Hoppa yfir valmynd
7. október 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 59/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 7. október 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 59/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 29. mars 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi á fundi sínum þann 24. mars 2010 ákveðið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar, með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem komið hafi í ljós við samkeyrslu Vinnumálastofnunar við nemendaskrá að hún væri skráð í nám jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysistryggingar án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Það var enn fremur mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 1. janúar til 19. febrúar 2010 að fjárhæð 212.772 kr. sem henni beri að endurgreiða skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun að þurfa að endurgreiða fengnar atvinnuleysisbætur og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 13. apríl 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í erindi kæranda kemur fram að hún krefjist þess ekki að fá frekari atvinnuleysisbætur, enda hafi hún fengið námslán vegna náms síns, heldur krefjist hún þess eingöngu að felld verði niður krafa um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta. Kærandi vísar til þess að vinkona hennar hafi fengið atvinnuleysisbætur í fullu námi þar sem hún hafi verið einstæð þriggja barna móðir. Þegar kærandi hafi ætlað að njóta sömu kjara hafi það ekki verið hægt þótt aðstæður væru nákvæmlega eins hjá þeim tveimur.

Kærandi sótti um atvinnuleysistryggingar þann 25. september 2008. Hún lagði stund á nám í flugumferðarstjórn við Keili-háskólabrú á vorönn 2010 og var þar í 32 eininga námi. Þegar Vinnumálastofnun varð ljóst að kærandi var í námi jafnframt því að þiggja atvinnuleysisbætur var henni með bréfi stofnunarinnar, dags. 19. febrúar 2010, gert að færa fram skýringar á náminu, en engar skýringar bárust frá henni.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 20. september 2010, kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna sé 32 ECTS eininga nám í flugumferðarstjórnun við Keili-háskólabrú lánshæft hjá sjóðnum. Háskólanám kæranda hafi numið 32 ECTS einingum og teljist vera það umfangsmikið að ekki hafi verið fyrir hendi skilyrði til gera námssamning. Kærandi hafi því ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar er hún stundaði námið, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, og hafi hún fengið greiddar atvinnuleysistryggingar á tímabili er hún hafi ekki átt rétt til þeirra. Kærandi hafi ekki skilað inn neinum skýringum á námi sínu þegar Vinnumálastofnun hafi óskað eftir þeim og hafi því ekki legið fyrir nákvæmar upplýsingar um hvenær nám hennar hafi hafist. Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna hafi kærandi fengið greidd námslán fyrir vorönn 2010. Þar sem grunnframfærsla námslána hjá lánasjóðnum miði við níu mánuði á ári telji Vinnumálastofnun rétt að miða við upphaf árs enda ljóst að kærandi eigi rétt á greiðslu frá sjóðnum fyrir þann tíma. Kæranda hafi verið greiddar atvinnuleysistryggingar á tímabilinu frá 1. janúar til 19. febrúar 2010 að fjárhæð 212.772 kr. Beri kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysistryggingar, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, ásamt 15% álagi enda hafi ekki verið færð rök fyrir því að framangreind atvik hafi komið til vegna mistaka hjá stofnuninni.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. september 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 5. október 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Í þessu máli er eingöngu ágreiningur um hvort krafa Vinnumálastofnunar, um að kærandi greiði stofnuninni 212.772 kr. að viðbættu 15% álagi, samrýmist lögum. Við úrlausn þessa ágreiningsefni verður að líta til svohljóðandi 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar:

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Ljóst er að kærandi átti ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta á tímabilinu 1. janúar til 19. febrúar 2010. Tilvísun kæranda, um hvernig önnur sambærileg mál hafa verið meðhöndluð, er hvorki studd gögnum né fullnægjandi rökum. Til þess er einnig að líta að atvinnuleitandi hefur tilteknum trúnaðarskyldum að gegna gagnvart Vinnumálastofnun á meðan hann nýtur greiðslna atvinnuleysisbóta, sbr. til dæmis 3. mgr. 9. gr., 5. mgr. 9. gr., 10. gr., og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Af þessum ákvæðum leiðir meðal annars að atvinnuleitanda ber að upplýsa Vinnumálastofnun ef breytingar verða á högum hans, meðal annars ef hann hyggst hefja nám eða hefur hafið slíkt nám. Þetta hafði kærandi ekki gert þegar eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar hóf að skoða mál hennar.

Í ljósi framangreinds sem og röksemda þeirra sem Vinnumálastofnun hefur fært fram í málinu verður hin kærða ákvörðun staðfest. Því er fallist á kröfu Vinnumálastofnunar um að kærandi endurgreiði stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. janúar 2010 til 19. febrúar að fjárhæð 212.772 kr. að viðbættu 15% álagi.

 

Úrskurðarorð

Kæranda, A ber að endurgreiða Vinnumálastofnun 212.772 kr. að viðbættu 15% álagi.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum