Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 84/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 17. febrúar 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 84/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 18. mars 2010, var kærandi, A, beðin um að skila skýringum vegna upplýsinga sem stofnunin hafði undir höndum þess efnis að hún hafi verið stödd erlendis í febrúar 2010. Eftir að kærandi hafði skilað inn umbeðnum gögnum var ákveðið á fundi Vinnumálastofnunar þann 27. apríl 2010, í samræmi við 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að fella niður greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar í tvo mánuði frá ákvörðunardegi. Með bréfi dagsettu 7. maí 2010 var henni jafnframt tilkynnt um skuldajöfnun á ofgreiddum atvinnuleysisbótum fyrir þann tíma er hún var erlendis, samtals 13 virkir dagar, á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 19. maí 2010. Hún kveðst sætta sig við að endurgreiða atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hún var erlendis en andmælir þeirri ákvörðun að bætur hennar verði felldar niður í tvo mánuði. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 13. janúar 2009 og fékk þær greiddar í samræmi við bótarétt sinn. Samkvæmt gögnum málsins var hún í Egyptalandi frá 16. febrúar til 4. mars 2010. Kærandi kveðst hafa gert þau mistök að kynna sér ekki reglur Vinnumálastofnunar varðandi ferðir til útlanda. Hún kveðst hafa skilning á því að hún þurfi að endurgreiða þær bætur sem hún fékk fyrir þann tíma sem hún var erlendis. Hún kveðst hafa verið virk í atvinnuleit þann tíma sem hún hefur þegið atvinnuleysisbætur og kveðst einnig hafa staðið fyrir stofnun hreyfingar sem hún kallar kvenefli. Það sé vettvangur kröftugra kvenna sem vilji láta gott af sér leiða og þar geti konur komið og notið ýmissa námskeiða eða fengið aðstoð frítt. Kærandi telur að með þessu hafi hún náð að endurgjalda þann styrk sem hún hafi fengið hjá Vinnumálastofnun á meðan hún hefur verið í atvinnuleit.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 16. desember 2010, kemur fram að í 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt kveðið á um þá skyldu umsækjanda um greiðslur atvinnuleysistrygginga að vera í virkri atvinnuleit. Það sé jafnframt gert að skilyrði að umsækjandi sé staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. laganna. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrirfram um þessa utanlandsferð sína, líkt og henni hafi borið skv. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Fram kemur að Vinnumálastofnun hafi margsinnis vakið athygli á því að eitt af skilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta sé að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi. Einu undanþágur frá skilyrðum c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna í VIII. kafla laganna. Sérstaklega sé vakin athygli á framangreindum atriðum á kynningarfundum stofnunarinnar og þeim sem hugi að ferð erlendis á sama tíma og þeir séu skráðir í atvinnuleit hjá stofnuninni bent á að hafa samband við þjónustuskrifstofu stofnunarinnar fyrir brottfarardag. Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi í umrætt sinn látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atvik er haft hafi bein áhrif á rétt hennar til greiðslu.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. desember 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 4. janúar 2011. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Það er óumdeilt að kærandi dvaldi erlendis á tímabilinu frá 16. febrúar til 4. mars 2010. Það er einnig óumdeilt að hún hafi ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum á því tímabili er hún dvaldi erlendis og beri að endurgreiða þær bætur er hún fékk ofgreiddar.

Samkvæmt 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. h-lið 1. mgr. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur vísvitandi látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Kærandi lét Vinnumálastofnun ekki vita af því fyrirfram að hún myndi dvelja erlendis. Með því braut hún gegn þeirri skyldu sinni að upplýsa Vinnumálastofnun um þær breytingar sem verða á vinnufærni hennar eða aðstæðum að öðru leyti, sbr. h-lið 1. mgr. 14. gr., 2. mgr. 14. gr. og 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laganna leiddi brot þetta til þess að kærandi átti ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að liðnum tveimur mánuðum er ella hefðu verið greiddar bætur fyrir.

Með hliðsjón af framansögðu er sú ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest að kærandi hafi ekki átt rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta í tvo mánuði frá tilkynningu um viðurlagaákvörðun.

 

 

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 27. apríl 2010 í máli A um að fella niður greiðslu bóta til hennar í tvo mánuði frá tilkynningu ákvörðunar er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum