Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 79/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 24. febrúar 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 79/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, hafði verið skráður á atvinnuleysisbætur frá 20. nóvember 2008 þegar Vinnumálastofnun fékk upplýsingar þess efnis að hann hefði verið í fullri vinnu. Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda því með bréfi, dags. 23. apríl 2010, að stofnunin hefði ákveðið á fundi sínum þann 21. apríl 2010 að fella niður greiðslur atvinnuleysistrygginga til hans frá og með 19. febrúar 2010 með vísan til 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Þá var kæranda gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna, að fjárhæð 1.029.437 kr. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dagsettu 7. maí 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi hefur starfað sem sjómaður hjá fyrirtækinu X ehf. Í umsókn hans um atvinnuleysisbætur frá 20. nóvember 2008 kom fram að hann væri í óreglulegu hlutastarfi. Samkvæmt vottorði vinnuveitanda kæranda, X ehf., dags. 11. apríl 2010, er starfið tilfallandi eftir veðri. Vinnumálastofnun barst þann 14. apríl 2009 ábending frá vinnuveitanda kæranda þess efnis að kærandi hefði verið í fullri vinnu hjá X ehf. að undanskilinni einni viku í nóvember 2008. Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 14. október 2010, sem send var úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, kemur fram að ekki sé að sjá að frekar hafi verið aðhafst í máli kæranda hjá stofnuninni á þessum tíma. Ástæða þess að ekki hafi verið leitað frekari upplýsinga sé ekki kunn en það sé ljóst að veigamikil mistök hafi verið gerð hjá stofnuninni. Vinnumálastofnun óskaði fyrst eftir vinnuveitendavottorði frá X ehf. með bréfi dagsettu 18. mars 2010, en þá hafði kærandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá 20. nóvember 2008 til 19. febrúar 2010. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá Ríkisskattstjóra hefur kærandi verið við vinnu hjá X ehf. samfleytt frá nóvember 2008 og hafa meðal mánaðarlaun hans hjá fyrirtækinu hækkað frá því að hann skráði sig atvinnulausan hjá stofnuninni. Kærandi hefur þrátt fyrir það ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit hans væri hætt.

Kærandi kveður það ekki rétt að hann hafi verið í fullu starfi hjá X ehf. Hann hafi skráð sig atvinnulausan að hluta vegna þess að vinna hans sé mjög óregluleg og fari eftir veðri. Fyrir hafi komið að ekki hafi verið hægt að róa vikum saman og þá hafi hann verið tekjulaus. Það hafi alltaf komið skýrt fram að hann hafi verið í hlutastarfi hjá X ehf. og fái aðeins greitt fyrir þá daga sem hægt sé að róa. Kærandi kveðst hafa rætt við stéttarfélag sitt, Eflingu, sem hafi tjáð sér að hann ætti fullan rétt á því að skrá sig þá daga sem ekki væri róið. Kærandi kveðst telja sig í fullum rétti með að skrá sig atvinnulausan þá daga sem ekki sé vinna.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 14. október 2010, er vísað til 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og bent á að með lögum nr. 134/2009 um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laganna. Verknaðarlýsing ákvæðisins geri grein fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins verði beitt. Segi í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009 að meðal annars komi til greina að beita viðurlögum á grundvelli ákvæðisins þegar atvinnuleitandi gefi stofnuninni vísvitandi rangar upplýsingar sem leiði til þess að atvinnuleitandi teljist ranglega tryggður að fullu eða að hluta. Þá sé gert ráð fyrir því að viðurlög eigi einnig við ef atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna.

Fram kemur í greinargerð Vinnumálastofnunar að það sé ljóst að starfstengdar aðstæður starfsmanna hjá bátaútgerð byggist oft og tíðum á óreglulegum vinnutíma enda séu störf á smábátum háð veðri og vindum. Vinnuveitandi kæranda hafi sjálfur sagt kæranda í fullu starfi. Þá hafi kærandi samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá Ríkisskattstjóra, verið við vinnu hjá X ehf. samfleytt frá nóvember 2008 og hafi meðal mánaðarlaun kæranda hjá fyrirtækinu hækkað frá því að hann skráði sig atvinnulausan hjá stofnuninni. Þrátt fyrir þetta hafi hann ekki talið ástæðu til að tilkynna Vinnumálastofnun um að atvinnuleit hans væri hætt líkt og honum sé skylt skv. 3. mgr. 9. gr. og 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þvert á móti haldi kærandi því fram að hann sé aðeins í tilfallandi verkefnum hjá fyrrum atvinnurekanda sínum. Það sé eindregin afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi þegið atvinnuleysisbætur frá nóvember 2008 án þess að geta talist atvinnulaus í skilningi 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá telur Vinnumálastofnun að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá 20. nóvember 2008 til 19. febrúar 2010 að fjárhæð 1.029.437 kr. sem honum beri að endurgreiða þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. október 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 2. nóvember 2010. Kærandi sendi bréf sem var móttekið 18. nóvember 2010.

 

2.

Niðurstaða

Umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur var móttekin 20. nóvember 2008. Fram kom í umsókninni að kærandi væri sjómaður á „litlum bát“ og bara væri hægt að róa þegar gott veður væri en að öðru leyti væri kærandi tekjulaus. Með umsókninni fylgdi vottorð vinnuveitenda þar sem fram kom að hann hafi starfað hjá X ehf. frá 1. janúar 2007 til 9. nóvember 2008 en árið 2006 hafði hann starfað hjá eiganda X ehf. sem rak þá samnefndan smábát á eigin kennitölu. Samkvæmt fylgigögnum umsóknarinnar hafði kærandi 1.217.099 kr. í laun hjá X ehf. almanaksárið 2007 en 2.817.229 kr. á tímabilinu 1. janúar 2008 til 9. nóvember 2008. Umsókn kæranda var tekin til greina og á tímabilinu 20. nóvember 2008 til 19. febrúar 2010 fékk hann útborgaðar 895.163 kr. í atvinnuleysisbætur.

Í máli þessi liggur fyrir samskiptasaga Vinnumálastofnunar og kæranda á tímabilinu 3. desember 2008 til 1. júlí 2010. Hinn 3. desember 2008 er skráð í samskiptasöguna það mat starfsmanns Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysistryggingum þar sem hann sé starfandi trillusjómaður. Þann 30. desember 2008 skilaði kærandi inn launaseðlum en það gerði hann einnig 29. janúar 2009, 26. febrúar 2009 og 3. júní 2009. Hinn 20. desember 2009 tilkynnti kærandi að hann hafi verið í samfelldri vinnu frá 1. desember til 16. desember 2009. Jafnframt verður ráðið af samskiptasögunni að eiginkona kæranda hafi upplýst um störf hans 8. júní 2009 og 24. júní 2009. Vinnuveitandi kæranda hringdi í Vinnumálastofnun 14. apríl 2009 og taldi að hann hafi verið í fastri vinnu nema eina viku í nóvember 2008. Vinnuveitandanum „þótti þetta kerfi ekki í lagi“. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 14. júlí 2009, var kærandi settur á 40 daga bið eftir atvinnuleysisbótum þar sem hann hafði ekki mætt á sjálfstyrkingarnámskeið í júní sama ár.

Þrátt fyrir framangreinda samskiptasögu gerði Vinnumálastofnun engan reka að því að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda fyrr en með bréfi dags. 18. mars 2010. Í bréfinu kom fram að Vinnumálastofnun hafi tekin ákvörðun um að óska eftir því við kæranda að hann legði fram vottorð vinnuveitenda frá „X“. Jafnframt var í bréfinu vísað til 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en samkvæmt því skal sá sem telst tryggður á grundvelli laganna upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir.

Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda hafi verið stöðvaðar tímabundið í kjölfar bréfsins sem sent var 18. mars 2010.

Samkvæmt vinnuveitendavottorði, mótteknu 19. apríl 2010, hafði kærandi aflað umtalsverðra tekna á tímabilinu 1. janúar 2009 til febrúar 2010, þ.e. hann hafði fengið 3.224.743 kr. í laun á almanaksárinu 2009 og 902.114 kr. laun fyrir fyrstu tvo almanaksmánuðina árið 2010. Einnig er upplýst í málinu að hann hafi fengið 121.436 kr. greiddar í laun frá X ehf. í desember 2008. Á grundvelli vottorðsins, upplýsinga um launagreiðslur á árinu 2009 og 2010 og umsókninni um atvinnuleysisbætur frá 20. nóvember 2008, var hin kærða ákvörðun tekin á fundi Vinnumálastofnunar 21. apríl 2010.

Ákvörðunin var tvíþætt, annars vegar var bótaréttur kæranda felldur niður frá og með 20. febrúar 2010 og hins vegar var hann krafinn um að endurgreiða 1.029.437 kr., þ.e. þá fjárhæð sem hann hafði fengið útborgaðar í atvinnuleysisbætur að viðbættu 15% álagi (895.163x1,15). Þessi ákvörðun var íþyngjandi í garð kæranda.

Það er engum vafa undirorpið að Vinnumálastofnun hafði fullt tilefni til að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda í ljós þess að kærandi aflaði sér umtalsvert hærri atvinnutekna eftir að hann hóf töku atvinnuleysisbóta í árslok 2008 en hann hafði aflað á tímabilinu 1. janúar 2007 til 9. nóvember 2008. Einnig var rétt af stofnuninni að gera reka að því að innheimta þær bætur sem hafi verið ofgreiddar. Í því sambandi ber þó að hafa í huga að kærandi taldi sig eingöngu vera að sinna tilfallandi vinnu þann tíma sem hann þáði atvinnuleysisbætur og að krafa um álag eigi ekki við í máli þessu, sbr. lokamálslið 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, enda hafði Vinnumálastofnun ófá tækifæri til að stöðva greiðslur til kæranda mun fyrr en gert var.

Við meðferð málsins bar þess einnig að gæta að með lögum nr. 134/2009 voru gerðar ýmsar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar sem voru til þess fallnar að gera strangari kröfur um trúnaðarskyldur atvinnuleitenda gagnvart Vinnumálastofnun, sbr. sérstaklega 35. gr. a og 60. gr. laganna, sbr. 11. gr. og 23. gr. laga nr. 134/2009. Einnig var með 10. gr. laga nr. 134/2009 eftirfarandi ákvæði bætt við lögin, sbr. 2. mgr. 35. gr. laganna:

Vinnumálastofnun er heimilt að halda eftir greiðslu atvinnuleysisbóta sem hinum tryggða hefur áður verið ákvörðuð í allt að einn mánuð frá því að greiðsluna átti að inna af hendi þegar stofnunin hefur rökstuddan grun um að hinn tryggði uppfylli ekki lengur skilyrði laganna eða hafi þegar fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Þegar slíkur grunur vaknar skal Vinnumálastofnun án ástæðulauss dráttar og að lágmarki fimm virkum dögum fyrir næsta greiðsludag atvinnuleysisbóta skv. 1. mgr. tilkynna hlutaðeigandi með sannanlegum hætti að fyrirhugað sé að halda eftir greiðslu. Skal stofnunin jafnframt hefja athugun á málinu þegar í stað skv. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og veita hlutaðeigandi andmælarétt skv. 13. gr. sömu laga.

Ákvæði stjórnsýslulaga gilda að öðru leyti um málsmeðferðina.

Þetta ákvæði gilti um meðferð máls kæranda þegar Vinnumálastofnun tilkynnti honum með áðurnefndu bréfi frá 18. mars 2010 að óskað væri eftir því að hann útvegaði vottorð vinnuveitanda. Í bréfinu var ekki vísað í þetta ákvæði laganna og einnig var ekki gerð grein fyrir á hvaða lagagrundvelli greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda væru stöðvaðar. Hvorki í þessu bréfi Vinnumálastofnunar né síðar við meðferð málsins var kæranda veittur kostur á að andmæla þeirri ákvörðun sem að lokum var tekin. Telja verður þetta verulegan ágalla við meðferð málsins.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að svo gróflega hafi verið brotið á rétti kæranda til að andmæla hinni kærðu ákvörðun, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, að óhjákvæmilegt sé að fella hana úr gildi.

Tekið skal fram að þessi niðurstaða kemur ekki í veg fyrir að Vinnumálastofnun taki nýja ákvörðun í máli kæranda, þ.m.t. að krefja hann um greiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

 

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun er felld úr gildi.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum