Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 65/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 23. nóvember 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 65/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 29. mars 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi á fundi sínum þann 24. mars 2010 fjallað um greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda. Við samkeyrslu Vinnumálastofnunar við nemendaskrá hafi komið í ljós að kærandi hafi verið skráður í nám jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysistryggingar án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Í ljósi þessa hafi greiðslum atvinnuleysistrygginga til hans verið hætt með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Jafnframt hafi Vinnumálastofnun talið að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá 1. janúar til 19. febrúar 2010 að fjárhæð 202.207 kr. sem honum bæri að endurgreiða skv. 2. mgr. 39. gr. laganna. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 23. apríl 2010. Hann krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kæranda var sent bréf frá eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar, dags. 19. febrúar 2010, þar sem honum var tilkynnt um samkeyrslu við nemendaskrá þar sem fram kom að hann var skráður í nám jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysistryggingar án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina og var óskað eftir því að hann hefði samband við eftirlitsdeildina og færði fram skýringar á þessum upplýsingum. Kærandi svaraði ekki bréfi þessu.

Kærandi gerir fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kröfu um að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði dregin til baka á eftirfarandi forsendum:

1. Hann var með námssamning á haustönn 2009.

2. Hann hefði að öllum líkindum fengið námssamning fyrir vorönn 2010 líka.

3. Hann fór á fund ráðgjafa Vinnumálastofnunar og þar hafi honum verið tjáð að hann gæti gert námssamning fram að þeim tíma sem hann færi í fæðingarorlof þann 19. febrúar 2010.

4. Fjárhagsleg staða hans sé slík að hann geti ekki með nokkru móti endurgreitt umrædda fjárhæð.

Af hálfu kæranda kemur fram að ástæða þess að hann hafi talið að hann væri að gera rétt væri sú að hann hafi verið með námssamning fyrir haustönn 2009 og hafi því talið líklegast að hann fengi námssamning á vorönn þar sem aðstæður hans höfðu ekki breyst. Hann hafi ennþá verið í námi og auk þess verið að sækja um framtíðarstarf. Kærandi gerir grein fyrir erfiðum fjárhagslegum aðstæðum sínum og kveðst ekki geta greitt umrædda fjárhæð til baka. Hann kveðst hafa lagt stund á kennsluréttindanám og hafi vonast til þess að auka atvinnumöguleika sína þar sem hann sé viðskiptafræðingur og hrun hafi orðið varðandi atvinnu í þeirri stétt.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 14. október 2010, kemur fram að það sé ljóst að kærandi hafi gert námssamning við Vinnumálastofnun þann 16. september 2009 fyrir haustönn 2009 en kærandi hafi lagt stund á nám í kennsluréttindum við Háskóla Íslands þann tíma. Námssamningar séu tímabundnir og þá þurfi að endurnýja að því gefnu að skilyrði standi enn til gerðar slíkra samninga við viðkomandi. Kærandi hafi ekki farið fram á endurnýjun á námssamningi við stofnunina þó hann hafi haldið áfram í námi í kennsluréttindum við Háskóla Íslands á vorönn 2010. Samkvæmt upplýsingum frá nemendaskrá Háskóla Íslands hafi kærandi verið skráður í 30 ECTS eininga nám við skólann á vorönn 2010. Það telst vera fullt nám á háskólastigi og því hafi hann ekki átt rétt á námssamningi. Vinnumálastofnun telji því að hvorki 2. né 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi við í máli kæranda. Verði því ekki tekin afstaða til þess hvort skilyrði greinarinnar um sérstakar ástæður sé uppfyllt eða hvort aðstæður kæranda gefi nægilegt tilefni til að veita undanþágu á grundvelli 3. mgr. 52. gr. laganna. Þess í stað verði að álykta að meginregla sú er fram komi í 1. mgr. 52. gr. laganna eigi við um tilvik kæranda. Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist kærandi ekki tryggður samkvæmt lögunum á sama tíma og hann sé skráður í nám og hafi rétt til framfærslu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Það sé því ljóst að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á tímabilinu 1. janúar til 19. febrúar 2010 þar sem hann hafi þá verið í lánshæfu háskólanámi. Þá beri kæranda skv. 2. mgr. 39. gr. laganna að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, 202.207 kr.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. október 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 2. nóvember 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., teljist ekki tryggður á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum við nefnda lagagrein í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram sú meginregla að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum.

Af orðalagi greinarinnar má lesa að námsmenn geta verið tryggðir ef nám þeirra er hlut vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Námssamningur telst hluti vinnumarkaðsaðgerða og gat því veitt kæranda rétt til bóta jafnhliða námi. Kærandi hafði fengið slíkan samning á haustönn 2009, en gildistími hans var aðeins ein námsönn með heimild til að framlengja einu sinni. Af reglum um námssamning er ljóst að hann getur aðeins náð til náms á háskólastigi sem er að hámarki 20 ECTS einingar og það er skilyrði að námið sé ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Samkvæmt því er ljóst að kærandi uppfyllti ekki skilyrði til að fá endurnýjun á námssamningi og á því ekki rétt á bótum skv. 1. mgr. 52. gr. laganna.

Í 2. og 3. mgr. 52. gr. er fjallað um undanþágur frá þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi. Í þessum undanþáguheimildum er hins vegar gert ráð fyrir því að námið sé að hámarki 20 ECTS einingar og ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Kærandi getur því ekki heldur talist eiga rétt til bóta á grundvelli þessara undanþáguheimilda og um hann gildir því sú meginregla að námsmenn eigi ekki rétt til atvinnuleysisbóta.

Í framangreindum reglum endurspeglast það hlutverk atvinnuleysisbótakerfisins að tryggja þeim tímabundna fjárhagsaðstoð sem ekki eiga kost á annarri framfærslu eftir að hafa misst starf sitt. Námsmenn sem eiga kost á láni frá Lánasjóði íslenskra námsmanna eiga því ekki rétt á bótum enda má þá ætla að þeir geti leitað til sjóðsins á sama hátt og aðrir námsmenn í lánshæfu námi.

Á grundvelli þess að kærandi var í svo miklu námi að nám hans var lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna gat hann ekki átt rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta á sama tíma. Hin kærða niðurstaða Vinnumálastofnunar er því staðfest að þessu leyti.

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum en hún hljóðar svona:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 54/2006 segir um þessa grein frumvarpsins að gert sé ráð fyrir því að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Jafnframt segir að þetta eigi við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur á sama tíma og hann var skráður í nám án þess að fyrir lægi námssamningur við Vinnumálastofnun og uppfyllti hann því ekki skilyrði laganna. Í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber honum því að endurgreiða þá fjárhæð sem Vinnumálastofnun hefur krafið hann um.

 

Úrskurðarorð

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til A er staðfest. Kærandi skal greiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. janúar til 19. febrúar 2010 að fjárhæð 202.207 kr.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum