Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 28/2010

 

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 26. ágúst 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 28/2010.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 18. janúar 2010, óskaði kærandi, A, eftir að fá gerðan námssamning hjá Vinnumálastofnun. Þar sem nám kæranda náði þeim lágmarksfjölda námseininga sem Lánasjóður íslenskra námsmanna veitir lán vegna, taldi Vinnumálastofnun kæranda ekki uppfylla skilyrði 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og var henni kynnt sú ákvörðun með bréfi stofnunarinnar, dags. 16. febrúar 2010. Kærandi fer þess á leit að úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða taki mál hennar til umfjöllunar og endurmats. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Af hálfu kæranda kemur fram að hún sé í M.Ed. námi við menntavísindasvið Háskóla Íslands og útskrifist þaðan í júní 2010. Hún eigi aðeins lokaverkefnið eftir sem nemi 20 einingum. Hún hafi skilið við eiginmann sinn á árinu og við það hafi aðstæður hennar gjörbreyst, þ. á m. fjárhagslegar. Kærandi kveðst vera atvinnulaus og kveður hún 20 eininga nám ekki duga til að fá námslán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 18. júní 2010, er vísað til þess að í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., teljist ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stundi nám. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar árið 2006 sé í umfjöllun um 52. gr. frumvarpsins haldið fram að það sé meginregla að námsfólk eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum hvort sem um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám.

Í greinargerðinni segir að í kæru sinni til úrskurðarnefndar segi kærandi að hún sé í 20 ECTS eininga námi og að það nám sé of lítið til að teljast lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Til þess að skilyrði undantekningarreglu 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi við í máli atvinnuleitanda þurfi námshlutfall hans að vera það lágt að námið teljist ekki lánshæft hjá lánasjóðnum. Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna séu veitt námslán vegna 20 eininga náms á háskólastigi og séu 20 ECTS einingar lágmarksfjöldi námseininga sem lánasjóðurinn veiti lán fyrir, sbr. úthlutunarreglur sjóðsins 2009–2010. Kærandi hafi ekki sótt um námslán hjá lánasjóðnum fyrir árið 2010. Þar sem kærandi sé skráð í 20 ECTS eininga meistaranám á háskólastigi sem samkvæmt Lánasjóði íslenskra námsmanna er lánshæft nám, telji Vinnumálastofnun að hvorki 2. mgr. né 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi við í máli hennar. Verði því ekki tekin afstaða til þess hvort skilyrði greinarinnar um sérstakar ástæður sé uppfyllt eða hvort aðstæður kæranda gefi nægilegt tilefni til að veita undanþágu á grundvelli 3. mgr. 52. gr. laganna. Þess í stað verði að álykta að meginregla sú er fram komi í 1. mgr. 52. gr. eigi við um tilvik kæranda. Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist kærandi ekki tryggð samkvæmt lögunum á sama tíma og hún sé skráð í nám og hafi rétt til framfærslu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. júní 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 7. júlí 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Kærandi telst vera námsmaður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. c-lið 3. gr. laganna. Um rétt námsmanna til atvinnuleysisbóta er fjallað í 52. gr. laganna. Í 1. mgr. 52. gr. kemur fram sú meginregla að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum nema námið teljist hluti af vinnumarkaðsaðgerðum. Fjallað er um undanþágur frá meginreglunni í 2. og 3. mgr. 52. gr., en forsenda fyrir beitingu þeirra er í báðum tilvikum að um svo lágt námshlutfall sé að ræða að námið teljist ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Við rannsókn málsins fékk Vinnumálastofnun þær upplýsingar frá Lánasjóði íslenskra námsmanna að nám kæranda sé lánshæft. Umræddar undanþáguheimildir eiga því ekki við í hennar tilviki.

Í 1. mgr. 52. gr. laganna segir að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum, enda sé námið ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerðum. Kærandi óskaði sérstaklega eftir því að við hana yrði gerður námssamningur. Fjallað er um heimild til að gera námssamning í lögum um vinnumarkaðsaðgerðir nr. 55/2006, en skv. 12. gr. laganna eru námsúrræði einn flokkur vinnumarkaðsaðgerða. Í sömu grein segir að félagsmálaráðherra kveði í reglugerð nánar á um skipulag vinnumarkaðsaðgerða. Fjallað er um nám og námskeið sem eru viðurkennd sem vinnumarkaðsúrræði í reglugerð nr. 13/2009. Samkvæmt reglugerðinni telst nám sem er lánshæft samkvæmt reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna ekki til námsúrræða.

Af framansögðu er ljóst að þar sem nám kæranda er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna á hún ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta. Því ber að staðfesta niðurstöðu Vinnumálastofnunar.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 16. febrúar 2010 í máli A er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum