Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 108/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 24. febrúar 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 108/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 7. júní 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 4. júní 2010 fjallað um fjarveru kæranda í boðað viðtal. Vegna fjarverunnar var réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður í 40 daga frá og með degi ákvörðunar sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dagsettu 22. júní 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 17. febrúar 2009. Kæranda var sendur tölvupóstur Iðunnar - fræðsluseturs þann 28. apríl 2010. Með póstinum var tilkynnt að á næstu vikum fengi kærandi símtal frá náms- og starfsráðgjafa sem muni bóka viðtal með honum til þess að fara yfir stöðu hans og hvaða úrræði standa atvinnuleitendum til boða. Dagana 3. maí og 10. maí 2010 var síðan reynt að hringja í farsíma kæranda en hann svaraði ekki. Vinnumálastofnun óskaði, með bréfi dags. 12. maí 2010, eftir skriflegri afstöðu kæranda á ástæðum þess að hann sinnti ekki boðunum í framangreinda fundi hjá fræðslusetrinu Iðunni. Í svari kæranda kemur fram að hann hafi ekki vitað af boðuninni þar sem tölva hans hafi verið í viðgerð og hann hafi ekki fengið skilaboð símleiðis.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 22. desember 2010, kemur fram að af 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar megi ráða að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta 40 daga biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Segi þar að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðs­úrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Það sé grundvallarskilyrði þess að unnt sé að aðstoða umsækjanda um atvinnuleysisbætur við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum að atvinnuleitandi sinni þeim boðunum og ábendingum sem sannanlega séu send með viðurkenndum hætti. Þær tilraunir sem gerðar hafi verið til að boða kæranda í viðtal á vegum stofnunarinnar hafi ekki borið árangur. Telji stofnunin að tilhögun boðunar í umrætt viðtal hafi verið næg ástæða til að óska skýringa frá kæranda hvers vegna ítrekuðum boðunum hafi ekki verið svarað. Þá sé það mat Vinnumálastofnunar, í ljósi þess að rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, að hvorki skýring sú er kærandi taki fram í bréfi sínu til stofnunarinnar né í kæru til úrskurðarnefndarinnar geti réttlætt það að ekki náðist í kæranda til þess að boða hann á fund hjá stofnuninni og að með fjarveru sinni hafi kærandi brugðist skyldum sínum skv. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. desember 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 14. janúar 2011. Kærandi sendi bréf dagsett 13. janúar 2011.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila.“

Í athugasemdum við 58. gr. með frumvarpi til laga atvinnuleysistryggingar kemur fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar og sé litið svo á að hinum tryggðu sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Samkvæmt 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er virk atvinnuleit skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Til að geta talist vera í virkri atvinnuleit þarf umsækjandi að hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, sbr. g-lið 14. gr. laganna. Ekki er gert ráð fyrir undanþágum frá þessari skyldu, en gera verður ráð fyrir því að til slíkrar þátttöku sé boðað með eðlilegum hætti og kæranda almennt gert mögulegt að taka þátt í slíkum aðgerðum. Kæranda var sendur tölvupóstur þann 28. apríl 2010 þar sem honum var gert viðvart um að hann myndi á næstu vikum fá símtal um boðun í viðtal hjá náms- og starfsráðgjafa. Kæranda barst ekki tölvupósturinn fyrr en 12. maí 2010 vegna þess að tölvan hans var sannanlega í viðgerð á þeim tíma sem tölvupósturinn barst. Þá var tvívegis gerð árangurslaus tilraun til þess að hringja í farsíma kæranda, dagana 3. og 10. maí, en hann kveðst ekki hafa haft kveikt á símanum í sparnaðarskyni. Eins og fram hefur komið skal sá sem brýtur gegn 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum og er því um að ræða afar íþyngjandi ákvörðun. Stjórnvaldi ber því að gæta hófs við meðferð valds síns. Kærandi er með heimasíma og hefur gefið upp það símanúmer í málskoti sínu til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Ekki kemur fram í gögnum þessa máls að gerð hafi verið tilraun til þess að hafa samband við hann í gegnum þann síma. Kæranda var heldur ekki sent bréf í hefðbundnum pósti varðandi boðun í viðtal. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður ekki talið að kærandi hafi verið boðaður í viðtal með eðlilegum og sanngjörnum hætti þannig að honum hafi verið gert mögulegt að sinna boðun í viðtal við náms- og starfsráðgjafa. Í ljósi þess sem að framan er rakið verður ekki talið að kærandi hafi hafnað þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum í skilningi 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og er hinni kærðu ákvörðun því hrundið.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 4. júní 2010 um niðurfellingu bótaréttar A í 40 daga er felld úr gildi.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum