Hoppa yfir valmynd
26. október 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 94/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 26. október 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 94/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 26. maí 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 20. maí 2010 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 12. apríl 2010. Umsókn kæranda var hafnað samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem vinna hans á ávinnslutímabili bótaréttar nær ekki því lágmarki sem kveðið er á um í 2. mgr. 15. gr. laganna. Kæra til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er dagsett 11. júní 2010. Kærandi krefst þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur en Vinnumálastofnunar krefst þess að hin kærða ákvörðun standi.

Kærandi starfaði, samkvæmt vinnuveitendavottorði X hf., dags. 19. apríl 2010, sem sjómaður frá 1. febrúar til 14. mars 2009. Fram kemur í vottorðinu að ástæða starfsloka hafi verið sú að kærandi slasaðist um borð þann 13. mars 2009 en hann hafi verið ráðinn tímabundið. Í kærunni kemur fram að kærandi hafi útskrifast sem vinnufær með nokkrum annmörkum þann 15. mars 2010. Kærandi kveðst hafa verið á launaskrá fyrst hjá útgerð viðkomandi báts og síðan hjá tryggingafélagi útgerðarinnar, frá 8. febrúar til 31. desember 2009. Nokkur styr standi um launagreiðslur frá 1. mars til 15. mars 2010 á milli kæranda og tryggingafélagsins og muni það mál verða leyst samhliða slysauppgjörinu. Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 12. apríl 2010. Honum var tilkynnt með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 26. maí 2010, að umsókn hans um atvinnuleysisbætur væri hafnað þar sem vinna á ávinnslutímabili bótaréttar samkvæmt framlögðum gögnum næði ekki því lágmarki sem kveðið er á um í 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 20. september 2010, kemur fram að skv. 1. mgr. 15 gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist launamaður, sbr. a-lið 3. gr. laganna, að fullu tryggður hafi hann starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sæki um atvinnuleysisbætur að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Þá komi fram í 7. mgr. 15. gr. laganna að vinnuframlag sjómanna skuli miðast við fjölda lögskráningardaga. Teljist mánaðarvinna sjómanna vera 21,67 lögskráningardagar.

Kærandi hafi verið sjómaður á ávinnslutímabilinu og skilað inn ásamt umsókn, vottorði vinnuveitanda frá X ehf. Hafi kærandi starfað í einn og hálfan mánuð þegar hann hafi slasast við störf. Fram komi í kæru til úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi áfram verið á launaskrá hjá X ehf. á meðan honum hafi verið greidd kauptrygging og slysalaun. Vinnumálastofnun hafi leitað upplýsinga hjá embætti Tollstjóra og hafi þar komið fram að kærandi hafi verið skráður með 37 lögskráningardaga árið 2009. Í ljósi skýrra fyrirmæla í 7. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um að Vinnumálastofnun beri að miða við fjölda lögskráningardaga til að finna vinnuframlag sjómanna, telji stofnunin að kærandi uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 15. gr. laganna um þriggja mánaða vinnusögu. Beri því að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. september 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 5. október 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Samkvæmt 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eru atvinnuleysisbætur greiddar úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem fjármagnaður er með atvinnutryggingagjaldi, sbr. lög um tryggingagjald, auk vaxta af innstæðufé sjóðsins. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um tryggingagjald skulu launagreiðendur greiða tryggingagjald af öllum launþegum.

Lög um atvinnuleysistryggingar gilda um launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Gerð er krafa um að viðkomandi einstaklingur sem sækir um greiðslu atvinnuleysisbóta skuli hafa verið í launuðu starfi í a.m.k. 25% starfshlutfalli á ávinnslutímabili. Í 1. mgr. 15. gr. laganna kemur fram að launamaður, sbr. a-lið 3. gr., teljist að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.

Kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn sinni dagsettri þann 12. apríl 2010. Kærandi hafði ekki verið starfandi á vinnumarkaði síðustu tólf mánuði áður en hann sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta til Vinnumálastofnunar en hins vegar fékk hann greidd veikindalaun til loka júlímánaðar 2009.

Í 26. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er gert ráð fyrir að umsækjandi um atvinnuleysisbætur sem horfið hefur af vinnumarkaði vegna sjúkdóms eða slyss geti geymt þegar áunninn rétt til atvinnuleysisbóta þann tíma sem hann er óvinnufær af þessum sökum. Í greinargerð með ákvæðinu segir að ákvæðið geri ráð fyrir að fólk geti geymt rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins er það hverfur af vinnumarkaði. Almennt er litið svo á í vinnurétti að fólk „hverfi af vinnumarkaði“ þegar ráðningarsambandi við vinnuveitanda lýkur. Í tilviki kæranda verður ekki hjá því komist að líta svo að vinnusambandi hans við Skinney-Þinganes ehf. hafi lokið þann 31. júlí 2009 þegar greiðslu veikindalauna til hans lauk.

Sé horft til þessarar heimildar laganna samhliða beiðni kæranda ber að líta svo á að kærandi hafi geymt áunnin réttindi sín frá 31. júlí 2009. Við mat á réttindum hans til greiðslu atvinnuleysisbóta ber því að horfa til tímabilsins 1. ágúst 2008–31. júlí 2009. Á síðastgreindu tímabili hafði kærandi þegið laun frá X ehf. í sex mánuði, en kærandi hafði ekki verið í annarri launaðri vinnu á tímabilinu 1. ágúst 2008–31. júlí 2009. Hagfelldara er fyrir kæranda að líta svo á að hann geymi bótarétt sinn samkvæmt þessu ákvæði og eðlilegt að miðað sé við túlkun á réttindum kæranda samkvæmt því. Kærandi hefur samkvæmt þessu áunnið sér 50% bótarétt fullra atvinnuleysisbóta.

Með vísan til framangreinds er eðlilegt að líta svo á að kærandi hafi áunnið sér rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta í sex mánuði af síðustu tólf mánuðum á ávinnslutímabili. Með vísan til 2. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysisbætur telst kærandi því hafa áunnið sér 50% bótarétt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

 

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 20. maí 2010 um synjun á bótarétti A er hrundið. Kærandi á rétt til greiðslu 50% fullra atvinnuleysisbóta.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum