Hoppa yfir valmynd
26. október 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 66/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 26. október 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 66/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur með rafrænum hætti á heimasíðu Vinnumálastofnunar 6. janúar 2009. Vinnumálastofnun kveður kæranda ekki hafa staðfest atvinnuleit sína í febrúar og mars 2010, en kærandi heldur því fram að hann hafi gert það rafrænt. Kæranda var synjað um atvinnuleysisbætur fyrir umrætt tímabil, þ.e. frá 1. febrúar til 1. apríl 2010. Kærandi vildi ekki una þessu og kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 28. apríl 2010. Hann krefst þess að sér verði greiddar atvinnuleysisbætur fyrir umrætt tímabil. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti rafrænt um atvinnuleysisbætur 6. janúar 2009. Vinnumálastofnun heldur því fram að kærandi hafi ekki staðfest atvinnuleit sína í febrúar og mars eins og honum beri skylda til. Kærandi hafði samband við Vinnumálastofnun þann 6. apríl 2010 og sagðist hafa staðfest atvinnuleit bæði í febrúar og mars 2010. Tölvudeild Vinnumálastofnunar fann engin merki í tölvukerfinu um að kærandi hefði reynt að staðfesta atvinnuleit sína rafrænt. Kærandi fékk ekki greitt fyrir umrætt tímabil. Kærandi kveðst hafa staðfest atvinnuleit sína rafrænt alveg frá því að hann skráði sig atvinnulausan í janúar 2009, þar með talið febrúar og mars 2010.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 30. september 2010, kemur fram að kærendum sé skylt að staðfesta atvinnuleit sína skv. 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Í athugasemdum sem fylgdi frumvarpi til breytingalaga nr. 134/2009 á lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram að mikilvægt sé að festa framangreinda framkvæmd stofnunarinnar enn frekar í sessi innan atvinnuleysistryggingakerfisins og undirstrika þannig að eftir að umsókn hins tryggða um atvinnuleysisbætur hafi verið samþykkt beri honum skylda til að hafa samband við stofnunina með reglulegum hætti samkvæmt því fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði. Þessi lagabreyting hafi tekið gildi 1. janúar 2010. Fram kemur að á heimasíðu Vinnumálastofnunar séu upplýsingar fyrir umsækjendur atvinnuleysisbóta. Séu þar meðal annars ítarlegar upplýsingar um staðfestingu á atvinnuleit. Komi skýrt fram að staðfesta skuli atvinnuleit 20.–25. hvers mánaðar og að mögulegt sé að skrá staðfestingu á heimasíðu stofnunarinnar. Ofarlega til hægri á forsíðu heimasíðu Vinnumálastofnunar sé einnig hnappur sem beri heitið staðfesting á atvinnuleit. Virki hann í senn sem tengill á síðu til að staðfesta atvinnuleit á Netinu og sem áminning til þeirra sem þiggi atvinnuleysisbætur um að staðfesta beri atvinnuleit mánaðarlega hjá stofnuninni. Í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi verið nægilega upplýstur um skyldur sínar gagnvart Vinnumálastofnun, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þar sem hann hafi staðfest atvinnuleit sína á tímabilinu en telji að af einhverjum ástæðum hafi rafræn staðfesting ekki borist Vinnumálastofnun.

Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram að regluleg staðfesting á atvinnuleit sé nauðsynleg til að tryggja greiðslur atvinnuleysistrygginga. Þau samskipti milli umsækjenda um atvinnuleysisbætur og Vinnumálastofnunar sem felist í því að staðfesta mánaðarlega atvinnuleit séu því mikilvægur þáttur í því að vera skráður atvinnulaus hjá stofnuninni. Vinnumálastofnun haldi úti heimasíðu stofnunarinnar þar sem atvinnuleitendum sé gert kleift að staðfesta atvinnuleit mánaðarlega. Staðfestingin fari fram með þeim hætti að atvinnuleitandinn skrái inn kennitölu sína og lykilorð. Þegar atvinnuleitandi hafi staðfest atvinnuleit sína á heimasíðu stofnunarinnar sé tölvupóstur sendur á netfang hans. Tölvupóstur sé sendur á netfang viðkomandi til að koma í veg fyrir að greiðslur til atvinnuleitenda skerðist, kunni svo að fara að tölvukerfi stofnunarinnar hafi ekki móttekið rafræna skráningu. Takist ekki að skrá inn rafræna staðfestingu, til dæmis ef lykilorð eða kennitala séu ranglega skráð, komi upp villa í síðu Vinnumálastofnunar sem ætti ekki að geta farið fram hjá þeim er staðfesti atvinnuleit sína rafrænt á heimasíðu stofnunarinnar. Kærandi sé með skráð tölvupóstfang hjá stofnuninni. Fram kemur að ef stofnuninni berist afrit af tölvupósti þar sem fram komi að kærandi hafi staðfest atvinnuleit á því tímabili sem um ræðir muni stofnunin taka mál hans upp að nýju.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. október 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 18. október 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi taldi sig hafa staðfest atvinnuleit sína rafrænt í febrúar og mars 2010 en staðfestingin hafi af einhverjum ástæðum ekki borist stofnuninni. Engin merki fundust í tölvukerfi Vinnumálastofnunar um að kærandi hefði reynt að staðfesta atvinnuleit sína rafrænt. Kærandi hefur ekki lagt fram afrit af tölvupósti þar sem fram komi að hann hafi staðfest atvinnuleit á því tímabili sem um ræðir. Í 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. gr. laga nr. 134/2009, segir:

Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal eftir að umsókn hans skv. 1. mgr. hefur verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveður.

Í athugasemdum sem fylgdi frumvarpi til breytingalaga nr. 134/2009 á lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að eftir að umsókn hins tryggða um atvinnuleysisbætur hefur verið samþykkt beri honum skylda til að hafa samband við stofnunina með reglulegum hætti samkvæmt því fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði. Talið var að þetta fyrirkomulag væri þýðingarmikið í því skyni að efla eftirlit með því að atvinnuleitendur væru að sinna skyldum sínum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til framanritaðs sem og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir ákvörðun sinni verður hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A um synjun atvinnuleysisbóta frá 1. febrúar til 1. apríl 2010 er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum