Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 13/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 26. ágúst 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 13/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur þann 23. nóvember 2009. Hann var reiknaður með 100% bótarétt og fékk greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við rétt sinn. Kærandi tók út séreignasparnað á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VIII með lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, ásamt síðari breytingum. Af kæru kæranda verður ráðið að hann geri kröfu um að úttekt á séreignarsparnaði verði metin til hækkunar við útreikning á tekjutengdum atvinnuleysisbótum, sbr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Vinnumálastofnun telur ekki rétt að útborgun á séreignasparnaði til kæranda komi til hækkunar við útreikning á tekjutengdum atvinnuleysisbótum.

Í erindi kæranda kemur fram að í staðinn fyrir að skrá sig atvinnulausan hafi hann tekið út séreignasparnað að því marki sem samþykkt hafi verið með lögum til að vega upp á móti skertum tekjum vegna samdráttar í atvinnustarfsemi. Séreignasparnaðurinn sé flokkaður sem laun við útgreiðslu á honum.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 7. júní 2010, er vísað í 1. og 2. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Bent er á að skv. 2. mgr. 32. gr. laganna skuli tekjutengdar atvinnuleysisbætur nema 70% af heildarlaunum umsækjanda. Séu laun skilgreind sem hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald og sé ennfremur tekið fram að einungis skuli miða við þá mánuði sem umsækjandi hafi starfað á innlendum vinnumarkaði. Það sé því ljóst að með launum í ákvæðinu sé átt við starfstengd laun eða þóknanir fyrir störf sem unnin hafi verið á innlendum vinnumarkaði og greitt hafi verið tryggingagjald af, sbr. lög um tryggingagjald nr. 113/1990.

Kærandi hafi tekið út séreignarsparnað á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VIII með lögum um skyldutrygginga lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, ásamt síðari breytingum. Samkvæmt 1. tölul. 9. gr. laga um tryggingagjald, nr. 113/1990, sé lífeyrir undanþeginn tryggingagjaldi. Vinnumálastofnun telji sér ekki heimilt að nýta úttekt á séreignarsparnaði til hækkunar við útreikning á atvinnuleysistryggingu kæranda.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. júní 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. júní 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Undirstaða atvinnutryggingakerfisins er að það er fjármagnað af tryggingagjaldi sem greitt er vegna launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga. Til að launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar geti átt rétt til atvinnuleysisbóta verður tryggingagjald að hafa verið greitt af launum þeirra eða reiknuðu endurgjaldi.

Í 2. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um að tekjutengdar atvinnuleysisbætur geti numið allt að 70% af heildarlaunum umsækjanda. Þar er einnig skilgreint hvað teljist til launa í skilningi ákvæðisins en þar segir að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Í 1. gr. laga um tryggingagjald segir að launagreiðendur skulu inna af hendi sérstakt gjald, tryggingagjald, af greiddum vinnulaunum, þóknunum, reiknuðu endurgjaldi og öðrum tegundum greiðslna og launa. Í 3. gr. laganna er tekið fram að tryggingagjald sem greitt er af launþegum skuli renna til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Allir launagreiðendur eru gjaldskyldir. Samkvæmt lögunum eru tilteknar greiðslur til launþega þó undanskildar gjaldskyldu samkvæmt lögunum, sbr. 9. gr. laganna, og eru þar tilteknar sérstaklega hverjar þær greiðslur eru. Í 1. tölul. ákvæðisins er tekið fram að greiðslur lífeyris frá lífeyrissjóðum sem fjármálaráðherra samþykkir séu undanskildar tryggingagjaldsskyldu.

Ekki verður framhjá því komist að horfa til þeirrar staðreyndar að greiðslur kæranda úr séreignasparnaði hans teljist til lífeyrisgreiðslna sem undanþegnar eru tryggingagjaldsskyldu með vísan til þess sem að framan greinir. Það væri því beinlínis óheimilt að verða við kröfum kæranda í máli þessu. Það var frjálst val kæranda að nýta sér lífeyrisgreiðslur hans með því að fá greiddan hluta séreignasparnaðar eins og heimilt er. Eðli lífeyrissparnaðar er sá að greiðandi leggur fyrir hluta launa sinna til að nota síðar á starfsævi sinni eða í flestum tilvikum eftir að hefðbundinni starfsævi lýkur. Heimilað var með breytingu á lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingar lífeyrisréttinda að greiða ákveðinn hluta viðbótarlífeyris­greiðslna út til sjóðfélaga á ákveðnu tímabili. Kærandi ákvað að nýta sér þessa tímabundnu heimild. Þessi ákvörðun og greiðslur til kæranda er með öllu óviðkomandi útreikningi atvinnuleysisbóta. Á þeirri forsendu og alls framangreinds verður ekki hjá því komist að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð

Synjun Vinnumálastofnunar um að nýta úttekt á séreignarsparnaði til hækkunar við útreikning á tekjutengdum atvinnuleysisbótum A er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum