Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 109/2010

Grein

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 7. apríl 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 109/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, fékk greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við bótarétt sinn frá 8. desember 2009. Þann 19. apríl 2010 barst Vinnumálastofnun beiðni í tölvupósti frá kæranda þess efnis að skráð orlof hennar í tölvukerfi Vinnumálastofnunar yrði fjarlægt, en hún hafði verið skráð í orlof frá 5. mars til 24. apríl 2010 og höfðu atvinnuleysisbætur hennar verið lækkaðar í samræmi við skráð orlof. Í tölvupóstinum kom fram að kærandi hefði ekki farið í orlof árið 2010 né ætlaði hún sér það. Síðar kom í ljós að kærandi hafði verið erlendis frá 1. apríl til 21. apríl 2010. Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 23. júní 2010, þá ákvörðun sína að fella niður greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar á grundvelli 60 gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og henni var jafnframt tilkynnt að hún ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefði starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að ákvörðunin verði staðfest.

Kærandi neitar að hafa skráð umrætt orlof á rafræna umsókn sína, en Vinnumálastofnun heldur því fram að kærandi hafi skráð tímabil orlofs í rafræna umsókn þegar hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni og að enginn skrái athugasemdir eða orlofstímabil í umsóknarferli atvinnuleitanda nema hann sjálfur. Þann 19. apríl 2010 barst tölvubréf frá kæranda til Vinnumálastofnunar með beiðni þess efnis að orlof hennar í tölvukerfi stofnunarinnar yrði fjarlægt þar sem hún hefði ekki farið í orlof og myndi ekki taka út orlofið sitt á árinu. Kærandi var eigi að síður stödd á X-landi frá 1. apríl til 20. apríl 2010 og í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar útskýrir kærandi það sem fram kemur í tölvupóstinum með því að hún hafi orðið reið yfir því að fá ekki þær bætur sem hún hafi átt von á.

Vinnumálastofnun fékk upplýsingar um að kærandi hefði verið stödd erlendis með vísan til útprentunar af samskiptasíðunni „facebook“. Hringt var í kæranda af því tilefni þann 28. apríl 2010 og hún innt eftir veru sinni í útlöndum. Í upphafi símtals neitaði kærandi því að hafa verið erlendis en játaði því að lokum. Kærandi staðfestir í kæru sinni til úrskurðarnefndar að hún hafi upphaflega neitað að hafa verið erlendis en það hafi ekki verið meiningin að gera það og hún hafi síðan játað því að hafa verið erlendis.

Vinnumálastofnun óskaði, með bréfi dagsettu 6. maí 2010, eftir því að kærandi skilaði skriflegum athugasemdum vegna málsins og óskaði enn fremur eftir flugfarseðlum vegna dvalar hennar erlendis. Athugasemdir bárust frá kæranda þar sem fram kemur að hún hafi farið í orlof en ekki á þeim tíma sem skráður hafi verið í umsókn hennar.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 16. desember 2010, kemur fram að með lögum nr. 134/2009 um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Verknaðarlýsing ákvæðisins geri grein fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins sé beitt. Fram komi í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins sem orðið hafi að lögum nr. 134/2009 að meðal annars komi til greina að beita viðurlögum á grundvelli ákvæðisins þegar atvinnuleitandi gefi stofnuninni vísvitandi rangar upplýsingar sem leiði til þess að atvinnuleitandi teljist ranglega tryggður að fullu eða að hluta.

Kærandi hafi verið stödd á X-landi þegar hún hafi sent tölvupóst til Vinnumálastofnunar þann 19. apríl 2010 og óskaði eftir því að orlof yrði fjarlægt úr greiðslukerfi stofnunarinnar. Hafni Vinnumálastofnun þeirri lýsingu á atburðarásinni sem fram komi í kæru til úrskurðarnefndar og verði ekki séð að kærandi hafi gert tilraun til að tilkynna stofnuninni um dvöl hennar erlendis. Þá sé með engu móti hægt að túlka skilaboð hennar til stofnunarinnar frá 19. apríl 2010 sem beiðni um að „færa orlof til“.

Fulltrúi eftirlitsdeildar hafi hringt í kæranda þann 28. apríl 2010. Í samtalinu hafi kærandi nokkrum sinnum verið spurð að því hvort hún væri erlendis. Hún hafi þvertekið fyrir það. Þegar fulltrúi stofnunarinnar hafi gert kæranda grein fyrir því að stofnunin hefði undir höndum skráðar athugasemdir frá henni um dvöl hennar erlendis, hafi hún viðurkennt að hún hafi verið stödd erlendis. Vinnumálastofnun telji ljóst að kærandi hafi eftir fremsta megni reynt að blekkja stofnunina og leyna mikilvægum atriðum sem komið hafi í veg fyrir að hún uppfyllti skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Það sé eindregin afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi með framferði sínu reynt að afla sér atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og að hún skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hún hafi starfað í a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. desember 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 4. janúar 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur meðal annars að 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

Sá sem veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Þessu ákvæði var bætt við lög um atvinnuleysistryggingar með 23. gr. laga nr. 134/2009. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að síðarnefndu lögunum var ákvæðið skýrt nánar. Þar kom meðal annars fram að beita ætti ákvæðinu í þrenns konar tilvikum, í fyrsta lagi þegar atvinnuleitandi veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögunum, í öðru lagi þegar atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum þar sem hann hefur ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna og í þriðja lagi þegar atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu, sbr. nú 35. gr. a.

Þar sem 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er afar íþyngjandi í garð þeirra sem eru tryggðir samkvæmt lögunum ber að túlka ákvæðið þröngt.

Í þessu máli hafði af einhverjum ástæðum verið skráð í umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur að hún yrði í orlofi frá 5. mars til 24. apríl 2010. Telja verður það trúverðugt að þessi skráning hafi verið gerð fyrir mistök og skiptir ekki máli hver beri ábyrgð á þeim. Það er því ljóst að í umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur voru ekki veittar vísvitandi rangar upplýsingar í skilningi fyrri málsliðar 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Útilokað er því að beita því ákvæði í máli þessu.

Kærandi var stödd á X-landi á tímabilinu 1. apríl til 20. apríl 2010. Hún lét Vinnumálastofnun ekki vita af þeirri dvöl fyrir fram. Með rafpósti kæranda, sem barst Vinnumálastofnun 19. apríl 2010, var ekki minnst á að hún væri stödd erlendis. Í símtali við starfsmann Vinnumálastofnunar 28. apríl 2010 neitaði kærandi í fyrstu að hún hafi verið erlendis á umræddu tímabili. Þessi hegðun kæranda fellur ekki undir síðari málslið 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Því er ekki hægt að beita því ákvæði við úrlausn málsins.

Hin kærða ákvörðun var reist á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það ákvæði á ekki við í málinu. Því verður að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og taka nýja ákvörðun.

Ljóst er að kærandi var stödd erlendis á tímabilinu 1. apríl til 20. apríl 2010 og lét ekki vita af þeirri dvöl fyrir fram. Hún hafði ekki heldur frumkvæði af því að upplýsa Vinnumálastofnun um þetta á meðan hún dvaldist erlendis heldur þvert á móti reyndi að afla sér hærri atvinnuleysisbóta í krafti þess að hún hefði verið ranglega skráð í orlofi frá byrjun mars 2010. Í símtali við starfsmann Vinnumálastofnunar 28. apríl 2010 neitaði hún því í fyrst að hafa dvalist erlendis. Með hliðsjón af þessu verður hinni kærðu ákvörðun breytt í þá veru að kærandi glati rétti til greiðslu atvinnuleysisbóta í tvo mánuði frá og með 24. júní 2010, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki hefur verið sýnt fram á að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Af þeim sökum verður ekki tekin afstaða til þess hvort henni beri að endurgreiða slíkar bætur.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 23. júní 2010 í máli A er felld úr gildi. Fella skal niður greiðslu bóta til A í tvo mánuði frá og með 24. júní 2010 að telja.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum