Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 3/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 26. ágúst 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 3/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 9. nóvember 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 5. nóvember 2009 tekið þá ákvörðun að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans. Ástæðan var sú að kærandi var skráður í nám jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysistryggingar án þess að fyrir lægi námssamningur við Vinnumálastofnun. Jafnframt taldi Vinnumálastofnun að kærandi hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá 1. september til 19. október 2009 að fjárhæð 229.425 kr. sem honum bæri að endurgreiða skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Vinnumálastofnun sendi kæranda annað bréf, dags. 9. desember 2009, þar sem kæranda var tilkynnt að stofnunin hefði á fundi sínum þann 30. nóvember 2009 stöðvað greiðslur til kæranda þar sem hann hafði staðfest atvinnuleit erlendis frá og virtist því ekki vera í virkri atvinnuleit. Kærandi vildi ekki una þessum ákvörðunum og kærði þær til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, með bréfi, dags. 30. desember 2009. Vinnumálastofnun krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði staðfestar.

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá 2. mars 2009 til 19. október 2009. Hinn 22. september fékk Vinnumálastofnun lista yfir nemendur í Háskólanum í Reykjavík og samkvæmt listanum var kærandi skráður í 30 ECTS eininga nám á haustönn 2009. Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 30. september 2009, var honum tilkynnt að mál hans væri til skoðunar. Honum var gefinn sjö daga frestur til að skýra frá sinni afstöðu til málsins en tekið var fram í bréfinu að öðrum kosti yrði ákvörðun tekin á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga. Engin svör bárust frá kæranda við erindi Vinnumálastofnunar.

Með bréfi, dags. 29. október 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar þess efnis að hann hafi verið erlendis í október 2009 en rafræn staðfesting kæranda á atvinnuleit sinni barst frá B-landi 20. október 2009. Á grundvelli þessa óskaði Vinnumálastofnun eftir því við kæranda að hann útskýrði dvöl sína erlendis og var honum veittur sjö daga frestur til þess.

Með bréfi, dags. 9. nóvember 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda þá ákvörðun sína frá 5. nóvember sama árs að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta þar sem hann hafði verið skráður í nám við Háskólann í Reykjavík frá og með haustönn 2009. Það var einnig mat stofnunarinnar að honum bæri að endurgreiða ofgreiddar bætur fyrir tímabilið 1. september 2009 til 19. október 2009 sem næmu 229.425 kr., sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í samskiptasögu Vinnumálastofnunar við kæranda kemur fram að kærandi lét í té upplýsingar 20. nóvember og 23. nóvember 2009 um dvöl sína í B-landi. Ráða má af þeirri samskiptasögu að kærandi hafi farið til B-lands í október og unnið þar tímabundið. Hann hafi svo fengið starf þar frá og með 1. nóvember 2009. Með kæru fylgdu nánari upplýsingar um dvöl kæranda í B-landi en þangað fór hann 14. október 2009 en kom aftur til Íslands 11. nóvember sama ár. Jafnframt verður dregin sú ályktun af gögnum sem kærandi hefur lagt fram að hann hafi farið 4. janúar 2010 til B-lands og starfi þar sem rafvirki.

Kærandi sótti endurmenntunarnámskeið sem Rafiðnaðarskólinn hélt dagana 24. og 25. september 2009 og fram kemur í vottorði frá Háskólanum í Reykjavík, dags. 8. júní 2010, að kærandi hafi verið innritaður í 30 ECST nám við skólann í haustönn 2009 en hann hafi hvorki stundað það né greitt skólagjöld. Kærandi kveðst hafa verið í námi veturinn 2008–2009 í Háskólanum í Reykjavík á vegum verkfræðistofunnar Mannvits. Verkfræðistofan hafi greitt fyrir námið og hefði væntanlega gert það áfram hefði honum ekki verið sagt upp störfum hjá fyrirtækinu. Kærandi kveðst ekki hafa órað fyrir því að sótt hefði verið um áframhaldandi nám fyrir hann á haustönn 2009 og það í mars 2009.

Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 9. desember 2009, var honum tilkynnt að stofnunin hefði með ákvörðun sinni frá 30. nóvember 2009 ákveðið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans frá og með 19. október 2009. Ákvörðunin var reist á því að kærandi uppfyllti ekki lengur skilyrði um virka atvinnuleit enda hafi hann verið staddur erlendis í október 2009.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 20. maí 2010, kemur fram að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hjá Vinnumálastofnun hafi kærandi stundað nám á haustönn 2009 í Háskólanum í Reykjavík og því hafi hann ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Enn fremur kemur fram í greinargerðinni að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið frá 1. september til 19. október 2009 að fjárhæð 229.425 kr.

Þá segir í greinargerð Vinnumálastofnunar að eitt af meginskilyrðum 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að einstaklingur sem þiggur atvinnuleysisbætur sé í virkri atvinnuleit. Ákvæði laganna er lúti að virkri atvinnuleit hafi verið túlkuð svo að þeim sem þiggi atvinnuleysisbætur sé ekki heimilt að dveljast erlendis enda komi það í veg fyrir að þeir fullnægi skilyrðum laganna. Það sé óumdeilt að kærandi hafi verið erlendis í októbermánuði 2009. Hann hafi verið afskráður frá 19. október 2009 hjá Vinnumálastofnun eða frá þeim tíma er staðfesting á atvinnuleit barst erlendis frá. Samkvæmt þeim gögnum er kærandi færi nú fyrir úrskurðarnefnd, hafi hann farið til B-lands þann 14. október 2009. Í ljósi fyrri ákvörðunar Vinnumálastofnunar, sbr. bréf dags. 9. nóvember 2009, sem taki til tímabils sem nái lengra aftur en til október 2009, telji stofnunin ekki nauðsynlegt að fjalla sérstaklega um síðari ákvörðun í máli kæranda.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. maí 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 4. júní 2010. Kærandi sendi úrskurðarnefndinni tölvubréf þann 4. júní 2010 ásamt vottorði frá Háskólanum í Reykjavík.

 

2.

Niðurstaða

Þetta mál lýtur að efni tveggja ákvarðana Vinnumálastofnunar sem kynntar voru kæranda með bréfi annars vegar 9. nóvember 2009 og hins vegar 9. desember 2009. Fyrri ákvörðunin var tekin á fundi Vinnumálastofnunar 5. nóvember 2009 og var reist á því að kærandi hafi verið námi við Háskólann í Reykjavík frá og með 1. september 2009. Síðari ákvörðunin var tekin á fundi Vinnumálastofnunar 30. nóvember 2009 og var reist á því að hann hafi farið af landi brott í október 2009. Verður nú fyrst vikið að fyrri ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Kærandi veitti Vinnumálastofnun engar upplýsingar um hagi sína áður en stofnunin tilkynnti ákvörðun sína frá 5. nóvember 2009 með bréfi dagsettu 9. nóvember 2009. Í ljósi þeirra upplýsinga sem kærandi hefur veitt úrskurðarnefndinni liggur fyrir að hann var skráður í nám við Háskólann í Reykjavík fyrir mistök. Hann hafði því aldrei hug á að sækja námið og greiddi þar af leiðandi aldrei skólagjöld. Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 5. nóvember 2009 verður því felld úr gildi þar sem hún var reist á því að kærandi væri að sækja nám án þess að gera fyrst námssamning við Vinnumálastofnun. Jafnframt verður að hafna endurgreiðslukröfu Vinnumálastofnunar en hún studdist við þá forsendu að kærandi hafi verið að sækja nám á tímabilinu 1. september til 19. október í bága við skyldur hans sem atvinnuleitanda.

Kærandi fór af landi brott 14. október 2009 og kom aftur 11. nóvember 2009. Þetta gerði hann án þess að láta Vinnumálastofnun vita fyrir fram. Með þessu braut kærandi á skyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun, sbr. 3. mgr. 9. gr., 10. gr., d-lið 1. mgr. 14. gr. og h-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sjá einnig til dæmis úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 18. febrúar 2010 í máli nr. 98/2009. Ákvörðun Vinnumálastofnunar sem tekin var 30. nóvember 2009 en tilkynnt var kæranda með bréfi 9. desember 2009 er því staðfest.

Með úrskurði þessum er ekki tekin afstaða til þess hvort kærandi eigi að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 14. október 2009 til 19. október 2009.

 

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 5. nóvember 2009 í máli A um stöðvun greiðslu atvinnuleysisbóta til hans og um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta að fjárhæð 229.425 kr., er felld úr gildi.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 30. nóvember 2009 í máli A um stöðvun atvinnuleysisbóta frá og með 19. október 2009 er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum