt skilyrði þess að unnt sé að aðstoða hinn tryggða við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum sé að nauðsynlegar upplýsingar um hann liggi fyrir. Það geti því reynst þýðingarmikið að upplýsingar liggi fyrir þegar í upphafi um að umsækjendur geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna heilsufarsástæðna. Skorti nauðsynlegar upplýsingar um vinnufærni umsækjenda geti það því haft neikvæð áhrif á árangur þeirra úrræða sem viðkomanda standa til boða enda hafi miðlun í störf og úrræði stofnunarinnar verið byggt á ófullnægjandi upplýsingum. Skýrt sé af gögnum málsins að hún hafi ekki lagt fram læknisvottorð um skerta vinnufærni fyrr en eftir að henni var boðið starfið.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. febrúar 2011, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 7. mars 2011. Að beiðni kæranda var sá frestur lengdur til 9. mars 2011 en engar athugasemdir komu frá henni.

2.

Niðurstaða

Í 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 20. gr. laga nr. 134/2009, er fjallað um það þegar starfi eða atvinnuviðtali er hafnað. Í 1. mgr. lagagreinarinnar segir að sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama eigi við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.

Í 4. mgr. sömu lagagreinar kemur eftirfarandi fram:

Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði vísvitandi leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.

Í athugasemdum við tilvitnaða 4. mgr. 57. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að gert sé ráð fyrir því að heimilt sé að taka tillit til þess þegar hinn tryggði geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni. Gera megi ráð fyrir að sjaldan reyni á þessa undanþágu þar sem ekki gert ráð fyrir að hinum tryggða verði boðin störf sem hann er ekki fær um að sinna enda hafi hann tekið það fram þegar í upphafi atvinnuleitar.

Í 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 22. gr. laga nr. 134/2009, kemur fram að sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. laganna eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar sé tilkynnt aðila. Hið sama eigi við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Honum skuli jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr. laganna.

Í athugasemdum við 59. gr. í frumvarpi sem varð að lögum um atvinnuleysis­tryggingar, nr. 54/2006, kemur fram að ákvæði þetta sé nýmæli, en mikilvægt skilyrði þess að unnt sé að aðstoða hinn tryggða við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum sé að nauðsynlegar upplýsingar um hann liggi fyrir. Nokkuð sé um það að atvinnuleitendur komi með læknisvottorð um skerta starfshæfni þegar þeim séu boðin störf. Það geti hins vegar reynst þýðingarmikið að upplýsingar liggi fyrir þegar í upphafi um að þeir geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna heilsufarsástæðna. Skorti nauðsynlegar upplýsingar um vinnufærni umsækjanda geti það því haft neikvæð áhrif á árangur þeirra úrræða sem viðkomandi standi til boða enda hafi þarfamatið verið byggt á ófullnægjandi upplýsingum. Þá sé ekki átt við upplýsingar um atvik eða aðstæður sem ekki voru komin fram þegar umsækjandi sótti fyrst um atvinnuleysisbætur en gert sé ráð fyrir að hinn tryggði gefi nauðsynlegar upplýsingar um leið og breytingar verða.

Í athugasemdum við 22. gr. í frumvarpi sem varð að lögum um breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, og lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, nr. 134/2009, kemur fram að sú breyting sem lögð sé til á 1. mgr. 59. gr. laganna sé sú að ákvæðið eigi einungis við þegar umsækjandi um atvinnuleysisbætur lætur hjá líða að veita tilteknar upplýsingar eða tilkynna um breytingar á högum sínum sem kunna að hafa áhrif á rétt hlutaðeigandi innan kerfisins.

Það er ljóst að gera verður ríkar kröfur til atvinnuleitenda um að veita viðeigandi upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur eða um leið og breytingar gefa tilefni til þess og án ástæðulausrar tafar. Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 10. mars 2009 og henni var boðið í atvinnuviðtal þann 30. apríl 2010. Staðhæfingar hennar þess efnis að hún gæti ekki tekið vinnunni vegna sólar- og frjókornaofnæmis bárust í kjölfar atvinnutilboðsins. Af hálfu kæranda er því haldið fram að hún hafi sent inn vottorð vegna frjókornaofnæmis árið 1999. Af gögnum málsins og samskiptasögu Vinnumálastofnunar og kæranda er á hinn bóginn ekki að finna upplýsingar um umrætt vottorð. Þá er ekki gerður fyrirvari í umsókn um atvinnuleysisbætur vegna skerðingar á vinnufærni heldur kemur þar fram að kærandi vilji þiggja hvaða starf sem er.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 2. júní 2010 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum