Hoppa yfir valmynd
1. apríl 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 138/2010

Grein

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 1. apríl 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 138/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 12. júlí 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 30. júní 2010 fjallað um höfnun hennar á atvinnutilboði. Vegna höfnunarinnar var réttur hennar til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði frá og með degi ákvörðunar sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dagsettu 27. júlí 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 21. október 2008. Henni bauðst í maí 2010 atvinnuviðtal hjá B, sem afgreiðslu- eða sölumaður í C, sbr. boðun í atvinnuleit, dags. 26. maí 2010, sem liggur fyrir í gögnum málsins. Þar kemur fram að kæranda bar að hafa samband við umræddan atvinnurekanda fyrir 28. maí 2010 til þess að halda bótarétti sínum. Kærandi hafði aldrei samband við fyrirtækið og mætti ekki í viðtalið. Samkvæmt gögnum málsins stóð til hjá C að ráða starfsmann til almennra verslunarstarfa í júní, júlí og ágúst 2010. Vinnumálastofnun tók málið fyrir á fundi sínum þann 4. júní 2010, en frestaði afgreiðslu þess og óskaði eftir skriflegri afstöðu kæranda til málsins. Í tölvupósti kæranda sem barst þann 14. júní 2010 kemur fram að hún hafi verið veik á umræddum tíma auk þess sem bíllinn hennar hafi bilað og hún byggi í 20 mínútna akstursfjarlægð frá Hellu.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 16. febrúar 2011, er vísað í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Bent er á að í athugasemdum við 57. gr. frumvarps þess er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram að gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum.

Fram kemur að eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið nánar á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Komi fram að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu.

Kærandi hafi ekki mætt í boðað atvinnutilboð hjá C. Hún segist hafa verið lasin og að bíll hennar hafi bilað. Kærandi hafi ekki lagt fram læknisvottorð máli sínu til stuðnings. Jafnvel þó svo að ástæður kæranda fyrir höfnun á atvinnutilboði væru studdar læknisvottorði verði ekki fallist á að það réttlæti höfnun á framangreindu starfstilboði, enda verði að gera þá kröfu til atvinnuleitanda að þeir tilkynni forföll í viðtöl hjá atvinnurekanda. Væri þá a.m.k. mögulega hægt að kanna hvort atvinnurekandi gæti hliðrað viðtalstíma. Kærandi hafi hvorki tilkynnt atvinnurekanda um forföll né óskað eftir nýjum viðtalstíma. Samkvæmt starfsmanni B hafi kærandi aldrei haft samband við fyrirtækið.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. febrúar 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 8. mars 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Kærandi var skriflega boðuð í atvinnuviðtal af Svæðisvinnumiðlun D hjá B, með bréfi, dags. 26. maí 2010, þar sem fram kom að henni bæri að hafa samband við umræddan atvinnurekanda fyrir 28. maí 2010 til þess að halda bótarétti. Af hálfu kæranda hefur komið fram að hún hafi verið veik á þessum tíma og að bíll hennar hafi bilað. Kærandi mætti ekki í viðtalið og hún boðaði hvorki forföll né óskaði eftir öðrum viðtalstíma. Síðari málsliður 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á því við um atvik þessa máls.

Hin kærða ákvörðun verður staðfest með vísan til framanritaðs og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 30. júní 2010 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum