Hoppa yfir valmynd
26. október 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 71/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 26. október 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 71/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 31. mars 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 31. mars 2010 fjallað um umsókn hans um atvinnuleysisbætur frá 15. mars 2010. Umsóknin var samþykkt samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og var bótaréttur kæranda útreiknaður 30%. Kærandi unir ekki þeirri niðurstöðu, en Vinnumálastofnunar krefst þess að hin kærða ákvörðun standi.

Kærandi sótti fyrst um atvinnuleysisbætur þann 21. nóvember 2009 og var bótahlutfall hans þá reiknað 52% af grunnatvinnuleysisbótum. Hann var síðar afskráður þar sem hann var í tímabundinni vinnu en sótti aftur um greiðslur atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 15. mars 2010.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 30. september 2010, kemur fram að í 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um ávinnslutímabil launamanna en ávinnslutímabilið ákvarði hlutfall bótaréttar viðkomandi launamanns. Fram kemur í greinargerðinni að af bótaútreikningi þeim er fylgt hafi fyrri umsókn kæranda megi sjá að tekið hafi verið til greina skólavottorð frá Verkmenntaskólanum á Akureyri við útreikning bótahlutfalls hans. Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. sé heimilt að líta til náms sem launamaður hafi stundað í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sæki um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar. Samkvæmt tilvitnaðri lagagrein megi þó sjá að nánara skilyrði fyrir þeirri heimild er þar greini sé að námi því er launamaður hafi stundað sé lokið. Af gögnum kæranda sem fylgt hafi umsókn hans og skýringabréfi á námslokum sínum megi ráða að kærandi hafi ekki lokið námi. Við útreikning á bótarétti kæranda vegna umsóknar hans frá nóvember 2009 hafi því ekki verið heimilt að taka nám hans sem 13 vikna vinnuframlag við bótaútreikning hans líkt og gert hafi verið varðandi fyrri umsókn. Hafi bótaréttur kæranda hækkað við þetta um 25% og hafi hann því fengið greiddar 52% af grunnatvinnuleysisbótum. Hefði bótaréttur kæranda án framangreindra mistaka verið metinn í 27%.

Þegar kærandi hafi aftur sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 15. mars 2010, eftir að hafa starfað í þrjár vikur hjá X ehf. hafi þessi mistök komið í ljós og hafi þau verið leiðrétt. Hafi kæranda verið tilkynnt um breytingu á tryggingarhlutfalli í samræmi við 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Bótaréttur kæranda hafi verið reiknaður í 30% þegar tekið hafði verið tillit til vinnu hans hjá X ehf. Vinnumálastofnun hafi ekki gert kröfu um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum, sbr. 2. mgr. laga um atvinnuleysistryggingar, fyrir það tímabil sem kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysistryggingar í 52% bótahlutfalli í stað 27%.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. október 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 18. október 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur í nóvember 2009 hafði hann ekki lokið námi. Eigi að síður var tekið tillit til nám hans við Verkmenntaskóla Akureyrar þegar bótahlutfall hans var reiknað út en slíkt samrýmdist ekki því skilyrði 3. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að atvinnuleitandi hafi lokið námi á ávinnslutímabili. Vegna þessara mistaka hækkaði bótahlutfall kæranda um 25%. Kærandi fór tímabundið af atvinnuleysisskrá vegna vinnu sem hann fékk í þrjár vikur. Þegar hann hóf töku atvinnuleysisbóta aftur var bótahlutfall hans lækkað úr 52% í 30% en við þá útreikninga var meðal annars litið til þess að hann hafði fengið vinnu í þrjár vikur. Kærandi unir ekki þessari lækkun bótahlutfallsins.

Í lögum um atvinnuleysistryggingar eru ákvæði sem mæla fyrir um hvernig meta eigi ávinnslutímabil atvinnuleitanda og hvað skuli gera ef atvinnuleitandi af einhverjum ástæðum fær lægri eða hærri bótagreiðslur en hann á rétt á, sbr. 15. gr. laganna og 39. gr. laganna. Mistök Vinnumálastofnunar, sem leiða til þess að atvinnuleitandi fær greitt hærra bótahlutfall en ella, gera ekki að verkum að atvinnuleitandi öðlast rétt til slíkra greiðslna um ófyrirsjáanlega framtíð. Vinnumálastofnun hefur heimild til að breyta ákvörðun sem er röng að efni til.

Með vísan til framangreinds sem og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 31. mars 2010 um að reikna A 30% atvinnuleysisbótarétt er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum