Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 95/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 17. febrúar 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 95/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 3. júní 2010, var kæranda, A, tilkynnt að þar sem hann hafi verið staddur erlendis frá 16. mars til 20. maí 2010 hafi hann ekki uppfyllt skilyrði c-liðar 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, um að vera búsettur og staddur á Íslandi. Af þeirri ástæðu hafi verið ákveðið að fella niður bótarétt hans í þrjá mánuði skv. 1. mgr. 59., sbr. einnig 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem hann hafi áður sagt upp starfi, og draga þá daga sem hann var erlendis frá greiðslum til hans skv. 3. mgr. 39. gr. sömu laga. Með bréfi, dags. 10. júní 2010, kærði kærandi þessa ákvörðun Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Eftir ítrekaðar bréfasendingar til kæranda, eins og rakið er í gögnum málsins, kom í ljós að hann var staddur erlendis frá 16. mars til 20. maí 2010 án þess að láta Vinnumálastofnun vita um það. Með bréfi stofnunarinnar til hans, dags. 3. júní 2010, var honum tilkynnt að á fundi stofnunarinnar þann 31. maí 2010 hefði verið tekin sú ákvörðun að réttur hans til greiðslna atvinnuleysisbóta hafi verið felldur niður í þrjá mánuði frá ákvörðunardegi.

Kærandi greindi frá því að hann sem tónlistarmaður eigi allt undir því að þiggja með þakklæti þau tækifæri sem honum bjóðist, hvort sem þau séu innan aðildarríkja EES-samningsins eða ekki. Hrundið hafi verið af stað landkynningarverkefni og hann hafi fengið styrk til þeirrar farar. Nú sé verið að hegna honum fyrir það.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 16. desember 2010, kemur meðal annars fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta þann 24. mars 2009. Við afgreiðslu máls hans hafi komið í ljós að hann hafði sagt upp starfi sínu sem ráðgjafi hjá X og því hafi hann hlotið tveggja mánaða bið eftir greiðslum atvinnuleysisbóta frá umsóknardegi skv. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í greinargerðinni eru rakin samskipti stofnunarinnar við kæranda. Kemur þar fram að með bréfi, dags. 16. mars 2010, hafi kærandi verið boðaður til fundar við eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar þann 22. mars 2010, en það hafi verið hluti af eftirliti stofnunarinnar. Í bréfinu hafi komið fram að fjarvera á slíkum fundi geti valdið missi bótaréttar þar sem hann teldist þá ekki í virkri atvinnuleit skv. 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi ekki haft samband við stofnunina og þann 9. apríl 2010 hafi verið tekin sú ákvörðun að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans þar sem engar skýringar hefðu borist á fjarveru hans á umræddum fundi. Þann 5. maí hafi borist sú skýring frá kæranda að honum hafi láðst að gefa upp rétt póstfang þar sem hann hefði verið að flytja.

Þann 6. maí 2010 hafi kærandi haft samband við stofnunina símleiðis en þá hafi komið fram að hann væri staddur í B-landi og hefði verið þar frá 16. mars 2010 eða sama dag og umrætt fundarboð var sent. Í kjölfar þessara upplýsinga hafi kæranda verið sent erindi þar sem honum hafi verið tilkynnt að réttur hans til atvinnuleysisbóta hafi verið felldur niður í þrjá mánuði frá ákvörðunardegi, 3. júní 2010, og að ofgreiddum atvinnuleysisbótum yrði skuldajafnað við síðar tilkomnar greiðslur frá stofnuninni. Hafi ákvörðunin verið tekin á grundvelli 1. mgr. 59., sbr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem kærandi hafi hlotið viðurlög á sama bótatímabili vegna starfsloka, og að um ítrekunaráhrif vegna fyrra brots hafi verið að ræða. Í fyrra ákvæðinu segi meðal annars að sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. h-lið 1. mgr. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, eigi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir. Síðara ákvæðið sé ítrekunarákvæði vegna fyrri viðurlagaákvarðana. Þar segi meðal annars í 1. mgr. að sá sem hefur sætt viðurlögum skv. 57.–59. gr. eða biðtíma skv. 54. og 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greinir á sér stað að nýju á sama tímabili skv. 29. gr. skuli sá ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að þremur mánuðum liðnum. Í erindinu kom einnig fram að fjárhæð ofgreiddra atvinnuleysisbóta hans fyrir alls þrjá virka daga yrði innheimt skv. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um skuldajöfnun á ofgreiddum atvinnuleysisbótum. Vinnumálastofnun greindi jafnframt frá því að fyrri viðurlagaákvörðun væri frá því í júní 2009 og skv. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar væri kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar því liðinn.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. desember 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 4. janúar 2011. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Kærandi lét Vinnumálastofnun ekki vita af því fyrir fram að hann yrði ekki staddur á landinu á tímabilinu 16. mars 2010 til 20. maí 2010.

Eitt af skilyrðum þess að geta haldið rétti sínum í atvinnuleysistryggingakerfinu er að vera búsettur og staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi braut gegn trúnaðarskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun þegar hann hélt af landi brott án þess að láta af því vita fyrir fram, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Því bar að láta hann sæta viðurlögum skv. 1. mgr. 59. gr. laganna eins og Vinnumálastofnun gerði. Að auki ber honum að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hann fékk á meðan hann var erlendis, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til framangreinds, og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.

 

 

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 3. júní 2010 í máli A um niðurfellingu bótaréttar hans í tvo mánuði og að hann endurgreiði atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 16. mars til 19. mars 2010 er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum