Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 17/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 26. ágúst 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 17/2010.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 20. desember 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur þann 10. september 2009 hefði verið hafnað þar sem vinna hennar á ávinnslutímabili bótaréttar samkvæmt framlögðum gögnum næði ekki því lágmarki sem kveðið sé á um í 19. gr., sbr. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Mál kæranda var tekið fyrir að nýju á fundi úthlutunarnefndar atvinnuleysistrygginga þann 16. desember 2009 þar sem fyrri ákvörðun Vinnumálastofnunar var staðfest. Kæra til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er dagsett 21. janúar 2010. Kærandi krefst þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur en Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun standi.

Kærandi kveðst hafa rekið fyrirtæki í 12 ár og hafi hún alltaf staðið skil á tryggingagjaldi eins og lög geri ráð fyrir. Þar sem hún hafi verið eini starfsmaður fyrirtækisins hafi endurskoðandinn hennar gert upp einu sinni á ári og reyndar yfirleitt of seint en hún hafi ekki vitað betur en það væri í lagi. Þegar komi að því núna að hún þurfi þá fyrirgreiðslu sem tryggingagjaldið standi fyrir þá sé það ekki hægt og það finnist henni mjög ósanngjarnt. Kærandi kveðst hafa lagt til þjóðfélagsins ekki síður en aðrir þegnar þessa lands í gegnum árin. Hún biður um að kæra hennar fái jákvæða umfjöllun.

Í gögnum þessa máls kemur fram að X ehf., sem kærandi stofnaði samkvæmt hlutafélagaskrá, og Y ehf. eru á sömu kennitölu. Á skattframtali rekstraraðila, þ.e. Y ehf., fyrir árið 2008 kemur fram að greidd hafi verið laun að fjárhæð samtals 1.296.000 kr. en ekki kemur þar fram hverjum launin voru greidd og ekki var stofnuð launagreiðendaskrá. Samkvæmt upplýsingum sem fyrir liggja frá skattasviði Ríkisskattstjóra hefur fyrirtæki á þessari kennitölu ekki greitt staðgreiðslu árin 2008, 2009 og 2010.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 7. júní 2010, kemur fram að kærandi hafi ekki skilað vottorði frá fyrri vinnuveitanda eins og henni beri að gera skv. 1. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vísað er til þess að skv. 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, skuli endurgjald fyrir vinnu manns, sem reiknar sér endurgjald skv. 2. mgr. 1. tölul. a-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt, eigi vera lægra en launatekjur hans hefðu orðið ef unnið hefði verið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila. Gildi ákvæðið um vinnu við atvinnurekstur eða starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum og einnig um vinnu manns við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Við frekari athugun á því hvort laun kæranda séu í samræmi við uppgefið starfshlutfall á ávinnslutímabilinu telji Vinnumálastofnun, í ljósi 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt, því skylt að líta til viðmiðunarfjárhæðar sem fjármálaráðherra gefi út fyrir hverja starfsgrein við upphaf hvers tekjuárs á grundvelli laga um tekjuskatt.

Í greinargerðinni kemur fram að skv. a-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé eitt af skilyrðum þess að teljast tryggður samkvæmt lögunum að staðið hafi verið skil á tryggingagjaldi vegna vinnu viðkomandi. Vinnumálastofnun hafi leitað eftir gögnum úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra en af útprentun úr skránni, sem fylgi með gögnum málsins, megi ráða að kærandi hafi ekki þegið laun frá fyrirtækinu X ehf. eða öðrum launagreiðendum a.m.k. frá árinu 2005. Meðal kærugagna sé afrit af skattframtali vegna Y ehf. Sjá megi af framtalinu að fyrirtækið hafi greitt laun á árinu 2008. Upplýsingar frá skattyfirvöldum bendi ekki til þess að greidd hafi verið laun eða tryggingagjald vegna starfa kæranda hjá fyrirtækinu X ehf. Vinnumálastofnun hafi ekki fengið staðfestingu frá skattyfirvöldum þess efnis að greiðslur vegna kærandi hafi átt sér stað á tímabilinu. Stofnunin telji sér ekki heimilt að líta til starfstíma á ávinnslutímabili kæranda fyrr en stofnuninni berast staðfest gögn er sýni fram á að hún hafi þegið laun hjá framangreindum eða öðrum launagreiðanda og að lögbundið tryggingagjald vegna starfsins hafi verið greitt samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Samkvæmt a-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé það gert að skilyrði að greitt hafi verið tryggingagjald af launamanni svo hann teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Kærandi nái því ekki lágmarksbótarétti og beri því að hafna umsókn hennar um greiðslu atvinnuleysistrygginga.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. júní 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. júní 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar gilda lögin um hvern þann sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald. Í 1. mgr. 15. gr. laganna kemur fram að launamaður, sbr. a-lið 3. gr., teljist að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra voru lögbundin gjöld ekki greidd vegna kæranda á ávinnslutímabili sem hér um ræðir. Kærandi nær ekki lágmarksbótarétti og telst hún því ekki tryggð skv. 1. mgr. 15. gr., sbr. a-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Ú R S K U R Ð A Ð O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 16. desember 2009 um synjun á bótarétti A er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum