Hoppa yfir valmynd
26. október 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 20/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 26. október 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 20/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 16. janúar 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi á fundi sínum þann 6. janúar 2010 ákveðið að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda. Kærandi vildi ekki una þessu og lagði fram kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 19. janúar 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 3. nóvember 2008 og fékk á grundvelli hennar greiddar atvinnuleysisbætur. Með bréfi, dags. 26. nóvember 2009, var hún boðuð á námskeiðið sjálfstyrking og þroski sem var haldið dagana 7.–11. desember 2009. Námskeiðið var hluti af vinnumarkaðsaðgerðum Vinnumálastofnunar og í boðunarbréfi var kæranda bent á að það gæti valdið missi bóta ef boðunum í úrræði væri ekki sinnt. Hinn 7. desember 2009 tilkynnti kærandi forföll á námskeiðið þar sem hún væri í fjarnámi við Fjölbrautaskólann við Ármúla og væri að fara í próf dagana 7. og 11. desember 2009.

Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 17. desember 2009, kemur fram að fjallað hafi verið um höfnun kæranda á þátttöku á námskeiðinu sjálfstyrking og þroski á fundi stofnunarinnar þann 17. desember 2009. Ákveðið var að óska eftir skriflegri afstöðu kæranda til málsins og skýringum á fjarveru á námskeiðinu. Kærandi sendi skýringarbréf þann 29. desember 2009 þar sem fram kom að ástæða forfalla á námskeiðinu hafi verið 8 eininga fjarnám sem hún stundaði við Fjölbrautaskólann í Ármúla. Í kjölfarið var tekin ákvörðun, þann 6. janúar 2010, þess efnis að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur með vísan til c-liðar 3. gr. og 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi væri í námi. Þessi ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 16. janúar 2010, og í bréfinu var bent á þann möguleika að kærandi fengi námssamning við ráðgjafa Vinnumálastofnunar.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 24. júní 2010, er vísað í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og bent á að í athugasemdum við 52. gr. með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar sé ítrekuð sú meginregla að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi nema annað leiði af samningi um starfsleitaráætlun, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitanda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki. Ekki skipti máli hvort um sé að ræða dagskóla, kvöldskóla eða fjarnám. Auk þess sé það eitt af almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit. Þegar litið sé til umfangs fjarnáms kæranda verði að telja að hún geti ekki talist í virkri atvinnuleit enda um að ræða nám sem samsvari hálfu námi á háskólastigi.

Fram kemur að í 5. gr. reglugerðar nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, sé Vinnumálastofnun heimilt að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitanda sem sé tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Kærandi hafi ekki sótt um að gera slíkan námssamning fyrr en 7. janúar 2010 er haustönninni við Fjölbrautaskólann í Ármúla var lokið en samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu skólans hafi henni lokið 20. desember 2009. Það sé ljóst að 5. gr. áðurnefndrar reglugerðar sé undantekning á meginreglu 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem beri að túlka þröngt og þar af leiðandi sé ótækt að beita heimild til gerðar námssamnings við kæranda afturvirkt. Hafi kæranda réttilega verið bent á að hygðist hún halda áfram námi á vorönn ætti hún þess kost að sækja um námssamning fyrir þá önn en ekki væri hægt að gera við hana námssamning fyrir haustönn 2009 þegar önninni væri lokið.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. júní 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 13. júlí 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Í þessu máli er verið að endurskoða ákvörðun Vinnumálastofnunar sem tekin var á fundi 6. janúar 2010 og tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 16. janúar 2010. Hin kærða ákvörðun var tekin á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem lágu fyrir um hvað gerðist í máli kæranda í desember 2009. Af þessu leiðir meðal annars að ákvörðunin var reist á lögum um atvinnuleysistryggingar áður en þeim var breytt með lögum nr. 134/2009.

Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 17. desember 2010, var málið sett í tiltekið farveg, þ.e. kæranda var gert ljóst að hún hafi ekki tekið þátt í námskeiði sem hafi verið hluti af skyldum hennar sem atvinnuleitanda. Af þessum ástæðum ætti hún von á að sæta 40 daga biðtíma í samræmi við þágildandi 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi færði fram skýringar á fjarveru sinni í árslok 2009 og vísaði til þess að hún stundaði fjarnám við Fjölbrautaskólann í Ármúla og hafi verið að taka próf við skólann sama dag og boðið var upp á fyrrnefnt námskeið. Engar aðrar upplýsingar lágu fyrir á fundi Vinnumálastofnunar 6. janúar 2010 þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Líta verður svo á að ákvörðunin hafi falið í sér að greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda hafi verið stöðvaðar ótímabundið. Aðfinnsluvert er að stjórnvaldsákvörðunin hafi verið orðuð þannig að umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur hafi verið hafnað. Slíkt stenst ekki enda hafði kærandi þegið atvinnuleysisbætur á grundvelli umsóknar sinna frá 3. nóvember 2008.

Í desember 2009 var meðal annars í gildi sú regla, sbr. þágildandi 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, að Vinnumálastofnun skyldi meta sérstaklega hvort sá er stundar nám í framhaldsskóla eða háskóla uppfylli skilyrði laganna þrátt fyrir námið enda um svo lágt námshlutfall að ræða að námið teldist ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Umsækjanda bar að leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Þessi regla hafði gilt frá setningu laga um atvinnuleysistrygginga, nr. 54/2006, og hafði tekið breytingum með 21. gr. laga nr. 37/2009. Frekari breytingar hafa verið gerðar á ákvæðinu en þær skipta ekki máli þar sem þær tóku gildi eftir að Vinnumálastofnun hóf að rannsaka mál kæranda.

Telja verður að námshlutfall kæranda á haustönn 2009 hafi verið tiltölulega lágt. Jafnframt var um fjarnám að ræða. Upplýsingar um námið eru að öðru leyti takmarkaðar. Þrátt fyrir það má slá föstu að Vinnumálastofnun hafi borið skylda til að meta hvort kærandi uppfyllti skilyrði laganna þrátt fyrir námið, sbr. þágildandi 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Slík rannsókn fór ekki fram áður en hin kærða ákvörðun var tekin og kæranda var ekki gefin kostur á að andmæla fyrirhugaðri ákvörðun á þeim forsendum að hún uppfyllti ekki skilyrði laganna vegna náms. Við töku hinnar kærðu ákvörðunar var því brotið á rannsóknarreglunni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og andmælareglunni, sbr. 13. gr. sömu laga.

Þegar meta á hvaða áhrif þessir annmarkar á töku hinnar kærðu ákvörðunar skulu hafa verður til þess að líta að kærandi fékk ekki greiddar atvinnuleysisbætur frá 19. nóvember 2009 til 17. janúar 2010. Samkvæmt gögnum málsins fékk hún hins vegar greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 18. janúar 2010 til 31. mars 2010. Ágreiningurinn sem eftir stendur, er hvort kærandi, á grundvelli umsóknar sinnar frá 3. nóvember 2008, eigi rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur frá 19. nóvember 2009 til 17. janúar 2010. Úr slíkum ágreiningi þarf að leysa á grundvelli þar til bærra gagna og upplýsinga. Þeirra hafði ekki verið aflað áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Úr þessu er ekki unnt bæta fyrst hér fyrir úrskurðarnefndinni.

Með hliðsjón af framanrituðu verður að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi þar sem við töku hennar var brotið á 10. gr. og 13. gr. stjórnsýslulaga. Þetta þýðir að hin kærða ákvörðun er felld úr gildi án þess að ný ákvörðun sé tekin í máli kæranda.

 

Úrskurðarorð

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A er felld úr gildi.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum